05 september, 2009

Hvað gagnast það...?

Skelfing langar mig eitthvað lítið að standa í að fjargviðrast út af öllu og öllum, en einhvern veginn virðist ég bara ekki geta komist hjá því svo auðveldlega. Þessvegna kemur þetta hér:

Það er ekki laust við að mér finnist það samfélag sem við Íslendingar byggjum sé frekar langt frá því að geta talist heilbrigt, en það er nú reyndar ekkert nýtt.
Ég læt hér liggja á milli hluta það sem gerðist á undan og eftir bankahruni - orsakir þess og afleiðingar - það mun allt saman enda í Hæstarétti þar sem tryggt hefur verið, að réttir menn séu á réttum stöðum. Þaðan ganga hinir ákærðu væntanlega hnarreistir út í fyllingu tímans.

Nei, það er svo margt annað sem væri verðugt að beina sjónum að.

1. Hvað gagnast það þessari þjóð að geta valið milli 25 tannkremstegunda til að halda tönnunm í lagi? Hverra hagsmuni er verið að verja með því?

2. Hvað gagnast það þessari þjóð, að foreldrar greiði allan kostnað við uppihald barna sinna til 18 ára aldurs, meðan þessi börn vinna sér inn allt að 7-800 þúsund í sumarvinnu. Eiga börnin ekki að læra það, einmitt við þessar aðstæður, að maður þarf að vera fær um að fæða sig og klæða sjálfur? Eru foreldrar þarna ekki að misskilja hlutverk sitt í uppeldinu?

3. Hvað gagnast það þessari þjóð að vera að breyta skólakerfinu á þessum tímum? Liggur eitthvað sérstakt fyrir um það að breytinga sé þörf? Hér vil ég vísa í viðtal við Jón Torfa Jónasson, loksins maður sem ég er sammála í þessum efnum.

4. Hvað gagnast það þessari þjóð að enginn treysti neinum sem tilheyrir einhverjum öðrum hópi samfélagsins. Hér virðist ríkja sú hugsun að það séu einhverjir aðrir en maður sjálfur sem á að bera þær byrðar sem bankaævintýrið skildi eftir. Í þessum efnum virðist hver vera sjálfum sér næstur. Hversvegna ætti ég þá að vera tilbúinn að færa einhverjar fórnir - ég gerði ekki neitt? Jú góði minn, þú tókst þátt í kosningum. Þú keyptir með afborgunum hluti sem þú hafðir ekki efni á. Þú fórst í sumarleyfisferðir til útlanda á hverju ári. Þú keptir Landkrúser og skráðir hann sem landbúnaðartæki. Það vita allir og viðurkenna að það verður að fórna, en enginn vill sjálfur fórna neinu.

5. Hvað gagnast það þessari þjóð að burðast með svo margar heilagar kýr sem raun ber vitni? Ég legg ekki í að nefna þær, því þá verð ég sakaður um fordóma og þekkingarleysi. Í neyðartilvikum verða þessar kýr að gefa blóð eins og aðrar kýr. Það eru engin raunhæf rök til fyrir því að stéttum sé mismunað þegar kemur að framlögum til sameiginlegara sjóða.

6. Hvað gagnast það þessari þjóð að forðast að horfast í augu við þá staðreynd, að sökum fámennis er stjórnkerfið undirlagt, eða gegnsýrt af ættingum, kunningjum, vinum eða pólitískum samherjum, sem tryggja stöðu hver annars, með þeim afleiðingum að uppgjör verður nánast útilokað?

7. Hvað gagnast það þessari þjóð......?

Ég gæti haldið lengi áfram ef ég hefði tíma og nennu til. Þetta er að mörgu leyti skrýtið þjóðfélag, sem er sjálfu sér verst. Þessa mánuðina einkennist umræða af upphrópunum og vantrausti. Hver virðist vera sjálfum sér næstur - sem mun vera dálítið mannlegt. Ef maður freistar þess að hugsa sem svo, að við séum öllu hluti af vandanum og öll hluti af lausninni, þá kemst maður fljótt að því, að aðrir hugsa ekki eins - þeir hugsa sem svo, að þetta sé allt hinum að kenna og að þeir eigi því ekki að þurfa að bera skaða af ástandinu.

Litla Ameríka, sem ári eftir eitt mesta bankahun sögunnar, heldur áfram að hafa á boðstólnum 25 tannkremstegundir í krafti hugsunarinnar um "bullandi samkeppni" eins og það var svo oft kallað á blómatíma einkavæðingareinokunarinnar. Áfram á allt að vera hægt. Bólulífsstílinn má ekki skerða.

Þurfti að koma þessu frá.

Megið þið njóta helgarinnar, kannski með því að rölta um skeljar frjálshyggjubrjálæðisins, eins og ég ætla að gera.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...