16 ágúst, 2008

Sjálfhverft fólk

Það er óvenju langt síðan ég heiðraði síðast þessa síðu með andríkum pælingum mínum og því er það, að ég hyggst hér stuttlega takast á við eitt mesta mein nútímans og afsprengi hins kapítalíska hugsunarháttar sem einkennir bæði umræðu í samfélaginu, stjórnmál, viðskiptalíf, menntakerfið og að öðru leyti daglegt líf þess fólks sem landið byggir. Þennan hugsunarhátt er hægt að draga saman í einn frasa: 'Skítt með hina'.
Ismarnir tveir
Hin kapítalíska hugsun byggir á því að einstaklingurinn eigi að fá að njóta sín til orða og athafna. Frelsi hans á að vera óskorað til að skapa sér það umhverfi sem honum hugnast best. Þessi hugsun gerir síður ráð fyrir að það þurfi að taka tillit til samferðamanna, sérstaklega ef það hefur í för með sér skerðingu á persónulegu frelsi eða markmiðum manns sjálfs.

Það var sagt um kommúnismann, að hann hafi ekki gengið upp vegna ófullkomleika mannsins, sem er auðvitað hárrétt. Hugsjón kommúnismans er/var hinsvegar harla ágæt fræðilega. Ef maður skoðar bara orðið sjálft: 'kommúnismi', þá er það t.d. augljóslega skylt ensku orðunum 'community' (samfélag), 'communion' (altarisganga). Kommúnismi er, í samræmi við þetta: 'samfélagshyggja' . Merkingin felur alltaf í sér, að um er að ræða eitthvað sem fólk gerir saman. Vandi mannskepnunnar er hinsvegar að hún býr ekki yfir nægilegum þroska til að tileinka sér þau grundvallarmarkmið sem hugsjónin um kommúnismann byggðist á. Í stað þess að jafningjar ynnu saman að einhverjum markmiðum þróaðist kommúnískt samfélag út í valdasöfnum ákveðinna einstaklinga, með þeim afleiðingum að sumir urðu jafnari en aðrir.

Þegar kommúnisminn beið svo skipbrot í framhaldi af þessari þróun, breyttist hugtakið í skammaryrði. Við tóku öfgarnar í hina áttina; kapítalisminn varð allsráðandi og er nú á góðri leið með að stefna vestrænum samfélögum í þrot. Kapítalisminn er nefnilega fjarri því að vera fullkomið fyrirbæri heldur. Orðið 'kapital' þýðir fjármagn og 'kapitalismi' er því 'fjármagnshyggja'. Fjármagnið á að ráða og þar af leiðandi hljóta það að vera þeir sem eiga fjármagnið, sem fara með völdin. Áherslan færist af hugsuninni um samfélagslega hugsun og ábyrgð, yfir í það að hver skuli vera sjálfum sér næstur. Nokkurskonar frumskógalögmál ríkir. Kapítalismi og lýðræði fara ákaflega illa saman.

Hér fyrir ofan reyndi ég að búa til ramma utan um það sem fylgir. Kannski dálítið töff lesning.

Birtingarmyndir kapítalisma
Afleiðingar kapítalismans blasa við í þjóðfélaginu hvert sem litið er og mér finnst svo komið að ekki verði hjá því komist að staldra við og velta fyrir sér hvort þetta fyrirbæri sé okkur til góðs.

Ég lít svo á, að kapítalisminn sé á góðri leið með að leysa upp vestræn samfélög. Ég vil tína til nokkur dæmi um þetta:

1. Það vilja allir verða ríkir af efnislegum gæðum. Í krafti þess að fólk horfir upp á einstaklinga fljúga upp á stjörnuhimininn í krafti fjármagnsins og einstaklingsfrelsisnins, langar það þangað auðvitað líka. Það þráir hið ljúfa líf ríkidæmisins og freistast til að grípa til örþrifaráða til að ná þangað. 'Mig langar í skútu eins og Jón Ásgeir og þotu eins og Björgólfur Thor'. Vandinn er bara sá, að sá sem stundar launavinnu á enga möguleika á að vinna sér inn margumræddar 62 milljónir á mánuði, ekki einu sinni 400 þúsund. Þá koma bankaeigendurnir til skjalanna og bjóða fólki lán til að láta draumana rætast, og tryggja þannig eigin hag enn frekar.

Draumar hins venjulega fólks eru nú sem óðast að breytast í martröð þegar kemur að skuldadögum.

2. Stjórnmálin eru sem óðast að fara í vitleysu þar sem hin kapítalíska hugsun segir að frelsi einstaklingsins til orða og athafna skuli vera óskorað. Einstaklinginn þyrstir ekki bara í efnisleg gæði, heldur einnig völd. Því er það, að hugsunin snýst frekar um persónuleg völd en það sem kemur samfélaginu vel. Það þarf nú varla að skýra þetta með öðrum hætti en að vísa í þann fáranleika sem birtist okkur nótt sem nýtan dag í fjölmiðlum, um stjórn höfuðborgarinnar. Þetta á eftir að versna, að mínu mati.

3. Fjölskyldan er fyrirbæri sem stefnir á vonarvöl. Frelsi einstaklingsins til orðs og athafna er óskorað. Einstaklingshyggjan nær til foreldranna sem eru ekki tilbúnir til að skerða frelsi sitt til að koma börnum sínum til manns. Hjón eru ekki tilbúin til að skerða frelsi sitt sem einstaklinga til að þola hversdagsleika daglegs lífs og þær málamiðlanir sem samlíf með makanum krefst.

4. Við börnunum blasir hið kapítalíska þjóðfélag. Þeim liggur á að verða rík eftir að alast upp við hinar yfirborðskenndu aðstæður nútímans. Í þeim gerviheimi sem blasir við þeim í fjölmiðlum og í netheimum er ekki til neinn hversdagsleiki. Það þarf að vera aksjón. Það þarf alltaf eitthvað að vera að gerast. Aðrir hagsmunir skulu víkja fyrir frelsi einstaklingsins til að gera nákvæmlega það sem hann langar til. Auðvitað er það áyrgð foreldranna að sjá til þess að börnin alist upp við heilbrigðar aðstæður, en þær aðstæður eru á hverfanda hveli.

5. Skuldbindingar sem fólk gengst undir fá stöðugt minna vægi og víkja eins dögg fyrir sólu, ef þær stangast á við stundarhagsmuni. Einstaklingur sem t.d. skuldbindur sig, af eigin frumkvæði, til að taka þátt í einhverju uppbyggilegu starfi, t.d. kórstarfi, lætur þær skyldur sem það hlýtur og á að hafa í för með sér, víkja án þess svo mikið sem blikka auga, þrátt fyrir að hann eigi að geta gert sér grein fyrir að fjaravera hans hefur áhrif á félaga hans.

6. Fjórða valdið, fjölmiðlarnir bera mikla ábyrgð á stöðu mála. Ég vil meira að segja ganga svo langt að þeir séu það vald sem ræður hvað mestu um það hvernig samfélagið er að þróast. Í krafti valds síns móta þeir umræðuna og andann meðal manna. Það voru þeir sem töluðu þjóðina upp í takmarkalausa bjartsýni á útrásartímanum og það eru þeir sem eru nú að tala þjóðina niður í þunglyndi kreppunnar.
Svartnætti?
Sem betur fer er ég farinn að greina breytingar. Kapítalisminn er kominn að fótum fram - framundan hlýtur að vera betri tími með blóm í haga..

Til hamingu með að hafa lesið í gegnum þetta. :)


Það er nauðsynlegt að nefna þessa hluti
því nafni sem að hæfir, það er satt.
Lifi byltingin

4 ummæli:

  1. þa'r nauðsynlegt að nefna þessa hluti
    því nafni sem að hæfir, það er satt:
    það hugarvíl er hefst úr fjármagnsskuti
    er heimsósóma skaðlegt, einnig bratt
    Flestir vilja fjármagn sér til reiðu
    í firnum, sem ei skilin verða hér,
    og svo með geði gleðisnauðu,leiðu, ei geta skynjað hvað þæim lukkan ber.

    Hún er ekki holdtekning hins dýra
    Hún er aldrei markaðstólið nýtt
    hún er fremur hljómbirting þess skíra
    sem hefur mörgum sálum gefið nýtt
    líf sem þótt í lágtekjunum standi
    lofar, prýðir hverja góða sál
    lukkan hún er bara indæll andi
    afskaplega gefand' hennar bál

    Og þar fyrir utan: svo keng-sammála laumubloggaranum að leitun er á öðru eins. Lifi hann nú sem heilastur og hans FD - hin sæla!

    Blogg um sælufeng kapitalismans o.fl. óskiljanlegt

    SvaraEyða
  2. Já og aðeins í óbundnu; get bara ekki hamið mig... fáar ef nokkrar kynslóðir hafa verið jafn öfuðsetnar af auglýsingum snjallra skrum-meistara, sem þau ungmenni er nú eru frá 0 (já ég meina það) - 30 ára.
    Það er herjað á þetta fólk úr nánast öllum áttum; gylliboðin eru hvarvetna og mörgum þessum elskum verður afskaplega fljótlega óskiljanlegt að ekki sé hægt að svala stundarlöngun í dót, föt og "DÝR-gripi", hér og nú og það eins og skot takk.

    Átti samræður við ónefndan einstakling, mér nákominn:
    ég: hvernig datt þér í hug að fá þér svona?
    einstakl: nú mig langði í þetta.
    ég: og er þá bara hægt að kaupa ef mann langar í...? Ég var nú næstum í vandræðum bara með venjulegu reikningana.
    einstakl. stuna - höfuðhristur- ég: eru ekki annars einhver blankheit í gangi, eða man ég það ekki rétt?
    einstakl: mig hefur ALLTAF langað í svona og ég fékk þetta á mjög góðum kjörum; gerði fínan Díl!
    ég: nú, ja hérna ég var nú að hugsa...
    einstakl (í samtalslokatóni): ... æ, þú skilur þetta ekki!

    Og svo um annað atriði í pistli laumubloggarans - í óbundnu:
    Í fyrrakvöld sat ég við "lærðar samræður" við vin minn, valmenni hið mesta. Við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að ef fólk getur ekki látið sér líða þolanlega saman í hvunndeginum, yfir einfaldri kleinu, hversdaglegri stríðni sinni, kaffibolla eða brauðsneið, þá munu hátíðarstundir verða falskar, því grunninn þann hinn trausta vantar.
    Svo mörg voru okkar vísdómsorð; raunar fleiri og víðfeðmari en mun ekki rekja hið álnalanga samtal hér.

    Vandinn sem við blasir sbr. þörfina á "immediate gratification" felur í sér allsherjar óþol gagnvart öllu og öllum, sem ganga ekki til liðs við þann hugsunarhátt s.s. sæmilega meinandi kennarar, foreldrar að reyna að setja mörk og skorður. Og markaðsheimurinn brosir og býður nýja græju, nýjan bankareikning, ... og enn fleiri nýjar "þarfir". Eins gott að ég hætti núna svo:
    ekki verði úr því bók
    ógnarlöng með tárum...
    rétt gat still mig um að botna þennan gullfallega fyrripart!
    Helga Ág.

    Pje ess í bræði minni: er nú alveg normalt fyrir börn og ungmenni að hafa til taks tíu - 15 þúsund króna Æpodda, bar sisona í vasanum??? Finnst okkur það ölkum, kannski?- ja það sem ég get nú keypt í Bónus, Hagkaup og Ríkinu fyrir 15 þúsund er ekki lítið. Og hananú!!!
    (Anónímus hirðkveðill boggarans)

    SvaraEyða
  3. Hvaða svartsýnis ramakvein er þetta. ÉG þyki nú sá svart sýni en nú er mér öllum lokið.

    Allt á bæði sýnar góðu og slæmu hliðar.
    Áður en kommúnisminn lagði af stað í sínar ógöngur jafnaði hann lífskjör ótal manna og tryggði atvinnu.

    Kapitalisminn er sömuleiðis leið fólks upp úr fátækt og möguleikinn á að láta drauma sína rætast. Hann er Kaldrifjaður Kennari. Gakktu með gát um gleðinnar dyr kveður hann. Tækifærin eru til staðar en aðgát og gripdeild tækifæra öðlastu hlut í draumum.

    Líkt og kommúnisminn forðum daga þá er hins vegar nú farið að bera meir á neikvæðum hliðum kapitalismans. Er sú kynslóð sem elst upp við hann of ágjörn? Afhverju? Hefur okkur foreldrunum brugðist listin að tempra draumsóknina með aðgát?

    Er þó sammála um að framundan eru nýir tímar. Hreini kapitalisminn er að renna undir lok. Við tekur eitthvað annað sem vonandi færir okkur gott í skóinn.

    SvaraEyða
  4. ég nennti ekki að lesa þetta.... :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...