09 október, 2008

Snúum nú bökum saman

Hægjum ferðina lítillega. 
Hvað liggur okkur svo sem  Frestum til dæmis markaðsdrifinni breytingu á lögum um framhaldsskóla og endurhugsum forsendurnar. Hver er tilgangurinn með því að flækja enn veröld blessaðra barnanna með því að ætla hverjum skóla fyrir sig að finna út úr því hvernig þeir setja saman námskrá? Ég er kannski orðinn svo hundgamall að hafa ekki vit á því. En ég tel mig hafa það samt!

Breytum útrásinni í innrás. Horfum inn á við. 
a. Tökum til í fjölmiðlaflórunni. 
Hendum þaðan út ómálga þáttastjórnendum og viðmælendum ásamt markaðsdrifnu auglýsingaskrumi (dæmi: Innlit/útlit). 
Hendum einnig út amerískum raunveruleikaþáttum sem endurspegla engan raunveruleika. Við skulum ekki síður henda út íslenskum afskræmingum á þessu sjónvarpsefni (dæmi: Singing Bee) Mér finnst þetta vera móðgun við heilbrigða skynsemi.

b. Kaupum íslenskar vörur (við fáum varla nokkrar aðrar á næstunni - kannski bara ágætt). 
Vissulega er það svo, að það hefur verið hart sótt að íslenskri framleiðslu undanfarin ár af stjórnlausum gróðapungum. Við skulum vona að þeir sem eftir standa séu ekki komnir í svo slæma stöðu að þeir ráði ekki við verkefnið. Vandinn er auðvitað sá, að stór hluti þessara atvinnugreina treystir á innflutt vinnuafl, sem mun sem óðast vera að hverfa heim á leið.

c. Endurheimtum íslenska menningu. 
Það er engin þjóð þjóð nema hún eigi sér sameiginlega sögu. Amerísk lágmenning er ekki það sem við þurfum sem þjóð. Mörgum okkar er orðið "fokking" sama um eitthvert hallærislegt rugl sem er ekki "in". Ég lít svo á, að á undanförnum árum hafi átt sér stað mikill skaði á sambandinu milli yngri kynslóða og þeirra eldri. Ég er 55 ára að verða, og ég er að vakna upp við það að nemendur mínir eiga æ erfiðara með að skilja þegar ég tala við þá. Ég hafna því að ég þurfi að sníða málfar mitt að æpandi orðafátækt innlits/útlits kynslóðarinnar. Er það svo, að fullorðið fólk sé æ meir að missa börnin sín í kjaftinn á einhverri andlausri og innihaldslausri menningarleysu?

Öllum upp ábyrg börn
Það er talað um ungu kynslóðina sem "krútt" kynslóðina. Þetta er yndislegt fólk, kurteist og saklaust. Það er bara ekki tilbúið til að taka ábyrgð á sjálfu sér. Það tel ég vera vegna þess, að sjálfræðisaldur var hækkaður í 18 ár. Foreldrarnir (sem tilheyra leikskólakynslóðinni) eru fullir af sektarkennd vegna þess að vinnubrjálæðið tekur allan þeirra tíma. Þeir telja að þeir þurfi stöðugt að vera á verðbergi gagnvart þeim stofnunum sem þó reyna að gera sitt til að ala börnin upp og setja þeim ramma. Börnin finna þetta og líta á sjálf sig sem ábrgðarlausa einstaklinga fram eftir öllum aldri.

Þetta er nægur blástur í bili. ég vona sannarlega að það sem nú er að gerast efli þessa þjóð. Undanfarin ár hafa verið að veikja hana, ekki fjárhagslega kannski (fyrr en núna), heldur í því sem fylgir því að vera þjóð.

Snúum bökum saman - það er líklega best.

Þetta var svo alvarleg pæling að ég kýs að setja ekki mína venjubundnu lokaspeki aftan við.

4 ummæli:

  1. Hjartanlega velkominn í eyðimörkina, félagi. Hér hef ég staðið og hrópað um nánast öll atriðin í ágætum pistli þínum - við fádæma óvinsældir og brigslyrði um hrörnun, skilningsleysi o.sv.frv.
    Já markaðsdrifna breytingu á vettvangi framhaldsskóla VERÐUR að endurHUGSA. Ekki spillti nú fyrir að þar um véluðu reynsluríkir skólamenn, í stað "gæðinga".

    Já námskrá fyrir hvern skóla!! Hihihi, hún er nú gerð þannig að menn koppía og peista hver eftir öðrum (skólum) og umorða eða umorða ekki upp úr opinberum námsskrám!
    Til hvers í veröldinni? Alla tíð hefur mér þótt þessi handavinna hið mesta fáránsmál... "en við eigum að gera þetta"!

    Já, já, já ÚT með ómálga "amríska" brjóstmylkinga úr allri dagskrárgerð. Ungmenni þjóðarinnar mæta alltof oft í skólann stútfull af vitleysu og ranghugmyndum frá þeim. Og: svo halda þau að þetta sé útvarpsmennska; þáttagerð!!!

    Singing Bee?, "Kroppar í kröppum dansi" (sörrrvæval), Piparsveinn velur úr glæsi"gellum" (brestur orð)
    og gerbreyting íbúðar þar sem keypt var inn hjá ...... (firmalistinn)
    Móðgun við skynsemi? Nei, því miður kæri Páll þá er það ekki nógu sterkt að orðið kveðið. Oftlega sýnist mér þetta enda í skynsemismorði - og trú á að svona einmitt sé og eigi lífið að vera.

    Jamm, það er upplýsandi að umgangast ungmenni daglega.Stundum líka unga kennara.

    Og þú ert 55 ára - ég hef vinninginn um 6 ár. Mínir nemendur þurfa oft sárlega á aðstoð að halda þegar ég tala við þá. Þá er að glósa á töfluna (já, í alvöru gríp ég til þess) og svo skýra hvernig orð er samsett og þess vegna merki það þetta sem um ræðir!! Býsna tímafrekt... EN ég neita alfarið að láta krossfesta og pína málfar mitt til dauðs í lágkúruleðjunni.

    Ég GET kryddað mál mitt með lágmenningarslettum úr vesturátt (nota ber Suðurríkja framburð, helst úr hjólhýsahverfi), hálfkláruðum orðum og geiflum sem eiga að tákna það, sem ég vildi sagt hafa. - Ekki það að mig skorti hæfileika til slíkrar tjáningar (leik hana raunar stundum fyrir nemendur, þegar hæst hóar), NEI ég bara NEITA algjörlega af einurð og brennandi réttlæti hjartans. "Aldrei skal það".

    Auðvitað eru foreldrar á varðbergi gagnvart okkur "hinum óskiljanlegu", sem erum alltaf að setja út á börnin þeirra og banna þeim! Við eigum bara að hafa þau góð á meðan þau eru hjá okkur... og vera ekki með neitt raus og frekju við þau. Svo einfalt er það. Og ekki áminna né heldur ávíta fyrir nokkurn skapaðan hlut því það gæti bent til eineltis og virðingarleysis af hálfu kennarans.
    Hin mesta virðing er samkvæmt þessu að leyfa ungmennum að ösla áfram í eigin ráðvillu og reyna ekki að rétta þeim hjálparhönd og ramma að halda sér í. Og hananú!

    Við erum hérlendis með heilan herskara af ungu fólki frá u.þ.b. 14-30 ára, sem trúir að lífið eigi að vera eitt allsherjar innlit/útlit með æsandi frumskógarævintýrum,megrun/fegrun og glæsiveislur í Séðinu og Heyrtinu!
    Það versta við þessi skrif mín er
    að: ég er að segja satt - og byggi á viðamikilli reynslu.
    En velkominn í eyðimörkina Palli!

    Kvæðalaus kveðja
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  2. Áhugaverður pistill hjá þér Páll. Þá sérstaklega þetta með unga fólkið sem á erfitt með að taka ábyrgð á sjálfu sér. Það er alvarleg þróun sem gæti orðið andsk.. erfiðara að snúa við. Hvað telur þú vera til ráða? Heldurðu að það dygði að færa sjálfræðisaldurinn aftur niður í 16 ár?

    SvaraEyða
  3. Það á bara að fara aga þetta lið til, og vera ekki alltaf að koma fram við það eins og aumingja sem ekkert kunna og geta. Þetta þarf að sjáfsögðu að gerast frá fæðingu og ég er nú í þeirri einstöku aðstöðu að láta verkin tala :) Sem ég mun og gera.

    Ofverndandi foreldrar skaða börning sín, það er mín skoðun.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...