28 apríl, 2009

Undanfari frásagnar af......

...Danmerkurferð Kvisthyltinga, vaxandi ungfrú og vægu (eða stórkostlegu, eða engu)  menningarsjokki.

Það er ekki amalegur kokteill sem bíður lesenda undir helgi, þegar tími gefst mögulega til að gera þessu öllu skil. 

Þegar má finna úttekt hér, og hér.

Mín verður án efa toppurinn á kökuna, en.... bíðum og sjáum.

21 apríl, 2009

Spegilmynd með gati


Það kom um það formleg tilkynning í dag að sérsniðinn Seðlabankaspegillinn sé tilbúinn og bíði þess að ég nálgist hann. Það er ekki svo, að hann sé kúptur eins og ég gerði tillögu um í síðustu færslu á þessari eðalsíðu. Ég reikna með, miðað við framkvæmdahraðann hingað til, að hann verði kominn upp fyrir hvítasunnu. Það þarf nefnilega að hugsa sig vel um áður en svona gagn er sett á vegg og að mörgu að hyggja. Vissulega er ég kominn með frumhugmyndir um framkvæmdina, sem miða að því að dýrindið brotni ekki, en betur má ef duga skal.

Að öðru leyti kemst maður ekki hjá því þessa dagana, að spegla sig í þeim hörmulegu spegilmyndum sem dregnar eru upp af 'slæmri stöðu heimilanna og fyrirtækjanna.' Þetta eru orðnar svo ómerkilegar klisjur og útjaskaðar, að ég er farinn að ranghvolfa augunum af leiðindum í hvert skipti sem þær ber á góma. Mig er farið að svíða í augum af öllu ranghvolfinu. Í öllu orðagjálfrinu er alltaf skilið eftir gat, svona alveg eins og verður í nýja, fína speglinum. Ég veit til hvers spegilgatið er, og jafnvel líka umræðugatið. Það gat snýst um það, nákvæmlega: hvernig við stöndum, hvað þurfum við til að komast úr úr þessu og hverjir fá makleg málagjöld? Ég verð ekki sáttur fyrr en ég tel fullvíst að þeir sem bera ábyrgðina þurfa að svari til saka.

Úpps - ég hóf þetta með það að markmiði að vera léttur og kátur í málflutningi, en það reynist víst ansans, ári erfitt þessa dagana. Það virðist enginn vita neitt hvað verður og þá er gripið til þess að tala í klisjum.

Það liggur við að maður vorkenni aumingja íhaldinu ómögulega stöðu, en það gerir maður bara hreint ekki. Það þarf dálítið mikið meira til.

Framundan er fermingarferð, sem var keypt áður en K skall á. Það verður fróðlegt að kynnast fermingarsiðum þarlendra svo ekki sé talað um umtalsverða tilhlökkun að hitta smákonu nokkra og foreldra hennar, sem koma til til móts við Kvisthyltinga.
Framundan sýnist að sjái
hjá Siggu' og Sighvati
sérlega fallega skjái
og spegil með gati.

Þessi hjón geta verið hvaða hjón sem er, svona eins og Jón og Jóna.



19 apríl, 2009

Í sviðsljósinu


fD hefur lýst ákveðnum efasemdum um, að nýjasta viðbótin við Seðlabankann sé í samræmi við þarfir.
"Þetta er eins og í leikhúsi!"
Ég er auðvitað ekki sammála þessari lýsingu þar sem ég rakst á þessi fínu ljós á útsölu hjá þessari fínu ljósabúð. Þar fyrir utan, ef maður vill samlíkingu við leikhúsið, þá er það bar fínt.

Eins og gengur og gerist á þessum bæ, er ekkert verið að rasa um ráð fram í framkvæmdum, en þegar valið stendur á milli þess, að fara yfir helling af fremur lítið óleiðinlegum verkefnum nemenda og að tengja lýsinguna sem að ofan er greint frá, þarf enginn að efast um niðurstöðuna: ég skellti mér í rafvikjun í gær og er lifandi í dag, en það segir ekkert annað en það að ég fór mér ekki að voða við verkið. 

Upp eru  komin ljósin, sem ætlað er að varpa birtu á hvern þann, sem vill sjá spegilmynd af fegurð sinni, eða hverju því sem við kann að blasa þegar ljósaflóðið skellur á. Þarna hverfa allar afsakanir fyrir því að geta ekki gert sig eins fínan og flottan og efni standa til. Ekkert verður falið, engir skuggar, allt blasir við, öllu eru gerð skil.
Ég er að velta því fyrir mér hvort ekki sé rétt að endurskoða pöntun á sérsniðnum speglinum sem þarna á síðan að verða punkturinn yfir i-ið. Það gæti verið hugmynd, til að fullnýta lýsinguna, að fá þarna upp kúptan spegil, sem myndi gefa áhugasömum færi á að skoða hvern einstakan fílapensil og fylgjast síðan daglega með þróun hans.

Um leið og ljósið leikur um það sem það er beint að, flæðir frá því hiti leikúskastaranna og húðin opnast og hárið mýkist og allt verður meðfærilegra. Það er engu líkara en maður liggi á sólarströnd í suðrænu landi.
Ef það er eitthvað, sem ef til vill mætti betur fara er, að þegar ljósaflóðið skellur framan í mann þá sér maður nánast ekki það sem við blasir í speglinum, sem getur verið jákvætt ekki síður en neikvætt.

Í ljósbaði læt ég mig dreyma
um ljúfar stundir .
Held þá um heima og geima
með höku undir.

-þetta er dýrt

17 apríl, 2009

Aðferðin sem ég notaði....

...við að kjósa í dag var harla einföld:

Fyrst tók ég frá það sem engan veginn kom til greina:

- eitt framboð sem er þess eðlis  að ég hefði talið líklegra að ég gengi fyrir björg en stimpla stafinn þess á seðilinn sem ég hafði til að kjósa á.

- eitt framboð sem er einhversstaðar langt út úr öllu samhengi við raunveruleikann sem við lifum og álíka líklegt að finna krækiber í helvíti og að það fyrirbæri nái inn manni - því atkvæði kastað á glæ, engum til gagns.

- eitt framboð sem virðist helst fá fylgi þeirra sem eru eitthvað ósáttir við það fyrst nefnda og virðist þar að auki ekki líklegt til stórra afreka.

- eitt framboð sem er ekki neitt neitt neitt neitt - atkvæði út um gluggann.

- eitt framboð sem sem sjálfsagt man fífil sinn fegri en sökk ofan í spillingar og fjárglæfrafenið og er þar enn þrátt fyrir tilraun til að klæða sig í ný föt. 


Þá eru tvö framboð eftir og ég verð að viðurkenna, að ég hef svo sem ýmislegt að athuga við þau bæði. Þau eiga það samaeiginlegt, að bæði eru höfuðandstæðingar þess fyrst nefnda að ofan og það er jákvætt. Mitt atkvæði skyldi ég nota þannig, að það væru líkur á að það nýttist gegn því hörmungarfyrirbæri sem þessi þjóð þarf að burðast með.
Þegar ég var búinn að vega og meta þessi tvö framboð á ýmsum forsendum varð niðurstaðan sú, að ég kaus.................

x
x
x
x
x
x
x
x
x
x
x
x
x
x
x

A N N A Ð   Þ E I R R A 
- he he

Ekki það að flestir þeir sem þekkja mig viti ekki nokkurn veginn hvorum megin hjarta mitt slær.


Sálarsala?
Ungur samverkamaður sagði við mig í dag að hann væri sterklega og í alvöru, að velta fyrir sér að skrá sig í tiltekinn stjórnmálaflokk og tryggja þar með örugga framtíð sína og framgang ínnan stjórnkerfisins. (Hann er harður andstæðingur flokksins, hinsvegar)
Aðgerð af þessu tagi tel ég að jafngildi því að selja sál sína og til slíks hef ég ekki geð. Ef mönnum er ekki annt um sálarheill, þá er þetta valkostur.

Góð ráð:
Að lokum, fyrir þau ykkar sem enn hafið viku til að ákveða ykkur: 
Lesið endilega umfjöllun mína um framboðin, sem ég birti hér fyrir nokkru. Gætið þess bara, að lesa allar þeirra nema tvær meða algerlega öfugum formerkjum, þá mun valið verða ykkur auðvelt.

12 apríl, 2009

Hrossahlátur á páskadag


Ég var sendur í enn eina ferðina til að ná góðri mynd af snoppunni á þeim rauðnösótta á þessu ágæta páskadegi. Myndaði í gríð og erg þar til fyrirsætan var farin að velta fyrir sér hverju þetta sætti. Eigum við ekki bara að hafa það svo, að hún hafi spurt mig beint og að ég hafi gert grein fyrir því að þetta væri allt í þágu listarinnar.
Það skipti allavega engum togum, sá rauðnösótti rak upp hrossahlátur og ætlaði aldrei að hætta. Svo endaði hann á því að reka út úr sér tunguna á þetta allt saman.

Það virðist ljóst af þessum myndum, að ekki er vanþörf á á fara að huga að tannhirðunni.

Ég hef fengið staðfestingu á því að hér er um að ræða Þann Rauðnösótta.

Páskavor

"Hvað á að klippa mikið af þessu?"
"Er ekki best að þú ákveðir það?"
"Mér finnst að það þurfi að vera sameiginleg ákvörðun."
"Taka bara vel af því."
"Hvað er það mikið?"
"Bara...."



Það sem hafði gerst áður en þetta samtal átti sér stað var, að fD hafði orð á því, þar sem ég sat í rólegheitum að fylgjast með óförum íhaldsins á allskyns .is vefsvæðum, að það þyrfti að fara að snyrta runna og tré. Það hefur væntanlega umlað eitthvað í mér, en það næsta sem ég sá til frúrinnar var, að hún kom neðan úr kjallara klyfjuð klippum og útiverubúnaði og stefndi út í garð og lokaði útidyrunum á eftir sér.
Nokkru síðar opnuðust dyrnar aftur, ég í miðju kafi að lesa um hvað Guðlaugur Þór væri í vondum málum, og samtalið átti sér stað. Í lok þess gerðist hið óhjákvæmilega: ég yfirgaf vefheima og hélt út í vorið, þar sem ég síðan dvaldi við trjáklippingar drjúga stund. Ég klippti þetta allt meira og minna niður, án þess að sérstakar athugasemdir væru gerðar við það. 
Vissulega hafði ég í huga orð fD sem fallið höfðu síðastliðið sumar eftir aðgerðir í trjáklippingum á þessum bæ og sem ekki féllu í besta hugsanlegan jarðveg. Einnig orð sem féllu á útmánuðum þegar lítilsháttar umræða átti sér stað um fyrirhugaða snyrtingu á trjágróðrinum: "Ég treysti þér eiginlega ekki til að klippa runnana!"


Þessi aðgerð gekk sem sagt upp og eftir standa fallegir, ólaufgaðir runnarnir, tilbúnir að gera sitt til að fegra umhverfi sem er eiginlega fegurra fyrir, en orð fá lýst.

Nú er páskadagsmorgunn, sem hófst með bakstri sem fD átti frumkvæði að, en ég framkvæmdi, þar sem ég var sneggri að koma mér framúr. Það var ekki slæmt að eyða drjúgum hluta morguns í að snæða nýbakað brauðið með sérvöldu áleggi að vild. Á meðan missa útsofandi páskagestirnir, sem eru náttúrulega engir gestir, bara á-Íslandi-verandi Kvistholtsbörnin, og missa af því að fá brauðið volgt úr ofninum.

Framundan er messulaus dagur sem ber í sér vonina um vorið sem er á næsta leyti. Það er kannski svalt utandyra, en það er íslenskur svali, alveg eins og hann á að vera.

Þar sem nú er dagur málsháttanna:
Eigi skal hönd lyfta fyrr en lyft er hönd.

Megið þið njóta páskahátíðarinnar eins og ykkur finnst best.

10 apríl, 2009

Sex í sveit - a la Bisk

Fyrst og fremst finnst mér að virðingarvert að fólk skuli leggja það á sig, af áhuganum einum saman, að setja upp leikrit hér í sveit ár eftir ár. Ég veit það hinsvgar af fyrri reynslu minni og þátttöku í svona löguðu, að fyrir þetta fólk snýst þetta hreint ekki um kvöð, heldur einskæra ánægju; skemmtunin er ekki síður þeirra en okkar hinna sem fáum að fylgjast með afrakstrinum.
Heimaverandi Kvisthyltingar gerðu sér ferð í leikhús í gærkvöld. Leikdeild Umf. Bisk. sýnir þessa dagana hinn vel þekkta farsa: 'Sex í sveit'.
Eins og farsa er siður gengur þarna allt með einhverjum ólíkindum - söguþráðurinn er snúinn og undinn einhvernveginn utanum um hið vinsæla og klassíska þema, sem framhjáhald er.
Skemmst er frá að segja að þetta var hin ágætasta skemmtun og eins og vill verða við þær aðstæður þar sem maður þekkir alla leikendur meira og minna, eykur það umtalsvert við skemmtanagildið.
Frammistaða leikendanna var auðvitað misjöfn, en alltaf nógu góð. Besta valdið að farsatöktum fannst mér þau hafa, Sigurjón Sæland og Íris Blandon, en þetta svið leiklistarinnar er ekki hið auðveldasta að takast á við.
Þá fannst mér sérlega gaman á sjá Bjarna á Brautarhóli í hlutverki kraftajötuns.

Skemmtilegt hve margir lögðu leið sína í Aratungu í gærkvöldi.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...