08 ágúst, 2008

W - O - R - X 1

Það er ekki laust við að undanfari þessara skrifa sé orðinn nokkuð langur. Á vordögum var farið að nefna það að kominn væri tími til að pússa upp eldhúsborðið þar sem lakkið á því væri orðið lélegt. Vegna þess að ég er eins og ég er, þá hljóp ég ekki til - allt sumarið framundan með sól og blíðu. Ég myndi fá lánaðan juðarann hjá Benedikt einhvern daginn og drífa þetta af - ekki málið. Viðbrögðin kölluðu á hina venjulegu vantrú á því að verkið yrði nokkurntíma framkvæmt. Ég hef hinsvegar ávallt geymt það á bak við eyrað að borðinu þyrfti að sinna og þegar við blasti sú staðreynd að það væri farið að styttast í sumrinu og framundan afturhvarf til brauðstrits, þá seildist ég bak við eyrað og náði þar í þetta verkefni, en það hafði verið vel geymt og var ekkert farið að láta á sjá.

Það var síðan í einni kaupstaðarferðinni um síðustu mánaðamót að ég lét til skarar skríða.

Fyrsta skrefið fólst í því að fara í byggingavöruverslun til að kaupa lakk á borðið. Afgreiðslumaður var spurður hvaða lakk hann ætti sem best væri að nota á eldhúsborð. Hann benti á lakk, en naut ekki nægilegs trausts til að það lakk væri keypt umhugsunarlaust. Hann var ekki kominn af unglingsaldri og gat því lítið vitað um lakkgæði. Því varð það úr að fD tók upp símann á staðnum og hafði samband við fulltrúa fjölskyldunnar í málningarverksmiðjunni og óskaði eftir upplýsingum um hin bestu lökk sem peningara gætu keypt í verkefni af þessu tagi. Það stóð á svarinu, þar sem viðkomandi er varla kominn af unglingsaldri heldur, en hann kvaðst skyldu hringja aftur þegar hann væri búinn að ráðfæra sig við helsta sérfræðing málningarverksmiðjunnar í lakkmálum um málið. Það varð því úr að við biðum þarna í nokkrum rólegheitum í byggingavöruversluninni eftir símtalinu, sem kom nokkru síðar. Það var haft eftir sérfræðingnum að á eldhúsborð skyldi nota eitthvað það sem bæri nafnið Kjörvari 13. Eftir leit í byggingavöruversluninni fannst umrætt efni og reyndist það vera það sem kallað var: eðalolía, sem sagt ekki lakk, heldur olía. Ég var nú svo sem ekkert tilbúinn til að gleypa það hrátt, að það væri ekki lengur við hæfi að lakka eldhúsborð, en ég gerði það samt vegna þess að óbilandi traust var borið til sérfræðingsins í málningarverksmiðjunni. Meðfylgjandi er lýsing á eðalolíunni sem niðurstaða varð um að festa kaup á - þess ber að geta að hana er ekki hægt að fá í minni umbúðum en 1l - og ég sá það auðvitað í hendi mér, að það yrði líklegast umtalsverður afgangur þegar ég væri búinn að bera hana vel og vandlega á eldhúsborðið. Það er seinni tíma vandamál hvað gert verður við afganginn af eðalolíunni.
Næsta skref fólst síðan í því að verða sér úti um tæki til að fjalægja gamla lakkið af borðinu.

Ég hef ákveðið, af tillitsemi við lesendur að fjalla um það í W-O-R-X 2.
W-O-R-X 3 fjallar síðan um aðgerðina sjálfa.

KJÖRVARI 13 Eðalolía
Lýsing
Gerð:
  • KJÖRVARI 13 Eðalolía er þunnfljótandi viðarolía gerð úr sérvöldum hráefnum.

  • KJÖRVARI 13 smýgur vel inn í viðinn og veitir honum góða vatnsvörn. Notkunarsvið:

  • KJÖRVARI 13 Eðalolía er einkum ætluð á garðhúsgögn, harðviðarpalla og aðra viðlíka fleti utanhúss. Bestur verður árangurinn ef viðurinn er varinn algjörlega óveðraður.

  • Litir: KJÖRVARI 13 Eðalolía er fáanleg í tekklit og einnig glær sem má lita í mikinn fjölda lita.
    Leiðbeiningar:

  • Efnismeðferð:

  • KJÖRVARA 13 Eðalolíu má bera á flötinn með pensli, púða eða sprautu.

  • Varúðarflokkur: 2 - 1.

  • Þynnir: MÍNERALTERPENTÍNA.

  • Hreinsun áhalda: MÍNERALTERPENTÍNA.
    Eðliseiginleikar

  • Þurrktími: Um 5-6 klst.við 20°C.

  • Yfirmálun: Eftir 6-8 klst., breytilegt eftir aðstæðum.

  • Þykkt (flæðiseigja): Um 15 sek. (DIN 4; 25°C).

  • Eðlismassi: Um 0,88 g/ml (25°C).

  • Þurrefni: Um 42% af massa eða um 36% af rúmmáli (reiknað).

  • Efnisnotkun: Um 0,06-0,10 l/m2 í umferð, breytilegt eftir gleypni flatar og aðstæðum.




Olía er til alls fyrst

1 ummæli:

  1. Það er ekki oft að Anónímus hirðkveðill bloggarans geri athugasemdir án "fíflalegginga": EN er nú ekki kominn tími til að biðja Guð að hjálpa sér ... og það í hvelli?! - áður en bloggarinn verður handverksguðinum að fullu og öllu að bráð?
    Anónímus

    PS: "þú skalt ekki aðra guði hafa"... og bara alls ekki Kjörvarann!

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...