05 október, 2008

Ég - Pollýanna?

Þessa dagana erum við, þessir venjulegu landsmenn, hvattir til samstöðu um að bjarga efnahagslífinu. Við erum hvött til bjartsýni. Við erum hvött til að sýna biðlund. 

Á sama tíma ganga sögurnar, ekki bara í gegnum fjölmiðla, heldur einnig manna á milli um að næsti banki sé að fara yfir um, að framundan sé matar- og olíuskortur, að það sé engin leið út úr ógöngunum nema reka Seðlabankastjórnina og ef ekki hana þá þurfi að losna við ríkisstjórnina.

Þessi þjóð er látin hanga í óvissu, en ekki meiri óvissu en svo að allt bendir til að við þurfum að taka á okkur skellinn af óendanlegri lántöku útrásarhetjanna. Er það svo, að í stað þess að þær selji nú eignirnar sínar í útlöndum (fá þar með að eiga þær áfram) þá eigi lífeyrissjóðir okkar að koma til að skera þær úr snörunni?

Ég á, af einhverjum ástæðum, erfitt með að sýna samstöðu með neinum nema þeim sem eru í sömu sporum og ég. Hetjurnar verða svo bara að sýna hver annarri samstöðu.  Ég er svo vondur maður núna, að ég tel að þeir sem bera ábyrgðina, axli nú samfélagslega ábyrgð og selji eignirnar sínar í útlöndum og komi með peninginn heim. 

Hagfræðingur nefndi það í Silfri Egils í dag, að niðurstaða Norðmanna fyrir einhverjum árum, við svipaðar aðstæður, hafi verið að sækja menn til saka og dæma þá í fangelsi. Það reyndist eina leiðin til að sætta þjóðina.

Það verður gaman að sjá hve sáttfús íslenska þjóðin reynist. Ég er ekki sérlega sáttfús þessa dagana.

Jæja, svo er nú það.


3 ummæli:

  1. Ég hugsa að æði margir séu sammála þér Páll minn Skúlason.
    Ég er sennilega í hinum helmingi þjóðarinnar sem geri eins og skjaldbakan. Dreg höfuðið inn undir skelina og bíð þess að storminn lægi.
    Finnst sem það hafi sáralítil áhrif hvað svo sem ég geri - enda löngu búinn að missa alla tiltrú á pólitíkusa - og bankastjóra.

    SvaraEyða
  2. Ég skil einmitt ekki af hverju þessir bjánar tíma ekki að selja einhverjar eignir sem þeir hafa ekkert með að gera til að reyna þá að bjarga því að skuldsetja þessa blessuðu þjóð alveg upp í topp - sem að allt kemur til alls, er jú þeim sjálfum að kenna!

    Þannig get ég ekki verið annað en sammála leið norðmanna :)

    Annars er örugglega bara fínt að vera fíflin í ríkisstjórn og seðlabankanum sem eru bara andskotans áskrifendur að laununum sínum og vita ekki hvað þau eru að gera..

    SvaraEyða
  3. Greyið Glitnir- ósköp var að vita!

    Hjá Glitni ég grét hérna forðum
    og grátbað með svofelldum orðum:
    "é'r heiðarleg frú
    en hef bara nú,
    hreint aldeilis ekkert á borðum".

    Þeir reiknuðu, ráðdeildarsamir
    réttsýnir, þjónustuframir
    "ég ætti nóg
    þótt ég ætti ei skó"

    .... og sögðu hirðkveðlinum að halda áfram að standa í skilum; bankinn gæti ekki lækkað afb. Ég (og hér er brandarinn!!) ætti sko víst fyrir afborgununum og hefði sko SAMT 35 þús til að lifa af...

    Og nú finn ég svo til með aumingja Glittniri!! hihihih
    Bloggskapur um fjárglæfra hirðkveðilsins

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...