30 september, 2008

90/I


Það ætti ekki að hafa farið fram hjá þeim sem líta hingað inn við og við að gamli unglingurinn var níræður í gær. 
Hann var búinn að skipuleggja þennan merkisdag með sjálfum sér eins og hans er von og vísa; hugðist halda í austurveg að hitta gamla kunningja. Þessum fyrirætlunum hans var rústað með því að við Benedikt, Kirkjuholtsbóndi, fengum það hlutverk að tryggja að um dagamun yrði að ræða. 
Þessi fyrri hluti umfjöllunar um þennan dag fer í að segja lítillega frá fyrri hluta dagskrár sem skipulögð var, eða ekki skipulögð. 
Það var hugmynd afmælisbarnsins, að fara í bíltúr, ekki langan, heldur bara um Laugarás og næsta nágrenni. Hann hafði þá ekki mikið ferðast um svæðið undanfarin ár og ekki heldur ég eða fD, sem vorum þarna með í för.

Það skipti engum togum að haldið var í bíltúrinn sem reyndist, þegar upp var staðið, hafa tekið einn og hálfan klukkutíma. Fyrst var ekið um Vesturbyggð, framhjá Skyrklettum og upp Holtagötu, alla leið að Ásmýri. Því næst var haldið yfir Iðubrú, en snarlega stöðvað þegar sást til hegra (gráhegra?) sem sat á bakkanum hinumegin árinnar. Hann var myndaður í gríð og erg (íþróttastillingin á EOS400D). Þá var það sumarbústaðhverfið Iðumegin, með nýja sýn á Laugarás, en auðvitað voru einhverjir veiðiréttareigendur búnir að girða það af eins og herstöð. Það var keyrt um hlaðið á Iðu þar sem Magga var að dunda sér utandyra. Hún tók loforð af þeim gamla að hann kæmi í kaffi fljótlega.

Þessu næst var Höfði, þar sem staðið hafa yfir miklar byggingaframkvæmdir undanfarna mánuði sem tengja má að nokkru leyti uppgangi í íslensku efnahagslífi undanfarin ár (við þessar aðstæður fjalla ég ekki frekar um uppganginn þann hér, en mun væntanlega gera það sérstaklega innan skamms).
Það er fallegt útsýni að Laugarási frá Höfða auk þess sem sést víða um efri hluta Biskupstungna og út í Hrepp.

Haldið til baka í átt að Laugarási og Bæjarholt var næsti viðkomustaður. Þar er verið að byggja 4 einbýlishús í kreppunni. Eftir Dunkabraut lá leiðin síðan í Austurbyggð þar sem sjá má eitt ljótasta hús sem um getur (í mínum huga), en það á þó í harðri samkeppni við annað í Bæjarholtinu að því er ljótleika varðar.

Ágætis ferð og upplýsandi um það sem þó hefur gerst í Laugarási undanfarin ár. Sá aldni var reyndar orðinn nokkuð órólegur undir lok ferðar þar sem hann átti eftir að taka sig til fyrir útstáelsi kvöldsins. Um það verður fjallað í kafla með nafnið 90/II.


Allt er ljúft í Laugarási
logn þar sérhvern dag.
Sama þó úr suðri blási
sést þar aldrei ...
(æ, ég nenni ekki að klára þetta mál, enda þarf þess ekki þegar staður þessi er annars vegar.)


 

3 ummæli:

  1. Gaman að heyra af ferðinni með unglingnum. Sérstaklega að kallinn skyldi hitta á Möggu.
    Bíð spenntur

    SvaraEyða
  2. Flott að þetta var skemmtilegt hjá ykkur.. annars eru því miður nokkur "hús" í ásnum sem mega alveg fara eitthvað annað...

    SvaraEyða
  3. Ljúft var að aka um Laugarás
    líta af plöntum og húsum glás,
    sum voru bæði sæl og pen
    (sum voru fædd með bannsett slen)
    Já ljótt er víst margt á þeim litla stað
    ... og lamin nú verð - ég bóka það!
    *****************************

    Bloggskapur í hissan yfir að nokkur hlutur skuli ekki AL-fagur í fullkomleika sínum - í Laugarási.

    hihihihi...
    hiðorkveðillinn

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...