Skyldi það fara að gerast bráðum að það komi einhver niðurstaða í ÍSPAR farganið sem er búið að tröllríða allri vitrænni og ekki síður arfavitlausri umræðu í þessu arma landi undanfarnar vikur.
Trú mín á þessa þjóð hefur farið minnkandi eftir því sem ég les fleiri bullfærslur á fésbók eða bloggsíðum, eða tjáningar í ljósvakamiðlum og dagblöðum. Kjarni málsins er nákvæmlega sá sem stóð upp úr fjármálaráðherra Noregs í dag: Íslendingar verða að bæta þann skaða sem sem frjálshyggjutilraunin olli. Hverjum dettur í hug að halda einhverju öðru fram? Íslendingar sem heild bera þessa ábyrgð með því hvernig þeir greiddu atkvæði í kosningum. Það er ekki flókin speki. Þó ég hafi ekki veitt framsóknarfrjálshyggjuapaköttunum dýrmætt atkvæði mitt, get ég ekki skorast undan ábyrgð, vegna þess að ég styð það að lýðræðislega kjörinn meirihluti stýri málefnum þjóðarinnar.
Vissulega er endalaust hægt að draga fram í dagsljósið hina og þessa spekinga sem segja hitt og þetta - algerlega ábyrgðarlaust, að sjálfsögðu, en eftir stendur að núverandi ríkisstjórn situr uppi með ástand sem engan veginn verður við ráðið svo allir verði bara sáttir. Kröfurnar sem fólk gerir til þess að öll þess vandamál verði leyst si svona, eru hreint ekki raunhæfar. Það bölsótast hvar sem færi gefst, út í stjórnvöld sem eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður og verða þar að berjast innan embættismannakerfis sem er gegnsýrt flokksgæðingum vegna embættisveitinga undanfarin 18 ár.
Framganga þeirra sem nú hafa misst pólitískan meirihluta (dýrð og dásemd) (hafa þó mikinn meirihluta í embættismannakerfinu) finnst mér vera sérlega ámælisverð. Forystumenn þeirra eru kannski nýir í hettunni, sem slíkir (eiga samt örugglega sína sögu, sem ég ætla ekki að fara að fjölyrða um), en þeir eru talsmenn þeirra stjórnmálaflokka/stefna sem bera ábyrgðina á öllu saman. Eigendur flokkanna eru þarna enn á bakvið, þannig að það er mikið tómahljóð í öllu gaspri strákanna og þeirra fólks.
Hvernig hefur síðan þjóðin verið að bregðast við? (Vissulega á þjóðin ekki góða daga og margir að komast eða þegar komnir á vonarvöl, af ýmsum ástæðum). Jú, þjóðin virðist vera að taka gömlu valdaflokkana í sátt. Þjóðin vill fá eitthvert 'quick fix', sem er bara hreint ekki fyrir hendi og það er eins gott að hún fari að átta sig á því.
Eftir því sem ég reyni meira að skrifa mig frá því angri sem hér er að brjótast fram, því fleira kemur upp í hugann sem ég tel vera hina örgustu svívirðu í þessu ástandi öllu saman. Ég hef slepp hlut góðmennanna allra, sem skelltu sér í víking. Megi þeirra laun verða ríkuleg. Þá hef ég ekki minnst á kónginn sjálfan, sem mætti til mótmælastöðu í gær - til að mótmæla sjálfum sér, væntanlega - er hægt að mótmæla einhverju öðru? (Mér datt Salvador Dali í hug)
Svo mikið hef ég lært að lífsgöngu minni, að maður á aldrei að skrifa neitt í reiði. Ég er nú smám saman að verða reiður og þess vegna hef ég ákveðið að láta staðar numið.
-----------------------
Á morgun er Laugaráshátíð. Það verður gaman að sjá andlit sem hafa verið fjarri árum og áratugum saman. Megi sú samkoma fara vel og verða til góðs.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli