Einn er sá staður í þessu húsi sem hefur þurft að þola meira en aðrir að því er varðar umgengni af fúsum og frjálsum vilja, en það er "geymsla" í kjallaranum. (Ég nefni nú ekki einu sinni þann hluta kjallarans sem fær þann heiður að hýsa hinn íslenska hluta húsgagna tenórfjölskyldunnar, blessaðrar, enda allt í röð og reglu þar). Það hefur farið svo, að þrátt fyrir að nokkrar tilraunir hafi verið gerðar til að koma skikki á það sem í geymsluna hefur ratað, hefur allt jafnharðan leitað í sama farið. Nú var svo komið að gólfið var nánast horfið sjónum og það þótti ljóst á þessum bæ, að við svo búið yrði ekki unað.
Þetta var því dagurinn þegar hin endanlega árás var gerð.
Fyrirfram lá fyrir þessu sinni, sem ekki hefur verið áður, að tilteknir hlutir og efni skyldu fjarlægð endanlega. Meðal þessa má nefna:
- þakmálningu sem notast átti í seinni umferð á þakið fyrir 25 árum, ferðina sem aldrei var farin,
- prjónavel, vandaða, sem því miður hefur aldrei virkað sem skyldi, en hafði fram til þessa verið sett á, í von um að lækning fyndist með tímanum,
- reiðhjól sem ekki hefur verið notað í 10 ára, enda bilað í bak og fyrir,
- ótal dollur af málningarrestum, sem alltaf var von til að gæti nýst síðar, sem auðvitað varð aldrei, enda hefur þróun í gæðum málningar verið umtalsverð á síðustu áratugum.
Svona má afram telja. Þetta sem hér hefur verið nefnt, var sett í kerru og keyrt í spilliefnagáma í Holtinureyk og í járnagám hér miklu nær.
Það varð svo, þrátt fyrir góðan vilja, að ýmislegt varð eftir - það gat nú ekki endað með öðrum hætti. Það sem því veldur er af þrennum toga:
- dótarí af ýmsu tagi sem hefur svokallað 'tilfinningalegt' gildi. Ég fer ekki nánar út í það.
- efni sem ekki teljast vera útrunnin (þó þau (einhver þeirra í það minnsta) séu það raunar, og það fyrir löngu) og möguleiki getur verið á að nýta með einhverjum frumlegum og óhefðbundum hætti. Hér vil ég nefna t.d afganga af flísum af ýmsu tagi, múrefni, og flísalím.
- efni sem er í fullu gildi en ekki lágmarkslíkur á að verði nokkurntíma notuð af þeim höndum sem hér slá lyklaborð. Hér er t.d. um að ræða 5 kg af galvaníseraðri fírtommu, 5 kg af galvaníseraðri fimmtommu, 1 kg af dúkkaðri, galvaníseraðri einoghálftommu, 1 kg af galvaníseraðri tommu. Ég hef í huga mér verið að velta fyrir mér - leggja hugræn drög að því - að leggjast í listræna vinnu við að sameina ofangreindan saum og plötuafganga og lakk á úðabrúsum þannig, að úr verði ódauðlegt verk til að prýða húsakynnin - nú eða jafnvel sem upphaf að einhverju enn meira.
Það hefur marga kosti að búa í húsinu sínu á sama stað lungann úr ævinni, ekki síst þessum stað, en óhjákvæmilega hefur það í för með sér, að maður hugsar með öðrum hætti um hvað gera skal við það sem af gengur.
Hlakka til að taka í geymslunni minni eftir 25 ár. Það verður orðinn heljarins fjársjóður sem við hjónin eigum þá :)
SvaraEyða