19 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 2. hluti

Svona rétt til að skerpa á lesendum vil ég bæta lítilsháttar upplýsingum við Laugarásbúann sem spurt var um. Þessi átti heima á öðrum stað í Tungunum áður en hann flutti í Laugarás með fjölskyldu sinni, þar sem þau höfðu byggt sér íverustað og í framhaldi af því atvinnuhúsnæði.
--------------------
Jæja það er þá væntanlega komið að sögunni um Búðarferðina. Búðar ferðir eru svo sem nánast vikulegur viðburður á þessum bæ. Oftast er gamli unglingurinn með í för og tekur kerruaksturinn föstum tökum.
Í því tilviki sem hér um ræðir var föstudagssíðdegi og umferð því allmikil þegar við komum í kaupstaðinn. Eins og venjulega þurfti að taka á ákveðinni klípu þegar val á verslun var annarsvegar, en loks varð önnur þeirra fyrir valinu.
Eftir að búið var að nálgast kerruna undir varninginn, hófst leiðangurinn um heim allsnægtanna, þar sem hægt er að fylla margar kerrur af varningi á augabragði, ef pyngjan og þarfirnar standa til slíks.
Hjá okkur Kvisthyltingum átti ferðin að vera fremur lágstemmd, að vanda - bara svona þessar vikulegu nauðsynjar. Tveir miðar fD lögðu grunninn að því sem fara skyldi í kerruna; annar fyrir gamla unglinginn og hinn fyrir okkur.
Fljótlega eftir að við vorum komin af stað - byrjuð að tína íslenskt grænmeti í körfuna - tók ég eftir afar glæsilega klæddum hjónum sem þarna voru í sömu erindagerðum og við. Þau voru ekki með neinn tossamiða, auðsjáanlega, því hiklaust tíndu þau til varninginn án þess að hugsa sig um. Yfirleitt tóku þau það sem var dýrast - og þá væntanlega best líka. Það er einhvernveginn þannig í svona búðum að fólk fylgist að í gegnum herlegheitin - ekki viljandi, heldur vegna þess að í grunninn erum við öll frekar svipuð þegar kemur að innkaupum. Það var einnig svo með okkur og glæsihjónin.
Ég er nú ekki vanur að einbeita mér að því að fylgjast með saminnkaupafólki við þessr aðstæður, en einhvernveginn var háttalag þessara þess eðlis að þau drógu að sér athyglina þar sem þau hiklaust og hikstalaust söfnuðu vörunum í körfuna. Afköst okkar við sama verk voru nánast til skammar, ef þannig er mælt.
Þegar við vorum búin að fara í gegnum frystana (þau fengu sér rándýrar nautalundir frá Nýja Sjálandi) og kælana (þau litu ekki við tilboðskjötinu) og gosdrykkina (þau völdu CC) og þurrvöruna (þau tóku hitt og þetta) og nýlenduvöruna (þau tóku þetta og hitt) og hreinlætisvöruna (þau tóku hitt og hitt m.a. dýrasta tannkremið úr 25 tegunda úrvalinu) og snyrtivöruna (þau tóku þetta og þetta) og bökunarvöruna (þau tóku dýrasta brauðið og flottustu kökurnar) og hvað þetta heitir allt. Karfan þeirra var orðin sneisafull, svo full að það flóði út úr og datt á gólfið, en þau létu það sér í léttu rúmi liggja - létu það bara liggja sem datt á gólfið og héldu áfram að tína í körfuna. Okkar karfa var tvískipt: í fremri endann fóru nauðsynjavörur gamla unglingsins og í þann aftari nauðsynjavörur okkar - allt fyrirfram ákveðið. Við tókum aðallega tilboðsvörur, ef þær voru einhverjar og létum okkur nægja ódýrasta tannkremið af tegundunum 25 (varla myndi það beinlínis valda tannskemmdum).
Eftir um það bil hálftíma samferð í gegnum búðina kom loks að því að ýta körfunni að búðarkassa. Það vildi svo til, að samferðafólk okkar í gegnum verslunarferðina var næst á undan okkur í röðinni. Við hefðum gjarna viljað fara í aðra röð, en þær voru bara allar lengri. fD ákvað að það væri fljótlegra að fara í stuttu röðina, þó svo karfa félaga okkar væri algerlega útúrtröðin af varningi.
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins..........

Framundan er ótrúleg atburðarás, sem greint verður frá í næsta hluta, sem væntanlega verður sá síðasti.

1 ummæli:

  1. ég bíð spennt ... næstu færslu sem fyrst takk!

    BKBen

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...