19 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 3. hluti

Þá er komið að síðasta hluta dæmisögunnar um búðarferðina. Áður en lengra er haldið verð ég að taka það fram, að þó svo við Kvisthyltingarnir og gamli unglingurinn séum þarna sögupersónur, er það engan veginn svo, að líta skuli svo á að nákvæmlega svona hafi reynsla okkar af búðarferðinni verið, þó svo með réttu megi til sanns vegar færa að svona hafi reynsla okkar verið.

---------------------------
Svona lauk 2. hluta:
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins.

Það er þannig, að maður fylgist oft með því sem þeir sem á undan eru, hafa sett í körfuna sína, og svo var einnig nú. Það yrði of löng upptalning að ætla sér að gera grein fyrir öllum þeim ókjörum af dýrindis mat-, hreinlætis- og snyrtivörum sem færðist nær kassamanninum með kippum. Hann tók við hverjum hlutnum eða stykkinu á fætur öðru og færði fyrir framan skannan sem jafnóðum birti verðið á skjánum sem við blasti. Þetta var augljóslega afar auðugt fólk sem var hér á ferð.
Þar kom að kassamaðurinn var búinn að renna öllum vörunum fyrir skannann. Glæsihjónin höfðu á sama tíma tínt vörurnar beint í innkaupakerruna aftur og luku því um leið að síðasti hluturinn hafði sent verðupplýsingar inn í tölvuna. Það var þá sem maðurinn lyfti upp hægri hönd og smellti fingrum (þumalfingri og löngutöng).
"Þetta eru þá 376,846", sagði kassamaðurinn til staðfestingar á upphæðinni, sem birtist á skjánum. Um leið birtust tveir þrekvaxnir menn, sem augljóslega höfðu beðið eftir merki. Þeir tóku sitt hvora innkaupakerruna og trilluðu þeim á undan sér í átt að útganginum.
"Já - ég ætla ekki að greiða það", sagði maðurinn rólega um leið og hann tók undir hönd konunnar og gekk á eftir kerrumönnunum. Fyrir utan verslunina var nú kominn langur, svartur fólksbíll, svona eins og stundum er kallaður límósína. Skottið var opið og nú mátti sjá þrekvöxnu kerrumennina lyfta kerrunum upp og sturta úr þeim í skottið, sem síðan var lokað. Maðurinn og konan settust inn í bílinn, skottinu var skellt, kerrurnar voru skildar eftir á miðju bílastæðinu og bíllinn helt af stað út í umferðina.
Viðbrögð kassamannsins við öllu þessu voru harla undarleg. Þau voru nákvæmlega engin. Hann fylgdist með atburðarásinni rétt eins og við, nema ekki í forundran og vantrú. Þegar bíllinn var farinn snéri hann sér aftur að færibandinu og hóf að skanna inn vörur gamla unglingsins. Það tók ekki langa stund. Ég setti vörurnar í þennan eina poka sem til þurfti fyrir þetta allt saman.
Kassamaðurinn sló inn samtöluna.
"Þetta verða þá 381,352", sagði hann, án þess að blikna.
"Fyrirgefðu, hvað sagðirðu?", sagði gamli unglingurinn, en heyrinin er ekki eins og hún var.
"381,352", endurtók kassamaðurinn og snéri skjánum með upphæðinni á gamla unglingnum, um leið og hann benti á skjáinn þar sem umrædd upphæð blasti við.
Gamli unglingurinn er af þeirri kynslóð sem borgar alltaf reikningana sína, helst löngu fyrir gjalddaga, en nú varð honum greinilega ekki rótt.
"Kostar þetta sem er þarna í pokanum svona mikið?" spurði hann um leið og hann benti á pokann sem ég hélt á.
"Já, þetta og síðan það sem hjónin keyptu áðan", svaraði kassamaðurinn snúðugt.
"Á ég að borga það sem þau fóru með líka?"
"Já, það eru reglurnar."
"Það gengur ekki." Nú var farið að síga í þann gamla.
Kassamaðurinn hikaði stundarkorn.
"Kassinn verður að stemma. Það verður alltaf einhver að borga."
Ég sá að hægri hönd hans hvarf undir borðið.
"Þetta á ég ekki að borga og þetta ætla ég ekki að borga. Hvað kostaði það sem ég keypti?"
"Þú átt að borga alla upphæðina", sagði kassamaðurinn, um leið og rauð ljós fóru að blikka yfir kassasvæðinu og skerandi væl fyllti búðina. Allir viðskiptavinirnir og afgreiðslufólkið snéri sér að okkur og horfðu á okkur í forundran.
"Nei - kemur ekki til greina. Ég krefst þess að fá að borga það sem ég keypti - annað ekki!"
"Jæja, við sjáum til". Kassamaðurinn var grunsamlega öruggur með sjálfan sig og ekki leið á löfngu áður en skýringin kom á þvi. Í fjarska bættust sírenuhljóð við vælið í búðinni. Skömmu síðar renndu tveir lögreglubílar í hlað með blikkandi ljósum. Út úr þeim stigu 4 lögregluþjónar, sem hröðuðu sér inn í verslunina og að kassanum þar sem við stóðum, hálf dofin yfir þeim ósköpum sem þarna höfðu átt sér stað.
"Ætlar þú ekki að greiða fyrir vörurnar?" spurði ábúðarmikill lögregluþjónn, sem virtist fara fyrir hinum.
Gamli unglingurinn endurtók það sem hann hafði áður sagt. Hann var tilbúinn að greiða fyrir slattann í pokanum.
"Hvert er þá vandamálið?"
"Samkvæmt reglum ber honum líka að greiða fyrir glæsifólkið sem fór áðan án þess að borga," sagði kassamaðurinn, viss í sinni sök.
"Já, það mun rétt vera," sagði lögreglumaðurinn. "Reglurnar kveða á um það. Ætlarðu að greiða þetta?"
"Nei, fjarri því. Kemur ekki til greina!"
"Þá eigum við ekki annars úrkosti en að handtaka þig og færa fyrir dómara."

Þetta reyndist gamla unglingnum um megn. Hann tók upp kortið sitt og afhenti kassamanninum, sem renndi því í gegnum lesraufina á tölvunni. Út prentaðist miði, sá gamli skrifaði undir, rauð ljósin slokknuðu, vælið hætti og lögregluþjónarnir hurfu á brott.

Kassamaðurinn renndi nú vörum okkar Kvisthyltinga framhjá skannanum. Þær komust í tvo poka og fyrir greiddum við það sem kalla má viðunandi verð. Því næst yfirgáfum við verslunina.

Síðast þegar ég vissi var gamli unglingurinn að borða 50000 króna grjónagrautinn sinn og burstaði síðan tennurnar með 37000 króna tannkreminu.

Þannig eru reglurnar.

2 ummæli:

  1. Afar gaman þætti mér að sjá gamla unglinginn lesa þetta blogg og sjá hvað hann hefur að segja um sannleiksgildið :)

    En bara svona til að hafa allt á hreinu þá skildi ég raunverulegan tilgang sögunnar :)

    SvaraEyða
  2. Helv... flottar samlíkingar.
    Ef þú ert bara nógu heiðarlegur og með siðferðiskenndina eins og hún á að vera þá þarftu að borga.
    Og við borgum og rifjum svo upp reglurnar í Hálsaskógi þar sem bangsapabbi sagði: "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Ekkert dýr má borða annað dýr. Sá sem er latur og nennir ekki að afla sér matar má ekki stela mat frá öðrum"
    Óttaleg börn erum við.
    Kv. AÐalheiður

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...