06 október, 2008

Næst er það bara Rotterdam

Ég hef fengið ákúrur fyrir að geta ekki um það í tengslum við helgarafrekin, að á meðan fD ásamt 4 öðrum á svipuðu reki, voru að mála miðbæ Reykjavíkur rauðan, með þeim afleiðingum, m.a., að þeim var hent út af veitingahúsi (jæja - allavega einni þeirra), þá skelltum við líffræðingurinn okkur á málningarboltakeppni áður en haldið var í kvikmyndahús til að njóta nýjustu afurðar íslenskrar kvikmyndaframleiðslu, Reykjavík-Rotterdam
Hér er um að ræða glettilega vel gerða mynd um efni sem vel hæfir þeim tímum sem við lifum nú. Þegar fólk stendur frammi fyrir aðstæðum af þessu tagi er allt eins líklegt að það freisti þess að bjarga sér og sínum með því að skreppa til Rotterdam. 

Verum nú samt bjartsýn. 
Okkur er lofað uppgjöri 
- en það er nú svo sem búið að lofa okkur svo miklu svo lengi................

Er' í Rotterdam ráðin sem að duga?
Er Reykjavík nú fyrir bí?
Mun kapítal kannski þig buga?
Ég kann ekki' að svara því.  

05 október, 2008

Ég - Pollýanna?

Þessa dagana erum við, þessir venjulegu landsmenn, hvattir til samstöðu um að bjarga efnahagslífinu. Við erum hvött til bjartsýni. Við erum hvött til að sýna biðlund. 

Á sama tíma ganga sögurnar, ekki bara í gegnum fjölmiðla, heldur einnig manna á milli um að næsti banki sé að fara yfir um, að framundan sé matar- og olíuskortur, að það sé engin leið út úr ógöngunum nema reka Seðlabankastjórnina og ef ekki hana þá þurfi að losna við ríkisstjórnina.

Þessi þjóð er látin hanga í óvissu, en ekki meiri óvissu en svo að allt bendir til að við þurfum að taka á okkur skellinn af óendanlegri lántöku útrásarhetjanna. Er það svo, að í stað þess að þær selji nú eignirnar sínar í útlöndum (fá þar með að eiga þær áfram) þá eigi lífeyrissjóðir okkar að koma til að skera þær úr snörunni?

Ég á, af einhverjum ástæðum, erfitt með að sýna samstöðu með neinum nema þeim sem eru í sömu sporum og ég. Hetjurnar verða svo bara að sýna hver annarri samstöðu.  Ég er svo vondur maður núna, að ég tel að þeir sem bera ábyrgðina, axli nú samfélagslega ábyrgð og selji eignirnar sínar í útlöndum og komi með peninginn heim. 

Hagfræðingur nefndi það í Silfri Egils í dag, að niðurstaða Norðmanna fyrir einhverjum árum, við svipaðar aðstæður, hafi verið að sækja menn til saka og dæma þá í fangelsi. Það reyndist eina leiðin til að sætta þjóðina.

Það verður gaman að sjá hve sáttfús íslenska þjóðin reynist. Ég er ekki sérlega sáttfús þessa dagana.

Jæja, svo er nú það.


Haustlitir, gellur og málningarkúlur



Ég gæti hér, í löngu máli, fjallað um atburði þeirrar helgar sem nú er að líða hjá. 

Í umfjöllun um haustlitaferð og kjötsúpudásemdir starfsmannafélags ML s.l. föstudag, gæti ég sagt frá því sem gerðist bak við hól. Það ætla ég ekki að gera

Í umfjöllun um gullaldargelluferðina til höfuðborgarinnar í gær gæti ég fjallað um þátt 5 miðaldra kvenna í óeirðum í miðbænum í gærkvöld. Það ætla ég ekki að gera.

Í umfjöllun um þátttöku mína í málningarkúluslag í höfuðborginni í gær gæti ég fjallað um það þegar maður drap mann, en kúlan sprakk ekki og maðurinn drapst eða drapst ekki. Það ætla ég ekki að gera.

Mig hálf klæjar í fingurna að skrá þessar frásagnir með mínum hætti, en  í ásláttarnámskeiðinu mínu bíður verkefni, sem ég er að verða alltof seinn með. Þar fyrir utan sýður á mér vegna þess fáránleika sem yfir þjóðina gengur þessa dagana. Ég vísa á umfjöllun mína um blessaðan kapítalismann fyrir nokkru.

Ég vona að rætist úr þessu öllu, bráðlega.

Með bjartsýni berjumst við áfram
og bráðum skín sólin á ný.

04 október, 2008

Hvenær gýs?


Frægasta eldfjall landsins að baki einum merkasta sögustaðnum. Hvort gýs fyrr?

Öfl munu berjast og úr djúpinu rísa,
eða eflist vor dáð?

01 október, 2008

90/II



Benedikt hafði fengið það hlutverk að tryggja sómasamlega afmælismáltíð. Því var haldið að Geysi í framhaldi af Laugarásferðinni. Þarna var nú bara um börn og tengdabörn að ræða ásamt gamla unglingnum, alls 11 manns. Það varð niðurstaða, að gera þetta ekki umfangsmeira þessu sinni. Ræðum það nánar á aldarafmælinu.
Eftir kampavínsbragð og misvelheppnaðan afmælissöng (uss, uss) og æfingu í að mæla á erlendum tungum, hósfst þriggja rétta glæsimáltíð, þó ekki fyrr en ég og Benedikt höfðum komist að þeirri niðurstöðu að hann skyldi vera veislustjóri, sem búast mátti við að væri hreint ekki einfalt mál.
Þá kom það auðvitað í ljós að ekki var um vana menn í veisluhöldum að ræða, með því að okkur láðist að panta viðeigandi vínföng með veislunni. Það fór þó allt vel að lokum.
Undir borðum voru auðvitað fluttar merkar, tímamótaræður afmælisbarninu til heiðurs, en það svaraði síðan fyrir sig, fullum hálsi.
Allt fór þetta hið besta fram, enda mikið sómafólk á ferð.


Það var bæði jákvætt og neikvætt að við skyldum hafa hótelið algerlega fyrir okkur þetta kvöld. Jákvætt vegna þess að við gátum haft eins hátt og við vildum og haldið eins margar og merkar ræður og við vildum, án þess að trufla aðra gesti. Þar að auki var ávallt þjónn til reiðu þegar einhvers var óskað.
Neikvætt vegna þess að við höfðum það lítið eitt á tilfinningunni, með réttu eða röngu, að þjónarnir tveir og kokkurinn biðu eftir því að við lykjum okkur af svo þeir kæmust heim í háttinn. Réttirnir þrír voru bornir í okkur, ótt og títt, en ávallt að mikilli kurteisi, en á erlendum tungum.

Ágætt kvöld í alla staði.

Að Geysi var gengið að borði


30 september, 2008

90/I


Það ætti ekki að hafa farið fram hjá þeim sem líta hingað inn við og við að gamli unglingurinn var níræður í gær. 
Hann var búinn að skipuleggja þennan merkisdag með sjálfum sér eins og hans er von og vísa; hugðist halda í austurveg að hitta gamla kunningja. Þessum fyrirætlunum hans var rústað með því að við Benedikt, Kirkjuholtsbóndi, fengum það hlutverk að tryggja að um dagamun yrði að ræða. 
Þessi fyrri hluti umfjöllunar um þennan dag fer í að segja lítillega frá fyrri hluta dagskrár sem skipulögð var, eða ekki skipulögð. 
Það var hugmynd afmælisbarnsins, að fara í bíltúr, ekki langan, heldur bara um Laugarás og næsta nágrenni. Hann hafði þá ekki mikið ferðast um svæðið undanfarin ár og ekki heldur ég eða fD, sem vorum þarna með í för.

Það skipti engum togum að haldið var í bíltúrinn sem reyndist, þegar upp var staðið, hafa tekið einn og hálfan klukkutíma. Fyrst var ekið um Vesturbyggð, framhjá Skyrklettum og upp Holtagötu, alla leið að Ásmýri. Því næst var haldið yfir Iðubrú, en snarlega stöðvað þegar sást til hegra (gráhegra?) sem sat á bakkanum hinumegin árinnar. Hann var myndaður í gríð og erg (íþróttastillingin á EOS400D). Þá var það sumarbústaðhverfið Iðumegin, með nýja sýn á Laugarás, en auðvitað voru einhverjir veiðiréttareigendur búnir að girða það af eins og herstöð. Það var keyrt um hlaðið á Iðu þar sem Magga var að dunda sér utandyra. Hún tók loforð af þeim gamla að hann kæmi í kaffi fljótlega.

Þessu næst var Höfði, þar sem staðið hafa yfir miklar byggingaframkvæmdir undanfarna mánuði sem tengja má að nokkru leyti uppgangi í íslensku efnahagslífi undanfarin ár (við þessar aðstæður fjalla ég ekki frekar um uppganginn þann hér, en mun væntanlega gera það sérstaklega innan skamms).
Það er fallegt útsýni að Laugarási frá Höfða auk þess sem sést víða um efri hluta Biskupstungna og út í Hrepp.

Haldið til baka í átt að Laugarási og Bæjarholt var næsti viðkomustaður. Þar er verið að byggja 4 einbýlishús í kreppunni. Eftir Dunkabraut lá leiðin síðan í Austurbyggð þar sem sjá má eitt ljótasta hús sem um getur (í mínum huga), en það á þó í harðri samkeppni við annað í Bæjarholtinu að því er ljótleika varðar.

Ágætis ferð og upplýsandi um það sem þó hefur gerst í Laugarási undanfarin ár. Sá aldni var reyndar orðinn nokkuð órólegur undir lok ferðar þar sem hann átti eftir að taka sig til fyrir útstáelsi kvöldsins. Um það verður fjallað í kafla með nafnið 90/II.


Allt er ljúft í Laugarási
logn þar sérhvern dag.
Sama þó úr suðri blási
sést þar aldrei ...
(æ, ég nenni ekki að klára þetta mál, enda þarf þess ekki þegar staður þessi er annars vegar.)


 

28 september, 2008

Grand finale


Það er ekki annað hægt að segja en löngu og farsælu starfi hafi lokið með stæl, eins og sagt er, á kveðjutónleikum Hilmars Arnar Agnarssonar í Skálholtskirkju í gær. Í sneisafullri kirkjunni fengu flytjendur og gestir að njóta sýnishorns af því sem sá sem kvaddur var hefur verið að vinna að í tónlistarmálum í Biskupstungum og á Suðurlandi öllu. Þá þakkaði Þrúða, í ávarpi sínu í upphafi tónleikanna, Hófý fyrir ómetanlegt framlag hennar í gegnum árin. Það var vel til fundið.

 Tónleikunum lauk ekki fyrr en úti á tröppum kirkjunnar, þar sem kórar og hljóðfæraleikarar sungu gestina út úr kirkjunni. Mér varð það á að hugsa, að ef til vill fæli sú sjálfsprottna og óæfða aðgerð í sér ákveðna túlkun á því, að nú sé kirkjan ekki lengur skjól fyrir starfsemi af þessu tagi, en sjálfsagt er það bara ekki fallega hugsað hjá mér.

Tónleikarnir sjálfir tókust sérlega vel, enda þátttakendur sér þess vel meðvitaðir að það var komið að ákveðnum leiðarlokum, í bili að minnsta kosti. Gestir, sem ég hitti, fundu vel fyrir þeirri blöndu af trega og gleði sem geislaði frá þeim sem fram komu.

Þakkir þeim sem komu og létu þannig í ljós þakklæti sitt fyrir uppbyggilegt starf Hilmars í Skálholti.

Að tónleiknum loknum eyddu þátttakendur kvöldinu saman á veitingahúsinu Klettinum.
 
Nú er nýr dagur, sem, eins og allir dagar, felur í sér fyrirheit um eitthvað annað. 

Ég tók nokkrar myndir á lokaæfingu í gærmorgun.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...