19 ágúst, 2008

Bloggskapur í bundnu máli

Ekki ætla ég mér að reyna að freista þess að þykjast hafa sett saman það sem hér fer á eftir. Það er frú Helga Ágústsdóttir sem ber ábyrgð á því. Eins og þeir sem eitthvað hafa lesið þennan kima veraldarvefsins hafa sjálfsagt tekið eftir, þá heiðrar fH hann með sérstökum bloggskap sínum í bundnu máli í hvert eitt sinn. Það sem hér birtist er bloggskapur hennar í tilefni síðustu færslu minnar. Þó svo með góðum vilja megi halda því fram að það sem hún tínir til gæti hugsanlega verið það sem tínt var saman og sett í kassa, þá var svo auðvitað ekki, því ekki veit hún annað um þann verknað en það sem hér hefur birst. Engu að síður tel ég kveðskapinn þess eðlis að það geti verið gaman fyrir aðra að lesa.

Komdu og skoðað’ í kisturnar þeirra
af kössum og dýnum er aldeilis nóg
einnig við fundum svo ótal margt fleira
afgamlan smekk, já og koppinn og skó
hringlun’ hans Egils og hrosshaus úr vír

og hrylling úr plasti ( sem var eitt sinn kýr )
og íþróttabuxur með blettóttum röndum
og bláleitan kjól, sem var fallegur nýr.

Svo voru myndir og sægur af plötum
og svolítill bolti sem Þorvaldur á
og klútar með snýtum úr krakkanna nösum
og karfa með sokkum og pumpa ein (grá)
regnhlíf og bakpoki rifin og tætt
og rústir af Legó og bangsarúm – (sætt)

frímerk’ og pennar og prjónar með garni
poppkorn sem líklegast varla er ætt.


Margs konar firning’ í flöskum og glösum

fjarstýring (horfin) og sólglerin blá
ágætar myndir og úlpu með vösum
allsendis heilleg’ –en en púkó að sjá
glósur frá Brynjari og Guðnýj’ í hrauk
gamaldags lukt , já og peningabauk
nótur og ilmvatn og nærföt .. af hverri?
Nærbuxur síðar - og hálfétinn lauk.

Bloggskapur samkenndarinnar


Bloggskapinn í bundnu máli
berja máttu augum hér.

17 ágúst, 2008

Að pakka niður og byggja upp

Ágætt að vera búinn að afgreiða umfjöllunarefni það sem síðast birtist á þessum slóðum. Niðurstaðan af þeirri umræðu er líklega sú, að sá ismi sem hentar okkur mannfólkinu, svo ófullkomin sem við erum, hefur ekki litið dagsins ljós. Það er hægt að ímynda sér að það sé líklegast einhver blanda ismanna tveggja, en þá er hætt við að fljótt verði framsóknarmennskan nefnd til sögunnar, en hún hugnast mér ekki sérlega vel. :)
Hvað um það.
Við Kvistholtshjón erum búin að vera að ganga í gegnum það undanfarin allmörg ár, að eitt af öðru eru börnin að fljúga úr hreiðrinu. Það er svo sem ekkert um það að segja, annað en að það sé eins og það á að vera. Nú er svo komið, að yngsti unginn er ekki nema hálfur heima og stefnir væntanlega í að hafa ekki aðsetur hér lengur en fram á næsta vor, en hver veit.
Það er auðvitað hægt að velta sér upp úr þessari brottferð barnanna á bænum fram og til baka, en niðurstaðan getur aldrei orðið önnur en sú sem orðin er.
Nú er kannski hægt að fara að ljúka húsbyggingunni sem hófst fyrir um 25 árum. Það er nefnilega þannig, að eitt herbergi hússins hefur aldrei komist í gagnið, svo undarlegt sem það kann nú að hljóma. Ég veit að engum dettur til hugar að líta svo á að sú hafi orðið raunin vegna skorts á framkvæmdagleði minni. Það er auðvitað fjarri því að svo sé.
Nú er von til að úr fari að rætast. Hvenær nákvæmlega - hvur veit?
Ungarnir flugu kannski úr hreiðrinu, en ýmislegt það sem varð til vegna tilveru þeirra, er enn að finna í Kvistholti. Nóg er plássið og ekkert yfir því að kvarta, en hitt er annað mál að með breyttum lífsstíl og áhugamálum foreldranna hafa þeir hafið, í vaxandi mæli, innrás í þær vistarverur sem áður hýstu afkvæmin. Um þessar mundir stendur yfir niðurpökkun á ýmsu því sem telja verður eign afkvæmanna þar til þau ákveða annað.
Nú hefur eitt herbergjanna hlotið þann heiður að breytast í vinnustofu fD. Þar verða væntalega göldruð fram hin merkustu verk. Ýmislegt af því sem þar var fyrir, aðallega eigu þess sem nú gistir ástralska stórborg, er komið ofan í kassa til frekari flokkunar síðar.
Áfram heldur lífið, það breytist smám saman, en verður aldrei leiðinlegt.


Ekki verður á það logið
okkar ljúfa líf.

16 ágúst, 2008

Sjálfhverft fólk

Það er óvenju langt síðan ég heiðraði síðast þessa síðu með andríkum pælingum mínum og því er það, að ég hyggst hér stuttlega takast á við eitt mesta mein nútímans og afsprengi hins kapítalíska hugsunarháttar sem einkennir bæði umræðu í samfélaginu, stjórnmál, viðskiptalíf, menntakerfið og að öðru leyti daglegt líf þess fólks sem landið byggir. Þennan hugsunarhátt er hægt að draga saman í einn frasa: 'Skítt með hina'.
Ismarnir tveir
Hin kapítalíska hugsun byggir á því að einstaklingurinn eigi að fá að njóta sín til orða og athafna. Frelsi hans á að vera óskorað til að skapa sér það umhverfi sem honum hugnast best. Þessi hugsun gerir síður ráð fyrir að það þurfi að taka tillit til samferðamanna, sérstaklega ef það hefur í för með sér skerðingu á persónulegu frelsi eða markmiðum manns sjálfs.

Það var sagt um kommúnismann, að hann hafi ekki gengið upp vegna ófullkomleika mannsins, sem er auðvitað hárrétt. Hugsjón kommúnismans er/var hinsvegar harla ágæt fræðilega. Ef maður skoðar bara orðið sjálft: 'kommúnismi', þá er það t.d. augljóslega skylt ensku orðunum 'community' (samfélag), 'communion' (altarisganga). Kommúnismi er, í samræmi við þetta: 'samfélagshyggja' . Merkingin felur alltaf í sér, að um er að ræða eitthvað sem fólk gerir saman. Vandi mannskepnunnar er hinsvegar að hún býr ekki yfir nægilegum þroska til að tileinka sér þau grundvallarmarkmið sem hugsjónin um kommúnismann byggðist á. Í stað þess að jafningjar ynnu saman að einhverjum markmiðum þróaðist kommúnískt samfélag út í valdasöfnum ákveðinna einstaklinga, með þeim afleiðingum að sumir urðu jafnari en aðrir.

Þegar kommúnisminn beið svo skipbrot í framhaldi af þessari þróun, breyttist hugtakið í skammaryrði. Við tóku öfgarnar í hina áttina; kapítalisminn varð allsráðandi og er nú á góðri leið með að stefna vestrænum samfélögum í þrot. Kapítalisminn er nefnilega fjarri því að vera fullkomið fyrirbæri heldur. Orðið 'kapital' þýðir fjármagn og 'kapitalismi' er því 'fjármagnshyggja'. Fjármagnið á að ráða og þar af leiðandi hljóta það að vera þeir sem eiga fjármagnið, sem fara með völdin. Áherslan færist af hugsuninni um samfélagslega hugsun og ábyrgð, yfir í það að hver skuli vera sjálfum sér næstur. Nokkurskonar frumskógalögmál ríkir. Kapítalismi og lýðræði fara ákaflega illa saman.

Hér fyrir ofan reyndi ég að búa til ramma utan um það sem fylgir. Kannski dálítið töff lesning.

Birtingarmyndir kapítalisma
Afleiðingar kapítalismans blasa við í þjóðfélaginu hvert sem litið er og mér finnst svo komið að ekki verði hjá því komist að staldra við og velta fyrir sér hvort þetta fyrirbæri sé okkur til góðs.

Ég lít svo á, að kapítalisminn sé á góðri leið með að leysa upp vestræn samfélög. Ég vil tína til nokkur dæmi um þetta:

1. Það vilja allir verða ríkir af efnislegum gæðum. Í krafti þess að fólk horfir upp á einstaklinga fljúga upp á stjörnuhimininn í krafti fjármagnsins og einstaklingsfrelsisnins, langar það þangað auðvitað líka. Það þráir hið ljúfa líf ríkidæmisins og freistast til að grípa til örþrifaráða til að ná þangað. 'Mig langar í skútu eins og Jón Ásgeir og þotu eins og Björgólfur Thor'. Vandinn er bara sá, að sá sem stundar launavinnu á enga möguleika á að vinna sér inn margumræddar 62 milljónir á mánuði, ekki einu sinni 400 þúsund. Þá koma bankaeigendurnir til skjalanna og bjóða fólki lán til að láta draumana rætast, og tryggja þannig eigin hag enn frekar.

Draumar hins venjulega fólks eru nú sem óðast að breytast í martröð þegar kemur að skuldadögum.

2. Stjórnmálin eru sem óðast að fara í vitleysu þar sem hin kapítalíska hugsun segir að frelsi einstaklingsins til orða og athafna skuli vera óskorað. Einstaklinginn þyrstir ekki bara í efnisleg gæði, heldur einnig völd. Því er það, að hugsunin snýst frekar um persónuleg völd en það sem kemur samfélaginu vel. Það þarf nú varla að skýra þetta með öðrum hætti en að vísa í þann fáranleika sem birtist okkur nótt sem nýtan dag í fjölmiðlum, um stjórn höfuðborgarinnar. Þetta á eftir að versna, að mínu mati.

3. Fjölskyldan er fyrirbæri sem stefnir á vonarvöl. Frelsi einstaklingsins til orðs og athafna er óskorað. Einstaklingshyggjan nær til foreldranna sem eru ekki tilbúnir til að skerða frelsi sitt til að koma börnum sínum til manns. Hjón eru ekki tilbúin til að skerða frelsi sitt sem einstaklinga til að þola hversdagsleika daglegs lífs og þær málamiðlanir sem samlíf með makanum krefst.

4. Við börnunum blasir hið kapítalíska þjóðfélag. Þeim liggur á að verða rík eftir að alast upp við hinar yfirborðskenndu aðstæður nútímans. Í þeim gerviheimi sem blasir við þeim í fjölmiðlum og í netheimum er ekki til neinn hversdagsleiki. Það þarf að vera aksjón. Það þarf alltaf eitthvað að vera að gerast. Aðrir hagsmunir skulu víkja fyrir frelsi einstaklingsins til að gera nákvæmlega það sem hann langar til. Auðvitað er það áyrgð foreldranna að sjá til þess að börnin alist upp við heilbrigðar aðstæður, en þær aðstæður eru á hverfanda hveli.

5. Skuldbindingar sem fólk gengst undir fá stöðugt minna vægi og víkja eins dögg fyrir sólu, ef þær stangast á við stundarhagsmuni. Einstaklingur sem t.d. skuldbindur sig, af eigin frumkvæði, til að taka þátt í einhverju uppbyggilegu starfi, t.d. kórstarfi, lætur þær skyldur sem það hlýtur og á að hafa í för með sér, víkja án þess svo mikið sem blikka auga, þrátt fyrir að hann eigi að geta gert sér grein fyrir að fjaravera hans hefur áhrif á félaga hans.

6. Fjórða valdið, fjölmiðlarnir bera mikla ábyrgð á stöðu mála. Ég vil meira að segja ganga svo langt að þeir séu það vald sem ræður hvað mestu um það hvernig samfélagið er að þróast. Í krafti valds síns móta þeir umræðuna og andann meðal manna. Það voru þeir sem töluðu þjóðina upp í takmarkalausa bjartsýni á útrásartímanum og það eru þeir sem eru nú að tala þjóðina niður í þunglyndi kreppunnar.
Svartnætti?
Sem betur fer er ég farinn að greina breytingar. Kapítalisminn er kominn að fótum fram - framundan hlýtur að vera betri tími með blóm í haga..

Til hamingu með að hafa lesið í gegnum þetta. :)


Það er nauðsynlegt að nefna þessa hluti
því nafni sem að hæfir, það er satt.
Lifi byltingin

10 ágúst, 2008

W - O - R - X 3


... þetta er framhald og lokahluti frásagnar af eldhúsborðsslípunarævintýrinu. Mér þykir við hæfi, ekki síst til að mynda tengingu við síðasta hluta, að birta mynd af töskunni fínu sem inniheldur juðarann góða.

Í upphafi skyldi endinn skoða
Þegar búið var að festa kaup á öllu því sem þurfti til að hægt væriað framkvæma verkið sem hér var um að ræða, var ekkert annað að gera en skella sér heim og hefjast handa. Ég verð að vísu að viðurkenna að þetta verk óx mér nokkuð í augum og þessvegna var það ekki fyrr en daginn eftir að ég lét til skarar skríða, búinn að hugsa verkið frá upphafi til enda og freista þess að sjá fyrir mér hvernig hver verkhluti fyrir sig skyldi framkvæmdur. Þá var ég auðvitað þegar búinn að opna töskuna með juðaranum góða og skoða hann í bak og fyrir, kynna mér vel hvernig sandpappírinn skyldi festur á hann og lesa handbókina sem að sjálfsögðu fylgdi, bæði á ensku og dönsku.

Allt var sem sagt klárt að því er talið var. Allt fjarlægt af eldhúsborðinu og það hreinsað vandlega, ef þar skyldu leynast fitublettir. Ég tók sandpappír nr. 120 og skellti á juðarann, stakk honum í samband og tók mér stöðu. Það er skemmst frá að segja, að eins og ég hafði reiknað með fór tækið í gang eins og ekkert væri eðlilegra og verkið hófst: kubbur juðarans snerti lakkborið eldhúsborðið. Það varð ekki aftur snúið. Umsvifalaust fór lakkið að mattast og ég hvarf smám saman inni í heim juðarans, þar sem ekkert var til nema borðplatan sem smám saman tapaði lakklaginu sem hafði hlíft henni frá öndverðu.

'Ég held að þú ættir nú að fara út og fá þér frískt loft áður en þú kafnar'.
fD stóð í eldhúsgættinni þegar ég leit upp, vart greinanleg í gegnum mistrið. Þarna varð mér ljóst, að pokinn undir 'juðið', sem að sjálfsögðu var áfestur við græjuna gleypti það ekki allt í sig, heldur dreifðist ákveðinn hluti þess burt frá juðsvæðinu og út um allt hús. fD hafði hlaupið til þegar ljóst var hvert stefndi og lokað öllum dyrum til að takmarka skaðann, en úr því sem komið var, var ljóst að framundan var afar ánægjuleg vinna við að hreinsa hátt og lágt. Úr því sem komið var, ákvað ég að grípa ekki til neinna aðgerða til að koma í veg fyrir að rykið dreifðist frekar þar sem skaðinn var skeður hvort sem var og þar að auki er skemmtilegra að þrífa þegar árangurinn er auðsýnilegur.


Þetta er bara vinna
Juðunin hélt áfram og henni lauk um 10 tímum síðar. Lakk er ótrúlega hart efni. Það tók sérlega langan tíma að slípa fleti sem voru óaðgengilegir juðaranum góða. Þar var gripið til þess ráðs að nota sandpappír nr. 90, en sá hluti verksins kallaði fram sprungnar blöðrur á 4 fingurgómum. En, verkinu lauk og framundan áburður eðalolíunnar, sem getið er um í fyrsta hluta.
Hún fór á í tveim umferðum með slatta klukkutíma milllibili og það verður ekki annað séð en hún ætli að fara fram úr væntingum mínum.


Nú sitjum við uppi með þetta fína, nýslípaða og olíuborna eldhúsborð. Þar að auki öflugan og traustan juðara í tösku, sem bíður næstu verkefna (nú þegar hafa sjónir beinst að borðum og skápum vítt og breitt um húsið, sem þarfnast yfirhalningar), nánast fulla dós af eðalolíu sem sömuleiðis virðist geta komið sér vel á hin og þessi húsgögn.


Það er staðið upp frá góðu verki. Svona verk eru alltaf skemmtilegust eftir á.


Juðaranum jafnað ekki verður

við jarðýtu' eða annan slíkan grip....

08 ágúst, 2008

W - O - R - X 2


...þetta er sem sagt framhaldssaga fyrir þá sem ekki vita betur.


Ákvörðun tekin um að kaupa juðara

Eðalolian var klár og næst lá fyrir að kanna verð og gæði tækja sem meðal fagmanna kallast juðarar. Ég var búinn að komast að þeirri niðurstöðu, að við Benedikt byggjum of fjarri hvor öðrum til að líklegt væri að ég færi af stað til að fá lánaðan juðarann hans.


Hvað er juðari?

Ef einhverjir gera sér ekki fyllilega grein fyrir því hvað 'juðari' er þá skal það upplýst, að hann er, í sem stystu máli, samsettur úr tveim hlutum: annars vegar mótornum sem er í hylki sem er ekki ólikt því sem margir þekkja af rafmagnsborvélum, en hinsvegar af nokkurskonar kubbi sem festur er við mótorinn neðanverðan. Þessi kubbur getur verið af ýmsum stærðum og gerðum, t.d. 10x19cm að flatarmáli. Mótorinn snýr síðan einhverskonar græju sem alveg eins má kalla hjámiðju sem veldur því að kubburinn snýst í örlitla hringi á afar miklum hraða. Nú, neðan á kubbinn er festur sandpappír (grófleikinn fer eftir verkinu sem vinna skal). Juðarinn er notaður til að pússa eða slípa ýmsa fleti, í mínu tilviki til að fjarlægja gamla lakkið af eldhúsborðinu.


Það er list að kaupa juðara

Juðarar í eðalolíubyggingavöruversluninni reyndust annaðhvort of dýrir til að verjandi gæti verið að kaupa þá í ljósi umfangs þess verks sem framundan var, eða þá of skrýtnir í laginu, eða of litlausir, eða með of ólögulega kubba. Það varð því úr, að að leita í hina byggingavöruverslunina á höfuðstað Suðurlands (sú þriðja er farin á hausinn - kreppan, jú nó). Þar tók við heilmikil athöfn þegar enn einn afgreiðsluunglingurinn leiddi okkur um alla verslunina í leit að hentugum juðara. Mér fannst það nokkuð illskiljanlegt að stílistar þessarar byggingavöruverslunar skildu setja juðarana svo vítt og breytt sem raunin var (líklega eru stílistar ekki 'in' lengur, kreppan jú nó). Það var að öðru leyti það sama að segja um juðarana sem þarna voru til sölu og í fyrri byggingavöruversluninni - þangað til............


ég fann W-O-R-X
Þarna var hann í opinni, svartri og glansandi tösku (sem fylgdi með í kaupunum) og ég þurfti sannarlega ekki afgreiðsluunglinginn til að segja mér að þetta væri góður juðari og ekki varð glæsilegur liturinn til þess að minnka aðdráttaraflið. Meira að segja gerði fD ekki athugasemdir við að fest yrðu kaup á þessu undratæki.
Það var ekki aftur snúið - ákvörðun var tekin - W-O-R-X skyldi verða minn. Þegar valinn hafði verið hentugur sandpappír varð samkomulag um kaup á tveim ljósum sem lengi hefur vantað í Kvistholt (bara þetta ætti að vera vísbending þeim sem til þekkja um hve markverður fíni juðarinn var).

Til nánari útlistunar fyrir áhugasama á juðaranum fína, læt ég fylgja hér með upplýsingar framleiðanda:

  • 1/3 Sheet Finishing SanderModel - WT640K The W-O-R-X® professional finish sander is a durable tool that is built to last.
  • All aluminum base and powerful 2.4 amp motor for peak performance.
  • Dust sealed switch.
  • High-efficiency dust collection system keeps your work surface cleaner.
    Features
  • Variable speed with pre-selection and lock-on switch
  • Double paper attachment system, adhesive backed or quick clamp, secures all types of paper
    3/32" orbit for high material removal on wood
  • Ergonomic front handle with soft overmold grip
  • Industrial 3-5/8" x 7-1/8" aluminum base for exact flatness and long lasting durability

    Specifications

    Volts 120V ~ 60Hz
    Power input 2.4Amp
    No-load speed 6000 - 12000opm
    Sanding sheet 7-1/4" x 3-3/4" for PSA paper
    Orbital diameter 3/32"
    Machine weight 3.5lbs (1.6Kgs)
    Base size 3-5/8" x 7-1/8"
640
Ef einhver man eftir PS_P640, þá vísa ég til þessarar sömu töfratölu, sem einmitt er að finna í lýsingu á W-O-R-X , hér fyrir ofan.

TILVILJUN.....?

Jafnvel eru góðir juðarar....

W - O - R - X 1

Það er ekki laust við að undanfari þessara skrifa sé orðinn nokkuð langur. Á vordögum var farið að nefna það að kominn væri tími til að pússa upp eldhúsborðið þar sem lakkið á því væri orðið lélegt. Vegna þess að ég er eins og ég er, þá hljóp ég ekki til - allt sumarið framundan með sól og blíðu. Ég myndi fá lánaðan juðarann hjá Benedikt einhvern daginn og drífa þetta af - ekki málið. Viðbrögðin kölluðu á hina venjulegu vantrú á því að verkið yrði nokkurntíma framkvæmt. Ég hef hinsvegar ávallt geymt það á bak við eyrað að borðinu þyrfti að sinna og þegar við blasti sú staðreynd að það væri farið að styttast í sumrinu og framundan afturhvarf til brauðstrits, þá seildist ég bak við eyrað og náði þar í þetta verkefni, en það hafði verið vel geymt og var ekkert farið að láta á sjá.

Það var síðan í einni kaupstaðarferðinni um síðustu mánaðamót að ég lét til skarar skríða.

Fyrsta skrefið fólst í því að fara í byggingavöruverslun til að kaupa lakk á borðið. Afgreiðslumaður var spurður hvaða lakk hann ætti sem best væri að nota á eldhúsborð. Hann benti á lakk, en naut ekki nægilegs trausts til að það lakk væri keypt umhugsunarlaust. Hann var ekki kominn af unglingsaldri og gat því lítið vitað um lakkgæði. Því varð það úr að fD tók upp símann á staðnum og hafði samband við fulltrúa fjölskyldunnar í málningarverksmiðjunni og óskaði eftir upplýsingum um hin bestu lökk sem peningara gætu keypt í verkefni af þessu tagi. Það stóð á svarinu, þar sem viðkomandi er varla kominn af unglingsaldri heldur, en hann kvaðst skyldu hringja aftur þegar hann væri búinn að ráðfæra sig við helsta sérfræðing málningarverksmiðjunnar í lakkmálum um málið. Það varð því úr að við biðum þarna í nokkrum rólegheitum í byggingavöruversluninni eftir símtalinu, sem kom nokkru síðar. Það var haft eftir sérfræðingnum að á eldhúsborð skyldi nota eitthvað það sem bæri nafnið Kjörvari 13. Eftir leit í byggingavöruversluninni fannst umrætt efni og reyndist það vera það sem kallað var: eðalolía, sem sagt ekki lakk, heldur olía. Ég var nú svo sem ekkert tilbúinn til að gleypa það hrátt, að það væri ekki lengur við hæfi að lakka eldhúsborð, en ég gerði það samt vegna þess að óbilandi traust var borið til sérfræðingsins í málningarverksmiðjunni. Meðfylgjandi er lýsing á eðalolíunni sem niðurstaða varð um að festa kaup á - þess ber að geta að hana er ekki hægt að fá í minni umbúðum en 1l - og ég sá það auðvitað í hendi mér, að það yrði líklegast umtalsverður afgangur þegar ég væri búinn að bera hana vel og vandlega á eldhúsborðið. Það er seinni tíma vandamál hvað gert verður við afganginn af eðalolíunni.
Næsta skref fólst síðan í því að verða sér úti um tæki til að fjalægja gamla lakkið af borðinu.

Ég hef ákveðið, af tillitsemi við lesendur að fjalla um það í W-O-R-X 2.
W-O-R-X 3 fjallar síðan um aðgerðina sjálfa.

KJÖRVARI 13 Eðalolía
Lýsing
Gerð:
  • KJÖRVARI 13 Eðalolía er þunnfljótandi viðarolía gerð úr sérvöldum hráefnum.

  • KJÖRVARI 13 smýgur vel inn í viðinn og veitir honum góða vatnsvörn. Notkunarsvið:

  • KJÖRVARI 13 Eðalolía er einkum ætluð á garðhúsgögn, harðviðarpalla og aðra viðlíka fleti utanhúss. Bestur verður árangurinn ef viðurinn er varinn algjörlega óveðraður.

  • Litir: KJÖRVARI 13 Eðalolía er fáanleg í tekklit og einnig glær sem má lita í mikinn fjölda lita.
    Leiðbeiningar:

  • Efnismeðferð:

  • KJÖRVARA 13 Eðalolíu má bera á flötinn með pensli, púða eða sprautu.

  • Varúðarflokkur: 2 - 1.

  • Þynnir: MÍNERALTERPENTÍNA.

  • Hreinsun áhalda: MÍNERALTERPENTÍNA.
    Eðliseiginleikar

  • Þurrktími: Um 5-6 klst.við 20°C.

  • Yfirmálun: Eftir 6-8 klst., breytilegt eftir aðstæðum.

  • Þykkt (flæðiseigja): Um 15 sek. (DIN 4; 25°C).

  • Eðlismassi: Um 0,88 g/ml (25°C).

  • Þurrefni: Um 42% af massa eða um 36% af rúmmáli (reiknað).

  • Efnisnotkun: Um 0,06-0,10 l/m2 í umferð, breytilegt eftir gleypni flatar og aðstæðum.




Olía er til alls fyrst

04 ágúst, 2008

Ákveðinn hroki

Í gamla daga var það ævintýri að fara upp að Gullfossi og Geysi. Þá lá vegurinn að Gullfossi austan við Gýgjarhólskot (nær Hvítá, altso) og var lagður eftir landslaginu og þessvegna í hólum og hæðum þannig að ef sá gamli ók á sæmilegum hraða á LandRovernum þá fékk maður í magann þegar ekið var fram af hæðarbrún. Þegar síðan nálgaðist fossinn var úðinn frá honum það fyrsta sem sást í fjarskanum. Þetta hafði alltaf sömu áhrifin á ungan svein: óttablandna tilhlökkun, óttinn stafaði sennilega af óendanlegri virðingunni fyrir þeim krafti sem náttúran opinberaði í þessu stórfenglega vatnsfalli. Þegar síðan var ekið niður brekkuna heim að veitingaskálanum sem þá var þarna, blasti fossinn við, því meir sem nær var komið. Ég reikna ekki með að ég hafi í fyrstu ferðunum látið mig hafa það að ganga stíginn niður að fossinum, en eftir því sem árunum fjölgaði hætti virðingin að vera jafn óttablandin og ég lét mig hafa það að fara niður stíginn og alla leið, en alltaf með einhverri ónotatilfinningu, hugsandi um það hvernig það væri nú að detta í fossinn.

Eftir að skoðun náttúruperlunnar var lokið var komið að því að njóta veitinga í skálanum, en þar var hægt að fá rjómapönnukökur og súkkulaði og gengilbeinur með með skuplur og hvíta svuntu báru gestunum kræsingarnar.

Svo liðu árin og veitingaskálinn var rifinn og gengilbeinurnar hurfu á braut.

Mörgum árum seinna tókst eftir japl og jaml og fuður að fá leyfi til að byggja smáhýsi með upplýsingum um fossinn og sögu hans ásamt snyrtiaðstöðu. Nú voru komin til sögunnar ráð og nefndir sem vildu helst ekki sjá nein mannanna verk í nágrenni við náttúruperlurnar. Það reyndist því þrautin þyngri að fá leyfi til að byggja einhverskonar veitingaaðstöðu þegar óskir fóru að koma fram um það. Það hafðist þó og nú er þarna komin hálfgerð Kringla. Á sama tíma og ég er ánægðir með að framtakssamt fólk í Tungunum nýtur góðs af komu hinna hundruða þúsunda ferðamanna sem koma að Gullfossi á hverju ári þá er einhver strengur í mér sem myndi frekar vilja hafa fossinn eins og hann var. Það er voðalega lítið ævintýri lengur að koma þarna uppeftir, þar sem gestir ganga eftir manngerðum stígum í átt að hentugum útsýnisstað yfir fossinn, sem hefur þar að auki breyst mikið í gegnum árin.

Þegar ég fór síðan að fara að fossinum síðar og með öðru fólki fannst mér að í þeim ferðum væri ég sá sem hefði reynsluna, en væri svo sem tilbúinn að veita þeim hlutdeild í henni af lítillæti mínu.

Af einhverjum ástæðum eru ferðirnar að Geysi ekki jafn sterkar í minningunni þó vissulega hafi Strokkur alltaf staðið fyrir sínu.

Það er ekki einu sinni svo lengur að ég geti verið hrokafullur gagnvart samgestum mínum við þessar alræmdu náttúruperlur okkar Tungnamanna. Þegar ég stend við hliðina á fólki sem hrópar upp yfir sig: "Ó, mæ Gad!, WOW, wonderfúll, ðat's djast greit". Þetta er bara einhvernveginn ekki sama tilfinningin, en það er líklega bara vegna þess, að ég er orðinn eldri og túristarnir fleiri.

Tilefni þessa er auðvitað yfirreið okkar Kvisthyltinga um náttúruperlurnar nú um þessa verslunarmannahelgi. Ég hafði mestan áhuga á að ná sæmilegum myndum af regnboganum yfir Gullfossi og bólunni á Strokki.
Hluti af þessari ferð átti sér stað á Flúðum, þar sem gestum varð boðið að fylgjast með traktorstorfærukeppni. Ég hef nú ekki lagt í vana minn að ausa hrósi yfir Hreppamenn, en því verður ekki neitað að þeir eiga hugmyndaríkt fólk og hefur tekist að byggja upp nokkuð skemmtilega umgjörð um þessa helgi. Fyrir utan torfærukeppnina héldu þeir síðan furðubátakeppni í gær, en ekki lögðum við leið okkar þangað.

Fleiri myndir frá torfæru og náttúruperlum er að finna á myndasíðunni.




Gullfoss var Geysi fremri

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...