Það hefur verið kvartað yfir þvi, að það sé erfitt að skilja myndir sem birst hafa af baðgerð á þessu heimili. Það er auðvitað með ráðum gert, og hefur ekkert með linsustærð EOSsins að gera.
Það var tekin upplýst ákvörðun um það, þegar fyrir lá að ráðist yrði í baðhluta hússins að þar skyldi tímalaus og látlaus fegurð Seðlabankahússins lögð til grundvallar. Það sem síðan skyldi fara fram í baðherberginu ætti að endurspegla það sem gerist innan veggja þess ágæta húss - allt saman sérlega virðingarvert og siðsamlegt.
Flísarnar, gráu og ílöngu, eru í fullu samræmi við það sem niðurstaða varð um þegar bankinn var byggður við Arnarhól - dökkar steinflísar, lagðar lárétt, sem er ætlað að túlka stöðugleika og festu hamrabeltisins. Það sama gildir um baðherbergið.
Innan dyra er allt með fremur ríkmannlegum hætti í Seðlabankanum, enda fjölmenn sú þjóð sem að baki honum stendur og mikilvægt það starf, sem þar er stundað - svo er einnig um baðherbergið. Þar verður ekkert til sparað, til að þetta herbergi geti sinnt því hlutverki sem því er ætlað, sem allra best. Því ríkmannlegra, því betri starfsemi.
Fest hafa verið kaup á hertu öryggisgleri, sem gegnir margvíslegu hlutverki, ekki síst þegar á reynir af ýmsum ástæðum. Það verða auðvitað ekki vopnaðir víkingasveitarmenn til varna ef á verður ráðist, heldur bara bankastjórinn einn - meira að segja harla berskjaldaður, ef ekki væri fyrir herta öryggisglerið.
Það skiptir auðvitað miklu máli í herbergi af þessu tagi, að þeir sem þar sinna erindum sínum, geti treyst því, að því starfi, sem þar fer fram sé sinnt af trúmennsku og að ekki sé um að ræða neitt sem ekki þolir dagsljósið.
Í bönkum ríkir bankaleynd, þó vissulega sé, með lögum hægt að aflétta henni. Þessvegna skiptir afar miklu máli, að þær línur sem liggja út úr bankanum, séu þess eðlis að sá sem þar sinnir erindum sínum þurfi ekki einu sinni að velta því fyrir sér hvort þar sé allt tryggt.
Í baðherberginu verða sérhönnuð, sandblásin gluggatjöld, sem samsvara dökkum gluggum bankans. Það er mikilvægt að ekki sjáist inn.
Þá er það bankastjórinn sjálfur.
Ég hef, sem forsætisráðherra (allavega þangað til annað kemur í ljós), skipað fD sem seðlabankastjóra. Hver veit nema fD geri tilkall til forsætisráðherraembættisins, ef ég gagnrýni störf hennar í bankastjórahlutverkinu, svo ekki sé nú talað um, ef ég skyldi ákveða að setja hana af. Almáttugur hjálpi okkur þá. Ekki gott að segja.
Það getur komið fyrir að seðlabankastjórinn segi eitthvað við forsætisráðherrann, sem sá síðarnefndi minnist ekki að hafa heyrt. Þá er það möguleiki að seðlabankastjórinn fari að tjá sig eins og forsætisráðherra. Það er allt mögulegt. Þegar upp er staðið eru þarna tveir stjórnendur sem hafa hafa hvor sína skoðunina, þó svo þeir séu í raun samherjar; góðir og gegnir sjálfstæðismenn.
Eftir stendur spurningin og keimur hennar liggur í loftinu:
Hvað gerist?
Svarið er flókið. Það gerist ekkert fyrr en fullnægt hefur verið skilyrðum sem AGS/IMF hefur sett, en það gerist ekki fyrr en þjóðin.............nei, flokkurinn........... nei þessi armur flokksins.......... nei..........
Ég verð að segja, að það er nákvæmlega þarna sem það kemur í ljós, að baðherbergispælingin er rökréttari.
Það sem skráð hér að ofan, var prósaljóð - og því er engu við bætt.
Ja, prósaljóð segirðu?
SvaraEyðaFremur vinjetta - er það ekki?
**Vinjetta um verklag og visku**:
Maðurinn handlék steinflísarnar og gætti þess að reka ekki í neinn. Hann var ekki maður steinflísanna en vissi að steinflís á ekki að reka í neinn. Það meiðir. Því festi hann flísarnar á næsta flöt innan seilingar.
H.Ág.