10 ágúst, 2008

W - O - R - X 3


... þetta er framhald og lokahluti frásagnar af eldhúsborðsslípunarævintýrinu. Mér þykir við hæfi, ekki síst til að mynda tengingu við síðasta hluta, að birta mynd af töskunni fínu sem inniheldur juðarann góða.

Í upphafi skyldi endinn skoða
Þegar búið var að festa kaup á öllu því sem þurfti til að hægt væriað framkvæma verkið sem hér var um að ræða, var ekkert annað að gera en skella sér heim og hefjast handa. Ég verð að vísu að viðurkenna að þetta verk óx mér nokkuð í augum og þessvegna var það ekki fyrr en daginn eftir að ég lét til skarar skríða, búinn að hugsa verkið frá upphafi til enda og freista þess að sjá fyrir mér hvernig hver verkhluti fyrir sig skyldi framkvæmdur. Þá var ég auðvitað þegar búinn að opna töskuna með juðaranum góða og skoða hann í bak og fyrir, kynna mér vel hvernig sandpappírinn skyldi festur á hann og lesa handbókina sem að sjálfsögðu fylgdi, bæði á ensku og dönsku.

Allt var sem sagt klárt að því er talið var. Allt fjarlægt af eldhúsborðinu og það hreinsað vandlega, ef þar skyldu leynast fitublettir. Ég tók sandpappír nr. 120 og skellti á juðarann, stakk honum í samband og tók mér stöðu. Það er skemmst frá að segja, að eins og ég hafði reiknað með fór tækið í gang eins og ekkert væri eðlilegra og verkið hófst: kubbur juðarans snerti lakkborið eldhúsborðið. Það varð ekki aftur snúið. Umsvifalaust fór lakkið að mattast og ég hvarf smám saman inni í heim juðarans, þar sem ekkert var til nema borðplatan sem smám saman tapaði lakklaginu sem hafði hlíft henni frá öndverðu.

'Ég held að þú ættir nú að fara út og fá þér frískt loft áður en þú kafnar'.
fD stóð í eldhúsgættinni þegar ég leit upp, vart greinanleg í gegnum mistrið. Þarna varð mér ljóst, að pokinn undir 'juðið', sem að sjálfsögðu var áfestur við græjuna gleypti það ekki allt í sig, heldur dreifðist ákveðinn hluti þess burt frá juðsvæðinu og út um allt hús. fD hafði hlaupið til þegar ljóst var hvert stefndi og lokað öllum dyrum til að takmarka skaðann, en úr því sem komið var, var ljóst að framundan var afar ánægjuleg vinna við að hreinsa hátt og lágt. Úr því sem komið var, ákvað ég að grípa ekki til neinna aðgerða til að koma í veg fyrir að rykið dreifðist frekar þar sem skaðinn var skeður hvort sem var og þar að auki er skemmtilegra að þrífa þegar árangurinn er auðsýnilegur.


Þetta er bara vinna
Juðunin hélt áfram og henni lauk um 10 tímum síðar. Lakk er ótrúlega hart efni. Það tók sérlega langan tíma að slípa fleti sem voru óaðgengilegir juðaranum góða. Þar var gripið til þess ráðs að nota sandpappír nr. 90, en sá hluti verksins kallaði fram sprungnar blöðrur á 4 fingurgómum. En, verkinu lauk og framundan áburður eðalolíunnar, sem getið er um í fyrsta hluta.
Hún fór á í tveim umferðum með slatta klukkutíma milllibili og það verður ekki annað séð en hún ætli að fara fram úr væntingum mínum.


Nú sitjum við uppi með þetta fína, nýslípaða og olíuborna eldhúsborð. Þar að auki öflugan og traustan juðara í tösku, sem bíður næstu verkefna (nú þegar hafa sjónir beinst að borðum og skápum vítt og breitt um húsið, sem þarfnast yfirhalningar), nánast fulla dós af eðalolíu sem sömuleiðis virðist geta komið sér vel á hin og þessi húsgögn.


Það er staðið upp frá góðu verki. Svona verk eru alltaf skemmtilegust eftir á.


Juðaranum jafnað ekki verður

við jarðýtu' eða annan slíkan grip....

08 ágúst, 2008

W - O - R - X 2


...þetta er sem sagt framhaldssaga fyrir þá sem ekki vita betur.


Ákvörðun tekin um að kaupa juðara

Eðalolian var klár og næst lá fyrir að kanna verð og gæði tækja sem meðal fagmanna kallast juðarar. Ég var búinn að komast að þeirri niðurstöðu, að við Benedikt byggjum of fjarri hvor öðrum til að líklegt væri að ég færi af stað til að fá lánaðan juðarann hans.


Hvað er juðari?

Ef einhverjir gera sér ekki fyllilega grein fyrir því hvað 'juðari' er þá skal það upplýst, að hann er, í sem stystu máli, samsettur úr tveim hlutum: annars vegar mótornum sem er í hylki sem er ekki ólikt því sem margir þekkja af rafmagnsborvélum, en hinsvegar af nokkurskonar kubbi sem festur er við mótorinn neðanverðan. Þessi kubbur getur verið af ýmsum stærðum og gerðum, t.d. 10x19cm að flatarmáli. Mótorinn snýr síðan einhverskonar græju sem alveg eins má kalla hjámiðju sem veldur því að kubburinn snýst í örlitla hringi á afar miklum hraða. Nú, neðan á kubbinn er festur sandpappír (grófleikinn fer eftir verkinu sem vinna skal). Juðarinn er notaður til að pússa eða slípa ýmsa fleti, í mínu tilviki til að fjarlægja gamla lakkið af eldhúsborðinu.


Það er list að kaupa juðara

Juðarar í eðalolíubyggingavöruversluninni reyndust annaðhvort of dýrir til að verjandi gæti verið að kaupa þá í ljósi umfangs þess verks sem framundan var, eða þá of skrýtnir í laginu, eða of litlausir, eða með of ólögulega kubba. Það varð því úr, að að leita í hina byggingavöruverslunina á höfuðstað Suðurlands (sú þriðja er farin á hausinn - kreppan, jú nó). Þar tók við heilmikil athöfn þegar enn einn afgreiðsluunglingurinn leiddi okkur um alla verslunina í leit að hentugum juðara. Mér fannst það nokkuð illskiljanlegt að stílistar þessarar byggingavöruverslunar skildu setja juðarana svo vítt og breytt sem raunin var (líklega eru stílistar ekki 'in' lengur, kreppan jú nó). Það var að öðru leyti það sama að segja um juðarana sem þarna voru til sölu og í fyrri byggingavöruversluninni - þangað til............


ég fann W-O-R-X
Þarna var hann í opinni, svartri og glansandi tösku (sem fylgdi með í kaupunum) og ég þurfti sannarlega ekki afgreiðsluunglinginn til að segja mér að þetta væri góður juðari og ekki varð glæsilegur liturinn til þess að minnka aðdráttaraflið. Meira að segja gerði fD ekki athugasemdir við að fest yrðu kaup á þessu undratæki.
Það var ekki aftur snúið - ákvörðun var tekin - W-O-R-X skyldi verða minn. Þegar valinn hafði verið hentugur sandpappír varð samkomulag um kaup á tveim ljósum sem lengi hefur vantað í Kvistholt (bara þetta ætti að vera vísbending þeim sem til þekkja um hve markverður fíni juðarinn var).

Til nánari útlistunar fyrir áhugasama á juðaranum fína, læt ég fylgja hér með upplýsingar framleiðanda:

  • 1/3 Sheet Finishing SanderModel - WT640K The W-O-R-X® professional finish sander is a durable tool that is built to last.
  • All aluminum base and powerful 2.4 amp motor for peak performance.
  • Dust sealed switch.
  • High-efficiency dust collection system keeps your work surface cleaner.
    Features
  • Variable speed with pre-selection and lock-on switch
  • Double paper attachment system, adhesive backed or quick clamp, secures all types of paper
    3/32" orbit for high material removal on wood
  • Ergonomic front handle with soft overmold grip
  • Industrial 3-5/8" x 7-1/8" aluminum base for exact flatness and long lasting durability

    Specifications

    Volts 120V ~ 60Hz
    Power input 2.4Amp
    No-load speed 6000 - 12000opm
    Sanding sheet 7-1/4" x 3-3/4" for PSA paper
    Orbital diameter 3/32"
    Machine weight 3.5lbs (1.6Kgs)
    Base size 3-5/8" x 7-1/8"
640
Ef einhver man eftir PS_P640, þá vísa ég til þessarar sömu töfratölu, sem einmitt er að finna í lýsingu á W-O-R-X , hér fyrir ofan.

TILVILJUN.....?

Jafnvel eru góðir juðarar....

W - O - R - X 1

Það er ekki laust við að undanfari þessara skrifa sé orðinn nokkuð langur. Á vordögum var farið að nefna það að kominn væri tími til að pússa upp eldhúsborðið þar sem lakkið á því væri orðið lélegt. Vegna þess að ég er eins og ég er, þá hljóp ég ekki til - allt sumarið framundan með sól og blíðu. Ég myndi fá lánaðan juðarann hjá Benedikt einhvern daginn og drífa þetta af - ekki málið. Viðbrögðin kölluðu á hina venjulegu vantrú á því að verkið yrði nokkurntíma framkvæmt. Ég hef hinsvegar ávallt geymt það á bak við eyrað að borðinu þyrfti að sinna og þegar við blasti sú staðreynd að það væri farið að styttast í sumrinu og framundan afturhvarf til brauðstrits, þá seildist ég bak við eyrað og náði þar í þetta verkefni, en það hafði verið vel geymt og var ekkert farið að láta á sjá.

Það var síðan í einni kaupstaðarferðinni um síðustu mánaðamót að ég lét til skarar skríða.

Fyrsta skrefið fólst í því að fara í byggingavöruverslun til að kaupa lakk á borðið. Afgreiðslumaður var spurður hvaða lakk hann ætti sem best væri að nota á eldhúsborð. Hann benti á lakk, en naut ekki nægilegs trausts til að það lakk væri keypt umhugsunarlaust. Hann var ekki kominn af unglingsaldri og gat því lítið vitað um lakkgæði. Því varð það úr að fD tók upp símann á staðnum og hafði samband við fulltrúa fjölskyldunnar í málningarverksmiðjunni og óskaði eftir upplýsingum um hin bestu lökk sem peningara gætu keypt í verkefni af þessu tagi. Það stóð á svarinu, þar sem viðkomandi er varla kominn af unglingsaldri heldur, en hann kvaðst skyldu hringja aftur þegar hann væri búinn að ráðfæra sig við helsta sérfræðing málningarverksmiðjunnar í lakkmálum um málið. Það varð því úr að við biðum þarna í nokkrum rólegheitum í byggingavöruversluninni eftir símtalinu, sem kom nokkru síðar. Það var haft eftir sérfræðingnum að á eldhúsborð skyldi nota eitthvað það sem bæri nafnið Kjörvari 13. Eftir leit í byggingavöruversluninni fannst umrætt efni og reyndist það vera það sem kallað var: eðalolía, sem sagt ekki lakk, heldur olía. Ég var nú svo sem ekkert tilbúinn til að gleypa það hrátt, að það væri ekki lengur við hæfi að lakka eldhúsborð, en ég gerði það samt vegna þess að óbilandi traust var borið til sérfræðingsins í málningarverksmiðjunni. Meðfylgjandi er lýsing á eðalolíunni sem niðurstaða varð um að festa kaup á - þess ber að geta að hana er ekki hægt að fá í minni umbúðum en 1l - og ég sá það auðvitað í hendi mér, að það yrði líklegast umtalsverður afgangur þegar ég væri búinn að bera hana vel og vandlega á eldhúsborðið. Það er seinni tíma vandamál hvað gert verður við afganginn af eðalolíunni.
Næsta skref fólst síðan í því að verða sér úti um tæki til að fjalægja gamla lakkið af borðinu.

Ég hef ákveðið, af tillitsemi við lesendur að fjalla um það í W-O-R-X 2.
W-O-R-X 3 fjallar síðan um aðgerðina sjálfa.

KJÖRVARI 13 Eðalolía
Lýsing
Gerð:
  • KJÖRVARI 13 Eðalolía er þunnfljótandi viðarolía gerð úr sérvöldum hráefnum.

  • KJÖRVARI 13 smýgur vel inn í viðinn og veitir honum góða vatnsvörn. Notkunarsvið:

  • KJÖRVARI 13 Eðalolía er einkum ætluð á garðhúsgögn, harðviðarpalla og aðra viðlíka fleti utanhúss. Bestur verður árangurinn ef viðurinn er varinn algjörlega óveðraður.

  • Litir: KJÖRVARI 13 Eðalolía er fáanleg í tekklit og einnig glær sem má lita í mikinn fjölda lita.
    Leiðbeiningar:

  • Efnismeðferð:

  • KJÖRVARA 13 Eðalolíu má bera á flötinn með pensli, púða eða sprautu.

  • Varúðarflokkur: 2 - 1.

  • Þynnir: MÍNERALTERPENTÍNA.

  • Hreinsun áhalda: MÍNERALTERPENTÍNA.
    Eðliseiginleikar

  • Þurrktími: Um 5-6 klst.við 20°C.

  • Yfirmálun: Eftir 6-8 klst., breytilegt eftir aðstæðum.

  • Þykkt (flæðiseigja): Um 15 sek. (DIN 4; 25°C).

  • Eðlismassi: Um 0,88 g/ml (25°C).

  • Þurrefni: Um 42% af massa eða um 36% af rúmmáli (reiknað).

  • Efnisnotkun: Um 0,06-0,10 l/m2 í umferð, breytilegt eftir gleypni flatar og aðstæðum.




Olía er til alls fyrst

04 ágúst, 2008

Ákveðinn hroki

Í gamla daga var það ævintýri að fara upp að Gullfossi og Geysi. Þá lá vegurinn að Gullfossi austan við Gýgjarhólskot (nær Hvítá, altso) og var lagður eftir landslaginu og þessvegna í hólum og hæðum þannig að ef sá gamli ók á sæmilegum hraða á LandRovernum þá fékk maður í magann þegar ekið var fram af hæðarbrún. Þegar síðan nálgaðist fossinn var úðinn frá honum það fyrsta sem sást í fjarskanum. Þetta hafði alltaf sömu áhrifin á ungan svein: óttablandna tilhlökkun, óttinn stafaði sennilega af óendanlegri virðingunni fyrir þeim krafti sem náttúran opinberaði í þessu stórfenglega vatnsfalli. Þegar síðan var ekið niður brekkuna heim að veitingaskálanum sem þá var þarna, blasti fossinn við, því meir sem nær var komið. Ég reikna ekki með að ég hafi í fyrstu ferðunum látið mig hafa það að ganga stíginn niður að fossinum, en eftir því sem árunum fjölgaði hætti virðingin að vera jafn óttablandin og ég lét mig hafa það að fara niður stíginn og alla leið, en alltaf með einhverri ónotatilfinningu, hugsandi um það hvernig það væri nú að detta í fossinn.

Eftir að skoðun náttúruperlunnar var lokið var komið að því að njóta veitinga í skálanum, en þar var hægt að fá rjómapönnukökur og súkkulaði og gengilbeinur með með skuplur og hvíta svuntu báru gestunum kræsingarnar.

Svo liðu árin og veitingaskálinn var rifinn og gengilbeinurnar hurfu á braut.

Mörgum árum seinna tókst eftir japl og jaml og fuður að fá leyfi til að byggja smáhýsi með upplýsingum um fossinn og sögu hans ásamt snyrtiaðstöðu. Nú voru komin til sögunnar ráð og nefndir sem vildu helst ekki sjá nein mannanna verk í nágrenni við náttúruperlurnar. Það reyndist því þrautin þyngri að fá leyfi til að byggja einhverskonar veitingaaðstöðu þegar óskir fóru að koma fram um það. Það hafðist þó og nú er þarna komin hálfgerð Kringla. Á sama tíma og ég er ánægðir með að framtakssamt fólk í Tungunum nýtur góðs af komu hinna hundruða þúsunda ferðamanna sem koma að Gullfossi á hverju ári þá er einhver strengur í mér sem myndi frekar vilja hafa fossinn eins og hann var. Það er voðalega lítið ævintýri lengur að koma þarna uppeftir, þar sem gestir ganga eftir manngerðum stígum í átt að hentugum útsýnisstað yfir fossinn, sem hefur þar að auki breyst mikið í gegnum árin.

Þegar ég fór síðan að fara að fossinum síðar og með öðru fólki fannst mér að í þeim ferðum væri ég sá sem hefði reynsluna, en væri svo sem tilbúinn að veita þeim hlutdeild í henni af lítillæti mínu.

Af einhverjum ástæðum eru ferðirnar að Geysi ekki jafn sterkar í minningunni þó vissulega hafi Strokkur alltaf staðið fyrir sínu.

Það er ekki einu sinni svo lengur að ég geti verið hrokafullur gagnvart samgestum mínum við þessar alræmdu náttúruperlur okkar Tungnamanna. Þegar ég stend við hliðina á fólki sem hrópar upp yfir sig: "Ó, mæ Gad!, WOW, wonderfúll, ðat's djast greit". Þetta er bara einhvernveginn ekki sama tilfinningin, en það er líklega bara vegna þess, að ég er orðinn eldri og túristarnir fleiri.

Tilefni þessa er auðvitað yfirreið okkar Kvisthyltinga um náttúruperlurnar nú um þessa verslunarmannahelgi. Ég hafði mestan áhuga á að ná sæmilegum myndum af regnboganum yfir Gullfossi og bólunni á Strokki.
Hluti af þessari ferð átti sér stað á Flúðum, þar sem gestum varð boðið að fylgjast með traktorstorfærukeppni. Ég hef nú ekki lagt í vana minn að ausa hrósi yfir Hreppamenn, en því verður ekki neitað að þeir eiga hugmyndaríkt fólk og hefur tekist að byggja upp nokkuð skemmtilega umgjörð um þessa helgi. Fyrir utan torfærukeppnina héldu þeir síðan furðubátakeppni í gær, en ekki lögðum við leið okkar þangað.

Fleiri myndir frá torfæru og náttúruperlum er að finna á myndasíðunni.




Gullfoss var Geysi fremri

31 júlí, 2008

Sérkennileg sagnfræði

Eins og fram hefur komið áður, þá tel ég, og held að það sé nokkuð sammannlegt mat, að án fortíðarinnar sé ekki um að ræða neina framtíð. Fyrir þessu er tiltölulega einfalt að færa rök, en þrátt fyrir það hefur hin íslenska þjóð verið æ uppteknari, undanfarin ár, við að reyna að gleyma því að hún á sér sögu og menningarverðmæti sem gera hana að því sem hún er. Með vaxandi gleymsku að þessu leyti, vex firringin meðal þjóðarinnar, hún leitar æ meir í það sem kalla má sókn eftir vindi. Þessu get ég einnig gert nánari grein fyrir, komi fram óskir um það. Með þessari sókn eftir vindi hverfur smám saman grunnurinn undan manneskjunni, hún veit ekki lengur hver hún er.
Þetta var inngangurinn.
Svo kemur framhaldið, sem tengist innganginum að því leyti, að sagnfræðin kemur við sögu og þá mjög afmarkaður sagnfræðilegur kimi. Tilefni þessa er það að ég hef verið nokkuð upptekinn af bílamálum undanfarna daga.
Frá því um tvítugt hef ég keypt nokkra bíla. Nú er ég búinn að taka saman sögulegt yfirlit um þess bílaeign og birtist það hér. Vissulega má segja að Pikkólína hafi að hluta til verið fyrsti bíllinn, en það var nú gamli unglingurinn sem átti hann í raun, en við Benedikt vorum nú mest við hann riðnir, minnir mig.

1. Fyrsti bíll okkar var Toyota Corona, grár með svörtum vinyltoppi, mjög svipaður þessum.

2. Þá var það Datsun 1200, alveg ágætis bíll , sem Björn, bróðir Ingibjargar í Lyngási keypti loks af okkur til niðurrifs, en þá var svo komið fyrir honum að hluti gólfsins var ryðgaður burt. Yfir götin setti ég steyputeina og þar yfir kom gúmmímotta. Þá voru vegir ekki malbikaðir í jafn miklum mæli og nú er. Það kom því fyrir, að þegar ekið var ofan í stóra polla sátu bræðurnir holdvotir aftur í. Bíllinn var svona á litinn.

3. Þá kom rauður Subaru 1600 í líkingu við þann sem hér má sjá. Það glamraði í hjöruliðum á honum, en hann var þó fjórhjóladrifinn. Hans er fyrst og fremst minnst fyrir Þórsmerkurferð þar sem hann drap á sér úti í miðri á, og fylltist þar smátt og smátt af vatni undir öskrum og óhljóðum ungu kynslóðarinnar sem var með í för. Það tókst að starta honum í gang og upp úr fór hann fyrir eigin vélarafli.

4. Hér var um að ræða hvítan Volvo eins og þann sem hér má sjá. Hann var skriðþungur og traustur, en var farinn að síga nokkuð að aftan undir lokin. Hann bar mig til vinnu á Laugarvatn og minnist ég ferða undir vor þegar frost var að að fara úr jörð og þessvegna hvarf við hvarf á leiðinni. (Ætli nokkur maður viti lengur hvað hvarf er?)
5. Næstur var Nissan Prairie svipaður þessum, sem keyptur var af gamla unglingnum. Ágætis bíll og loksins fóru bílarnir að yngjast nokkuð. Þessi fór í klessu í Ölfusinu þegar drukkinn ökumaður sveigði í veg fyrir okkur. Við lentum inn í hliðinni á honum á um 80 km hraða.6. Þá tók við drapplitur Toyota Corolla Touring, líklega ekki sama árgerð og þessi, en svipaður útlits. Svo sem ekkert sérstakt um hann að segja.7. Þennan sá ég á bílasölu á Selfossi. Toyota Carina E, dökkgrænn, sjálfskiptur. Prófaði hann og stökk á hann. Mjög skemmtilegur bíll, en bara með framdrifi.
8. Þegar svo var komið að ég gat engan veginn treyst því, sökum slæmrar færðar, að komast til og frá vinnu, varð það úr að kaupa Land Rover Discovery Tdi, dökkbláan, 4 ára gamlan, mikið tæki. Frá því hann var keyptur var hreint ekki verið um að ræða ófærð milli Laugaráss og Laugarvatns.9. Viðhaldskostnaður fór vaxandi. Keyptur Toyota Rav4, kampavínsbrúnn, tveggja ára gamall. Hann hefur reynst sérlega vel, en eins og eðli bíla er þá eltist hann, búinn að eiga hann í 4 ár, alveg ágætt.
10. Þá er það sá nýjasti - ástæðan fyrir bílaáhuganum að undanförnu. Nissan X-trail 2006, steingrár. Nú er bara að sjá hvernig hann reynist.


Þetta var kimasagnfræði dagsins. Ekki er hægt að halda því fram, að fylgt hafi verið viðurkenndum vísindalegum aðferðum við söguritunina, en það ber að taka viljann fyrir verkið.
Bragð er að bíla sögu.


28 júlí, 2008

Af þrám og löngunum

Ég hugsa að það sé sammannlegt að setja sér einhver markmið, eða í það minnsta að gera sér vonir um að einhverjir þættir lífsins þróist með einhverjum tilteknum hætti. Hér getur verið um að ræða þætti sem teljast til hins smáa, sem telst kannski lítilsvirði í lífinu, eins og t.d. þrána eftir að eignast nýjasta iPoddinn (sem verður orðinn gamall eftir viku), plasma/lcd sjónvarp (sem verður ekki nógu stórt eftir mánuð), flotta SLR myndavél (sem heitir síðan EOS450D um leið og EOS400D græjan er komin í hús, miklu fullkomnari og flottari), flakkara (sem maður notar síðan sama og ekkert), geitungagildru (sem svo kemur í ljós að gerir ekkert gagn), handryksugu (sem tekst að vísu að soga upp kóngulær og dauðar flugur, en lítið umfram það), eða eitthvað annað sem í rauninni breytir lífinu ekkert til eða frá, heldur veitir kannski einhverskonar stundarfró.


Í þessu samhengi er einnig um að ræða grundvallarþætti í lífi hvers manns. Allir sjá sjálfa sig fyrir sér inni í framtíðinni, í einhverjum tilteknum aðstæðum. Þessar aðstæður geta lotið að búsetu, starfi, menntun, hjúskaparstöðu, barnafjölda, eða öðrum þáttum af svipuðum toga, sem hafa mikil áhrif á það hvernig lífi viðkomandi lifir og hvað hann skilur eftir sig þegar hann er búinn að hamast á leiksviðinu sem líf vort er, um stund áður en tjaldið fellur.



Ég minnist þess t.d. að á ákveðnu tímabili lífsins ákvað ég að einhverntíma skyldi ég eignast NSU Prinz, sem mér þótti afar skemmtilegur bíll. Hann reyndist hinsvegar ekki standast tímans tönn í hönnunarlegu samhengi; hann náði því ekki að verða klassískur og hætti því tiltölulega fljótlega að höfða til mín.


Það sama er ekki að segja um annan bíl, sem hefur ávallt verið í mínum huga sá fararskjóti sem ég verð einhverntíma að eignast. Tímalaus hönnunin er nánast fullkomin og gerir lítið úr öllum tilraunum mannsins síðan til að þróa bíla, sem eiga að höfða til nútímamannsins. Jú, mér hefur fundist það gegnum árin, að margir bílar sem á vegi mínum hafa orðið, hafi ekki verið ófagrir útlits, en nokkrum árum eftir að þeir komu nýir á götuna eru þeir oftar en ekki orðnir forljótir, bæði vegna þess að hönnunin var ekki nógu góð, og einnig vegna þess, líklegast, að það eru komnar nýrri útgáfur sem auglýsingabransinn er búinn að sannfæra okkur um að nauðsynlegt sé að eignast.


Tímalausi bíllinn sem ég minntist á hér að ofan fellur ekki í kramið hjá neinum í þessari fjölskyldu nema mér, og þá er ég frekar að draga úr þeim viðbrögðum sem ég fæ þegar ég tjái löngun mína til að eignast svona grip. 'Ég myndi ekki láta sjá mig með þér í þessu!'


Þráin eftir gripnum hverfur hinsvegar ekki og styrkist með aldrinum frekar en hitt. Hver veit nema sá dagur komi að draumurinn rætist.


Í draumi sérhvers manns er fall hans falið

#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!#!!#!


Draumabílinn má sjá hér fyrir neðan















Citroën 2CV

26 júlí, 2008

Sagnfræði og líflát

Ein fyrsta og stærsta garðyrkjustöð í Tungunum á sínum tíma var á Syðri-Reykjum, stofnuð 1936, í eigu Stefáns Árnasonar og Áslaugar Ólafsdóttur. Vegna uppbyggingar stöðvarinnar og ræktunarinnar var þeim þörf á miklum mannafla og einn þeirra sem þar steig sín fyrstu skref inn í heim garðyrkjunnar var Skúli nokkur Magnússon, margnefndur sem gamli unglingurinn á þessu svæði.

Hann skellti sér suður á land í starfsþjálfun á Syðri Reykjum, en slík þjálfun var forsenda fyrir því að fá inni á garðyrkjuskólanum. Ekkert varð úr skólanáminu, því eftir lærdómsríka dvöl hjá þeim Stefáni og Áslaugu varð það úr að hann keypti garðyrkjustöð í Laugarási ásamt konunni sinni frá Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, Guðnýju Pálsdóttur.


Þetta var örstuttur inngangur.


Í blíðviðrinu í gær skelltum við okkur í bíltúr, sem ekki er svo sem í frásögur færandi. Leiðin lá um nærumhverfið, m.a. með viðkomu á Syðri Reykjum IV, sem nú heitir. Þar búa Ólafur Stefánsson og Bärbel Stefánsson (þar fékk ég staðfestingu á aldri mínum, því ég man enn þegar Bärbel kom sem vinnukona til Renötu og Gunnlaugs árið 1966). Óli á Reykjum er, sem sagt, sonur þeirra Stefáns og Áslaugar og þau hjónin rækta gúrkur. Hann dró fram myndaalbúm frá þeim tíma sem pabbi var á Reykjum og ekki gat ég greint annað en sá gamli hafði töluverða ánægju af að rifja þetta allt saman upp.

Enn ein smámyndin úr daglega lífinu.

Á Syðri -Reykjum var sjúklega gaman,
söngur og gleði hvern dag.

Það sem birtist hér fyrir neðan er ekki ætlað viðkvæmum.

-------------------------------------------------------


Önnur smámynd:



Stór og feitur skrattakollur náði því ekki að verða saddur lífdaga í morgun.



________________________________

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...