16 desember, 2008

Lítilsháttar afastand á aðventu


Ekki þótti um annað að ræða en að skjótast til meginlands Evrópu til að líta og kynnast lítillega krílinu sem þar hefur litið dagsins ljós og sem nýtur þess að eiga mig fyrir afa. Á þessum vettvangi verður ekki fjölyrt um þessa heimsókn umfram hið augljósa; hér erum að ræða myndarlegasta og gáfaðsta barn sem nú gistir veröldina.

Það er ekki hægt að halda því fram að ungfrú Júlía sé eitthvert dauðyfli því hún sér til þess að foreldrarnir hafa nóg að gera þess dagana, enda lítur hún örugglega þannig á, að þá þurfi að temja lítillega að nýjum lífsháttum. Allt er orðið breytt og lífið veitir af allsnægtum sínum þá fyllingu sem mannskepnan þarfnast til hamingjuríkrar tilveru.


11 desember, 2008

Svo sem ekki harla.... eða þannig


Það kemur að því, innan ekki svo langs tíma, að hér fer allt af stað að nýju eftir stutt hlé. Þessa dagana dunda ég mér við að "pína blessuð börnin" - "er það ekki illa gert?" - eins og gamli unglingurinn orðaði það svo snyrtilega. Hann fjallar einnig mikið um, að það sé eins og kennarar séu að veita englunum kjaftshögg með því að "fella þá" - sem ég svara auðvitað með því að fjalla um hvernig nemendur eru að  gefa sjálfum sér á kjaftinn með því að falla.

Þá bíður umfjöllun um það hvernig fregnir eru byrjaðar að berast af því að galnir útrásarvíkingar séu byrjaðir að kaupa upp aftur gjaldþrota fyrirtækin sín á meðan álögur hækka og erfiðleikar aukast hjá venjulegu, heiðarlegu fólki.

Það þriðja, sem enn bíður, er umfjöllun um persónueinkenni ungfrúrinnar sem dundar sér við að fá nýbakaða foreldra til að hlýða sér.

Þetta kemur allt saman.

Sökum einhvers, sem ég set mig ekki í stellingar til að reyna að skilgreina, freista ég þess ekki nú, að ljúka eftirfarandi:

Desember dæmir þig ekki,
hann dásemd er ein og sönn.

06 desember, 2008

Verðandi seðlabankastjóri


Það hefur verið kvartað yfir þvi, að það sé erfitt að skilja myndir sem birst hafa af baðgerð á þessu heimili. Það er auðvitað með ráðum gert, og hefur ekkert með linsustærð EOSsins að gera. 
Það var tekin upplýst ákvörðun um það, þegar fyrir lá að ráðist yrði í baðhluta hússins að þar skyldi tímalaus og látlaus fegurð Seðlabankahússins lögð til grundvallar. Það sem síðan skyldi fara fram í baðherberginu ætti að endurspegla það sem gerist innan veggja þess ágæta húss - allt saman sérlega virðingarvert og siðsamlegt.

Flísarnar, gráu og ílöngu, eru í fullu samræmi við það sem niðurstaða varð um þegar bankinn var byggður við Arnarhól - dökkar steinflísar, lagðar lárétt, sem er ætlað að túlka stöðugleika og festu hamrabeltisins. Það sama gildir um baðherbergið.

Innan dyra er allt með fremur ríkmannlegum hætti í Seðlabankanum, enda fjölmenn sú þjóð sem að baki honum stendur og mikilvægt það starf, sem þar er stundað - svo er einnig um baðherbergið.  Þar verður ekkert til sparað, til að þetta herbergi geti sinnt því hlutverki sem því er ætlað, sem allra best. Því ríkmannlegra, því betri starfsemi.

Fest hafa verið kaup á hertu öryggisgleri, sem gegnir margvíslegu hlutverki, ekki síst þegar á reynir af ýmsum ástæðum. Það verða auðvitað ekki vopnaðir víkingasveitarmenn til varna ef á verður ráðist, heldur bara bankastjórinn einn - meira að segja harla berskjaldaður, ef ekki væri fyrir herta öryggisglerið.

Það skiptir auðvitað miklu máli í herbergi af þessu tagi, að þeir sem þar sinna erindum sínum, geti treyst því, að því starfi, sem þar fer fram sé sinnt af trúmennsku og að ekki sé um að ræða neitt sem ekki þolir dagsljósið.

Í bönkum ríkir bankaleynd, þó vissulega sé, með lögum hægt að aflétta henni. Þessvegna skiptir afar miklu máli, að þær línur sem liggja út úr bankanum, séu þess eðlis að sá sem þar sinnir erindum sínum þurfi ekki einu sinni að velta því fyrir sér hvort þar sé allt tryggt.

Í baðherberginu verða sérhönnuð, sandblásin gluggatjöld, sem samsvara dökkum gluggum bankans. Það er mikilvægt að ekki sjáist inn.

Þá er það bankastjórinn sjálfur.
Ég hef, sem forsætisráðherra (allavega þangað til annað kemur í ljós), skipað fD sem seðlabankastjóra. Hver veit nema fD geri tilkall til forsætisráðherraembættisins, ef ég gagnrýni störf hennar í bankastjórahlutverkinu, svo ekki sé nú talað um, ef ég skyldi ákveða að setja hana af. Almáttugur hjálpi okkur þá. Ekki gott að segja. 

Það getur komið fyrir að seðlabankastjórinn segi eitthvað við forsætisráðherrann, sem sá síðarnefndi minnist ekki að hafa heyrt. Þá er það möguleiki að seðlabankastjórinn fari að tjá sig eins og forsætisráðherra.  Það er allt mögulegt.  Þegar upp er staðið eru þarna tveir stjórnendur sem hafa hafa hvor sína skoðunina, þó svo þeir séu í raun samherjar; góðir og gegnir sjálfstæðismenn.

Eftir stendur spurningin og keimur hennar liggur í loftinu: 
Hvað gerist?  
Svarið er flókið. Það gerist ekkert fyrr en fullnægt hefur verið skilyrðum sem AGS/IMF hefur sett, en það gerist ekki fyrr en þjóðin.............nei, flokkurinn........... nei þessi armur flokksins.......... nei..........

Ég verð að segja, að það er nákvæmlega þarna sem það kemur í ljós, að baðherbergispælingin er rökréttari.


Það sem skráð hér að ofan, var prósaljóð - og því er engu við bætt.







05 desember, 2008

Ég er alveg fullkomlega inni

Þessi staður í veröldinni er líklega ekki sá sem ég er tilbúinn að láta í ljósi allt það sem ég hugsað og fundið fyrir á þessum ágæta degi, 5. desember, 2008. Ég reikna með að þeir lesendanna sem eru hvað skarpastir verði fljlótir að lesa út úr því dulmáli sem birtist í fyrirsögninni. Dagurinn hófst fyrir miðja nótt, þegar síminn hringdi, en fD hafði gefið um það skýrar skipanir að það yrði hringt, hvenær sem væri sólahrings. Það hringdi, og lífið hafði tekið á sig dálítið annan blæ; aukna ábyrgð og nýjan vinkil á tilveruna, jafnvel þó í gegnum svefnrofin væri.

03 desember, 2008

Af þjóðar vorrar stöðu

Nú er kominn sá tími þegar fjölmiðlarnir okkar eru smám saman hættir að nenna að eltast við þetta k.....tal allt saman. Svona erum við Íslendingar. Mikið held ég að þeim sé öllum að létta þessa dagana: ríkisstjórninni, seðlabankamönnum, fjármálaeftirliti, útrásarvíkingum og öðrum þeim sem ábyrgðina bera, þó svo þeir vilji auðvitað engan veginn taka á sig ábyrgð á því hvernig komið er, hvorki stefnu né verkum, eða verkleysi.
Það er runninn upp sá tími sem maður sér svo oft, verandi kominn á þennan aldur, þegar þeir sem eitthvert fjölmiðlafár stendur um, um stund, fá tækifæri til að skríða inn í holurnar sínar og safna þar vopnum sínum áður en þeir koma síðan út aftur sem frelsandi englar. Þeir fá þetta tækifæri vegna þess að við erum fljót að fá leið á svona löguðu. Það gengur yfirleitt yfir feikilegt fár sem allir sem á annað borð kunna að tala (þeim fækkar reyndar stöðugt) halda varla vatni yfir, en svo verðum við leið og nennum ekki meir. 'Þetta, einu sinni enn. Djö.... er ég orðin(n) leið(ur) á þessu kjaftæði!!!'
Það má kannski segja að þessi þjóð sé eins og blettatígurinn, sem getur hlaupið hraðar en önnur dýr, en bara í stutta stund í einu. Svo er hann búinn að vera.

Trúið mér, eftir stóra fundinn sinn í janúar næstkomandi vex vegur flokks allra stétta jafnt og þétt. Við verðum búin að gleyma öllum stóru orðunum. Hann.. Hól....... trítlar fram á sjónarsviðið aftur sem sá sem hefur allar lausnirnar, Dav.. verður aftur landsfaðirinn, sem stekkur fram með nýjan flokk sem leggur okkur kylliflöt.

Já, við verðum áfram Íslendingar. Engar áhyggjur.

(Ég biðst velvirðingar á þeirri litlu trú sem fram kemur hér að ofan á íslenskri þjóð við ysta haf, en ég hef það mér til afsökunar, að ég kunni mér hreint ekki læti)

Trúin á þjóð vorri telst mér í engu til vansa
Tekst ég á við hana án þess hika' eða stansa.
Bölið sem ber nú á dyrnar á sérhverju húsi
blessar oss kapítalistinn með blandi og búsi.

02 desember, 2008

Staðan tekin (öppdeit) fyrir forvitin afkvæmi


Það er allt í gangi hér við byggingu á einstaklega velheppnuðu (á pappírnum) baðherbergi, sem áður hefur verið minnst á.  Þetta gengur nú ekki hratt fyrir sig, frekar en fjölgunin í Berlín, en kemur að öllum líkindum að lokum. Ég tel víst að Berlínarmanneskjan verði þó á undan. Við teljum okkur vera hóflega bjartsýn og væntum þess að þessi salur muni nýtast til jólabaða.

Flísarnar eru allavega einstaklega glæsilegar - það leyfist engum að segja neitt annað um þær.

Baðið verður nú bráðum risið, 
því nú rís allt innávið á Íslandi. 
Þá hefst hinn líkamlegi hagvöxtur 
innrásarinnar.

(þetta er s.s. prósaljóð)

30 nóvember, 2008

Afrakstur í tilefni dagsins

Ég ætla ekki að afsaka það neitt, að mér hefur ekki auðnast að heiðra þessa síðu með andagiftminni um allnokkra hríð. Ég tel mig hafa gert nokkuð vel um síðustu helgi og þar við hefur setið.

Enn stendur yfir aðgerðin 'Bað fyrir jól' og enn er ekki ljóst hvort sú verður raunin. Þetta gengur allt rólega fyrir sig og mér sýnist að viðskiptavinalitlar eða lausar byggingavöruverslanirnar hafi verið og séu duglegar að skella nýjum verðmiðum á það sem þær hafa að bjóða. Ég ætla ekki einu sinni að nefna þær tölur sem við höfum rekist á í mörgum þeirra verslunargímalda sem við höfum átt leið í.
Það er haldið áfram í vonina að aðgerðin fái farsælan endi áður en kirkjuklukkur hringja inn jólahátíð.

Framundan er hin árlega gírskipting þegar prófatími gengur í garð og Berlínarferð liggur í loftinu á aðventu - með það meginmarkmið að líta augum nýjan ættarsprota, sem ekki hefur enn birst þessari veröld.

Þá er þess að geta að þetta er svona daginn eftir dagur og læt ég mönnum eftir að túlka hvað átt er við með því, en mágkonan í efra skellti upp miklum fagnaði þegar kvöldaði í gær, í tilefni af markverðu skrefi á lífsgöngu sinnni. Það kvöldaði og svo nóttaði og það lá við að það dagaði áður en leið lá loks heim að þessu loknu.


Gamli unglingurinn var að rifja það upp áðan þegar hann tók próf til að öðlast ökuréttindi fyrir allnokkrum árafjölda síðan. Þessi atburður mun hafa átt sér stað í höfuðborginni og prófdómarinn einhver lögregluþjónn, sem dags, daglega stóð á gatnamótum og stýrði umferð með bendingum. Í þessu prófi urðu þeim gamla á mistök sem hefðu getað haft slæmar afleiðingar, en það mun hafa sloppið til. Þar sem próftakinn ók bifreiðinni um kartöflukofahverfi Reykvíkinga, skipaði prófdómarinn honum skyndilega að stöðva ökutækið, sem hann og gerði. 
'Máttu stöðva hér?' 
Próftakinn leit í kringum sig og sá ekkert sem af til kynna að þarna mætti ekki stöðva; malargata á milli kaartöflukofanna.
 'Já.'
'Nei, það máttu ekki. Það er harðbannað að stöðva bíl á gatnamótum!'

Þess vænti ég, að mönnum sé það ljóst, þegar hér er komið lestri, að ekki er nú andríkinu fyrir að fara þessu sinni. Svo verður að vera.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...