"Er ekki best að þú ákveðir það?"
"Mér finnst að það þurfi að vera sameiginleg ákvörðun."
"Taka bara vel af því."
"Hvað er það mikið?"
"Bara...."
Það sem hafði gerst áður en þetta samtal átti sér stað var, að fD hafði orð á því, þar sem ég sat í rólegheitum að fylgjast með óförum íhaldsins á allskyns .is vefsvæðum, að það þyrfti að fara að snyrta runna og tré. Það hefur væntanlega umlað eitthvað í mér, en það næsta sem ég sá til frúrinnar var, að hún kom neðan úr kjallara klyfjuð klippum og útiverubúnaði og stefndi út í garð og lokaði útidyrunum á eftir sér.
Nokkru síðar opnuðust dyrnar aftur, ég í miðju kafi að lesa um hvað Guðlaugur Þór væri í vondum málum, og samtalið átti sér stað. Í lok þess gerðist hið óhjákvæmilega: ég yfirgaf vefheima og hélt út í vorið, þar sem ég síðan dvaldi við trjáklippingar drjúga stund. Ég klippti þetta allt meira og minna niður, án þess að sérstakar athugasemdir væru gerðar við það.
Vissulega hafði ég í huga orð fD sem fallið höfðu síðastliðið sumar eftir aðgerðir í trjáklippingum á þessum bæ og sem ekki féllu í besta hugsanlegan jarðveg. Einnig orð sem féllu á útmánuðum þegar lítilsháttar umræða átti sér stað um fyrirhugaða snyrtingu á trjágróðrinum: "Ég treysti þér eiginlega ekki til að klippa runnana!"
Þessi aðgerð gekk sem sagt upp og eftir standa fallegir, ólaufgaðir runnarnir, tilbúnir að gera sitt til að fegra umhverfi sem er eiginlega fegurra fyrir, en orð fá lýst.
Nú er páskadagsmorgunn, sem hófst með bakstri sem fD átti frumkvæði að, en ég framkvæmdi, þar sem ég var sneggri að koma mér framúr. Það var ekki slæmt að eyða drjúgum hluta morguns í að snæða nýbakað brauðið með sérvöldu áleggi að vild. Á meðan missa útsofandi páskagestirnir, sem eru náttúrulega engir gestir, bara á-Íslandi-verandi Kvistholtsbörnin, og missa af því að fá brauðið volgt úr ofninum.
Framundan er messulaus dagur sem ber í sér vonina um vorið sem er á næsta leyti. Það er kannski svalt utandyra, en það er íslenskur svali, alveg eins og hann á að vera.
Þar sem nú er dagur málsháttanna:
Eigi skal hönd lyfta fyrr en lyft er hönd.
Megið þið njóta páskahátíðarinnar eins og ykkur finnst best.
þennan málshátt mun ég hafa að leiðarljósi fram eftir... ævi.
SvaraEyðaHirð.kv.
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
SvaraEyða