12 október, 2008

Lítil svör við 2 stórum spurningum

Ekki er það svo að ég þykist vita svör við vandamálum heimsins þó ég vilji hafa skoðun á þeim. Meðal athugasemda við síðustu færslu var varpað fram 2 spurningum:

..........unga fólkið sem á erfitt með að taka ábyrgð á sjálfu sér. Það er alvarleg þróun sem gæti orðið andsk.. erfiðara að snúa við. Hvað telur þú vera til ráða?
Foreldrar, margir hverjir, vita hreint ekki hvað felst í því að eignast barn og ala það upp (nema þá helst líffræðilega). Það er ekki þeim kenna. Barnauppeldi er ekki meðfætt fyrirbæri. Gegum árin og aldirnar lærði fólk þetta af foreldrum sínum, öfum og ömmum. Uppeldi nútímaunglings er fjarri því að vera einfalt mál, en kjarninn í því hlýtur alltaf að vera, að mínu áliti, að búa til tiltekinn ramma utan um fjölskylduna þar sem samræmi er í því sem gert er og sagt. Fyrirmyndirnar inni í rammanum verða að vera foreldrarnir/foreldrið. Ef þeir valda ekki því hlutverki þá leitar barnið annað að fyrirmyndum. Það er of seint að ætla að fara að vera fyrirmynd þegar barn kemst á unglingsár.
Mér finnst að núna sé tækifæri til að ná til unglinganna með því að hjálpa þeim að gera sér ljóst, að lífið er kannski ekki eins og þeir héldu að það væri, heldur miklu dýpra og merkilegra. Sannfæra þau um, að yfirborðið, sem hægt er að kaupa með peningum sé kannski ekki endilega það sem gerir mann ánægðan, heldur allt önnur gildi; gildi sem snúast um hvað það þýðir að vera hluti af fjölskyldu, eða einhverjum öðrum hópi, eða bara þjóð.
Ég reikna með því að hér þurfi skólar þurfi að taka til hendinni, því foreldrar landsins munu eiga nóg með að vinda ofan af þeim vanda sem við blasir, bæði vegna eigin óráðsíu og annarra. 

 Heldurðu að það dygði að færa sjálfræðisaldurinn aftur niður í 16 ár?
Þessi blessuð hækkun lögræðis/sjálfræðisaldurs var mistök. Þarna var um að ræða, fyrst og fremst, að búa til aðferð til að auðveldara væri að taka á, eða aðstoða unglinga sem lentu af einhverjum ástæðum í vandamálum af einhverju tagi. Það þótti of erfitt að svipta unglinga sjálfræði þegar það þótti eiga við. Yfirgnæfandi meirihluti unglinga nær að komast í gegnum þessi snúnu ár frá 16-18 ára án þess að nokkuð bjáti á.
Ég er ekki enn búinn að sætta mig við það að standa frammi fyrir 17 ára nagla, sem má keyra bíl og fer út að skemmta sér, jafnvel dettur í það vikulega (með samþykki foreldranna, væntanlega) og kalla hann barn. 

Ef traust ríkir milli foreldra og barna er engin ástæða til að óttast.

Ég vil að sjálfræðisaldur verði lækkaður aftur í 16 ár, en ég held að það muni enginn taka verulega mikið undir það úr því sem komið er.
Það væri hinsvegar hægt að gera það einfaldara, í þessi 2 ár, að taka sjálfræðið af unglingum, sem eiga við vanda að etja. Mér finnst það sárgrætilegt að upplifa krakka, sem ekkert bjátar á hjá, varpa af sér ábyrgð á eigin gjörðum - og jafnframt þurfa að sitja undir því að vera kallaðir börn.

Þessi umfjöllun er tiltölulega flókin og margt sem þarf að taka með í reikninginn - ég nenni ekki að standa í frekari, eða flóknari útfærslu nema einhver greiði mér vel fyrir. :)

Það bjátar á hjá börnunum
þau bílinn missa.
Ekk' er ég hissa.


09 október, 2008

Snúum nú bökum saman

Hægjum ferðina lítillega. 
Hvað liggur okkur svo sem  Frestum til dæmis markaðsdrifinni breytingu á lögum um framhaldsskóla og endurhugsum forsendurnar. Hver er tilgangurinn með því að flækja enn veröld blessaðra barnanna með því að ætla hverjum skóla fyrir sig að finna út úr því hvernig þeir setja saman námskrá? Ég er kannski orðinn svo hundgamall að hafa ekki vit á því. En ég tel mig hafa það samt!

Breytum útrásinni í innrás. Horfum inn á við. 
a. Tökum til í fjölmiðlaflórunni. 
Hendum þaðan út ómálga þáttastjórnendum og viðmælendum ásamt markaðsdrifnu auglýsingaskrumi (dæmi: Innlit/útlit). 
Hendum einnig út amerískum raunveruleikaþáttum sem endurspegla engan raunveruleika. Við skulum ekki síður henda út íslenskum afskræmingum á þessu sjónvarpsefni (dæmi: Singing Bee) Mér finnst þetta vera móðgun við heilbrigða skynsemi.

b. Kaupum íslenskar vörur (við fáum varla nokkrar aðrar á næstunni - kannski bara ágætt). 
Vissulega er það svo, að það hefur verið hart sótt að íslenskri framleiðslu undanfarin ár af stjórnlausum gróðapungum. Við skulum vona að þeir sem eftir standa séu ekki komnir í svo slæma stöðu að þeir ráði ekki við verkefnið. Vandinn er auðvitað sá, að stór hluti þessara atvinnugreina treystir á innflutt vinnuafl, sem mun sem óðast vera að hverfa heim á leið.

c. Endurheimtum íslenska menningu. 
Það er engin þjóð þjóð nema hún eigi sér sameiginlega sögu. Amerísk lágmenning er ekki það sem við þurfum sem þjóð. Mörgum okkar er orðið "fokking" sama um eitthvert hallærislegt rugl sem er ekki "in". Ég lít svo á, að á undanförnum árum hafi átt sér stað mikill skaði á sambandinu milli yngri kynslóða og þeirra eldri. Ég er 55 ára að verða, og ég er að vakna upp við það að nemendur mínir eiga æ erfiðara með að skilja þegar ég tala við þá. Ég hafna því að ég þurfi að sníða málfar mitt að æpandi orðafátækt innlits/útlits kynslóðarinnar. Er það svo, að fullorðið fólk sé æ meir að missa börnin sín í kjaftinn á einhverri andlausri og innihaldslausri menningarleysu?

Öllum upp ábyrg börn
Það er talað um ungu kynslóðina sem "krútt" kynslóðina. Þetta er yndislegt fólk, kurteist og saklaust. Það er bara ekki tilbúið til að taka ábyrgð á sjálfu sér. Það tel ég vera vegna þess, að sjálfræðisaldur var hækkaður í 18 ár. Foreldrarnir (sem tilheyra leikskólakynslóðinni) eru fullir af sektarkennd vegna þess að vinnubrjálæðið tekur allan þeirra tíma. Þeir telja að þeir þurfi stöðugt að vera á verðbergi gagnvart þeim stofnunum sem þó reyna að gera sitt til að ala börnin upp og setja þeim ramma. Börnin finna þetta og líta á sjálf sig sem ábrgðarlausa einstaklinga fram eftir öllum aldri.

Þetta er nægur blástur í bili. ég vona sannarlega að það sem nú er að gerast efli þessa þjóð. Undanfarin ár hafa verið að veikja hana, ekki fjárhagslega kannski (fyrr en núna), heldur í því sem fylgir því að vera þjóð.

Snúum bökum saman - það er líklega best.

Þetta var svo alvarleg pæling að ég kýs að setja ekki mína venjubundnu lokaspeki aftan við.

06 október, 2008

Næst er það bara Rotterdam

Ég hef fengið ákúrur fyrir að geta ekki um það í tengslum við helgarafrekin, að á meðan fD ásamt 4 öðrum á svipuðu reki, voru að mála miðbæ Reykjavíkur rauðan, með þeim afleiðingum, m.a., að þeim var hent út af veitingahúsi (jæja - allavega einni þeirra), þá skelltum við líffræðingurinn okkur á málningarboltakeppni áður en haldið var í kvikmyndahús til að njóta nýjustu afurðar íslenskrar kvikmyndaframleiðslu, Reykjavík-Rotterdam
Hér er um að ræða glettilega vel gerða mynd um efni sem vel hæfir þeim tímum sem við lifum nú. Þegar fólk stendur frammi fyrir aðstæðum af þessu tagi er allt eins líklegt að það freisti þess að bjarga sér og sínum með því að skreppa til Rotterdam. 

Verum nú samt bjartsýn. 
Okkur er lofað uppgjöri 
- en það er nú svo sem búið að lofa okkur svo miklu svo lengi................

Er' í Rotterdam ráðin sem að duga?
Er Reykjavík nú fyrir bí?
Mun kapítal kannski þig buga?
Ég kann ekki' að svara því.  

05 október, 2008

Ég - Pollýanna?

Þessa dagana erum við, þessir venjulegu landsmenn, hvattir til samstöðu um að bjarga efnahagslífinu. Við erum hvött til bjartsýni. Við erum hvött til að sýna biðlund. 

Á sama tíma ganga sögurnar, ekki bara í gegnum fjölmiðla, heldur einnig manna á milli um að næsti banki sé að fara yfir um, að framundan sé matar- og olíuskortur, að það sé engin leið út úr ógöngunum nema reka Seðlabankastjórnina og ef ekki hana þá þurfi að losna við ríkisstjórnina.

Þessi þjóð er látin hanga í óvissu, en ekki meiri óvissu en svo að allt bendir til að við þurfum að taka á okkur skellinn af óendanlegri lántöku útrásarhetjanna. Er það svo, að í stað þess að þær selji nú eignirnar sínar í útlöndum (fá þar með að eiga þær áfram) þá eigi lífeyrissjóðir okkar að koma til að skera þær úr snörunni?

Ég á, af einhverjum ástæðum, erfitt með að sýna samstöðu með neinum nema þeim sem eru í sömu sporum og ég. Hetjurnar verða svo bara að sýna hver annarri samstöðu.  Ég er svo vondur maður núna, að ég tel að þeir sem bera ábyrgðina, axli nú samfélagslega ábyrgð og selji eignirnar sínar í útlöndum og komi með peninginn heim. 

Hagfræðingur nefndi það í Silfri Egils í dag, að niðurstaða Norðmanna fyrir einhverjum árum, við svipaðar aðstæður, hafi verið að sækja menn til saka og dæma þá í fangelsi. Það reyndist eina leiðin til að sætta þjóðina.

Það verður gaman að sjá hve sáttfús íslenska þjóðin reynist. Ég er ekki sérlega sáttfús þessa dagana.

Jæja, svo er nú það.


Haustlitir, gellur og málningarkúlur



Ég gæti hér, í löngu máli, fjallað um atburði þeirrar helgar sem nú er að líða hjá. 

Í umfjöllun um haustlitaferð og kjötsúpudásemdir starfsmannafélags ML s.l. föstudag, gæti ég sagt frá því sem gerðist bak við hól. Það ætla ég ekki að gera

Í umfjöllun um gullaldargelluferðina til höfuðborgarinnar í gær gæti ég fjallað um þátt 5 miðaldra kvenna í óeirðum í miðbænum í gærkvöld. Það ætla ég ekki að gera.

Í umfjöllun um þátttöku mína í málningarkúluslag í höfuðborginni í gær gæti ég fjallað um það þegar maður drap mann, en kúlan sprakk ekki og maðurinn drapst eða drapst ekki. Það ætla ég ekki að gera.

Mig hálf klæjar í fingurna að skrá þessar frásagnir með mínum hætti, en  í ásláttarnámskeiðinu mínu bíður verkefni, sem ég er að verða alltof seinn með. Þar fyrir utan sýður á mér vegna þess fáránleika sem yfir þjóðina gengur þessa dagana. Ég vísa á umfjöllun mína um blessaðan kapítalismann fyrir nokkru.

Ég vona að rætist úr þessu öllu, bráðlega.

Með bjartsýni berjumst við áfram
og bráðum skín sólin á ný.

04 október, 2008

Hvenær gýs?


Frægasta eldfjall landsins að baki einum merkasta sögustaðnum. Hvort gýs fyrr?

Öfl munu berjast og úr djúpinu rísa,
eða eflist vor dáð?

01 október, 2008

90/II



Benedikt hafði fengið það hlutverk að tryggja sómasamlega afmælismáltíð. Því var haldið að Geysi í framhaldi af Laugarásferðinni. Þarna var nú bara um börn og tengdabörn að ræða ásamt gamla unglingnum, alls 11 manns. Það varð niðurstaða, að gera þetta ekki umfangsmeira þessu sinni. Ræðum það nánar á aldarafmælinu.
Eftir kampavínsbragð og misvelheppnaðan afmælissöng (uss, uss) og æfingu í að mæla á erlendum tungum, hósfst þriggja rétta glæsimáltíð, þó ekki fyrr en ég og Benedikt höfðum komist að þeirri niðurstöðu að hann skyldi vera veislustjóri, sem búast mátti við að væri hreint ekki einfalt mál.
Þá kom það auðvitað í ljós að ekki var um vana menn í veisluhöldum að ræða, með því að okkur láðist að panta viðeigandi vínföng með veislunni. Það fór þó allt vel að lokum.
Undir borðum voru auðvitað fluttar merkar, tímamótaræður afmælisbarninu til heiðurs, en það svaraði síðan fyrir sig, fullum hálsi.
Allt fór þetta hið besta fram, enda mikið sómafólk á ferð.


Það var bæði jákvætt og neikvætt að við skyldum hafa hótelið algerlega fyrir okkur þetta kvöld. Jákvætt vegna þess að við gátum haft eins hátt og við vildum og haldið eins margar og merkar ræður og við vildum, án þess að trufla aðra gesti. Þar að auki var ávallt þjónn til reiðu þegar einhvers var óskað.
Neikvætt vegna þess að við höfðum það lítið eitt á tilfinningunni, með réttu eða röngu, að þjónarnir tveir og kokkurinn biðu eftir því að við lykjum okkur af svo þeir kæmust heim í háttinn. Réttirnir þrír voru bornir í okkur, ótt og títt, en ávallt að mikilli kurteisi, en á erlendum tungum.

Ágætt kvöld í alla staði.

Að Geysi var gengið að borði


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...