28 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (4) - ferðarlok

Já, það var þá, undir lok borðhalds í Landnámssetrinu, að við, sem kusum hlaðborðið fórum að verða við einhvern óróa á súpuborðinu. Nafn var nefnt og það fylgdi með að viðkomandi hafi þurft að fara út. Meira heyrði ég ekki af þessu máli þar sem ég spurði ekki, vegna þess að ég er ekki forvitinn maður að eðlisfari.
Það var ekki fyrr en ég þurfti að skreppa út fyrir eftir að hafa troðið í mig af hlaðborðinu, í ótilgreindum erindagjörðum, að ég áttaði mig á hvað gerst hafði.
Undir klettasnös bograði manneskja og það varð fljótt ljóst að ekki gekk hún heil til skógar. Þarna fór góð súpa í grös undir klettasnös. Eftir stóð spurningin um hvað gæti hafa valdið þessum ósköpum. Ég var óðara kominn með 4 tilgátur í hugann og læt lesendur um að meta hver þeirra er nú líklegust:
a. Svæsin bardagaatriðin í Brák settu meltingarkerfið úr skorðum. Það var hugsanlegt á þeirri forsendu á hér væri um að ræða einu manneskjuna í hópnum sem var nægilega saklaus til að eiga erfitt með að takast á við Egil Skallagrímsson höggva mann í herðar niður.
b. Súpan var einnig mögulegur sökudólgur. Var þetta mögulega gömul Súpa Seiðkonunnar sem þarna hafði verið borin á borð. Það sem styður þessa kenningu, ef eitthvað er, er að hugsanlega hafi meltingarkerfi viðkomandi verið viðkvæmara en annarra súpumanna.
c. Eitthvað sem hefði gerst hvar sem viðkomandi manneskja var stödd þar sem eitthvað, sem ekki er rétt að nefna til sögunnar hér, þar sem þá myndi ég ganga of nærri farþegum mínum. Læt lesendur um að láta hugann reika og velta fyrir sér - þetta var nægilega óljóst.
d. Heimferðin sem framundan var. Ég var nokkuð fljótur að líta á hana sem líklegasta orsakavaldinn.

Hvað um það, það bráði lítillega af manneskjunni, svo það var ákveðið að leggja í hann. Ekki leist mér á blikuna þegar vélfararstjórinn komst að þeirri niðurstöðu, að best væri að manneskjan sæti frammí við hlið mér. Þannig gat ég átt von á hverju sem var, en það var nokkur huggun, að einhver hafði látið sér detta í hug, að láta hana fá stóran plastpoka, ef allt skyldi nú fara af stað áður en minnst varði.

Það var komið myrkur, það var hvasst og það haugrigndi í Borgarfjarðarhéraði og á Hvalfjarðarströnd. Áfram ók ég varlega til að eiga ekki á hættu að hljóðar athugasemdir bærust yfir öxl mér. Þetta hafði það í för með sér, að ég safnaði bílalest og leist ekki gæfulega á þann möguleika að þurfa í snarhasti að víkja út í kant með skömmum fyrirvara. Bílljós á móti blinduðu mig á meðan óþolinmóð bílljósin á eftir mér leituðu stöðugt leiða til að komast framúr. Ég var fastur í einhverju ferli sem ég gat með engu móti komið mér úr - að mér fannst. Ég varð stöðugt að hafa augun á mjóum veginum á sama tíma og ég þurfti að fylgjast með ljósunum fyrir aftan í baksýnisspeglinum veinstra megin, og ég þurfti að fylgjast með hvernig sjúklingnum hægra megin leið og reyna þannig að meta hvenær eða hvort ástand hans væri þannig, að ég gæti þurft að stansa úti í kanti í snarhasti. Á meðan sátu farþegarnir aftur í og gott ef vélfararstjórinn var ekki bara kominn aftast þar sem tilteknum kassa með tilteknu innihaldi hafði verið komið fyrir og sem hann nú nýtti sér nú ásamt öðrum sem þarna þurftu að auka sér kjark og kæruleysi.

Göngin voru framundan, öðru sinni. Ekki yrði það gæfulegt ef sjúklingurinn þyrfti að losna við meiri súpu þar niðri. Það varð því úr, þegar mjög nálgaðist göngin, að ég spurði:
"Heldurðu að þú hafir það af í gegn, eða á ég að stoppa einhversstaðar hérna?"
"Umm, umm, ööö - nei, ég held að þetta veri í lagi - oh oh æ"
Ég varð nokkuð feginn við þetta svar, því í myrkrinu, hvassviðrinu og rigningunni, með 10 bíla lest á eftir, leist mér ekkert á að reyna að leggja úti í kanti.

Aftur var auðvelt að borga og spennuþrungin ferðin niður í göngin hófst. Lesendum til mikillar undrunar, sjálfsagt, gekk sú ferð sérlega vel. Það æmti ekki í sjúklingnum og engin vafasöm tilvik litu þar ganganna ljós.

Uppúr komumst við og sjúklingurinn virtist vera hálfsofnaður þarna í framsætinu. Framundan var einn þáttur ferðarinar, sem þurfti að leysa og sem ég bar töluverðan kvíðboga fyrir: Ég þurfti að beygja til vinstri inn á bílastæði undir Esjurótum. Meða bílalestina á eftir og bílalest á móti og lélegar merkingar til að gefa til kynna hvar skyldi beygt í áðurnefndu veðri, var þetta fjarri því að vera tilhlökkunarefni. Ég vissi að bílastæðið nálgaðist, og nálgaðist. Myrkrið varð svartara, rigningin jókst og hvassviðrið færðist í aukana - ég pírði augun inn í sortann framundan í leit að vísbendinum um að bílastæðið nálgaðist.
Þarna birtist skilti sem tilkynnti að 200 m væru í beygjuna, allt í lagi, nema 50 m seinna birtist annað sem benti inn að stæðinu - það var þar sem átti að beygja. Nú varð ég að hugsa fljótt. Ég bremsaði nokkuð hraustlega svo kassainnihaldsnjótandi farþegarnir kipptust lítillega framávið án þess að þeir gerðu mikið veður úr því, um leið og ég skellti á stefnuljósi svo hálf vitifirrtir bílstjórarnir, sem ég hafði haldið fyrir aftan mig frá Borgarnesi, tækju ekki á það ráð að fara fram úr nákvæmlega þarna. Sem betur fer voru engir bílar að koma á móti svo ég snarbeygði inn á bílastæðissvæðið - nánast á tveim hjólum, því eins og ég hef áður greint frá, var þessi bifreið rækilega upphækkuð og því með þyngdarpunktinn mjög ofarlega. Við þetta köstuðust áðurnefndir aftursætameðreiðarmenn út í hægri hlið og síðan aftur til baka í þann mund er ég rétti kaggann af og stöðvaði síðan inni á planinu....................
Hjartað barðist við rifin, en svalinn og sjálfsöryggið geislaði af yfirborðinu.
Hér þustu 3 farþegar frá borði og áfram var haldið að Gljúfrasteini þar sem tveir til viðbótar kvöddu í flýti, en annar þeirra hafði ákveðið að ekki væri hættandi á þetta frekar - hann ætlaði að aka á eftir okkur að Laugarvatni. Lokaleggurinn hófst og ekkert það var í kortunum sem talið var að gæti orðið til trafala. en auðvitað varð það ekki svo.
Á Mosfellsheiði var svartaþoka, sem bættist ofan á myrkrið og rigniguna. Ég treysti því að ég myndi ekki grilla (borið fram eins og VILLA, sem er borið fram eins og TSJILLA) rollur sem hugsanlega væru að þvælast á veginum. Þegar nálgaðist Þingvelli létti þokunni. Nú var þetta örugglega komið, hugsaði ég um leið og ég tók eftir bílljósum í baksýnisspeglunum þrem: vinstra megin, hægra megin og í miðju. Þessi ljós nálguðust og ég reiknaði með, að brátt myndi bílstjórinn skella á lágu ljósunum svona til að auðvelda mér lífið, en það gerði hann sannarlega ekki og færðist nær og nær. Þar kom, að ég var eiginlega hættur að sjá hvað framundan var, vegna skjannabirtunnar úr speglunum þrem. (Þetta var orðið nánast eins og sviðsljósin í Seðlabankanum, ef einhver man eftir þeim). Ég tók á það ráð til að forða útafakstri, að hægja ferðina og við það versnaði ástandið svo, að ekki varð búið við lengur. Einhvers staðar í gegnum skjannabirtuna sem kom í veg fyrir að ég greindi veginn fram á við, sá ég skyndilega glitta í skilti sem benti að að við værum komin að þjónustumiðstöðinni. Ég tók áhættuna og beygði þar sem ég taldi að innkeyrslan væri og var heppinn. Ég átti von á að viðkomandi ökumaður héldi bara áfram með sín háu ljós, en af því varð ekki. Hann ók að hlið okkar og þá kom í ljós, að hér var kominn sá farþeganna, sem hafði farið úr fólkflutningabifreiðinni við Gljúfrastein. Í ljós kom, að hann hafði aldrei ekið þessa leið og vildi þessvegna koma í kjölfar okkar hinna.
Í sem skemmstu máli benti ég honum á að ef til vill væri rétt að aka með lágu ljósin það sem eftir var. Hann tók tilmælunum vinsamlega og áfram var haldið.

Eftir þetta bar ekkert til tíðinda, utan að vegna hratt vaxandi öryggis míns við aksturinn, ók ég heldur hraðar um holurnar á Gjábakkavegi en þegar lagt var af stað um morguninn. Við þetta hristist trukkurinn nokkuð og vélfararstjórinn, sem sat í aftasta sæti varpaði fram þeirri spurningu hvort ég ætlaði að hrista bílainn hans Gunna í sundur - sem auðvitað var aldrei ætlunin, enda gerðist það ekki.

Af fádæma öryggi renndi ég loks í hlað og skilaði þar af mér þeim farþegum sem eftir voru, alsælum eftir vel heppnaða ferð. Meira að segja sjúklingurinn æmti hvorki né skræmti alla leiðina, sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo, að aksturinn hefði verið óaðfinnanlegur.

Ef þau hefðu vitað...... já, ef þau hefðu vitað.

-----------------------------------------
Hér lýkur þessari frásögn.
Hún er byggð á ferð KEMEL og langflestar þeirra staðreynda sem til eru tíndar, eru réttar. Ég tók mér hinsvegar það bessaleyfi að túlka með mínum hætti það sem gerðist og bæta inn ýmsum viðhorfum og tilfinningum sem eiga, eða eiga ekki rétt á sér.

Í upphafi ætlaði ég að afgreiða þessa ferð snarlega, með einni færslu, en það fór eins og það fór,

Ég þakka þeim (ef einhverjir eru), sem hafa enst til að lesa þetta - ég hafði gaman af að skrifa það.

27 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (3)

Eins og menn muna þá var komið að því að tína upp farþegana, þegar síðasta hluta lauk. Þar var ennfremur gefið í skyn, svo ekki verður misskilið, að það hefði ekki gengið eftir eins of til stóð. Þar var ekki of mikið sagt.

Það biðu tveir farþegar á tilteknum uppítökustað þegar til kom, en 3, misstressaðir, þ.m.t. fD, sem stóð með sínum og vélfararstjórinn, sem auðvitað gat ekki verið þekktur fyrir annað en sýna æðruleysi, voru þegar komnir í fólksflutningabifreiðina. Vélfararstjóranum varð ekki rótt við þetta og seildist inn á sig til að finna símanúmer þeirra sem ekki voru mættir eins og fyrir hafði verið lagt. Mér var rótt á yfirborðinu, en illur grunur var farinn að grafa um sig hið innra. Sá fyrsti sem hringt var í, kvaðst skyndilega hafa lagst veikur með kvef og hálsbólgu og höfuðverk (svona svipaðar afsakinir og maður þekkir svo vel úr aðalstarfinu). Sá næsti taldi sig vera kominn með svínaflensu, en áður en sú afsökun var borin fram, kvaðst hann alveg vera búinn að gleyma því, að ferðin væri þennan dag. Sá þriðji var ekki nægilega fljótur að finna sér sjúkdóm, þannig að ákveðið var að ná í hann heim til sín. Virkaði fremur órótt þegar í bílinn kom.

Þar með var haldið á örmjóan Gjábakkaveg með næsta viðkomustað að Gljúfrasteini. Gjábakkavegur var svona:

Það kom sér bara vel að vegurinn skyldi vera í þessu ástandi, því mér gafst þar færi á að kynnast hinum upphækkaða Ford Econoline, dísil, nokkuð - átta mig á elstu eiginleikum og stjórntækjum, fyrir utan það að nægur tími var til stefnu. Vélfararstjórinn hafði nefnilega gert ráð fyrir því í ferðaáætlun, að eitthvað gæti komið upp á - t.d. bílvelta eða árekstur. Hann hafði svo sem ekki sagt neitt um það, en mér fannst það augljóst.
Í gegnum þjóðgarðinn ók ég nokkuð yfir leyfðum hámarkshraða, enda er sá hraði bara ætlaður ökumönnum með 1 pro mill í blóðinu. Síðan tók við tiltölulega beinn og mjór vegur alla leið að Gljúfrasteini. Á þeirri leið gerðist þrennt, fyrir utan auðvitað hið augljósa: svalt, ytra öryggi mitt og innri ólgu og efasemdir.
1. Farþegarnir létu sig hafa það að kvarta yfir kulda. Voru reyndar orðnir krókloppnir, en höfðu ekki lagt í að biðja um að miðstöðin yrði sett í gang, væntanlega af ótta við að ég höndlaði það ekki, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Höfðu ekki áttað sig á hlutverki vélfararstjórans sem hafði svona hlutverk með hendi. Hann setti miðstöðina á blúss með þeim afleiðingum að þegar komið vara áfangastað voru allir í móki.
2. Vélfararstjórinn hringdi í námsráðgjafann (í námsleyfi) til að greina frá ferðatilhögun, en hún ásamt 3 öðrum áttu að koma til móts við okkur að Gljúfrasteini. Það fór nokkuð um mig þegar ég heyrði háværan hrossahláturinn í henni í gegnum símann þegar vélfararstjórinn greindi henni frá því hver væri ökumaður.
3. Stýrið á kagganum var þannig stillt, að ég sá ekki á hraðamælinn, en freistaði þess að aka alltaf á hóflegum og löglegum hraða (nema í gegnum þjóðgarðinn). Við og við kíkti ég þó yfir stýrið til að fylgjast með. Það gerði ég líka nokkru eftir hrossahláturssamtalið og uppgötvaði þá að tækið var komið á 120 km hraða.

Það var rennt í hlað að Gljúfrasteini, en þar sem þessi frásögn er ekki um þann stað, fjölyrði ég ekki um hann. Það er þó allt ágætt um heimsóknina að segja. Mér gafst þarna færi á að ná lítillega áttum fyrir næsta legg ferðarinnar, ekki síst þann hluta sem fól í sér að koma hátimbraðri bifreiðinni í gegnum Hvaðfjarðargöngin.

Síðustu farþegarnir voru teknir upp í á bílastæði undir Esjurótum, sem á eftir að koma nokkuð við sögu, en síðan lá leið þráðbeint að Hvalfjarðargöngunum. Ég fann fyrir stöðugt vaxandi svitaútstreymi og fannst farþegarnir vera grunsamlega hljóðir aftur í. Ég lét sannarlega ekki á neinu bera. Ávallt svalur.
Mig grunar að það hafi verið vegna þess að miðstöðin var enn á fullu, að einhverjir ferðalanganna tóku upp á því að leita að opnanlegum gluggum í afturhluta bílsins. Þeir fundu glugga og opnuðu hann upp á gátt, í þann mund er göngin birtust framundan. Skelfing var gangamunninn nú lítill.
Á tímabili var ég að því kominn að beygja inn Hvalfjörðinn, en hafnaði þeim kosti jafnharðan, þar sem þá myndi hópurinn verða af leiksýningu og kvöldveði, meira að segja þó enn hefði vélfararstjórinn áætlað feikilega rúman tíma til að komast frá Gljúfrasteint í Borgarnes.

Ég lét vaða í göngin.
Torfærufólksflutningabifreiði rakst ekki upp undir, en það var rétt með naumindum að mér tókst að mæta þeim sem á móti komu - átti allt eins von á því að strauja hægri hliðina. Ekki leist mér á blikuna þegar lengra var komið niður í göngin þegar mikil ólykt af útblæstri ótal ferðalanga sem þarna höfðu átt leið um, gerði vart við sig. Glugganum, sem opnaður hafði verið, var lokað í snarhasti, en það virtist engu breyta. Vélfararstjórinn leitaði leiða til að stöðva inntöku á óloftinu í gegnum mistöðina, en fann enga. Þegar ofan í botn ganganna var komið þótti mér sýnt orðið að þaðan kæmumst við aldrei upp vegna þess, að mér var orðið ómótt og taldi að næst myndi ég missa meðvitund vegna CO2 mengunar.
Ég tórði, og að því kom að mér fannst að ferðin upp á yfirborðið væri hafin aftur. Þetta fann ég þannig, að tryllitækið fór að erfiða æ meir. Mér var reyndar ekki farið að litast á blikuna í mesta brattanum, þegar sjálfskiptingin neitaði að skipta í lægri gír; bíllinn fór stöðugt hægar og hljóði benti til þess að það væri að drepast á honum sökum ofáreynslu. Ég prófaði loksins að sleppa olíugjöfinni og stíga síðan aftur á hana - viti menn: það var skipt í lægri gír og vélin æpti af létti, en mikið óskaplega gekk uppferðin hægt. Það koma loks að því að glæta sást í fjarska og ekki þarf að fjölyrða um léttinn.
Það er alltaf auðvelt að borga, þannig var það líka þessu sinni og eftir þetta gekk ferðalagið áfallalaust í ljómandi veðri hinumegin Hvalfjarðar. Eina sem ég þurfti að muna eftir á þeirri leið var hraðamyndavélin. Það gerði ég.
Í Borgarnes kom ég hópnum og ég sá ekki betur en talsverðum, kvíðablandnum létti lýsti af andlitunum. Léttirinn fólst í því að vera kominn í Borgarnes, kvíðinn orsakaðist af heimferðinni, sem var óhjákvæmileg.

Leiksýningin Brák var skemmtileg og maturinn sem fylgdi í kjölfarið slapp til.

Eftir að hafa treint dvölina í Landnámssetrinu eins lengi og unnt var, varð ekki hjá því komist að tygja sig heim á leið.

Það var þá sem..........

---------------------------------
Mér sýnist að með einum hluta enn muni þetta takast, svo fremi að mér takist að tjá með orðum það sem í hönd fór, rétt áður en heimferðin hófst og á meðan á henni stóð.




26 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (2)

Þrátt fyrir fremur önugt veðurfar til ferðalaga, var sól í hjarta, ef frá er talinn lítilsháttar herpingur vegna þeirrar óhemju ábyrgðar sem hafði verið lögð mér á herðar. Vissulega hafði ég gengið frá því þegar samið var um málið að formaður KEMEL skyldi vera vélstjóri, en hann er einnig efnafræðingur og þrautreyndur fararstjóri, sem þýddi að ég þurfti í raun ekki að hafa áhyggjur af nema stjórntækjum. Vélstjórinn reyndist, meira að segja, vera búinn að læra að skipta um dekk. Auk þess að taka á sig ábyrgð vélstjórans var hann fararstjóri, sem þýddi auðvitað að ég þurfti ekki að velta fyrir mér hvert haldið skyldi hverju sinni, bara halda um stýrið og stíga hóflega á olíugjöfina (já, þetta var dísiltryllitæki), auk þess að vera tilbúinn að stíga létt á bremsuna eftir því sem þörf var á og setja þurrkurnar á og slá þær af eftir þörfum (þessi er með einar 5 harðastillingar á þurrkum, sem voru allar eins), gefa stefnuljós þegar við átti og hafa uppi hæfilegan ljósabúnað hverju sinni.

Að vanda var það hlutskipti okkar Kvisthyltinga að koma okkur á þann stað sem ferðin skyldi hefjast. Það er vegna þess, að Laugvetningar líta til Laugarvatns sem upphaf og endi alls. Ef maður kemur ekki þangað þá fer maður ekki með - sorrí.
Við lögðum í hann frá staðnum eina, sem auðvitað er Laugarás í okkar tilviki, tímanlega, til að mér tækist að átta mig á grundvallaratriðum þess, sem til þurfti til að koma fólksflutningabifreiðinni þangað sem ferðinni var heitið.

Vélstjórinn hafði tækið tilbúið til brottfarar, en ekki er laust við að mér hafi litist fremur illa á að þessi ferð færi vel, þegar ég leit gripinn. Mér þótti sýnt, að vegna þess hve mjög hann var upphækkaður (fagmál) væri þyngdarpunkturinn talsvert ofarlega, sem þýddi að lítið mátti út af bera til að hann ylti út í skurð.

Ég tek það fram hér, að gagnvart ferðalöngun kom ég ávallt fram eins og sá sem veit hvað hann er að gera, þó svo hið innra ólgaði efinn um að þetta myndi fara vel.

Það kom að því að klifra upp í farartækið, en eftir talsvert klifur tókst mér að setjast í bílstjórasætið. Það varð samkomulag um það að vélfararstjórinn settist í sætið við hlið mér, þar sem fD er vön að sitja og segja mér til. Hún var hinsvegar ekki af baki dottin og fann sér sæti beint fyrir aftan mig og hafði þar úrvals útsýni yfir stjórntækin, auk þess að með því fyrirkomulagi gafst henni engu síðra færi á að benda á það sem betur mætti fara, en með hefðbundnu fyrirkomulagi.

Það var kominn tími til að fara að tína upp farþegana, sem átti að gerast á tilteknum stað á Laugarvatni, nema hvað? Ég setti í gang - kunni að setja dísilbíl í gang eftir að hafa eki á slíku tæki um nokkurra ára skeið - vélin tók glæsilega við sér. Þessu næst færði ég skaftið í stýrinu þar til vísirinn lenti á R - sem sagt, ég þurfti að byrja á því að bakka! Það gerðist ekkert við þessa aðgerð - þó svo ég stigi létt á olíugjöfina. Það var ekki fyrr en ég steig fastar, að vart varð hreyfingar á ferlíkinu. Auðvitað endaði það á að hreyfast afturábak, eins og til stóð. Það var einstök lagni mín sem kom í veg fyrir að ég lenti utan í einkabifreið vélfararstjórnans - svitnaði bara inni í mér - lét á engu bera.
Eftir bakkið ssetti ég í D og kagginn skaust fram á við - ferðin var hafin hjá mér sem bílstjóra, en annað kom í ljós þegar kom að því að tína upp farþegana.

---------------------------------------------------------
Ég hafði ætlað mér að ljúka þessari spennusögu með þessum hluta, en undirbyggingin hefur reynst umfangsmeiri en til stóð. Ég hafði ímyndað mér að það gæti gerst og það var þessvegna sem ég óskaði hvatningar að fyrsta hluta loknum. Mér sýnist að ég gæti haldið áfram upp í 5 hluta, með þessu áframhaldi, en tel jafnframt, að ákveðnar líkur séu til þess, að þó svo framhaldið sé gegnsýrt óvæntum viðburðum og hættum, þá muni mér takast, með góðum vilja, að ljúka þessu í 3ja hluta. Hvenær það gerist á eftir að koma í ljós.

25 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (1?)


... er ekki víst að þau hefðu farið með.

Til er mikið ágætis félag, sem burðast með skammstöfunina KML (eða jafnvel, og enn flottara: KEMEL) sem styttingu á heiti sínu, sem er hvorki meira né minna en: Kennarafélag Menntaskólans að Laugarvatni.
Það kemur fyrir, þegar lítilsháttar peningur hefur safnast í sjóð, að stjórn KML kemst að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að skella sér í menningarferð.

Það var nákvæmlega það sem gerðist fyrir nokkru.
Stjórnin hélt fund og í stað þess að ákveða að halda í menningarferð í Laugarás, eins og ég hafði boðið, ákvað hún að stefna í þveröfuga átt: í Borgarnes. Ég tel rétt að það komi fram hér, að ég á ekki sæti í stjórn KML.

Það voru ekki til of miklir peningar, svo ákveðið var að leita hagstæðasta tilboðs í akstur hópsins. Valið stóð milli hópferðabifreiðar sem kostaði nánast kr. 80.000 með bílstjóra og að fá leigða bílstjóralausa fólksflutningabifreið á kr. 35.000. Það þarf ekki að taka það fram, að seinni kosturinn var valinn og ákveðið að taka séns á að redda bifreiðarstjóra, en einn slíkur, alræmur allsherjarreddari starfar við stofnunina. Formaður stjórnar lagði fyrir hann snörurnar og niðurstaðan varð jákvæð.
Allt klárt. Engir lausir endar, eins og vera ber þegar hópferð er annars vegar.

Það er hins vegar þannig, að ekki er er klárt fyrr en fullklárt er.

Bílstjórinn "beilaði" - eins og skjólstæðingar félaga KML myndu segja; lét sem sagt vita af því, að af óviðráðanlegum ástæðum gæti hann ekki tekið að sér umrædda fólksflutninga.

Nú voru góð ráð dýr hjá stjórninni, en stór hluti félaga hafði skráð sig til þessarar ferðar og hafði til hennar miklar væntingar, ekki síst vegna þess, að vegna góðra kjara á flutningi, var von til að greiðsla fyrir mat og leikhúsmiða yrði í lágmarki.

Stjórnin var í vanda.

Þá datt allt í einu einu þeirra í hug, að eldra fólk hefði ökuskírteini sem veitti réttindi til aksturs fólksflutningaifreiða upp að tilteknu marki, ef ekki væri um að ræða að greiðsla kæmi fyrir aksturinn.
Það næsta sem gerðist fól í sér, að stjórnin fór á hausaveiðar, sem beindust fyrst og fremst að þeim sem eru miðaldra og eldri í hópnum.
Í hönd fór ótrúleg atburðarás, með opinberum fyrirspurnum á kennarastofu, einkafundum (sem falla nánast undir bankaleynd) og leitun á samþykki bifreiðareigandans við því, að einhver úr hópnum tæki að sér aksturinn.

Þetta var rafmagnaður tími, en smátt og smátt þrengdist hringurinn. Sumir voru útilokðir vegna ungs aldurs, en aðrir, ég þar með talinn, töldust nægilega vel útbúnir að réttindum, til að þeir kæmu til greina.

Ég kýs að fjölyrða ekki um allt það sem átti sér stað áður en til endanlegrar ákvörðunar kom, en í sem stystu máli varð niðurstaðan eftirfarandi:

ÉG SKYLDI VERA BIFREIÐARSTJÓRI Í FERÐINNI - ENGINN ANNAR!

Vissulega fólst í þessu ákveðin traustsyfirlýsing, sem ýtti nokkuð undir sjálfstraustið, en jafnframt helltist yfir mig talsverður kvíði yfir því sem framundan var.

Það sem ég hygg að hafi gert útslagið við valið var, að ég glutraði því út úr mér á einhverjum tímapunkti, að árið 1976 hefði ég fengið að afla tekna á sendibifreið tengdaföður míns á höfuðborgarsvæðinu um mánaðartíma, meðan þau hjón skelltu sér í árlega ferð til Kanarí. Það, í sjálfu sér var afar eftirminnileg lífsreynsla, sem ekki er hér vettvangur til að fjalla um, en sendibíllinn var sömu gerðar og sá sem nú beið mín. Munurinn fyrst og fremst sá, (fyrir utan, að sjálfsögðu, þá staðreynd að þessi bifreið er 35 árum yngri en sú sem ég ók fyrr) að nú skyldi farangurinn vera 12 sprelllifandi manneskjur, en ekki áfengi í veitingahús.

Ferðadagurinn rann upp, dökkur og ófagur.

Framhald þessarar æsispennandi frásagnar kemur, þótt síðar verði.
Hvatning er vel þegin :)

24 september, 2009

Ég er ekki orðlaus...

... en nægilega hóflega bit, til að ákveða að fjölyrða ekki um þetta mál á þessum vettvangi.

-----------------------

Úr því ég er hér staddur, skelli ég inn einum upplýsingabút til viðbótar um fyrrverandi Laugarásbúann sem ég reyndi að fá fólk til að nefna.

Þessi ágæti maður var vel kvæntur, en missti konuna fyrir allmörgum árum.

19 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 3. hluti

Þá er komið að síðasta hluta dæmisögunnar um búðarferðina. Áður en lengra er haldið verð ég að taka það fram, að þó svo við Kvisthyltingarnir og gamli unglingurinn séum þarna sögupersónur, er það engan veginn svo, að líta skuli svo á að nákvæmlega svona hafi reynsla okkar af búðarferðinni verið, þó svo með réttu megi til sanns vegar færa að svona hafi reynsla okkar verið.

---------------------------
Svona lauk 2. hluta:
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins.

Það er þannig, að maður fylgist oft með því sem þeir sem á undan eru, hafa sett í körfuna sína, og svo var einnig nú. Það yrði of löng upptalning að ætla sér að gera grein fyrir öllum þeim ókjörum af dýrindis mat-, hreinlætis- og snyrtivörum sem færðist nær kassamanninum með kippum. Hann tók við hverjum hlutnum eða stykkinu á fætur öðru og færði fyrir framan skannan sem jafnóðum birti verðið á skjánum sem við blasti. Þetta var augljóslega afar auðugt fólk sem var hér á ferð.
Þar kom að kassamaðurinn var búinn að renna öllum vörunum fyrir skannann. Glæsihjónin höfðu á sama tíma tínt vörurnar beint í innkaupakerruna aftur og luku því um leið að síðasti hluturinn hafði sent verðupplýsingar inn í tölvuna. Það var þá sem maðurinn lyfti upp hægri hönd og smellti fingrum (þumalfingri og löngutöng).
"Þetta eru þá 376,846", sagði kassamaðurinn til staðfestingar á upphæðinni, sem birtist á skjánum. Um leið birtust tveir þrekvaxnir menn, sem augljóslega höfðu beðið eftir merki. Þeir tóku sitt hvora innkaupakerruna og trilluðu þeim á undan sér í átt að útganginum.
"Já - ég ætla ekki að greiða það", sagði maðurinn rólega um leið og hann tók undir hönd konunnar og gekk á eftir kerrumönnunum. Fyrir utan verslunina var nú kominn langur, svartur fólksbíll, svona eins og stundum er kallaður límósína. Skottið var opið og nú mátti sjá þrekvöxnu kerrumennina lyfta kerrunum upp og sturta úr þeim í skottið, sem síðan var lokað. Maðurinn og konan settust inn í bílinn, skottinu var skellt, kerrurnar voru skildar eftir á miðju bílastæðinu og bíllinn helt af stað út í umferðina.
Viðbrögð kassamannsins við öllu þessu voru harla undarleg. Þau voru nákvæmlega engin. Hann fylgdist með atburðarásinni rétt eins og við, nema ekki í forundran og vantrú. Þegar bíllinn var farinn snéri hann sér aftur að færibandinu og hóf að skanna inn vörur gamla unglingsins. Það tók ekki langa stund. Ég setti vörurnar í þennan eina poka sem til þurfti fyrir þetta allt saman.
Kassamaðurinn sló inn samtöluna.
"Þetta verða þá 381,352", sagði hann, án þess að blikna.
"Fyrirgefðu, hvað sagðirðu?", sagði gamli unglingurinn, en heyrinin er ekki eins og hún var.
"381,352", endurtók kassamaðurinn og snéri skjánum með upphæðinni á gamla unglingnum, um leið og hann benti á skjáinn þar sem umrædd upphæð blasti við.
Gamli unglingurinn er af þeirri kynslóð sem borgar alltaf reikningana sína, helst löngu fyrir gjalddaga, en nú varð honum greinilega ekki rótt.
"Kostar þetta sem er þarna í pokanum svona mikið?" spurði hann um leið og hann benti á pokann sem ég hélt á.
"Já, þetta og síðan það sem hjónin keyptu áðan", svaraði kassamaðurinn snúðugt.
"Á ég að borga það sem þau fóru með líka?"
"Já, það eru reglurnar."
"Það gengur ekki." Nú var farið að síga í þann gamla.
Kassamaðurinn hikaði stundarkorn.
"Kassinn verður að stemma. Það verður alltaf einhver að borga."
Ég sá að hægri hönd hans hvarf undir borðið.
"Þetta á ég ekki að borga og þetta ætla ég ekki að borga. Hvað kostaði það sem ég keypti?"
"Þú átt að borga alla upphæðina", sagði kassamaðurinn, um leið og rauð ljós fóru að blikka yfir kassasvæðinu og skerandi væl fyllti búðina. Allir viðskiptavinirnir og afgreiðslufólkið snéri sér að okkur og horfðu á okkur í forundran.
"Nei - kemur ekki til greina. Ég krefst þess að fá að borga það sem ég keypti - annað ekki!"
"Jæja, við sjáum til". Kassamaðurinn var grunsamlega öruggur með sjálfan sig og ekki leið á löfngu áður en skýringin kom á þvi. Í fjarska bættust sírenuhljóð við vælið í búðinni. Skömmu síðar renndu tveir lögreglubílar í hlað með blikkandi ljósum. Út úr þeim stigu 4 lögregluþjónar, sem hröðuðu sér inn í verslunina og að kassanum þar sem við stóðum, hálf dofin yfir þeim ósköpum sem þarna höfðu átt sér stað.
"Ætlar þú ekki að greiða fyrir vörurnar?" spurði ábúðarmikill lögregluþjónn, sem virtist fara fyrir hinum.
Gamli unglingurinn endurtók það sem hann hafði áður sagt. Hann var tilbúinn að greiða fyrir slattann í pokanum.
"Hvert er þá vandamálið?"
"Samkvæmt reglum ber honum líka að greiða fyrir glæsifólkið sem fór áðan án þess að borga," sagði kassamaðurinn, viss í sinni sök.
"Já, það mun rétt vera," sagði lögreglumaðurinn. "Reglurnar kveða á um það. Ætlarðu að greiða þetta?"
"Nei, fjarri því. Kemur ekki til greina!"
"Þá eigum við ekki annars úrkosti en að handtaka þig og færa fyrir dómara."

Þetta reyndist gamla unglingnum um megn. Hann tók upp kortið sitt og afhenti kassamanninum, sem renndi því í gegnum lesraufina á tölvunni. Út prentaðist miði, sá gamli skrifaði undir, rauð ljósin slokknuðu, vælið hætti og lögregluþjónarnir hurfu á brott.

Kassamaðurinn renndi nú vörum okkar Kvisthyltinga framhjá skannanum. Þær komust í tvo poka og fyrir greiddum við það sem kalla má viðunandi verð. Því næst yfirgáfum við verslunina.

Síðast þegar ég vissi var gamli unglingurinn að borða 50000 króna grjónagrautinn sinn og burstaði síðan tennurnar með 37000 króna tannkreminu.

Þannig eru reglurnar.

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 2. hluti

Svona rétt til að skerpa á lesendum vil ég bæta lítilsháttar upplýsingum við Laugarásbúann sem spurt var um. Þessi átti heima á öðrum stað í Tungunum áður en hann flutti í Laugarás með fjölskyldu sinni, þar sem þau höfðu byggt sér íverustað og í framhaldi af því atvinnuhúsnæði.
--------------------
Jæja það er þá væntanlega komið að sögunni um Búðarferðina. Búðar ferðir eru svo sem nánast vikulegur viðburður á þessum bæ. Oftast er gamli unglingurinn með í för og tekur kerruaksturinn föstum tökum.
Í því tilviki sem hér um ræðir var föstudagssíðdegi og umferð því allmikil þegar við komum í kaupstaðinn. Eins og venjulega þurfti að taka á ákveðinni klípu þegar val á verslun var annarsvegar, en loks varð önnur þeirra fyrir valinu.
Eftir að búið var að nálgast kerruna undir varninginn, hófst leiðangurinn um heim allsnægtanna, þar sem hægt er að fylla margar kerrur af varningi á augabragði, ef pyngjan og þarfirnar standa til slíks.
Hjá okkur Kvisthyltingum átti ferðin að vera fremur lágstemmd, að vanda - bara svona þessar vikulegu nauðsynjar. Tveir miðar fD lögðu grunninn að því sem fara skyldi í kerruna; annar fyrir gamla unglinginn og hinn fyrir okkur.
Fljótlega eftir að við vorum komin af stað - byrjuð að tína íslenskt grænmeti í körfuna - tók ég eftir afar glæsilega klæddum hjónum sem þarna voru í sömu erindagerðum og við. Þau voru ekki með neinn tossamiða, auðsjáanlega, því hiklaust tíndu þau til varninginn án þess að hugsa sig um. Yfirleitt tóku þau það sem var dýrast - og þá væntanlega best líka. Það er einhvernveginn þannig í svona búðum að fólk fylgist að í gegnum herlegheitin - ekki viljandi, heldur vegna þess að í grunninn erum við öll frekar svipuð þegar kemur að innkaupum. Það var einnig svo með okkur og glæsihjónin.
Ég er nú ekki vanur að einbeita mér að því að fylgjast með saminnkaupafólki við þessr aðstæður, en einhvernveginn var háttalag þessara þess eðlis að þau drógu að sér athyglina þar sem þau hiklaust og hikstalaust söfnuðu vörunum í körfuna. Afköst okkar við sama verk voru nánast til skammar, ef þannig er mælt.
Þegar við vorum búin að fara í gegnum frystana (þau fengu sér rándýrar nautalundir frá Nýja Sjálandi) og kælana (þau litu ekki við tilboðskjötinu) og gosdrykkina (þau völdu CC) og þurrvöruna (þau tóku hitt og þetta) og nýlenduvöruna (þau tóku þetta og hitt) og hreinlætisvöruna (þau tóku hitt og hitt m.a. dýrasta tannkremið úr 25 tegunda úrvalinu) og snyrtivöruna (þau tóku þetta og þetta) og bökunarvöruna (þau tóku dýrasta brauðið og flottustu kökurnar) og hvað þetta heitir allt. Karfan þeirra var orðin sneisafull, svo full að það flóði út úr og datt á gólfið, en þau létu það sér í léttu rúmi liggja - létu það bara liggja sem datt á gólfið og héldu áfram að tína í körfuna. Okkar karfa var tvískipt: í fremri endann fóru nauðsynjavörur gamla unglingsins og í þann aftari nauðsynjavörur okkar - allt fyrirfram ákveðið. Við tókum aðallega tilboðsvörur, ef þær voru einhverjar og létum okkur nægja ódýrasta tannkremið af tegundunum 25 (varla myndi það beinlínis valda tannskemmdum).
Eftir um það bil hálftíma samferð í gegnum búðina kom loks að því að ýta körfunni að búðarkassa. Það vildi svo til, að samferðafólk okkar í gegnum verslunarferðina var næst á undan okkur í röðinni. Við hefðum gjarna viljað fara í aðra röð, en þær voru bara allar lengri. fD ákvað að það væri fljótlegra að fara í stuttu röðina, þó svo karfa félaga okkar væri algerlega útúrtröðin af varningi.
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins..........

Framundan er ótrúleg atburðarás, sem greint verður frá í næsta hluta, sem væntanlega verður sá síðasti.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...