Ekki er það svo að ég þykist vita svör við vandamálum heimsins þó ég vilji hafa skoðun á þeim. Meðal athugasemda við síðustu færslu var varpað fram 2 spurningum:
..........unga fólkið sem á erfitt með að taka ábyrgð á sjálfu sér. Það er alvarleg þróun sem gæti orðið andsk.. erfiðara að snúa við. Hvað telur þú vera til ráða?
Foreldrar, margir hverjir, vita hreint ekki hvað felst í því að eignast barn og ala það upp (nema þá helst líffræðilega). Það er ekki þeim kenna. Barnauppeldi er ekki meðfætt fyrirbæri. Gegum árin og aldirnar lærði fólk þetta af foreldrum sínum, öfum og ömmum. Uppeldi nútímaunglings er fjarri því að vera einfalt mál, en kjarninn í því hlýtur alltaf að vera, að mínu áliti, að búa til tiltekinn ramma utan um fjölskylduna þar sem samræmi er í því sem gert er og sagt. Fyrirmyndirnar inni í rammanum verða að vera foreldrarnir/foreldrið. Ef þeir valda ekki því hlutverki þá leitar barnið annað að fyrirmyndum. Það er of seint að ætla að fara að vera fyrirmynd þegar barn kemst á unglingsár.
Mér finnst að núna sé tækifæri til að ná til unglinganna með því að hjálpa þeim að gera sér ljóst, að lífið er kannski ekki eins og þeir héldu að það væri, heldur miklu dýpra og merkilegra. Sannfæra þau um, að yfirborðið, sem hægt er að kaupa með peningum sé kannski ekki endilega það sem gerir mann ánægðan, heldur allt önnur gildi; gildi sem snúast um hvað það þýðir að vera hluti af fjölskyldu, eða einhverjum öðrum hópi, eða bara þjóð.
Ég reikna með því að hér þurfi skólar þurfi að taka til hendinni, því foreldrar landsins munu eiga nóg með að vinda ofan af þeim vanda sem við blasir, bæði vegna eigin óráðsíu og annarra.
Heldurðu að það dygði að færa sjálfræðisaldurinn aftur niður í 16 ár?
Þessi blessuð hækkun lögræðis/sjálfræðisaldurs var mistök. Þarna var um að ræða, fyrst og fremst, að búa til aðferð til að auðveldara væri að taka á, eða aðstoða unglinga sem lentu af einhverjum ástæðum í vandamálum af einhverju tagi. Það þótti of erfitt að svipta unglinga sjálfræði þegar það þótti eiga við. Yfirgnæfandi meirihluti unglinga nær að komast í gegnum þessi snúnu ár frá 16-18 ára án þess að nokkuð bjáti á.
Ég er ekki enn búinn að sætta mig við það að standa frammi fyrir 17 ára nagla, sem má keyra bíl og fer út að skemmta sér, jafnvel dettur í það vikulega (með samþykki foreldranna, væntanlega) og kalla hann barn.
Ef traust ríkir milli foreldra og barna er engin ástæða til að óttast.
Ég vil að sjálfræðisaldur verði lækkaður aftur í 16 ár, en ég held að það muni enginn taka verulega mikið undir það úr því sem komið er.
Það væri hinsvegar hægt að gera það einfaldara, í þessi 2 ár, að taka sjálfræðið af unglingum, sem eiga við vanda að etja. Mér finnst það sárgrætilegt að upplifa krakka, sem ekkert bjátar á hjá, varpa af sér ábyrgð á eigin gjörðum - og jafnframt þurfa að sitja undir því að vera kallaðir börn.
Þessi umfjöllun er tiltölulega flókin og margt sem þarf að taka með í reikninginn - ég nenni ekki að standa í frekari, eða flóknari útfærslu nema einhver greiði mér vel fyrir. :)
Það bjátar á hjá börnunum
þau bílinn missa.
Ekk' er ég hissa.
Það bjátar á hjá börnunum
SvaraEyðaþau bílinn missa.
Ekk' er ég hissa.
Þau kanna ætt'u með kvörnunum
"hvar varð skyssa?"
Horf' á lífsins heildarmynd
- og hætt' að flissa.
Bloggskapur um "cool" og ábyrgðarfirrt ungmenni.