11 júlí, 2008

Frekari trjáfórnir og eldstreyktar kartöflur

"Ég veit nú ekki hvort er óhætt að hleypa þér í þetta" hljóðuðu viðbrögðin þegar ég nefndi það að það gæti verið gaman að lagfæra innganginn í Sigrúnarlund, þannig að það fagra svæði gæti nýst sem viðbót við garðinn. "Og hvað ætlarðu svosem að gera þar?" Ég sagði að væri sniðugt að setja bekk þar inn, sem síðan gæti verið skemmtilegt að setjast á í kvöldhúminu (allavega eitthvað í þá veru). Þar sem ekki komu fram frekari eða ákafari mótmæli við fyrirhuguðum aðgerðum, greip ég nýju, fínu greinaklippurnar (sem ég keypti reyndar í einhverju stuði í fyrra, en hef ekki fundið mér tíma til að nota fyrr en af þessu tilefni), og stefndi á innganginn að Sigrúnarlundi.


Til útskýringar er rétt að geta þess hver uppruni þessa lundar er og hvernig hann er skipulagður. Þannig var að gamli maðurinn var heilmikill frumkvöðull í skógrækt hér í Laugarási og það var í því samhengi sem hann sendi okkur systkinin hér út í "holt", eins og Kvistholts- og Kirkjuholtslóðirnar voru kallaðar í þá daga. Með í för var heill hellingur af furuplöntum og birki, sem plantað skyldi í kraga neðarlega í "holtinu". Þetta hefur líklega verið fyrir ríflega 40 árum. Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um áhugasemi trjáplöntunarfólksins, en þá var auðvitað ekki um neitt annað að ræða en hlýða. Nú, á hluta útplöntunarsvæðisins var dæld sem var ca 15 metrar á kant. Það varð að ráði, að frumkvæði Sigrúnar (sem er elskuleg eldri systir mín, fyrir þá sem ekki vitaog þá væntanlega á táningsaldri og orðin mikill sóldýrkandi), að planta furutrjám í útjaðri dældarinnar. Þarna hugsaði hún sér að verða sér úti um góðan stað til að liggja í sólbaði þegar trén hefðu náð nokkrum vexti.


Þennan bakgrunn lundarins virðist ekkert systkinanna kannast við nema ég, sem er harla undarlegt. Sérstaklega finnst mér merkilegt að frú Sigrún þykist ekkert kannast við málið.


Þarna var trjánum plantað og síðan liðu árin, eins og gerist. Furan náði sér afar vel á strik og nú standa furutré, sem eru 7-8 m há, umhverfis dældina og langur tími liðinn frá því frú Sigrún hafði síðast tækifæri til að liggja þarna í sólbaði. Þá var það auðvitað svo, að á þeim tíma sem trjánum var plantað tíðkaðist að planta þeim þétt, til að tryggja, að minnsta kosti einhver hluti þeirra næði þroska. Nú er svo komið að einmitt vegna þessa þéttleika eru greinar farnar að drepast neðst á trjánum og því engan veginn nema til fegurðarauka að fjarlægja þær og fá með þeim hætti miklu betri nýtingu út úr garðinum umhverfis Kvistholt (þó svo varla fari nokkur maður nokkurntíma út af pallinum stóra og fína nema til að klessa geitungabú).


Það var með allt sem að ofan er nefnt, í huga, sem ég tók á mig rögg og stefndi á Sigrúnarlund, vopnaður fyrrgreindum greinaklippum. Til þess að verkið gæti orðið fullkomnað reyndist nauðsynlegt að fjarlægja ræfilslegar trjáplöntur sem stóðu fyrir innganginum í lundinn (ég hafði ekki hátt um það við frú Dröfn, en hún gat nú alveg sagt sér það sjálf að það yrði alltaf lítilsháttar fórnarkostnaður). Þessar plöntur áttu sér hvort sem er ekki viðreisnar von þar sem þær stóðu í skugga allan sólríkan daginn í Laugarási. Að því búnu tók ég mig til og klippti og klippti (dásamandi í huganum hve góð kaup ég hefði gert þegar ég keypti kllippurnar). Þegar upp var staðið blasti við ægifagur skógarlundur, sem bíður þess að barnabörnin skottist þar um í feluleik, eltingaleik eða annars þess sem framtíðarbörn kunna að taka upp á. Hver veit líka nema þarna verði settur glæsilegur bekkur sem hægt er að sitja á í kvöldhúminu og velta fyrir sér lífinu og tilverunni.


Það er að vísu svo, að ekki treysti ég mér til að fjarlægja stóra furugrein, sem er græn í endann, frá innganginum í lundinn þar sem það hefði etv ruggað bátnum lítillega, en sá tími kemur væntanlega von bráðar, að hún hverfur(ussssh).



Það segir sig sjálft, að við aðgerðina varð til stór haugur af greinum sem nauðsynlegt var að losa sig við með einhverjum hætti. Ekki er núorðið leyfilegt að kveikja bál utandyra nema með leyfi sýslumanns, þannig að nú voru góð ráð dýr. Ég dó hinsvegar ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn. Börnin okkar, blessuð, gáfu móður sinni forláta útiofn í fyrra, eftir að hafa setið síðsumarkvöld eitt fremur svalt, á síðasta ári, á pallinum nýja og fína. Ekki fannst tilefni til hagnýtrar notkunar ofnsins í fyrra (þó svo hann hefði verið tilkeyrður til að tryggja að hann spryngi ekki). Þarna blasti nú ofninn við mér og lausnin fundin. Í ofninn skyldu greinarnar. Þær bar ég að ofninum , hóf að klippa þær í hæfilegar lengdir og tendraði bál. Þetta gekk auðvitað afar vel og brátt skíðlogaði í ofninum. Hann var grænn að lit áður en atöfnin hófst, en fór nú smám saman að taka á sig brúnan lit. Ég velti því fyrir mér (mjög stuttlega reyndar) hvort brúni liturinn ætti að gefa til kynna að ofninn væri heitur og síðan myndi hann fá fyrri lit aftur þegar hann kólnaði. Niðurstaða mín, eftir þá örskömmu pælingu, var, að það gæti ekki verið, enda varð raunin sú að ofninn er enn brúnn.



Það var kominn feikna góður eldur í ofninn og það nálgaðist einnig kvöldmatartíma.


Þá gerðist það að frú Dröfn taldi að það gæti verið viturlegt að nýta hitaorkuna sem þarna varð til, til að baka kartöflur. Ég, í ljósi þess að hún hafði sýnt ákveðna víðsýni varðandi greinaklippingar mínar, ákvað að sýna víðsýni líka og gefa þessu séns, eins og sagt er. Það birtust því fljótlega kartöflur á álpappír á gamalli grillgrind, sem skellt var ofan á strompinn, Philippo Berio hellt yfir og hvítlauk stráð með. Það skal tekið fram, að það var skilið eftir op, þannig að strompurinn var ekki lokaður (hvað heldurðu að við séum?)


Ég varð auðvitað að halda áfram þarfaverkinu og bætti stöðugt í ofninn, sem augljóslega varð til þess að loginn varð svo mikill að hann stóð upp úr strompinum og lék um kartöflurnar. Það stefndi því í að þær yrðu eldsteiktar fremur en bakaðar. Ekki leist mér alveg á það, þannig að ég gerði stutt hlé á áfyllingunni og brátt hófu kartöflurnar að bakast á ný. Þá taldi frú Dröfn að það gæti verið sniðugt að skella lifandi greinum af loðvíði í ofninn til að það kæmi jurtakeimur af þeim (ég var nú dálítið hissa á að hún skyldi ekki gera athugasemd við, að þessar lifandi greinar skyldu hafa verið í haugnum yfirleitt, en gætti þess að hafha ekki orð á því). Greinunum var skellt í og það var eins og við manninn mælt: upp gaus mikill reykur úr strompinum þannig að nú stefndi í að kartöflurnar yrðu bakaðar, eldristaðar OG reyktar. "Nú hringir einhver í slökkviliðið!" Ég gat ekki annað en verið sammála þessari athugsemd og varð hugsað til fyrrverandi slökkviliðsstjórans, bróður míns í næsta húsi. Ekkert sírenuvæl heyrðist, reykurinn minnkaði smám saman, kartöflurnar fengu þann úrskurð, að þær væru tilbúnar.


Það var kominn kvöldmatur.

Girnilegar kartöflurnar reyndust afar gómsætar.

Kartöflur eru konungleg fæða

7 ummæli:

  1. Lagboði: Laugardagskvödlið á Gili

    Veistu, kartöflur eru ein konungleg fæða
    og kannski það besta sem hægt er að snæða
    það vitna ég um núna vil.
    Og frúin, hún bætir við greinunum góðum
    sem gefa þeim bragðið sitt eldsins á hlóðum
    - ég alls ekki í henni skil.

    Nú olían draup oss af munni - á maga
    og mikið sem hvítlaukurinn - alla daga -
    er indæll til átu, ójá.
    Klippurnar góðu í grasinu undu
    og grænbrúnn varð ofninn á þessari stundu
    - en sælan var mín, þar og þá.

    Bloggskapur um nautnir

    SvaraEyða
  2. Hér er nú eiginlega athugasemd fyrir gesti á þessari bloggsíðu:

    Sko, ég sit við tölvuna alla daga og þýði bók. Mín helsta menningarlega tilbreytni er að fylgjast með búskaparraunum flugna og trjáa í Kvistholti Raunar er ég að vonast eftir grill-og/eða matarboði, (sérstaklega eftir uppgötvun nýjunga í kartöflusteikingummeðvöldumurtumáofni).

    Engu að síður er ég nú orðin afar vel heima í opinberum búskap hjónanna á hinum eðla stað. Hins vegar mun ég aldregi hvika frá þvi að taka upp hanz(han-ds = z)kann, já þótt þeir væru tveir, fyrir þá lítilmagna sem þau FD og PMS "pestera" svo gjarnan, hvurju, nafni sem þeir nefnast.

    Og þá vita allir það!

    Anonymous
    - að vanda -
    H.Ág.

    SvaraEyða
  3. .......ekki laust við að örskotsstund hafi hugurinn leitað heim í holtið.

    SvaraEyða
  4. hvernig væri að henda upp hengirúmi inn í lundinn, væri ekki notalegt að liggja í blíðunni uppi í hengirúmi með kodda og góða bók :)

    SvaraEyða
  5. Ég verd nú bara sársvöng af ad lesa thessa færslu. Hlakkar til ad smakka næst thegar vid komum í heimsókn til ykkar ;o)

    SvaraEyða
  6. Alltaf hef ég gaman af að lesa af hvursdagsraunum þínum. En nú hélt ég þræði allan tímann og skildi allt sem þú skráðir. Það er nýmæli. Samhengið með augljósara móti.

    Takk fyrir mig,
    K Hallgr.

    E.s.
    Ætlarðu ekki í messu á Skálholtshátíð?

    SvaraEyða
  7. Hvað á þetta að þýða? Enginn pistill? Og ég sem hef tyllt mér reglulega við fótskör Páls postula til að meðtaka boðskapinn og njóta upplyftinggar frá þýðingunum. Já, hvað á þetta að þýða? Gleymdi ég nú aftur að borga áskriftina?
    Hehehe
    H.Ág.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...