06 september, 2009

Kvisthyltingar halda í höfuðborgina

Það gerist af einhverjum æ sjaldnar að leið Kvisthyltinga liggur í höfuðborgina. Það gerðist þó í gær og var yfirlýstur tilgangur ferðarinnar, eins og fD lagði hann upp, að festa kaup á tiltekinni flík handa tiltekinni konu - aðgerð sem reyndar átti að hafa átt sér stað fyrir nokkrum mánuðum. Þá var meðtilgangur ferðarinnar að kíkja á hina höfuðborgaríbúandi Kvisthyltinga.
Ekki segir margt af ferð þessari fyrr en tilkynnt hafði verið að haldið skyldi í yfirmáta glæsilega verslunarmiðstöð í Kópavogi, þar sem gott mun vera að búa. Ég ók auðvitað þangað, sem leið liggur, eftir hálfauðnarlegum götum borgarinnar, ef borið er saman við samsvarandi ferðir fyrir 2 árum. Í ókutækjunum sem þó voru á ferðinni mátti helst greina fólk með grásprengt hár á tiltölulega eðlilegum bifreiðum.

Aðkoman að ógurlega stóru bílastæðinu við verslunarmiðstöðina skapaði ákveðinn valkvíða (nánast eins og þegar maður stendur frammi fyrir að velja milli 25 ólíkra tannkremstegunda). Ég lagði á endanum vel og vandlega í vel valið stæði, ekki of langt frá aðalinngangi. Í framhaldi af því hófst innganga Kvisthyltinga í hið merka musteri eða öllu heldur minnismerki um betri tíma í lífi þjóðar.

Þegar inn var komið blasti við glæsileikinn í allri sinni villtustu mynd, hvert sem litið var. Harla fátt var um fólk á svæðinu svo ekki var mikil hætta á að meðlimir hópsins yrðu viðskila í mannþrönginni. Á einum stað stóðu um 30 ungar stúlkur með mæðrum sínum í röð og biðu eftir að komast í myndatöku með von um að verða forsíðustúlkur í nýju ungstúlknatímariti, að mér skilst.

Tveir Kvisthyltinga vissu hvað þeir vildu, og héldu sína leið að markinu og vonuðu að eitthvað jákvætt kæmi út úr því. Hinir tveir vissu ekkert hvað þeir vildu, en héldu samt sína leið, með þá von í brjósti að rekast á verslun með íslensku nafni, sem ekki seldi föt. Þær mátti telja á tveim fingrum annarrar handar. Aðrar verslanir báru ýmist nöfn erlendra verslunarkeðja, sem einu sinni voru eins konar tákn fyrir útrás Íslendinga og alþjóðlegan brag (þá var verslun með íslenskt nafn dæmd fyrirfram til að fara á höfuðið) og seldu föt, eða þá þær báru íslensk nöfn, en seldu samt föt.
Kvisthyltingarnir tveir, þessir óákveðnu, létu sig samt hafa það að hefja rölt um hina glæstu sali, gengu einir um endalaus breiðstræðin þar sem doðinn einn ríkti. Aftur og aftur gengu þeir framhjá tóftum, sem einusinni hýstu verslanir með nöfn og sem iðuðu af lífi og gáfu vel í aðra hönd. Rimlagrindurnar sem rennt hafði verið fyrir þessar tóftir skiptu engu máli því fyrir innan var ekkert nema myrkrið.
Eftir að hafa kíkt í eina herrafaraverslun með erlendu nafni, eina draslverslun með erlendu nafni þar sem allar vörur voru á kr. 289 og eina íþróttavöruverslun með ÍSLENSKU nafni, var komið að tímanum, sem ákveðið hafði verið að hópurinn kæmi saman aftur. Ekki var hætta á að Kvisthyltingar færu á mis hver við annan, því þeir voru nánast aleinir á ferð, svo hittingurinn tókst framar vonum.

"50000 krónur!!!!", fD var nánast miður sín á þeirri firru sem einkenndi verðlag í leitinni að áðurgreindri flík. Hún var nú á leið í verslun, með útlendu nafni, þar sem skömmu áður hafði fundist samsvarandi flík einhverjum tugum þúsunda ódýrari og þar skyldi gengið frá kaupum. Hinir tveir óákveðnu í hópnum fylgdu þeim ákveðnu inn í umrædda verslun, sem var á einum þrem hæðum, held ég og auðvitað full af varningi, en nánast engu fólki. Afgreiðsludama sat við útganginn og horfði á sjálfa sig í spegli meðan hún rammaði inn augun með svörtum litapenna, aðrir ráfuðu eirðarlausir um svæðið.
Þegar inn var komið var ljóst að fD vissi hvert halda skyldi og óskaði því ekki eftir aðstoð velviljandi afgreiðslufólksins. Flíkin fannst, en þá tók við leit að einhverjum þeim stað þar sem greiðsla gæti farið fram. Það tók tímann sinn. Hefði verið fljótlegra að vaða bara að útganginum og láta vælið í hliðinu vekja athygli á sér. Greiðslustaður fannst á endanum. Þar stóð kona á miðjum aldri (rúmlega) og sagði ekki orð. Ekki voru Kvisthyltingar að ómaka sig við það heldur, enda ekki þekktir fyrir mas. Konan tók flíkina og græjaði hana eins og vera bar. Við tók greiðsla, kort straujað, undir kvittað, allt orðalaust.
Loksins spurði konan, hikandi:

"ERUÐ ÞIÐ ÍSLENDINGAR?"
"JÁ!"
"ÞAÐ ER VISSARA AÐ SPYRJA."

Nú þykir okkur Kvisthyltingum líklegt, að ferð okkar í þennan minnisvarða velmegunarinnar verði til þess, að umræða hefjist um, að það séu farin að sjást merki um efnahagsbata.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...