11 september, 2009

Réttamaðurinn

Það var á það minnst í sjónvarpi áðan, að útrásarviðundrin okkar tilheyrðu sennilega ekki sama heimi eða sama veruleika og þetta venjulega fólk sem byggir þetta land. Við þetta varð ég nokkuð hugsi. Má ekki segja nákvæmlega það sama um samband mitt og þeirra sem geta vart leynt tilhlökkun sinni þegar réttir eru framundan. Ég finn ekki þessa tilhlökkun þó ég skilji vel, að það ævagamla fyrirbæri sem göngur og réttir eru, hlýtur að skipta þá sem hagsmuna eiga að gæta töluverðu máli. Þeir hafa komið sér upp heilmiklu tilstandi í kringum þetta - allskyns hefðum sem ekki er einu sinni hugsanlegt að breyta.

Í mínum huga tengjast þessar hefðir fyrst og fremst fernu:
a. Sauðfénu sem fjallmennirnir (fjallfólkið), einskonar hefðarhetjur, hafa heimt af fjalli.
- Hvernig það er á sig komið eftir sumar í óspilltri náttúrunni á hálendi Íslands (athugað með því að þukla á bakvöðva)
- hvernig staðið skal að því að draga það í dilka
- hvernig skal staðið að því að koma því heim þegar allt er búið og söngurinn líka.
b. Hestunum sem aftur fá hlutverk þarfasta þjónsins - meira að segja fjárlausir garðyrkjubændasynir láta sig hafa það að ríða langar leiðir í réttir.
c. Kjötsúpunni
- sem kvenfélagið hefur tekið upp á að selja (aðallega hlutverkslausum).
- sem ákveðnir bæir eru orðnir frægir fyrir að bera fram á réttadegi
d. Gleðskapnum sem stemningin skapar
- hitta mann og annan og bera saman bækur sínar
- taka þátt í víðfrægum réttasöng, hvort sem menn geta sungið eða ekki, enda valinkunnur garpar sem leiða sönginn og hafa gert áratugum saman (oftast er hér um að ræða afkomendur Vatnsleysubænda, Þorsteins og Ágústu og Erlendar og Kristínar).
- njóta þess að fá sér einn eða tvo gráa, svona til að auðvelda samskiptin og slípa röddina.
- ljúka vel heppnuðum degi með því að skella sér á réttaball í Aratungu.


Þessi heimur hefur aldrei verið minn, af einhverjum sökum - líklegast þeim, að ég er garðyrkjubóndasonur og tengist með engum hætti sem máli skiptir, neinum sem finnst að það skipti máli að draga mig þar inn.
Ég hef vissulega gert tilraunir - ekki síst meðan hér voru enn börn sem þurftu að hitta skólafélagana og einnig síðar. Þá var ég reyndar svo heppinn að ég var búinn að koma mér upp myndavél og hafði eitthvað til að dunda við. Réttaferðir hafa fyrst og fremst haft það markmið í mínum huga að taka þátt í að viðhalda tiltekinni hefð, eða menningararfleifð. Með því hef ég orðið hluti af þeirri umræðu, þar sem fremur lítið er gert úr þeim mannfjölda, sem að jafnaði fer í réttir án þess að eiga þangað nokkuð annað erindi en að taka þátt í lífinu í umhverfi sínu (þvælast fyrir vinnandi fólki).

Það gerðist reyndar einu sinni, að ég freistaði þess að verða virkur þátttakandi. Það var þegar sá hluti Hveratúnsmanna, sem nú gistir höfuðstað Árnessýslu, bjó að Torfastöðum og hafði þar lífsviðurværi ásamt núverandi ábúendum þar. Þar var þá sauðfé og þar voru hross. Mér var boðið að taka þátt í að reka heim úr réttum, á hesti. Ég þáði, til að geta í það minnsta sagt að ég hafi reynt. Það var ýmislegt skemmtilegt við þetta ævintýri, en það er aðeins eitt sem stendur upp úr: hrossið fór heldur nálægt gaddavírsgirðingu og ég varð buxunum fátækari.

Ég hef svo sem harla litlar áhyggjur af því að eiga ekki innangengt í heim gangna og rétta. Það eru svo óendanlega margir heimar á þessu litla landi.
Ég skil útrásarvitleysingana, sem við köllum svo, að nokkru leyti.

Megi íbúar réttaheimsins njóta dagsins. ég nýt bara míns með einhverjum hætti í mínum.

2 ummæli:

  1. Verð að viðurkenn að um margt er ég sammála síðasta ræðumanni. Finn fyrir litlum tengslum við sauðfé, hesta og hvað þá réttasöng.
    Maður spyr sig samt á degi sem þessum hvort að ég sé þá ekki orðið viðundur. Utangarðsmaður sem hefur engin tengsl við lífsnauðsynlega sveitamenningu og er best að láta lítið fara fyrir sér á degi sem þessum.

    SvaraEyða
  2. Langt síðan ég hef lesið þennan fjölmiðil. Skemmti mér vel við lesturinn í þetta skiptið. 25 tegundir tannkrems. Jahá!
    Bestu kveðjur í hvert einasta kot.
    Kalli

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...