10 ágúst, 2008

W - O - R - X 3


... þetta er framhald og lokahluti frásagnar af eldhúsborðsslípunarævintýrinu. Mér þykir við hæfi, ekki síst til að mynda tengingu við síðasta hluta, að birta mynd af töskunni fínu sem inniheldur juðarann góða.

Í upphafi skyldi endinn skoða
Þegar búið var að festa kaup á öllu því sem þurfti til að hægt væriað framkvæma verkið sem hér var um að ræða, var ekkert annað að gera en skella sér heim og hefjast handa. Ég verð að vísu að viðurkenna að þetta verk óx mér nokkuð í augum og þessvegna var það ekki fyrr en daginn eftir að ég lét til skarar skríða, búinn að hugsa verkið frá upphafi til enda og freista þess að sjá fyrir mér hvernig hver verkhluti fyrir sig skyldi framkvæmdur. Þá var ég auðvitað þegar búinn að opna töskuna með juðaranum góða og skoða hann í bak og fyrir, kynna mér vel hvernig sandpappírinn skyldi festur á hann og lesa handbókina sem að sjálfsögðu fylgdi, bæði á ensku og dönsku.

Allt var sem sagt klárt að því er talið var. Allt fjarlægt af eldhúsborðinu og það hreinsað vandlega, ef þar skyldu leynast fitublettir. Ég tók sandpappír nr. 120 og skellti á juðarann, stakk honum í samband og tók mér stöðu. Það er skemmst frá að segja, að eins og ég hafði reiknað með fór tækið í gang eins og ekkert væri eðlilegra og verkið hófst: kubbur juðarans snerti lakkborið eldhúsborðið. Það varð ekki aftur snúið. Umsvifalaust fór lakkið að mattast og ég hvarf smám saman inni í heim juðarans, þar sem ekkert var til nema borðplatan sem smám saman tapaði lakklaginu sem hafði hlíft henni frá öndverðu.

'Ég held að þú ættir nú að fara út og fá þér frískt loft áður en þú kafnar'.
fD stóð í eldhúsgættinni þegar ég leit upp, vart greinanleg í gegnum mistrið. Þarna varð mér ljóst, að pokinn undir 'juðið', sem að sjálfsögðu var áfestur við græjuna gleypti það ekki allt í sig, heldur dreifðist ákveðinn hluti þess burt frá juðsvæðinu og út um allt hús. fD hafði hlaupið til þegar ljóst var hvert stefndi og lokað öllum dyrum til að takmarka skaðann, en úr því sem komið var, var ljóst að framundan var afar ánægjuleg vinna við að hreinsa hátt og lágt. Úr því sem komið var, ákvað ég að grípa ekki til neinna aðgerða til að koma í veg fyrir að rykið dreifðist frekar þar sem skaðinn var skeður hvort sem var og þar að auki er skemmtilegra að þrífa þegar árangurinn er auðsýnilegur.


Þetta er bara vinna
Juðunin hélt áfram og henni lauk um 10 tímum síðar. Lakk er ótrúlega hart efni. Það tók sérlega langan tíma að slípa fleti sem voru óaðgengilegir juðaranum góða. Þar var gripið til þess ráðs að nota sandpappír nr. 90, en sá hluti verksins kallaði fram sprungnar blöðrur á 4 fingurgómum. En, verkinu lauk og framundan áburður eðalolíunnar, sem getið er um í fyrsta hluta.
Hún fór á í tveim umferðum með slatta klukkutíma milllibili og það verður ekki annað séð en hún ætli að fara fram úr væntingum mínum.


Nú sitjum við uppi með þetta fína, nýslípaða og olíuborna eldhúsborð. Þar að auki öflugan og traustan juðara í tösku, sem bíður næstu verkefna (nú þegar hafa sjónir beinst að borðum og skápum vítt og breitt um húsið, sem þarfnast yfirhalningar), nánast fulla dós af eðalolíu sem sömuleiðis virðist geta komið sér vel á hin og þessi húsgögn.


Það er staðið upp frá góðu verki. Svona verk eru alltaf skemmtilegust eftir á.


Juðaranum jafnað ekki verður

við jarðýtu' eða annan slíkan grip....

1 ummæli:

  1. Juðaranum jafnað ekki verður
    við jarðýtu né annan slíkan grip
    af snilld hann var af Guði okkar gerður
    og gildi hans varð ljóst í einum svip.
    Hér brosandi er borðplata til húsa
    (en blessuð frúin þrífur talsvert ryk)
    sæll er ég, á sæmilegt í brúsa
    og sjá, á mér skal enginn finna hik.

    Nú ræðst ég næst á glugga, gólf og hillur
    og gamlar hirslur mega vara sig
    og alls kyns listar, útidyr og syllur
    ég einnig tel að þurf' að hitta mig
    Með juðarann og járnvilja í hendi -
    ó ji! hvað þett' er gaman svei mér þá!-
    Ég alls kyns ryk og örflísar nú sendi
    frá undratæki,- lífs míns helgu þrá!

    Bloggskapur um handverksfíkn

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...