31 júlí, 2008

Sérkennileg sagnfræði

Eins og fram hefur komið áður, þá tel ég, og held að það sé nokkuð sammannlegt mat, að án fortíðarinnar sé ekki um að ræða neina framtíð. Fyrir þessu er tiltölulega einfalt að færa rök, en þrátt fyrir það hefur hin íslenska þjóð verið æ uppteknari, undanfarin ár, við að reyna að gleyma því að hún á sér sögu og menningarverðmæti sem gera hana að því sem hún er. Með vaxandi gleymsku að þessu leyti, vex firringin meðal þjóðarinnar, hún leitar æ meir í það sem kalla má sókn eftir vindi. Þessu get ég einnig gert nánari grein fyrir, komi fram óskir um það. Með þessari sókn eftir vindi hverfur smám saman grunnurinn undan manneskjunni, hún veit ekki lengur hver hún er.
Þetta var inngangurinn.
Svo kemur framhaldið, sem tengist innganginum að því leyti, að sagnfræðin kemur við sögu og þá mjög afmarkaður sagnfræðilegur kimi. Tilefni þessa er það að ég hef verið nokkuð upptekinn af bílamálum undanfarna daga.
Frá því um tvítugt hef ég keypt nokkra bíla. Nú er ég búinn að taka saman sögulegt yfirlit um þess bílaeign og birtist það hér. Vissulega má segja að Pikkólína hafi að hluta til verið fyrsti bíllinn, en það var nú gamli unglingurinn sem átti hann í raun, en við Benedikt vorum nú mest við hann riðnir, minnir mig.

1. Fyrsti bíll okkar var Toyota Corona, grár með svörtum vinyltoppi, mjög svipaður þessum.

2. Þá var það Datsun 1200, alveg ágætis bíll , sem Björn, bróðir Ingibjargar í Lyngási keypti loks af okkur til niðurrifs, en þá var svo komið fyrir honum að hluti gólfsins var ryðgaður burt. Yfir götin setti ég steyputeina og þar yfir kom gúmmímotta. Þá voru vegir ekki malbikaðir í jafn miklum mæli og nú er. Það kom því fyrir, að þegar ekið var ofan í stóra polla sátu bræðurnir holdvotir aftur í. Bíllinn var svona á litinn.

3. Þá kom rauður Subaru 1600 í líkingu við þann sem hér má sjá. Það glamraði í hjöruliðum á honum, en hann var þó fjórhjóladrifinn. Hans er fyrst og fremst minnst fyrir Þórsmerkurferð þar sem hann drap á sér úti í miðri á, og fylltist þar smátt og smátt af vatni undir öskrum og óhljóðum ungu kynslóðarinnar sem var með í för. Það tókst að starta honum í gang og upp úr fór hann fyrir eigin vélarafli.

4. Hér var um að ræða hvítan Volvo eins og þann sem hér má sjá. Hann var skriðþungur og traustur, en var farinn að síga nokkuð að aftan undir lokin. Hann bar mig til vinnu á Laugarvatn og minnist ég ferða undir vor þegar frost var að að fara úr jörð og þessvegna hvarf við hvarf á leiðinni. (Ætli nokkur maður viti lengur hvað hvarf er?)
5. Næstur var Nissan Prairie svipaður þessum, sem keyptur var af gamla unglingnum. Ágætis bíll og loksins fóru bílarnir að yngjast nokkuð. Þessi fór í klessu í Ölfusinu þegar drukkinn ökumaður sveigði í veg fyrir okkur. Við lentum inn í hliðinni á honum á um 80 km hraða.6. Þá tók við drapplitur Toyota Corolla Touring, líklega ekki sama árgerð og þessi, en svipaður útlits. Svo sem ekkert sérstakt um hann að segja.7. Þennan sá ég á bílasölu á Selfossi. Toyota Carina E, dökkgrænn, sjálfskiptur. Prófaði hann og stökk á hann. Mjög skemmtilegur bíll, en bara með framdrifi.
8. Þegar svo var komið að ég gat engan veginn treyst því, sökum slæmrar færðar, að komast til og frá vinnu, varð það úr að kaupa Land Rover Discovery Tdi, dökkbláan, 4 ára gamlan, mikið tæki. Frá því hann var keyptur var hreint ekki verið um að ræða ófærð milli Laugaráss og Laugarvatns.9. Viðhaldskostnaður fór vaxandi. Keyptur Toyota Rav4, kampavínsbrúnn, tveggja ára gamall. Hann hefur reynst sérlega vel, en eins og eðli bíla er þá eltist hann, búinn að eiga hann í 4 ár, alveg ágætt.
10. Þá er það sá nýjasti - ástæðan fyrir bílaáhuganum að undanförnu. Nissan X-trail 2006, steingrár. Nú er bara að sjá hvernig hann reynist.


Þetta var kimasagnfræði dagsins. Ekki er hægt að halda því fram, að fylgt hafi verið viðurkenndum vísindalegum aðferðum við söguritunina, en það ber að taka viljann fyrir verkið.
Bragð er að bíla sögu.


28 júlí, 2008

Af þrám og löngunum

Ég hugsa að það sé sammannlegt að setja sér einhver markmið, eða í það minnsta að gera sér vonir um að einhverjir þættir lífsins þróist með einhverjum tilteknum hætti. Hér getur verið um að ræða þætti sem teljast til hins smáa, sem telst kannski lítilsvirði í lífinu, eins og t.d. þrána eftir að eignast nýjasta iPoddinn (sem verður orðinn gamall eftir viku), plasma/lcd sjónvarp (sem verður ekki nógu stórt eftir mánuð), flotta SLR myndavél (sem heitir síðan EOS450D um leið og EOS400D græjan er komin í hús, miklu fullkomnari og flottari), flakkara (sem maður notar síðan sama og ekkert), geitungagildru (sem svo kemur í ljós að gerir ekkert gagn), handryksugu (sem tekst að vísu að soga upp kóngulær og dauðar flugur, en lítið umfram það), eða eitthvað annað sem í rauninni breytir lífinu ekkert til eða frá, heldur veitir kannski einhverskonar stundarfró.


Í þessu samhengi er einnig um að ræða grundvallarþætti í lífi hvers manns. Allir sjá sjálfa sig fyrir sér inni í framtíðinni, í einhverjum tilteknum aðstæðum. Þessar aðstæður geta lotið að búsetu, starfi, menntun, hjúskaparstöðu, barnafjölda, eða öðrum þáttum af svipuðum toga, sem hafa mikil áhrif á það hvernig lífi viðkomandi lifir og hvað hann skilur eftir sig þegar hann er búinn að hamast á leiksviðinu sem líf vort er, um stund áður en tjaldið fellur.



Ég minnist þess t.d. að á ákveðnu tímabili lífsins ákvað ég að einhverntíma skyldi ég eignast NSU Prinz, sem mér þótti afar skemmtilegur bíll. Hann reyndist hinsvegar ekki standast tímans tönn í hönnunarlegu samhengi; hann náði því ekki að verða klassískur og hætti því tiltölulega fljótlega að höfða til mín.


Það sama er ekki að segja um annan bíl, sem hefur ávallt verið í mínum huga sá fararskjóti sem ég verð einhverntíma að eignast. Tímalaus hönnunin er nánast fullkomin og gerir lítið úr öllum tilraunum mannsins síðan til að þróa bíla, sem eiga að höfða til nútímamannsins. Jú, mér hefur fundist það gegnum árin, að margir bílar sem á vegi mínum hafa orðið, hafi ekki verið ófagrir útlits, en nokkrum árum eftir að þeir komu nýir á götuna eru þeir oftar en ekki orðnir forljótir, bæði vegna þess að hönnunin var ekki nógu góð, og einnig vegna þess, líklegast, að það eru komnar nýrri útgáfur sem auglýsingabransinn er búinn að sannfæra okkur um að nauðsynlegt sé að eignast.


Tímalausi bíllinn sem ég minntist á hér að ofan fellur ekki í kramið hjá neinum í þessari fjölskyldu nema mér, og þá er ég frekar að draga úr þeim viðbrögðum sem ég fæ þegar ég tjái löngun mína til að eignast svona grip. 'Ég myndi ekki láta sjá mig með þér í þessu!'


Þráin eftir gripnum hverfur hinsvegar ekki og styrkist með aldrinum frekar en hitt. Hver veit nema sá dagur komi að draumurinn rætist.


Í draumi sérhvers manns er fall hans falið

#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!!#!


Draumabílinn má sjá hér fyrir neðan















Citroën 2CV

26 júlí, 2008

Sagnfræði og líflát

Ein fyrsta og stærsta garðyrkjustöð í Tungunum á sínum tíma var á Syðri-Reykjum, stofnuð 1936, í eigu Stefáns Árnasonar og Áslaugar Ólafsdóttur. Vegna uppbyggingar stöðvarinnar og ræktunarinnar var þeim þörf á miklum mannafla og einn þeirra sem þar steig sín fyrstu skref inn í heim garðyrkjunnar var Skúli nokkur Magnússon, margnefndur sem gamli unglingurinn á þessu svæði.

Hann skellti sér suður á land í starfsþjálfun á Syðri Reykjum, en slík þjálfun var forsenda fyrir því að fá inni á garðyrkjuskólanum. Ekkert varð úr skólanáminu, því eftir lærdómsríka dvöl hjá þeim Stefáni og Áslaugu varð það úr að hann keypti garðyrkjustöð í Laugarási ásamt konunni sinni frá Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, Guðnýju Pálsdóttur.


Þetta var örstuttur inngangur.


Í blíðviðrinu í gær skelltum við okkur í bíltúr, sem ekki er svo sem í frásögur færandi. Leiðin lá um nærumhverfið, m.a. með viðkomu á Syðri Reykjum IV, sem nú heitir. Þar búa Ólafur Stefánsson og Bärbel Stefánsson (þar fékk ég staðfestingu á aldri mínum, því ég man enn þegar Bärbel kom sem vinnukona til Renötu og Gunnlaugs árið 1966). Óli á Reykjum er, sem sagt, sonur þeirra Stefáns og Áslaugar og þau hjónin rækta gúrkur. Hann dró fram myndaalbúm frá þeim tíma sem pabbi var á Reykjum og ekki gat ég greint annað en sá gamli hafði töluverða ánægju af að rifja þetta allt saman upp.

Enn ein smámyndin úr daglega lífinu.

Á Syðri -Reykjum var sjúklega gaman,
söngur og gleði hvern dag.

Það sem birtist hér fyrir neðan er ekki ætlað viðkvæmum.

-------------------------------------------------------


Önnur smámynd:



Stór og feitur skrattakollur náði því ekki að verða saddur lífdaga í morgun.



________________________________

23 júlí, 2008

Til fortíðar

Gamli unglingurinn er búinn að hafa á því orð, nokkuð ítrekað, í sumar að það væri nú gaman að kíkja á Fljótshlíðina og það var nákvæmlega það sem gerðist í gær. Svæðið sem um ræðir er auðvitað fyrst og fremst þekkt fyrir þátttöku sína í Njáls sögu og vísa flest örnefnin á þeim slóðum með einhverjum hætti í þá sögu eins og kunnugt er. Þar söfnuðust menn einnig saman sumarkvöldin fögur í Hlíðarendakoti. Í mínum huga birtast aðallega tvær myndir þegar svæði þetta ber á góma: heimsókn að Efra-Hvoli til Ingu og Páls og trjákaupaferð að Tumastöðum.

Ferðirnar að Efra-Hvoli voru þó nokkrar, þar sem mamma og Inga (Ingunn Ósk Sigurðardóttir) voru miklar vinkonur, ólust báðar upp í Flóanum, en Inga er frá Tóftum, sem ég hef líklegast aldrei séð. Þær voru síðan saman í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað, en þar var pabbi auðvitað líka og allir vita hvernig það endaði allt saman, allavega er æviskeið húsfreyjunnar fyrrverandi á Efra-Hvoli allnokkuð samofið lífshlaupi Hveratúnshjónanna. Sá gamli hefur alltaf haldið sambandinu við Ingu, en hún er nú til heimilis í dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Þangað var hún heimsótt í gær. Ég hafði ekki séð hana áratugum saman, en merkilegt nokk, fannst mér hún lítið hafa breyst, fyrir utan það, auðvitað að árin hafa merkt hana eins og eðlilegt má teljast.



Það má segja að gamli unglingurinn hafi verið einn helsti frumkvöðull að því að planta trjám í Laugarási. Trjáplönturnar voru að stórum hluta keyptar hjá Skógrækt ríkisins á Tumastöðum í Fljótshlíð. Umhverfið var því nokkuð kunnuglegt og Lýðveldislundurinn á sínum stað.



Nú, jæja, ferðin til fortíðar var farin í gær. Það átti að vera hálfskýjað skv spánni og því kýlt á að kikja í austurveg. Þegar fD og sá gamli voru hætt að slást um hver hvort þeirra skyldi fá að sitja aftur í, lá leiðin inn Þjórsárdal og upp undir Sultartanga, en þar er að finna brúna þá, yfir Þjórsá, sem við Benedikt dunduðum okkur við að smíða sumar eitt í byrjun 8. áratugs síðustu aldar. Voðalega fannst mér brúin nú orðin gömul, þó svo ekki hafi ég elst hætishót.

Leiðin lá síðan með Heklurótum í suðurátt, ekki í hálfskýjuðu blíðuveðri, heldur í útsýnislausri suddarigningu. Það voru uppi kenningar um að sólin hefði farið í mat og myndi birtast þegar lengra liði - sem þó gerðist ekki. Hefur líklega lagt sig eftir matinn.


Fín ferð - þrátt fyrir veðurfarið. Steikin í Árhúsum á Hellu í lok ferðar, var undragóð og þar að auki á eðlilegu verði.

Að fortíð skal hyggja er framtíð er byggð,
að fenginni reynslu kynslóða
.

20 júlí, 2008

Drepa meira

Það gætu einhverjir haldið að lífið hér í Kvistholti gangi út á að drepa lífverur í umhverfinu. Í sumar hafa það verið tré, geitungar, húsflugur og kóngulær, svo eitthvað sé nefnt. Það er hinsvegar alls ekki svo, að þetta hafi verið megin verkefni okkar, þvert á móti heyrir það til undantekninga ef slíkt gerist og er þessvegna til þess fallið að fjallað sé um það; má segja að sé nokkurs konar 'sensasjón'. Út á það ganga fréttir í nútímanum. Það nenna fáir að lesa fréttir af einhverju sem ekki felur í sér dauða, slys, gjaldþrot, skilnaði, móðganir, og því um líkt.


Þá er það efni þessa pistils: RANABJALLA(Curculionidae). Mágur minn á Sólveigarstöðum benti mér á að viðjan, sem áður hefur komið nokkuð við sögu á þessu svæði (þar sem fólk hefur orðið miður sín), væri orðin undirlögð af ranabjöllu, sem mun vera orðin landlæg hér, og sem finnst blöð viðjunnar sérstaklega lystug. Hann bætti um betur og kvaðst eiga efni sem byndi enda á líf þessara miður velkomnu gesta.

Nú kann einhver að spyrja hvort ég hafi ekki verið búinn að drepa viðjuna. Því er til að svara, að viðja er þess eðlis að hana er nánast ekki hægt að drepa og óðar en búið var að skera af henni allt laufskrúðið og stytta hana um allnokkra metra, þá fara að brjótast angar út úr henni hér og þar. Það eru sem sagt þeir angar sem eru orðnir undirlagðir af ranabjöllu.

Það var síðan í dag, að ég tók mig til og fyllti úðadæluna mína, gömlu og góðu, fyllti hana af vatni og setti síðan hæfilegt magn af viðeigandi lyfi út í. Þessu næst úðaði ég viðjuna í bak og fyrir, með eftirfarandi hugsun: 'Já, þarna hafið þið það, bölvuð kvikindin ykkar "%$!/)=&###!'


Nú bíð ég og vona að aðgerðin hafi haft tilætluð áhrif.




Ranabjalla er rúin trausti

Ranabjalla (Curculionidae)Fullorðna dýrið er svart til brúnsvart og étur blöð plantnanna. Einkennin eru þau að hún étur einungis af blaðjöðrunum á sama tíma og sniglar éta bæði innan úr blöðum og af jöðrunum. Lirfan er ofan í moldinni, kremhvít, hærð og fótalaus með ljósbrúnt höfuð. Hún étur rætur og yfirhúð af rótarhálsi. Lifir úti hér á landi.

heimild: bondi.is

19 júlí, 2008

Sá rauðnösótti fékk ekki að fara með

en sá litförótti fékk sannarlega að njóta sín í hinni miklu hestaferð þar sem segja má að Benedikt og Kristín, og Ásta Rut og Sveinn mynduðu með einhverjum hætti höfuð hópsins. Að öðru leyti voru þarna með í för börn ofangreindra og gott ef ekki tilvonandi tengdabarn, amk eitt, þó svo ekki hafi ég nú séð alla nákvæmlega fyrir flugnanetum.


Hér var, sem sagt, um að ræða árlega hestaferð þessa hóps, en ekki varð annað skilið en hún hefði gengið mikið út á grillveislur og dekkuð borð á flestum áningarstöðum. Ég ætla ekki að reyna að gera grein fyrir ferðasögunni, því ég þykist viss um að Benedikt muni skella henni inn, innan skamms.


Ég var hinsvegar í hópi fólks sem fór til móts, í grennd við Steingrímsstöð í Grafningi. Ekki reyndist ferðaáætlunin fullkomin, en þar kom samt að sást til hópsins í fjarska og kennsl voru borin á trússinn. Upp úr því leið ekki á löngu áður en mótið átti sér stað í ólýsanlegu flugnageri. Ég tók mér það hlutverk að smella myndum af moldarbrúnni Bergþóru ásamt öðrum þátttakendum, ásamt að sjálfsögðu hrossum í baráttu við flugur. Megin tilgangur minn með þessari ferð var að sjálfsögðu að ná loks mynd að þeim rauðnösótta, en svo fór um það sem fór. Sá litförótti naut þess af þeim sökum að falla ekki í skuggann.


Myndir eru hér.


Hot, hot á hesti

17 júlí, 2008

Metamorphosis


Það virðist svo sem aðra smiði betri sé ekki að finna í fjölskyldu sem kennir sig við Hveratún. Í það minnsta gerðist það öðru sinni á um það bil 20 árum að gamli unglingurinn fór þess á leit við mig að skella upp sólpalli fyrir sig. Hann hefur á því hug, í hinu sólríka þorpi, Laugarási, ÞORPINU Í SKÓGINUM, að hefja sólböð af krafti, en pallurinn hinn fyrri var orðinn frekar feyskinn or erfitt að treysta því að hann héldi (h)eldri mönnun við sólbaðsiðkanir.
Þetta gekk þannig fyrir sig, að þrýstingur þess gamla smá jókst og það varð því úr, að leiðin lá með hann í byggingavöruverslun á Selfossi til að útvega efni í pallgólf (ekki var talin þörf á að endurnýja undirstöðurnar, því eins og nærri má geta voru þær mikil eðal smíði á sinni tíð og hafa lítt látið á sjá). Í versluninni kom það í ljós að kaupandinn var ekki til í tölvukerfinu og varð af því umtalsverð móðgun, en timbrið var keypt og flutningur tryggður.
Það næsta sem gerðist var að ég (á eina rigningardegi sumarsins í Laugarási) snaraði gamla gólfinu af.


Það var síðan örskömmu síðar, eftir að hafa verið ítrekað inntur eftir því hvort ég væri ekki farinn að taka til verkfærin, að við frú Dröfn hófumst handa við að skella nýja gólfinu á pallinn undir sólríkum himni Laugaráss. Verkinu lauk á skömmum tíma og síðan hefur sá gamli setið í sólbaði. Í gær bættist við sóldýrkandinn Sigrún (en Sigrúnarlundur, áðurnefndur, er einmitt nefndur eftir henni) og við hennar komu tvöfaldaðist nýtingarstuðull pallsins umsvifalaust.

Nú sitja þau og njóta sólarinnar á listavel smíðuðum sólpalli og ég á mínum nýja fína. Allir bara kátir.

Fyrir þá sem eru sérlega áhugasamir um hvernig pallgólf eru tekin af og ný sett í staðinn, og síðan hvernig nýja pallsins er notið, þá eru myndir hér.

Þar er einnig að finna nokkrar myndir af skemmtilegum gesti í Kvistholti.


Eigi vefjast pallar fyrir Páli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...