17 ágúst, 2008

Að pakka niður og byggja upp

Ágætt að vera búinn að afgreiða umfjöllunarefni það sem síðast birtist á þessum slóðum. Niðurstaðan af þeirri umræðu er líklega sú, að sá ismi sem hentar okkur mannfólkinu, svo ófullkomin sem við erum, hefur ekki litið dagsins ljós. Það er hægt að ímynda sér að það sé líklegast einhver blanda ismanna tveggja, en þá er hætt við að fljótt verði framsóknarmennskan nefnd til sögunnar, en hún hugnast mér ekki sérlega vel. :)
Hvað um það.
Við Kvistholtshjón erum búin að vera að ganga í gegnum það undanfarin allmörg ár, að eitt af öðru eru börnin að fljúga úr hreiðrinu. Það er svo sem ekkert um það að segja, annað en að það sé eins og það á að vera. Nú er svo komið, að yngsti unginn er ekki nema hálfur heima og stefnir væntanlega í að hafa ekki aðsetur hér lengur en fram á næsta vor, en hver veit.
Það er auðvitað hægt að velta sér upp úr þessari brottferð barnanna á bænum fram og til baka, en niðurstaðan getur aldrei orðið önnur en sú sem orðin er.
Nú er kannski hægt að fara að ljúka húsbyggingunni sem hófst fyrir um 25 árum. Það er nefnilega þannig, að eitt herbergi hússins hefur aldrei komist í gagnið, svo undarlegt sem það kann nú að hljóma. Ég veit að engum dettur til hugar að líta svo á að sú hafi orðið raunin vegna skorts á framkvæmdagleði minni. Það er auðvitað fjarri því að svo sé.
Nú er von til að úr fari að rætast. Hvenær nákvæmlega - hvur veit?
Ungarnir flugu kannski úr hreiðrinu, en ýmislegt það sem varð til vegna tilveru þeirra, er enn að finna í Kvistholti. Nóg er plássið og ekkert yfir því að kvarta, en hitt er annað mál að með breyttum lífsstíl og áhugamálum foreldranna hafa þeir hafið, í vaxandi mæli, innrás í þær vistarverur sem áður hýstu afkvæmin. Um þessar mundir stendur yfir niðurpökkun á ýmsu því sem telja verður eign afkvæmanna þar til þau ákveða annað.
Nú hefur eitt herbergjanna hlotið þann heiður að breytast í vinnustofu fD. Þar verða væntalega göldruð fram hin merkustu verk. Ýmislegt af því sem þar var fyrir, aðallega eigu þess sem nú gistir ástralska stórborg, er komið ofan í kassa til frekari flokkunar síðar.
Áfram heldur lífið, það breytist smám saman, en verður aldrei leiðinlegt.


Ekki verður á það logið
okkar ljúfa líf.

2 ummæli:

  1. Nú er komin nýrri tíð
    nú skal mála og iðja
    Frúin Dröfn er fjarska blíð
    því frábær verður smiðja.

    Líkast til mun ljúflingsfrú
    listræn prýða heiminn
    Verkin hennar verða nú
    víðkunn - ekki feimin!

    Koma munu kumpánar
    kaupa verk - með stolti
    virðulegir valdhafar
    og vígsl' í Skál(ar)holti.

    Bloggskapur um væntanlega velgengni fD - í list-smiðju sinni

    SvaraEyða
  2. Maður rétt bregður sér út fyrir landsteinana og þá er búið að pakka niður:-)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...