16 janúar, 2009

Fröken Júlía flýgur heim

Til föðurlandsins flaug ég fyrsta sinni
með farkosti frá Iceland Express. 
Ekki tel ég verði mér í minni
minning nein, sem vísa mun til þess.

(e-ið í Ice er borið fram)

Þreyttir spurningaþættir

Það virðist vera svo að spurningaþátta, og sjálfsagt annarra þátta líka, sem byrja vel og eru þannig góð skemmtun, bíði þau örlög að þreytast fljótt. Þetta gerist samhliða því að metnaður vex, hvort sem um er að ræða framhaldsskóla eða sveitarfélög. 

Ég þurfti að koma þessu frá mér eftir að hafa horft á fremur óskemmtilegan (leiðinlegan) þátt af Útsvari. Það er engu líkara en keppendur sumra liða séu búnir að koma sér upp kerfum til að takast á við spurningar (hlaupa strax á bjöllu og nota táknmál við leikna fyrirbærið). Húmorinn er að hverfa úr þessum þætti, en það var einmitt aðall hans. Ekki skemmtilegt.........
Það sama á við um Gettu betur, sem er að verða heldur betur þreytt fyrirbæri, þar sem ákveðnir skólar tefla fram allt að því atvinnumönnum til að halda upp heiðri sínum.

Ég held að það geti verið góð hugmynd að endurtaka svona lagað ekki, heldur gera eitthvað nýtt á hverju ári.

Spurt er og svarað í belg,
um stund, og biðu.


11 janúar, 2009

Rafmagnað lögbrot eða svitastokkinn sigur



Það koma alltaf þeir tímar í lífi hvers manns að hann þarf að taka verulega á - jafnvel svo að hann þurfi að fara á svig við lög sem gilda í öllum siðmenntuðum ríkjum. Þannig var málum háttað að til þess að ssetja enn einn endapunktinn á seðlabankann var nauðsynlegt að reiða fram fé til kaupa á loftljósi sem hæfði. Þegar heim var komið og uppsetning skyldi hefjast blasti þessi setning við á uppsetningarleiðbeiningum:
THIS LAMP HAS TO BE INSTALLED BY A QUALIFIED ELECTRICIAN.
Ég er auðvitað með eindæmum löghlýðinn borgari og varð strax hugsað til nágranna míns, sem telst vera fagmaður á hinu rafræna sviði. Mér varð svo strax í kjölfarið hugsað til þess kostnaðar sem við höfum þegar lagt í vegna bankans - inneign sem hver bankastjóri gæti verið stoltur af í eigin fé - og gleymdi rafvirkjanum snarlega og ákvað að þessu skyldi ég bjarga sjálfur, hvað sem tautaði og raulaði.
Ég hef fengið í mig rafstraum og ákvað því að slá út öryggi af svæðinu - auðvitað af öllu húsinu áður en ég fann hið rétta. Þessu næst fjarlægði ég rússnesku ljósakrónuna sem fyrir var, en þar sem ég treysti því ekki fullkomlega, að rafmagnið væri farið af, fór ég afar varlega inn í aðgerðina. Hver hreyfing var nákvæmlega úthugsuð og reynt að sjá fyrir hugsanlegar afleiðingar af rangri ákvörðun á hverju stigi. Þarna þurfti ekki bara að fjarlægja það sem fyrir var, heldur einnig skrúfa upp í loft loftljósið fína (50% afsláttur í Rafkaupum), meira og minna með annarri hönd, þar sem hin var upptekin við að halda undir þungan meginhluta ljóssins, sem að öðrum kosti hefði hangið í ótraustvekjandi víratengjum. Þarna leið mér eins og sprengjusveitarmanni hjá Landhelgisgæslunni, sem er ekki viss hvort hann sé að aftengja réttan vír. Þessar aðstæður hafa menn oft séð í bandarískum kvikmyndum: klukkan tifar og það er ljóst, að sprengjuvargurinn hefur sett einhverja gildru í gangverkið. Þá perlar svitinn á enni sprengjuaftengjans og spenna magnast þar til í þann mund að sprengjan springur hann klippir á rétta vírinn. (Ef sprengjan spryngi væri maðurinn ekki hetja (heldur dauður)og þessvegna ekki ástæða til að gera mynd um afrekið).
Það var eins farið með mig; sviti spratt út á enninu og fór að renna niður í augun, fötin tóku að límast við allan líkamann. Ég verð reyndar að viðurkenna, að þetta stafaði ekki að stærstum hluta af ótta við að verða fyrir rafstuði (og þar með kannski festast við vírana, bjargarlaus) heldur öllu frekar vegna þess líkamlega erfiðis sem það fól í sér að skrúfa allt á réttan stað - allt upp fyrir mig.
Ég lauk þessu verki, setti perur í og sló loks inn örygginu. Hélt síðan aftur inn í banka og kveikti loftljósið.
ÞAÐ VARÐ LJÓS
Ægifögur lýsingin flæddi um seðlabankann, enginn óþefur af bráðnandi rafmagnsvír og öryggin héldu.

Í stuttu máli - eins og svo oft áður: Ég er snillingur.


Þetta var nú ekki eina raftengda afrekið sem ég framdi á þessum degi. Jólahátíð er afstaðin og því lá fyrir að fjarlægja öllu fínu jólaljósin (hér voru engin hvít, þannig að ekki er um að ræða að við tökum þátt í áskorum kristilegra trúfélaga um að lýsa til vors). Allt tók ég niður og vafði saman og henti ofan í kassa og loks á góðan stað í geymslunni. Vissulega velti ég því fyrir mér, að ef til vill væri það góð hugmynd að vanda fráganginn til að auðvelda uppsetninguna að ári, en af því varð ekki. Mín bíður þá væntanlega að greiða úr endalausum djö.... flækjum í desember n.k.
Den tid, den sorg.

Varla ræð við vonlaust ljóð um rafmagn
verður svo að þessu sinni.
Af því yrði einvörðungu ógagn
og ofurblogg í veröldinni.

10 janúar, 2009

Ein talinn vera hverfur

Ekki hefur mér auðnast það, undanfarna daga, að heiðra þessa síðu með áður margumræddri andagift. Fyrir því geta aðallega verið tvær ástæður: andagiftin hefur látið á sér standa eða þá tími til að setjast við þetta hefur verið af skornum skammti. Ef hið fyrrnefnda er reyndin þá er varla mikils að vænta þessu sinni, en ef hið síðanefnda er ástæðan þá má reikna með að hér flæði fram ofgnótt andans verðmæta sem ekki hafa fengið útrás fyrr en nú, á þessum laugardagsmorgni.

Nú er bara að sjá til.

Mér finnst að það sé við hæfi, svona í upphafi nýs árs að velta því lítillega fyrir mér hvernig eitt ár lítur út myndrænt. Ég veit reyndar ekki hvort ég er mikið öðruvísi en annað fólk að þessu leyti, en ég upplifi hvert ár með myndrænum hætti, þannig, að ég sé árið eins og nokkurskonar línu sem alltaf stefnir í einhverja átt, en aldrei alveg þá sömu. Árið lítur út eins og nokkurskonar graf þar sem línan stefnir alltaf í grófum dráttum í norð-austur átt (upp og til hægri) en þó mismunandi mikið eftir árstímum. Ég mun nú reyna að lýsa einu ári út frá þessu grafi.

Janúar til maí er stefnan um það bil NNA - mjög bratt upp á við.
Júní til ágúst hægir mjög á hækkuninni og hún verður sem næst í ANA átt.
September til um það bil 20. desember er stefnan síðan í um það bil NA átt og frá þeim tíma til áramóta er stefnan beint í austur, þar til nýtt ár hefst og grafið endurtekur sig.

Þessi pæling kann einhverjum að finnast nokkuð undarleg og ekki er laust við að mér finnist það líka, ef ég yfirleitt velti því eitthvað fyrir mér. Mér kom þetta hinsvegar í hug í þeirri umræðu um einhverfu sem átt hefur sér stað undanfarna daga, þar sem fram hefur komið að einn helsti kvikmyndaleikstjóri landsins telur sig einhverfan með ákveðnum hætti vegna þess hve myndrænt hann sér viðfangsefni sín. Bubbi er þá með sama hætti einhverfur þegar hann sér alla tóna fyrir sér sem tiltekna liti. Af þessu leiðir að ég hlýt að falla í svipaðan flokk og þessir herramenn, sem hafa verið kallaðir snillingar, hvor á sínu sviði. 
Ég er því snillingur. 
Þarf ekki að hafa fleiri orð um það. 
Nýbyrjað árið stefnir, óstöðvandi, í norð-austur átt inn í eilífðina.

Alveg er ég einstakur,
og einhverfur.
Í mér kraumar eldmóður,
er andríkur.


03 janúar, 2009

Lokahnykk Seðlabanka nánast lokið


Úr því að ég fór út á þá hálu braut, að lýsa aðdraganda og starfi að uppsetningu, eða byggingu löngu tímabærs baðherbergis í þessu húsi, finnst mér rétt að greina frá því, að nú er þessu verki nánast lokið; eingöngu eftir að láta sérsmíða, eða sérsníða spegil (hér er í engu til sparað, eins og nærri má geta) og að finna (eða láta sérsmíða) hirslu af einhverju tagi sem þarna fellur vel að.

Það þarf varla að hafa um það mörg orð, að hér er um að ræða eitthvert það besta baðherbergi sem orð fara af, og því ekki að ástæðulausu sem það ber nú nafnið 'Seðlabankinn'.

Nú er að velta því fyrir sér hvaða framkvæmdir eru næst á dagskrá, en þar er sjálfsagt af mörgu að taka, enda kominn tími til, þegar allflestir ungarnir flognir að heiman og því ekki hætta á að þeir muni jaska út því sem lagður hefur verið metnaður í. 

Einn dýrasti einstaki hlutur Seðlabankans var fyrirbæri sem kallast 'tengimúffa' á útskrifuðum reikningi byggingavöruverslunar. Það kom nefnilega í ljós, þegar til átti að taka og ég tók á mig rögg, og hugðist ljúka uppsetningu á vaskskáp, að það vantaði eitt plaststykki sem nauðsynlegt var til að unnt væri að tengja niðurfalli úr vaskinum við vatnslás. Ég reyndi auðvitað að særa svona stykki út úr bræðrum mínum, sem auðvitað áttu erfitt með að skilja hvað um var að ræða, enda ekki til þau orð sem lýsa þessu fyrirbæri með fullnægjandi hætti. Það kom síðan í ljós að hvorugur átti umrædda tengimúffu. Á endanum varð það úr, að heimaverandi bræðurnir skelltu sér á Selfoss á gamlársdag til að takast mætti að ljúka verkþættinum áður en nýtt ár gengi í garð. Það gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig, því afgreiðslumaður í yngri kantinum þvertók fyrir  að svona stykki væri til, en lét þó undan og hleypti sér reyndari jaski að málinu. Auðvitað var þetta stykki til í hundraðavís og ýmsum útgáfum, af hverjum þeir bræður komu heim með tvö, af hverjum annað reyndist passa, en ekki hitt - því mátti bara skila.

Það hef ég orðið var við, við þessar framkvæmdir, að afgreiðslumenn telja afar mikilvægt að maður kaupi fleiri en eina tegund, og fleiri en eitt stykki, svo getur maður bara skilað aftur. Vissulega er þetta að mörgu leyti jákvætt, en það læðist að mér sá grunur, að þetta sé stefna fyrirtækisins, þar sem þar vita menn að oft ferst fyrir að skila, sérstaklega ýmsu smádóti.

Hvað um það - Seðlabankinn er kominn í gagnið.

Í Seðlabankann ég sæki kraftinn
og sé engan mun á því
að gefa helvítis hundi á kjaftinn
og að heiðra minn Guð á ný.

(Ég bið lesendur að hneykslast ekki á óviðurkvæmilegu orðfærinu, en það þýðir ekki það sem það virðist þýða. Til þess að skilja hvað hér er um að ræða, þarf að kafa ansans ári djúpt - horfa framhjá orðunum og meðtaka hina þrauthugsuðu merkingu sem að baki liggur)

01 janúar, 2009

Hvenær ætlar Kirkjuholt eiginlega að byrja - eða..?


Þetta klassíska gullkorn var eitt af þeim sem féllu í tengslum við flugeldaskothríð í Laugarási í gærkvöld. Fylgst var grannt með því hvaðan skotið var og oftar en ekki rökrætt töluvert. 
'Þarna kom ein sæmileg frá Hveratúni!'
'Nei þessi kom sko frá Sólveigarstöðum'

Það sem einkenndi þetta kvöld var umtalsverður kreppusvipur á flugeldunum, eða þá það, að í Laugarási býr um þessar mundir aðallega fólk á miðjum aldri og eldra, sem lætur orðið eins og það hafi ekki gaman að svona löguðu. Fyrir utan einhverja, að því er virtist, endalausa sprengiköku við brennuna við Brennuhól, heyrðist vart eða sást til sprenginga fyrr en áramótaskaupi lauk, en þá lifnaði líka talsvert yfir mannskapnum. Auðvitað var ekki spurning um það að samsetning flugeldasýningar Kvisthyltinga bar af, enda ekki við öðru að búast, með pottþétt kökutilboð á boðstólnum. Vissulega verður það að viðurkennast að heimilisraketta gamla unglingsins, sem var með tveim sprengikúllum, var alveg sæmileg. Aðrir stóðu ekki undir væntingum.
-------------------------------------
Á þessum nýársdegi blasir hversdagsleikinn við á ný og allt stefnir í að hann verði nokkuð langur, en handan hans bíður eitthvað til að takast á við og njóta - eins og alltaf er, þó svo segja megi að mörgum reynist tíminn sem framundan er fremur strembinn.

Þegar við erum búin að hlusta af athygli á afsökunarkenndan bjartsýnisboðskap forsætisráðherra og forseta er ekki eftir neinu að bíða - hefjumst handa af kappi - það býr mikill kraftur í þessari þjóð! - verst að það eru bara aðrir sem njóta afrakstursins. 

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
spyr ég sem álfur út úr hól.

30 desember, 2008

Hvort er ég?

Það hefur nú ekki verið minn stíll, svona almennt séð, að gera mál úr því þótt eitt og eitt ár tínist í safn þeirra sem ég hef þegar safnað upp. Þessu sinni hélt ég að ég væri einu ári eldri en raunin er  - og það merkilega er, að það breytir engu. 
Í barnaskap mínum tók ég til við það í morgun, að svara stuttlega nokkrum kveðjum sem mér höfðu borist frá nátthröfnum á fésbókinni. Þetta hefði ég sennilega ekki átt að gera því það skipti engum togum, að í allan dag hafa streymt þarna í gegn afmæliskveðjur frá þeim sem þar eru skráðir sem 'friends'. Ég er auðvitað afskaplega réttsýnn maður í öllu tilliti og hef því ekki kunnað við annað en að svara hverri einustu kveðju, með þeim afleiðingum að fáu öðru hef ég komið í verk - meira að segja seðlabankinn hefur beðið.

Ég er búinn að læra eitt enn í tengslum við fésbókina - sko mig.

---------------------------

Annars er fátt um þennan viðburð að segja annað en, að ég vex enn að þroska og viti, svo ekki sé  talað um reynsluna, sem er hreint alveg að sliga mig. Allt sé ég með réttum gleraugum og ég hef enn ekki hitt þann einstakling sem hefur heilbrigðari og réttari sýn á allt og allt.

Ég vil loks þakka kærlega fyrir allar kveðjurnar sem mér hafa borist, og við þá fésbókarvini mína, sem enn eiga eftir að senda mér kveðju, vil ég segja, að ef þeir fá ekki viðbrögð frá mér, þá er það vegna þess að ég er orðinn örmagna.
Loks óska ég öllum þeim sem ég hef átt samskipti við og sem lesa þessi skrif, þakklæti mitt fyrir líðandi ár, með von um að við fáum öll að njóta hóflegrar gleði  og nýrra áherslna á árinu sem vofir yfir.

Nú ár er að líða í aldanna skaut
og enginn veit hvað okkar bíður.
Þá vart geislar birtu á vinanna þraut  
ég vona það samt - engu' að síður

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...