18 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 1. hluti

Ég hef áður sett dæmisögu inn á þessa ágætu síðu mína, en varð ekki var við að neinn skildi hvað ég var að fara. Í það minnsta fékk ég ekkert að vita af því þegar útúrspenntir lesendur áttuðu sig á hvað ég var að fara og fundu sig knúna. í sæluvímunni sem því fylgdi, að láta vita af uppgötvun sinni.

Ég ætla núna að skrá hér aðra dæmisögu, í þeirri von að bara það að vita að um er að ræða dæmisögu, verði til þess að fólk velti málunum fyrir sér um leið og það les.
---------------------------------------------

Hér er sagan um búðarferðina

Óvænt uppákoma veldur því að framhaldið birtist á morgun.

(bendi þeim sem spenntastir eru, á að endurskoða fyrri dæmisögu á meðan)

Þá bendi ég einnig á, að enginn hefur treyst sér í að finna út úr Laugarásbúanum.

16 september, 2009

Léttleiki tilverunnar - eða þannig

Réttir marka hefðbundin tímabilsskipti í sveitum landsins. Það er komið haust og fólk tekur til við það af alvöru, að undirbúa sig fyrir veturinn - setja niður fyrir sér hvernig honum skuli varið, eða hvernig þess skal freistað að lifa hann af skammlaust.

Það eru þeir sem eru búnir að skella sér í nám.
Þessu fólki vil ég benda, að nám er vinna - því meiri vinna og því meira sem vinnuframlagið er, því meira gagn verður af þessu braski. Það er því væntanlega vænlegt til árangurs, að skammta sér tíma á samskiptavefjum í tölvunni (fa. . . . . k). Eitthvað hefur mér fundist það vera að vefjast fyrir stórum hluta "vina" minna á þeim slóðum, þ.e. þá sem ég er ekki þegar búinn að "fela" vegna ótæpilegra upplýsinga um niðurstöður í hinum ýmsu prófum, sem þeir eru að gera á sjálfum sér. Framlag þeirra (fyrir utan sjálfspróf, virðist mér einkennast að stærstum hluta af því hve mikið þeir vorkenna sjálfum sér að vera að "læra", á sama tíma og þeir eru með hálfan hugann eða nota þaðan af meira rými í að kvarta yfir því að þurfa að vera að sinna því sem þeir ættu að líta á sem einstök forréttindi.

Það eru þeir sem sinna störfum sínum og reyna að finna í þeim endurnýjaða gleði á hverjum degi. Þeim vil ég benda á að halda áfram að njóta þess að leggja sitt af mörkum, bæði sjálfum sér og þjóðfélaginu til gagns. Þar hafið þið það, gott fólk. Við, sem höfum vinnu eigum að vera þakklát fyrir það á þessum tímum. Það eru nánast forréttindi.

Þeir sem hafa ekki vinnu og eru ekki í námi, kvíða vetrinum væntanlega nokkuð. Framundan er óvissa og ekki verður auðveldlega séð hvort úr rætist á næstunni.
Auðvitað er ýmsu hægt að sinna við slíkar aðstæður, þó svo ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um hvað helst er til ráða.. Það er sjálfsagt auðveldara um að tala en í að komast, þegar ekkert virðist blasa við sem hægt er að gleðjast yfir.

-----------------

Við getum öll, sama hvar við stöndum í lífsgöngunni, leyft okkur að vera reið - þó efast megi um að það geri eitthvert gagn til langframa. Reiðin er þó skárri en doðinn, sjálfsvorkunnin og vonleysið.
Það er bara eitt sem við eigum að vanda, þegar reiðin er annarsvegar: að beina henni að því sem við teljum að hafi valdið því ástandi sem nú er uppi.
Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn all þreyttur á að vera reiður. Til lengdar er þessi tilfinning afskaplega lýjandi, ekki síst þegar ný reiðitilefni birtast manni daglega.

Á ég að treysta því, að þeir sem reynast hafa valdið hörmungunum, fái viðunandi afgreiðslu í réttarkerfinu? Það get ég ekki enn. Það er kippt í spotta nánast daglega, til að draga úr slagkrafti þeirra sem eru að reyna sitt besta til að vinna úr svívirðingunni.
Við erum of fá og smá til að halda úti óspilltu stjórnkerfi. Þess vegna óttast ég að reiði okkar muni enda í einhverskonar doða, sem síðan skapar farveg fyrir enn meiri niðurlægingu okkar sem þjóðar meðal þjóða.

Það sem ég vona, og vonandi þið líka (því vonin er þó vonandi enn eftir) er, að það skapist grundvöllur sem hjálpar okkur til að ganga frá þessu öllu saman með þeirri fullnægjandi tilfinningu, að ekki verði betur gert til að ná fram réttlæti. Ef það á að nást lokun verður það að gerast.


Ég vonast til að fjalla á léttari nótum um lífið og tilveruna næst þegar ég voga mér að lemja hér lykla.



11 september, 2009

Réttamaðurinn

Það var á það minnst í sjónvarpi áðan, að útrásarviðundrin okkar tilheyrðu sennilega ekki sama heimi eða sama veruleika og þetta venjulega fólk sem byggir þetta land. Við þetta varð ég nokkuð hugsi. Má ekki segja nákvæmlega það sama um samband mitt og þeirra sem geta vart leynt tilhlökkun sinni þegar réttir eru framundan. Ég finn ekki þessa tilhlökkun þó ég skilji vel, að það ævagamla fyrirbæri sem göngur og réttir eru, hlýtur að skipta þá sem hagsmuna eiga að gæta töluverðu máli. Þeir hafa komið sér upp heilmiklu tilstandi í kringum þetta - allskyns hefðum sem ekki er einu sinni hugsanlegt að breyta.

Í mínum huga tengjast þessar hefðir fyrst og fremst fernu:
a. Sauðfénu sem fjallmennirnir (fjallfólkið), einskonar hefðarhetjur, hafa heimt af fjalli.
- Hvernig það er á sig komið eftir sumar í óspilltri náttúrunni á hálendi Íslands (athugað með því að þukla á bakvöðva)
- hvernig staðið skal að því að draga það í dilka
- hvernig skal staðið að því að koma því heim þegar allt er búið og söngurinn líka.
b. Hestunum sem aftur fá hlutverk þarfasta þjónsins - meira að segja fjárlausir garðyrkjubændasynir láta sig hafa það að ríða langar leiðir í réttir.
c. Kjötsúpunni
- sem kvenfélagið hefur tekið upp á að selja (aðallega hlutverkslausum).
- sem ákveðnir bæir eru orðnir frægir fyrir að bera fram á réttadegi
d. Gleðskapnum sem stemningin skapar
- hitta mann og annan og bera saman bækur sínar
- taka þátt í víðfrægum réttasöng, hvort sem menn geta sungið eða ekki, enda valinkunnur garpar sem leiða sönginn og hafa gert áratugum saman (oftast er hér um að ræða afkomendur Vatnsleysubænda, Þorsteins og Ágústu og Erlendar og Kristínar).
- njóta þess að fá sér einn eða tvo gráa, svona til að auðvelda samskiptin og slípa röddina.
- ljúka vel heppnuðum degi með því að skella sér á réttaball í Aratungu.


Þessi heimur hefur aldrei verið minn, af einhverjum sökum - líklegast þeim, að ég er garðyrkjubóndasonur og tengist með engum hætti sem máli skiptir, neinum sem finnst að það skipti máli að draga mig þar inn.
Ég hef vissulega gert tilraunir - ekki síst meðan hér voru enn börn sem þurftu að hitta skólafélagana og einnig síðar. Þá var ég reyndar svo heppinn að ég var búinn að koma mér upp myndavél og hafði eitthvað til að dunda við. Réttaferðir hafa fyrst og fremst haft það markmið í mínum huga að taka þátt í að viðhalda tiltekinni hefð, eða menningararfleifð. Með því hef ég orðið hluti af þeirri umræðu, þar sem fremur lítið er gert úr þeim mannfjölda, sem að jafnaði fer í réttir án þess að eiga þangað nokkuð annað erindi en að taka þátt í lífinu í umhverfi sínu (þvælast fyrir vinnandi fólki).

Það gerðist reyndar einu sinni, að ég freistaði þess að verða virkur þátttakandi. Það var þegar sá hluti Hveratúnsmanna, sem nú gistir höfuðstað Árnessýslu, bjó að Torfastöðum og hafði þar lífsviðurværi ásamt núverandi ábúendum þar. Þar var þá sauðfé og þar voru hross. Mér var boðið að taka þátt í að reka heim úr réttum, á hesti. Ég þáði, til að geta í það minnsta sagt að ég hafi reynt. Það var ýmislegt skemmtilegt við þetta ævintýri, en það er aðeins eitt sem stendur upp úr: hrossið fór heldur nálægt gaddavírsgirðingu og ég varð buxunum fátækari.

Ég hef svo sem harla litlar áhyggjur af því að eiga ekki innangengt í heim gangna og rétta. Það eru svo óendanlega margir heimar á þessu litla landi.
Ég skil útrásarvitleysingana, sem við köllum svo, að nokkru leyti.

Megi íbúar réttaheimsins njóta dagsins. ég nýt bara míns með einhverjum hætti í mínum.

07 september, 2009

Góðgæti eða eitur



Það er oft sem þekkingarskorturinn er manni fjötur um fót. Mig grunar að það geti átt við í því tilviki sem hér um ræðir. Þessi hefði dugað í heila máltíð fyrir tvo, ef áhættan hefði verið tekin. Ég ætla ekki að nefna á hvað þessi myndarlegi sveppur minnti fD.

06 september, 2009

Kvisthyltingar halda í höfuðborgina

Það gerist af einhverjum æ sjaldnar að leið Kvisthyltinga liggur í höfuðborgina. Það gerðist þó í gær og var yfirlýstur tilgangur ferðarinnar, eins og fD lagði hann upp, að festa kaup á tiltekinni flík handa tiltekinni konu - aðgerð sem reyndar átti að hafa átt sér stað fyrir nokkrum mánuðum. Þá var meðtilgangur ferðarinnar að kíkja á hina höfuðborgaríbúandi Kvisthyltinga.
Ekki segir margt af ferð þessari fyrr en tilkynnt hafði verið að haldið skyldi í yfirmáta glæsilega verslunarmiðstöð í Kópavogi, þar sem gott mun vera að búa. Ég ók auðvitað þangað, sem leið liggur, eftir hálfauðnarlegum götum borgarinnar, ef borið er saman við samsvarandi ferðir fyrir 2 árum. Í ókutækjunum sem þó voru á ferðinni mátti helst greina fólk með grásprengt hár á tiltölulega eðlilegum bifreiðum.

Aðkoman að ógurlega stóru bílastæðinu við verslunarmiðstöðina skapaði ákveðinn valkvíða (nánast eins og þegar maður stendur frammi fyrir að velja milli 25 ólíkra tannkremstegunda). Ég lagði á endanum vel og vandlega í vel valið stæði, ekki of langt frá aðalinngangi. Í framhaldi af því hófst innganga Kvisthyltinga í hið merka musteri eða öllu heldur minnismerki um betri tíma í lífi þjóðar.

Þegar inn var komið blasti við glæsileikinn í allri sinni villtustu mynd, hvert sem litið var. Harla fátt var um fólk á svæðinu svo ekki var mikil hætta á að meðlimir hópsins yrðu viðskila í mannþrönginni. Á einum stað stóðu um 30 ungar stúlkur með mæðrum sínum í röð og biðu eftir að komast í myndatöku með von um að verða forsíðustúlkur í nýju ungstúlknatímariti, að mér skilst.

Tveir Kvisthyltinga vissu hvað þeir vildu, og héldu sína leið að markinu og vonuðu að eitthvað jákvætt kæmi út úr því. Hinir tveir vissu ekkert hvað þeir vildu, en héldu samt sína leið, með þá von í brjósti að rekast á verslun með íslensku nafni, sem ekki seldi föt. Þær mátti telja á tveim fingrum annarrar handar. Aðrar verslanir báru ýmist nöfn erlendra verslunarkeðja, sem einu sinni voru eins konar tákn fyrir útrás Íslendinga og alþjóðlegan brag (þá var verslun með íslenskt nafn dæmd fyrirfram til að fara á höfuðið) og seldu föt, eða þá þær báru íslensk nöfn, en seldu samt föt.
Kvisthyltingarnir tveir, þessir óákveðnu, létu sig samt hafa það að hefja rölt um hina glæstu sali, gengu einir um endalaus breiðstræðin þar sem doðinn einn ríkti. Aftur og aftur gengu þeir framhjá tóftum, sem einusinni hýstu verslanir með nöfn og sem iðuðu af lífi og gáfu vel í aðra hönd. Rimlagrindurnar sem rennt hafði verið fyrir þessar tóftir skiptu engu máli því fyrir innan var ekkert nema myrkrið.
Eftir að hafa kíkt í eina herrafaraverslun með erlendu nafni, eina draslverslun með erlendu nafni þar sem allar vörur voru á kr. 289 og eina íþróttavöruverslun með ÍSLENSKU nafni, var komið að tímanum, sem ákveðið hafði verið að hópurinn kæmi saman aftur. Ekki var hætta á að Kvisthyltingar færu á mis hver við annan, því þeir voru nánast aleinir á ferð, svo hittingurinn tókst framar vonum.

"50000 krónur!!!!", fD var nánast miður sín á þeirri firru sem einkenndi verðlag í leitinni að áðurgreindri flík. Hún var nú á leið í verslun, með útlendu nafni, þar sem skömmu áður hafði fundist samsvarandi flík einhverjum tugum þúsunda ódýrari og þar skyldi gengið frá kaupum. Hinir tveir óákveðnu í hópnum fylgdu þeim ákveðnu inn í umrædda verslun, sem var á einum þrem hæðum, held ég og auðvitað full af varningi, en nánast engu fólki. Afgreiðsludama sat við útganginn og horfði á sjálfa sig í spegli meðan hún rammaði inn augun með svörtum litapenna, aðrir ráfuðu eirðarlausir um svæðið.
Þegar inn var komið var ljóst að fD vissi hvert halda skyldi og óskaði því ekki eftir aðstoð velviljandi afgreiðslufólksins. Flíkin fannst, en þá tók við leit að einhverjum þeim stað þar sem greiðsla gæti farið fram. Það tók tímann sinn. Hefði verið fljótlegra að vaða bara að útganginum og láta vælið í hliðinu vekja athygli á sér. Greiðslustaður fannst á endanum. Þar stóð kona á miðjum aldri (rúmlega) og sagði ekki orð. Ekki voru Kvisthyltingar að ómaka sig við það heldur, enda ekki þekktir fyrir mas. Konan tók flíkina og græjaði hana eins og vera bar. Við tók greiðsla, kort straujað, undir kvittað, allt orðalaust.
Loksins spurði konan, hikandi:

"ERUÐ ÞIÐ ÍSLENDINGAR?"
"JÁ!"
"ÞAÐ ER VISSARA AÐ SPYRJA."

Nú þykir okkur Kvisthyltingum líklegt, að ferð okkar í þennan minnisvarða velmegunarinnar verði til þess, að umræða hefjist um, að það séu farin að sjást merki um efnahagsbata.

Piltur í Laubach


Artikel vom 04.09.2009 - 23.00 Uhr






Souverän ersetzten die beiden Korrepetitoren Sarolta Turkovic und - versierter noch - Christian Schulte am Flügel ein Orchester. Überzeugend verkörperte Tenor Egill Árni Pálsson zu Beginn in der Arie des Herzogs »Questa o quella« aus Giuseppe Verdis Oper »Rigoletto« den lüsternen Lebemenschen. Er sang mit strahlkräftiger, im Timbre nicht zu harter Stimme und facettenreichem Vibrato. Sopranistin Izabela Matula beeindruckte in der Arie der Mimi »Donde lieta usci« aus Giacomo Puccinis Oper »La Bohème« durch subtile, nuancierte und gefühlvolle Gesangsweise. Recht weich wirkten die Ton-Ansätze, auch dynamisch zurückgenommene Passagen gerieten ausdrucksvoll

05 september, 2009

Hvað gagnast það...?

Skelfing langar mig eitthvað lítið að standa í að fjargviðrast út af öllu og öllum, en einhvern veginn virðist ég bara ekki geta komist hjá því svo auðveldlega. Þessvegna kemur þetta hér:

Það er ekki laust við að mér finnist það samfélag sem við Íslendingar byggjum sé frekar langt frá því að geta talist heilbrigt, en það er nú reyndar ekkert nýtt.
Ég læt hér liggja á milli hluta það sem gerðist á undan og eftir bankahruni - orsakir þess og afleiðingar - það mun allt saman enda í Hæstarétti þar sem tryggt hefur verið, að réttir menn séu á réttum stöðum. Þaðan ganga hinir ákærðu væntanlega hnarreistir út í fyllingu tímans.

Nei, það er svo margt annað sem væri verðugt að beina sjónum að.

1. Hvað gagnast það þessari þjóð að geta valið milli 25 tannkremstegunda til að halda tönnunm í lagi? Hverra hagsmuni er verið að verja með því?

2. Hvað gagnast það þessari þjóð, að foreldrar greiði allan kostnað við uppihald barna sinna til 18 ára aldurs, meðan þessi börn vinna sér inn allt að 7-800 þúsund í sumarvinnu. Eiga börnin ekki að læra það, einmitt við þessar aðstæður, að maður þarf að vera fær um að fæða sig og klæða sjálfur? Eru foreldrar þarna ekki að misskilja hlutverk sitt í uppeldinu?

3. Hvað gagnast það þessari þjóð að vera að breyta skólakerfinu á þessum tímum? Liggur eitthvað sérstakt fyrir um það að breytinga sé þörf? Hér vil ég vísa í viðtal við Jón Torfa Jónasson, loksins maður sem ég er sammála í þessum efnum.

4. Hvað gagnast það þessari þjóð að enginn treysti neinum sem tilheyrir einhverjum öðrum hópi samfélagsins. Hér virðist ríkja sú hugsun að það séu einhverjir aðrir en maður sjálfur sem á að bera þær byrðar sem bankaævintýrið skildi eftir. Í þessum efnum virðist hver vera sjálfum sér næstur. Hversvegna ætti ég þá að vera tilbúinn að færa einhverjar fórnir - ég gerði ekki neitt? Jú góði minn, þú tókst þátt í kosningum. Þú keyptir með afborgunum hluti sem þú hafðir ekki efni á. Þú fórst í sumarleyfisferðir til útlanda á hverju ári. Þú keptir Landkrúser og skráðir hann sem landbúnaðartæki. Það vita allir og viðurkenna að það verður að fórna, en enginn vill sjálfur fórna neinu.

5. Hvað gagnast það þessari þjóð að burðast með svo margar heilagar kýr sem raun ber vitni? Ég legg ekki í að nefna þær, því þá verð ég sakaður um fordóma og þekkingarleysi. Í neyðartilvikum verða þessar kýr að gefa blóð eins og aðrar kýr. Það eru engin raunhæf rök til fyrir því að stéttum sé mismunað þegar kemur að framlögum til sameiginlegara sjóða.

6. Hvað gagnast það þessari þjóð að forðast að horfast í augu við þá staðreynd, að sökum fámennis er stjórnkerfið undirlagt, eða gegnsýrt af ættingum, kunningjum, vinum eða pólitískum samherjum, sem tryggja stöðu hver annars, með þeim afleiðingum að uppgjör verður nánast útilokað?

7. Hvað gagnast það þessari þjóð......?

Ég gæti haldið lengi áfram ef ég hefði tíma og nennu til. Þetta er að mörgu leyti skrýtið þjóðfélag, sem er sjálfu sér verst. Þessa mánuðina einkennist umræða af upphrópunum og vantrausti. Hver virðist vera sjálfum sér næstur - sem mun vera dálítið mannlegt. Ef maður freistar þess að hugsa sem svo, að við séum öllu hluti af vandanum og öll hluti af lausninni, þá kemst maður fljótt að því, að aðrir hugsa ekki eins - þeir hugsa sem svo, að þetta sé allt hinum að kenna og að þeir eigi því ekki að þurfa að bera skaða af ástandinu.

Litla Ameríka, sem ári eftir eitt mesta bankahun sögunnar, heldur áfram að hafa á boðstólnum 25 tannkremstegundir í krafti hugsunarinnar um "bullandi samkeppni" eins og það var svo oft kallað á blómatíma einkavæðingareinokunarinnar. Áfram á allt að vera hægt. Bólulífsstílinn má ekki skerða.

Þurfti að koma þessu frá.

Megið þið njóta helgarinnar, kannski með því að rölta um skeljar frjálshyggjubrjálæðisins, eins og ég ætla að gera.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...