16 ágúst, 2009

Jú, einhverjir höfðu bætt á sig ýmsu.

Ég hef haldið því fram að fésbókin væri heldur ónauðsynlegt og gagnslaust fyrirbæri. Það er orðið svo að þarna virðast margir ekki hafa annað að gera en takast á við ýmiss konar persónuleikapróf og þeir eru auðvitað frjálsir að því - þó nú væri. Minn vandi er bara, að ég hef engan áhuga á að vita hversu mörg prósent vondur einhver 'vina' minna er, eða hvað það er sem þeir eru að finna þarna út um sjálfa sig og láta okkur hin vita.

Jæja - ég hef komist að því, eftir allt saman að bókin getur gert gagn. Í gær var blásið til hátíðar í Laugarási. Hún varð til með hópsmyndun á fésbókinni og var fyllilega tímabær. Það var sérlega gaman að sjá þarna ýmsa þá sem hér undu sér í einhverri fortíð. Þarna gafst færi á að rifja upp þann tíma sem hver og einn átti hér sameiginlegan með einhverjum öðrum. Vissulega vantaði talsvert á að fulltrúar allra tíma væru þarna, en því fleiri tilheyrðu öðrum og gátu því rifjað umm nokkuð nákvæmlega það sem á dagana dreif og þá aðallega það sem foreldrarnir vissu ekki af.
Kvöldið var grillkvöld og síðan þannig kvöld sem oft fylgir grillkvöldum. Allt var þetta í mesta bróðerni og margt skrafað.

Leiðsögumaður og aðalupprifjandi og örnefnasérfræðingurinn var Bjarni bóksali og gerði hlutverki sínu góð skil.
Frumkvöðlum að hátíðinni ber að þakka.

Myndir hef ég sett hér - svona fyrir áhugasama.

14 ágúst, 2009

ÍSPAR og eðalfíflin

Skyldi það fara að gerast bráðum að það komi einhver niðurstaða í ÍSPAR farganið sem er búið að tröllríða allri vitrænni og ekki síður arfavitlausri umræðu í þessu arma landi undanfarnar vikur.
Trú mín á þessa þjóð hefur farið minnkandi eftir því sem ég les fleiri bullfærslur á fésbók eða bloggsíðum, eða tjáningar í ljósvakamiðlum og dagblöðum. Kjarni málsins er nákvæmlega sá sem stóð upp úr fjármálaráðherra Noregs í dag: Íslendingar verða að bæta þann skaða sem sem frjálshyggjutilraunin olli. Hverjum dettur í hug að halda einhverju öðru fram? Íslendingar sem heild bera þessa ábyrgð með því hvernig þeir greiddu atkvæði í kosningum. Það er ekki flókin speki. Þó ég hafi ekki veitt framsóknarfrjálshyggjuapaköttunum dýrmætt atkvæði mitt, get ég ekki skorast undan ábyrgð, vegna þess að ég styð það að lýðræðislega kjörinn meirihluti stýri málefnum þjóðarinnar.

Vissulega er endalaust hægt að draga fram í dagsljósið hina og þessa spekinga sem segja hitt og þetta - algerlega ábyrgðarlaust, að sjálfsögðu, en eftir stendur að núverandi ríkisstjórn situr uppi með ástand sem engan veginn verður við ráðið svo allir verði bara sáttir. Kröfurnar sem fólk gerir til þess að öll þess vandamál verði leyst si svona, eru hreint ekki raunhæfar. Það bölsótast hvar sem færi gefst, út í stjórnvöld sem eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður og verða þar að berjast innan embættismannakerfis sem er gegnsýrt flokksgæðingum vegna embættisveitinga undanfarin 18 ár.

Framganga þeirra sem nú hafa misst pólitískan meirihluta (dýrð og dásemd) (hafa þó mikinn meirihluta í embættismannakerfinu) finnst mér vera sérlega ámælisverð. Forystumenn þeirra eru kannski nýir í hettunni, sem slíkir (eiga samt örugglega sína sögu, sem ég ætla ekki að fara að fjölyrða um), en þeir eru talsmenn þeirra stjórnmálaflokka/stefna sem bera ábyrgðina á öllu saman. Eigendur flokkanna eru þarna enn á bakvið, þannig að það er mikið tómahljóð í öllu gaspri strákanna og þeirra fólks.
Hvernig hefur síðan þjóðin verið að bregðast við? (Vissulega á þjóðin ekki góða daga og margir að komast eða þegar komnir á vonarvöl, af ýmsum ástæðum). Jú, þjóðin virðist vera að taka gömlu valdaflokkana í sátt. Þjóðin vill fá eitthvert 'quick fix', sem er bara hreint ekki fyrir hendi og það er eins gott að hún fari að átta sig á því.

Eftir því sem ég reyni meira að skrifa mig frá því angri sem hér er að brjótast fram, því fleira kemur upp í hugann sem ég tel vera hina örgustu svívirðu í þessu ástandi öllu saman. Ég hef slepp hlut góðmennanna allra, sem skelltu sér í víking. Megi þeirra laun verða ríkuleg. Þá hef ég ekki minnst á kónginn sjálfan, sem mætti til mótmælastöðu í gær - til að mótmæla sjálfum sér, væntanlega - er hægt að mótmæla einhverju öðru? (Mér datt Salvador Dali í hug)

Svo mikið hef ég lært að lífsgöngu minni, að maður á aldrei að skrifa neitt í reiði. Ég er nú smám saman að verða reiður og þess vegna hef ég ákveðið að láta staðar numið.

-----------------------

Á morgun er Laugaráshátíð. Það verður gaman að sjá andlit sem hafa verið fjarri árum og áratugum saman. Megi sú samkoma fara vel og verða til góðs.






11 ágúst, 2009

Síðasta raunverulega tækifærið til að sinna því sem sinna þarf

Ég hef ákveðið að leggja ekki í að skrifa ferðasögu frá 3gja Norðurlanda reisu sem er nú afstaðin. Það geri ég af tveim ástæðum:
1. Það nennir enginn að lesa þá langloku sem úr því yrði.
2. Ég hef ekki nægilegt andrúm til að sinna því eins og þörf væri á.
Læt mér nægja að þakka þeim sem sátu uppi með okkur þann tíma sem þarna var um að ræða og gerðu sitt til að þetta var bara alveg ósköp ánægjulegt.

Ég læt mér nægja að vísa á myndir frá þessum tíma, en þær segja oft meira að annað.

Loks ætla ég að bölsótast lítillega yfir svikinni vöru.
Stórfenglegar aðgerðir hafa átt sér stað í kjallarageymslu hér á bæ. Hluti þeirra hefur verið að slípa gólf, mála og lakka loks yfir. Þetta höfum við Kvisthyltingara gert áður með góðum árangri. Eftir leiðbeiningar frá starfsmanni stórverslunar á Selfossi var mælt sérstaklega með PINOTEX lakki til að tryggja góða endingu á gólfinu. Gólfið var lakkað fyrir 3 dögum. Það sem hefur gerst síðan að lítilsháttar tilfærslur hafa átt sér í geymslunni. Afleiðingarnar voru þær að hvar sem eitthvað komst í snertingu við þetta bévítans lakk þá flagnaði það af. Þá vildi svo illa til, að lítilsháttar vatnsleki átti sér stað með þeim afleiðingum að "lakkið" bólgnaði upp.
Það má öllum vera ljóst, sem fylgst hafa með skrifum á þessari síðu, að hér er engrar sakar að leita hjá mér. Þó nú væri!

Það var svo nú í morgun, að fD taldi rétt að skella sér í sólbað (alltaf sól í Laugarási). Henni fannst við hæfi, að ég gerði slíkt hið sama, sem ég hafnaði góðlátlega, þar sem ég taldi þeim örskamma tíma frelsis sem eftir er, betur varið í að sinna ýmsu því sem þarf að sinna áður en haldið er til starfa í fyrramálið.


07 ágúst, 2009

Það hafði rignt um morguninn.....

.... en síðan létti til undir hádegið og skall á með úrvalsveðri til að heimsækja Akershus virkið (Akershus festning), sem stendur á hernaðarlega mikilvægum stað við höfnina í Osló. Þarna munu konungar Noregs hafa búið, líkega fram á 17. öld.


Það vildi svo vel til að þegar við stigum fæti inn í virkið voru að hefjast vaktaskipti varðmannanna sem gæta þessa merka staðar eins og sjáaldra augna sinna. Það varð fljótt ljóst, að ekki voru hér á ferð hermenn sem höfðu hlotið eldskírn sína í stríði, heldur virtust þetta allt vera svona rétt rúmlega grunnskólanemar.
Hér er hluti þeirra varðmanna sem mér virtist að biðu þess að vera leystir af.


Það fékk ég staðfest þegar annar hópur varðmanna kom marsérandi og stefndi átt til félaga sinna.


Það þarf varla að taka það fram, en búningar þessa unga fólks voru afar glæsilegir, örugglega nýkomnir úr hreinsun og pressun og skórnir sannkallaðir blankskór, nýpússaðir svo sólageislarnir endurspegluðust í augu talsverðs hóps viðstaddra, en ferðamönnum þykir alltaf gaman að fylgjast með vaktaskiptum varðamanna við konugshallir.

Loks stóðu hóparnir tveir andspænis hvorum öðrum og liðþjálfi steig fram og öskraði, eins og liðþjálfar eiga að gera, (ein, tveir og smella hælum!!! - eða eitthvað þvíumlíkt) skipanir um að nema staðar.


Þegar liðþjálfi segir hermanni að nema staðar, þá nemur hann staðar, hvar sem hann er staddur. Þegar hann segir hermanni að smella hælum, þá smellir hann hælum (stappar fast í jörðina). Örlög eins varðamannanna voru síður en svo eftirsóknarverð við þessar aðstæður. Þegar honum var skipað að stansa þá stóð hann ofan í polli og gat sig þaðan hvergi hrært. Þegar honum var síðan skipað að smella hælum, þá stappaði hann í miðjan pollinn og gusurnar gengu yfir gljáandi skóna og stífpressaðar buxurnar, ekki bara hans heldur einnig félaga hans. Þegar hér var komið áttu einhverjir hinna ungu varðmanna nokkuð erfitt með að halda alvöruþrungnum svip og áhorfendur skemmtu sér konunglega. Varðmaðurinn ungi laumaðist til þess, smátt og smátt og færa fótinn upp úr pollinum, eins og hér má sjá:



Þegar hér var komið varð nokkur bið á framhaldinu. Einhverjir varðmannanna marséruðu burtu en hinir stóðu áfram hreyfingarlausir um alllanga hríð. Eins og sjá má á Íslendingunum sem þarna voru viðstaddir, var þessi bið orðin nokkuð erfið. Þeir skimuðu í kringum sig eftir einhverjum vísbendingum í umhverfinu um framhald málsins.



Þar kom loks, að 4 varðmenn komu marsérandi til hinna sem fyrir voru.




Enn hóf liðþjálfi að öskra skipanir um að gera hin og þessi trix með byssunum, m.a. að setja á þær byssustingi (sem einn reyndar klúðraði nokkuð vel) - og að smella hælum (stappa niður fæti). Það var nákvæmlega það sem fremur illa þenkjandi áhorfendur höfðu beðið eftir.



|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
\/






04 ágúst, 2009

"Afhverju stendur 5. ágúst á miðanum?"

Stundin er 3. ágúst kl. 17.00.
Staðurinn er Gardemoen flugvöllur, einhvers staðar nálægt 60 km norðan Osló.
Tilefnið er heimferð eftir sérlega góða viku hjá Norsurunum okkar.
Næsta stopp er Kaupmannahöfn þar sem meiningin er að gista eina nótt áður en stefnan er tekin á landið góða um hádegi á morgun.

Það kannast væntanlega flestir við þá tilfinningu sem felst í því að sjá framundan einhvern endapunkt, t.d. að sumarfríið eigi að hefjast á föstudaginn. Við þær aðstæður á maður erfitt með að ímynda sér að þurfa fyrirvaralaust að bæta við einni vinnuviku. Slík tilhugsun er fremur óþægileg.

FD er, eins og hennar er von og vísa, að kanna eina ferðina enn, hvort flugið á morgun sé ekki örugglega kl. 12.50. Í leiðinni kíkir hún einnig á dagsetninguna, svona formsins vegna. Það er þá sem spurningin kemur; spurningin sem mótaði fyrirsögnina þessu sinni.

Það þarf varla að lýsa því sem gerist í framhaldinu. Við missum af því þegar flugvélin til Prag fylltist farþegum og flýgur á braut. Okkur finnst það ekkert mál þótt fluginu til Kaupmannahafnar seinki um s.s. hálftíma. Tilhugsunin um, að á morgun á sama tíma verðum við að renna í hlað í Kvistholti, gufar upp eins og regndropi á sólbökuðu malbiki.

--------------

Það hefur tekist furðu vel að vinna úr þessu áfalli, enda okkur ekki í kot vísað hjá Höfðum Íshæðinga. (þá bið ég hér með forláts á því að hafa stolist í tölvuna þeirra).

Nú er búið að endurstilla, búið að margtékka á brottfarartíma, búið að láta hagsmunaaðila vita.

Allt er klárt.

21 júlí, 2009

12 kíló af sögulegum saum - naglar með tilfinningalegt gildi?

Einn er sá staður í þessu húsi sem hefur þurft að þola meira en aðrir að því er varðar umgengni af fúsum og frjálsum vilja, en það er "geymsla" í kjallaranum. (Ég nefni nú ekki einu sinni þann hluta kjallarans sem fær þann heiður að hýsa hinn íslenska hluta húsgagna tenórfjölskyldunnar, blessaðrar, enda allt í röð og reglu þar). Það hefur farið svo, að þrátt fyrir að nokkrar tilraunir hafi verið gerðar til að koma skikki á það sem í geymsluna hefur ratað, hefur allt jafnharðan leitað í sama farið. Nú var svo komið að gólfið var nánast horfið sjónum og það þótti ljóst á þessum bæ, að við svo búið yrði ekki unað.

Þetta var því dagurinn þegar hin endanlega árás var gerð.

Fyrirfram lá fyrir þessu sinni, sem ekki hefur verið áður, að tilteknir hlutir og efni skyldu fjarlægð endanlega. Meðal þessa má nefna:
- þakmálningu sem notast átti í seinni umferð á þakið fyrir 25 árum, ferðina sem aldrei var farin,


- prjónavel, vandaða, sem því miður hefur aldrei virkað sem skyldi, en hafði fram til þessa verið sett á, í von um að lækning fyndist með tímanum,
- reiðhjól sem ekki hefur verið notað í 10 ára, enda bilað í bak og fyrir,
- ótal dollur af málningarrestum, sem alltaf var von til að gæti nýst síðar, sem auðvitað varð aldrei, enda hefur þróun í gæðum málningar verið umtalsverð á síðustu áratugum.


Svona má afram telja. Þetta sem hér hefur verið nefnt, var sett í kerru og keyrt í spilliefnagáma í Holtinureyk og í járnagám hér miklu nær.

Það varð svo, þrátt fyrir góðan vilja, að ýmislegt varð eftir - það gat nú ekki endað með öðrum hætti. Það sem því veldur er af þrennum toga:
- dótarí af ýmsu tagi sem hefur svokallað 'tilfinningalegt' gildi. Ég fer ekki nánar út í það.
- efni sem ekki teljast vera útrunnin (þó þau (einhver þeirra í það minnsta) séu það raunar, og það fyrir löngu) og möguleiki getur verið á að nýta með einhverjum frumlegum og óhefðbundum hætti. Hér vil ég nefna t.d afganga af flísum af ýmsu tagi, múrefni, og flísalím.
- efni sem er í fullu gildi en ekki lágmarkslíkur á að verði nokkurntíma notuð af þeim höndum sem hér slá lyklaborð. Hér er t.d. um að ræða 5 kg af galvaníseraðri fírtommu, 5 kg af galvaníseraðri fimmtommu, 1 kg af dúkkaðri, galvaníseraðri einoghálftommu, 1 kg af galvaníseraðri tommu. Ég hef í huga mér verið að velta fyrir mér - leggja hugræn drög að því - að leggjast í listræna vinnu við að sameina ofangreindan saum og plötuafganga og lakk á úðabrúsum þannig, að úr verði ódauðlegt verk til að prýða húsakynnin - nú eða jafnvel sem upphaf að einhverju enn meira.

Það hefur marga kosti að búa í húsinu sínu á sama stað lungann úr ævinni, ekki síst þessum stað, en óhjákvæmilega hefur það í för með sér, að maður hugsar með öðrum hætti um hvað gera skal við það sem af gengur.





17 júlí, 2009

Þeim finnst það fyndið.

Það er auðvitað ekkert að því að finnast eitthvað fyndið, ekki síst ef húmorinn beinist að manni sjálfum.
Ef hann hinsvegar beinist að einhverjum öðrum, skiptir máli hvað það er sem er fyndið. Það er t.d. í góðu lagi að finnast það fyndið þegar einhver segir eitthvað sem hann vonar að sé þess eðlis að fólk hlæi að því. Það hins vegar síður í lagi ef manni finnst það t.d. fyndið þegar einhver stamar eða verður eitthvað á sem hann kann að skammast sín fyrir.

Synir okkar Benedikts, alræmdir knattspyrnumenn í knattspyrnuliðinu Biskup, stóðu frammi fyrir því í vor, að ákveða hvaða heiti skyldi vera aftan á knattspyrnutreyjum þeirra í liðinu, svona eins og t.d. Charlton eða Ronaldo.
Þaim fannst að það þyrfti að vera eitthvað fyndið.
Niðurstaðan varð sú sem hér má sjá:

Hér gefst sem sagt færi á að velta fyrir sér hvað það er sem gerir það að verkum að þessi niðurstaða telst fyndin í hugum knattspyrnumannanna.

Ef maður skoðar fyrst hugsanlega jákvæða fyndni þá mætti til dæmis nefna eftirfarandi:
a. Feðurnir eru svo öflugir, að með tengslin við þá á bakinu fyllast andstæðingarnir lotningu.
b. Piltarnir líta á sig sem verðuga arftaka fyrrverandi knattspyrnustjarna í U.m.f. Bisk.
c. Nafngiftin tengir piltana við sameiginlegan uppruna í gamla unglingnum, frekar en feðrunum.


Með sama hætti má skoða hugsanlega neikvæða fyndni sem kann að búa þarna að baki. Það er ekki laust við, ef dæma má af svipnum á þeim félögum hér fyrir neðan, að slíkt sé jafnvel möguleiki. En hvað væri þá um að ræða? Hugsanlega þetta:
a. Þessir feður þeirra hljóta að vera komnir að fótum fram, með þá svona í blóma lífsins.
b. Ef menn þekkja feðurna þá sjá menn að þeir eru föðurbetrungar - í það minnsta að því leyti er varðar hárafar.
c. Fyndin nöfn - ha ha - Benni Skúla og Palli Skúla - ha ha.

Þetta kemur allt í ljós - eða ekki - eða þannig.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...