Réttir marka hefðbundin tímabilsskipti í sveitum landsins. Það er komið haust og fólk tekur til við það af alvöru, að undirbúa sig fyrir veturinn - setja niður fyrir sér hvernig honum skuli varið, eða hvernig þess skal freistað að lifa hann af skammlaust.
Það eru þeir sem eru búnir að skella sér í nám.
Þessu fólki vil ég benda, að nám er vinna - því meiri vinna og því meira sem vinnuframlagið er, því meira gagn verður af þessu braski. Það er því væntanlega vænlegt til árangurs, að skammta sér tíma á samskiptavefjum í tölvunni (fa. . . . . k). Eitthvað hefur mér fundist það vera að vefjast fyrir stórum hluta "vina" minna á þeim slóðum, þ.e. þá sem ég er ekki þegar búinn að "fela" vegna ótæpilegra upplýsinga um niðurstöður í hinum ýmsu prófum, sem þeir eru að gera á sjálfum sér. Framlag þeirra (fyrir utan sjálfspróf, virðist mér einkennast að stærstum hluta af því hve mikið þeir vorkenna sjálfum sér að vera að "læra", á sama tíma og þeir eru með hálfan hugann eða nota þaðan af meira rými í að kvarta yfir því að þurfa að vera að sinna því sem þeir ættu að líta á sem einstök forréttindi.
Það eru þeir sem sinna störfum sínum og reyna að finna í þeim endurnýjaða gleði á hverjum degi. Þeim vil ég benda á að halda áfram að njóta þess að leggja sitt af mörkum, bæði sjálfum sér og þjóðfélaginu til gagns. Þar hafið þið það, gott fólk. Við, sem höfum vinnu eigum að vera þakklát fyrir það á þessum tímum. Það eru nánast forréttindi.
Þeir sem hafa ekki vinnu og eru ekki í námi, kvíða vetrinum væntanlega nokkuð. Framundan er óvissa og ekki verður auðveldlega séð hvort úr rætist á næstunni.
Auðvitað er ýmsu hægt að sinna við slíkar aðstæður, þó svo ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um hvað helst er til ráða.. Það er sjálfsagt auðveldara um að tala en í að komast, þegar ekkert virðist blasa við sem hægt er að gleðjast yfir.
-----------------
Við getum öll, sama hvar við stöndum í lífsgöngunni, leyft okkur að vera reið - þó efast megi um að það geri eitthvert gagn til langframa. Reiðin er þó skárri en doðinn, sjálfsvorkunnin og vonleysið.
Það er bara eitt sem við eigum að vanda, þegar reiðin er annarsvegar: að beina henni að því sem við teljum að hafi valdið því ástandi sem nú er uppi.
Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn all þreyttur á að vera reiður. Til lengdar er þessi tilfinning afskaplega lýjandi, ekki síst þegar ný reiðitilefni birtast manni daglega.
Á ég að treysta því, að þeir sem reynast hafa valdið hörmungunum, fái viðunandi afgreiðslu í réttarkerfinu? Það get ég ekki enn. Það er kippt í spotta nánast daglega, til að draga úr slagkrafti þeirra sem eru að reyna sitt besta til að vinna úr svívirðingunni.
Við erum of fá og smá til að halda úti óspilltu stjórnkerfi. Þess vegna óttast ég að reiði okkar muni enda í einhverskonar doða, sem síðan skapar farveg fyrir enn meiri niðurlægingu okkar sem þjóðar meðal þjóða.
Það sem ég vona, og vonandi þið líka (því vonin er þó vonandi enn eftir) er, að það skapist grundvöllur sem hjálpar okkur til að ganga frá þessu öllu saman með þeirri fullnægjandi tilfinningu, að ekki verði betur gert til að ná fram réttlæti. Ef það á að nást lokun verður það að gerast.
Ég vonast til að fjalla á léttari nótum um lífið og tilveruna næst þegar ég voga mér að lemja hér lykla.
Já hún er skrítin vonin um að maður geti verið nógu illur viðureignar um ókomin ár að stjórnmálamenn skjálfi á beinum og sinni sínu kjörna starfi.
SvaraEyðaMaður verður samt hálfvonlaus þegar maður sér hvernig réttarkerfið er dregið upp til varnar þessum skrattakollum, lokað á upplýsingar úr skattaupplýsingum, mál höfðað á hendur blaðamönnum, rógsherferðir launaðra lögfræðinga á hendur þeim sömu osfrv.
Jesús bauð hinn vangann. Við getum náttúrulega boðið siðspillingunum hina rasskinnina til að sparka í.