04 ágúst, 2008

Ákveðinn hroki

Í gamla daga var það ævintýri að fara upp að Gullfossi og Geysi. Þá lá vegurinn að Gullfossi austan við Gýgjarhólskot (nær Hvítá, altso) og var lagður eftir landslaginu og þessvegna í hólum og hæðum þannig að ef sá gamli ók á sæmilegum hraða á LandRovernum þá fékk maður í magann þegar ekið var fram af hæðarbrún. Þegar síðan nálgaðist fossinn var úðinn frá honum það fyrsta sem sást í fjarskanum. Þetta hafði alltaf sömu áhrifin á ungan svein: óttablandna tilhlökkun, óttinn stafaði sennilega af óendanlegri virðingunni fyrir þeim krafti sem náttúran opinberaði í þessu stórfenglega vatnsfalli. Þegar síðan var ekið niður brekkuna heim að veitingaskálanum sem þá var þarna, blasti fossinn við, því meir sem nær var komið. Ég reikna ekki með að ég hafi í fyrstu ferðunum látið mig hafa það að ganga stíginn niður að fossinum, en eftir því sem árunum fjölgaði hætti virðingin að vera jafn óttablandin og ég lét mig hafa það að fara niður stíginn og alla leið, en alltaf með einhverri ónotatilfinningu, hugsandi um það hvernig það væri nú að detta í fossinn.

Eftir að skoðun náttúruperlunnar var lokið var komið að því að njóta veitinga í skálanum, en þar var hægt að fá rjómapönnukökur og súkkulaði og gengilbeinur með með skuplur og hvíta svuntu báru gestunum kræsingarnar.

Svo liðu árin og veitingaskálinn var rifinn og gengilbeinurnar hurfu á braut.

Mörgum árum seinna tókst eftir japl og jaml og fuður að fá leyfi til að byggja smáhýsi með upplýsingum um fossinn og sögu hans ásamt snyrtiaðstöðu. Nú voru komin til sögunnar ráð og nefndir sem vildu helst ekki sjá nein mannanna verk í nágrenni við náttúruperlurnar. Það reyndist því þrautin þyngri að fá leyfi til að byggja einhverskonar veitingaaðstöðu þegar óskir fóru að koma fram um það. Það hafðist þó og nú er þarna komin hálfgerð Kringla. Á sama tíma og ég er ánægðir með að framtakssamt fólk í Tungunum nýtur góðs af komu hinna hundruða þúsunda ferðamanna sem koma að Gullfossi á hverju ári þá er einhver strengur í mér sem myndi frekar vilja hafa fossinn eins og hann var. Það er voðalega lítið ævintýri lengur að koma þarna uppeftir, þar sem gestir ganga eftir manngerðum stígum í átt að hentugum útsýnisstað yfir fossinn, sem hefur þar að auki breyst mikið í gegnum árin.

Þegar ég fór síðan að fara að fossinum síðar og með öðru fólki fannst mér að í þeim ferðum væri ég sá sem hefði reynsluna, en væri svo sem tilbúinn að veita þeim hlutdeild í henni af lítillæti mínu.

Af einhverjum ástæðum eru ferðirnar að Geysi ekki jafn sterkar í minningunni þó vissulega hafi Strokkur alltaf staðið fyrir sínu.

Það er ekki einu sinni svo lengur að ég geti verið hrokafullur gagnvart samgestum mínum við þessar alræmdu náttúruperlur okkar Tungnamanna. Þegar ég stend við hliðina á fólki sem hrópar upp yfir sig: "Ó, mæ Gad!, WOW, wonderfúll, ðat's djast greit". Þetta er bara einhvernveginn ekki sama tilfinningin, en það er líklega bara vegna þess, að ég er orðinn eldri og túristarnir fleiri.

Tilefni þessa er auðvitað yfirreið okkar Kvisthyltinga um náttúruperlurnar nú um þessa verslunarmannahelgi. Ég hafði mestan áhuga á að ná sæmilegum myndum af regnboganum yfir Gullfossi og bólunni á Strokki.
Hluti af þessari ferð átti sér stað á Flúðum, þar sem gestum varð boðið að fylgjast með traktorstorfærukeppni. Ég hef nú ekki lagt í vana minn að ausa hrósi yfir Hreppamenn, en því verður ekki neitað að þeir eiga hugmyndaríkt fólk og hefur tekist að byggja upp nokkuð skemmtilega umgjörð um þessa helgi. Fyrir utan torfærukeppnina héldu þeir síðan furðubátakeppni í gær, en ekki lögðum við leið okkar þangað.

Fleiri myndir frá torfæru og náttúruperlum er að finna á myndasíðunni.




Gullfoss var Geysi fremri

2 ummæli:

  1. þetta var hinn ágætasti túristarúntur um síns eigins sveit :)

    SvaraEyða
  2. Að Gullfoss' er gekk ég ungur
    um glæfraleg einstig og klungur
    þá hugsun mín var:
    "ef hrapa ég þar
    - er foss ekki ferlega þungur"?

    Að Geysi var ekki eins gaman
    þótt gengjum við stundum þar saman
    Strokkur - hann gaus
    en Geysir? - hann fraus!
    Þótt ætti hann allan framann.

    Bloggskapur um ferðalög barnæskunnar

    (Sakir siðferðilegra vandamála með rímorð verður hér ekki ort um "konur með hvíta svuntu")

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...