15 desember, 2009

Aðventusveit


Það liggur við að mér finnist að það sé ekki alls kostar rétt, að kynni mín af kreppunni skuli ég helst hafa í gegnum fjölmiðla. Nýbúinn að sjá fjallað um úthlutun jólavöru til þeirra, sem ekki eru fyllilega sjálfbjarga. Í sveitinni virðist mér allt ganga sinn venjubundna veg; helst er það öðruvísi en venja er til, að veðurfar er fjarri því að geta tilheyrt þessum árstíma. Blankalogn og hitinn búin að vera upp undir 10°C dögum saman,
-----------------
Ég get ekki stært mig af því að hafa verið fljótur til að setja upp einhverskonar jólalýsingu utandyra. Fram til þessa hef ég haft mig í það svona undir Þorláksmessu, og þá, eins og fD hefur orðað það svo skemmtilega: "...með fýluna lekandi af sér." - en við þetta kannast ég auðvitað ekki. Ég hef litið á þessa aðgerð sem nauðsynlegan þátt í að fyllast hinum sanna jólaanda:
- klæða mig upp miðað við veður, sem oftast hefur verið heldur rysjótt,
- tína niður seríukassana út hillunum,
- reyna að leysa úr flækjunni, sem á rætur að rekja til þeirrar ákvörðunar minnar á síðasta ári, að segja sem svo, að það væri allt í lagi að taka þær ekki almennilega saman - vandinn bíði síðari tíma.
- dragnast nokkurn veginn brosandi og hér um bil fullur tilhlökkunar út, til að finna einhvern stað til að hengja seríurnar upp á (þeim hefur reyndar fækkað eftir því sem trén hafa vaxið)
Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega einnar seríunnar, sem var græn ljósaslanga, sem var fín þá (líklega fyrir 6-8 árum), enda ljósaslöngur í tísku. Þessari ljósaslöngu valdi ég veglegan stað: vafði henni utan um ösp, sem stendur á áberadi stað við hlaðið. Slangan hefur verið þarna síðan, en hún lýsti ágætlega fyrstu tvö árin. Helsta breytingin á henni er líklegast sú, að nú er hún öll toguð og teygð og þar með slitin, vegna þess að það er eðli aspa að stækka. Öspin var lifandi s.l. sumar, svo slangan getur ekki hafa kyrkt hana. Ég hef ekki athugað slönguna og ekki reynt að fá á hana ljós undanfarin ár.
- hengja seríurnar með sem minnstri fyrirhöfn, hvar sem enn er krók eða nagla að finna. (fD: "Af hverju seturðu ekki eina þarna?")
- hefja dauðaleit að fjöltengjum og framlengingarsnúrum ásamt plastpokum til að vefja utan um tengingar utandyra.
- stinga öllu í samband í þeirri von að perurnar séu enn í lagi - nú ef ekki, þá skal serían fá að hanga uppi samt.
- koma mér inn í hlýjuna og horfa upp á fD þar sem hún freistar þess að sýna engin svipbrigði. Ég hef sérstaklega tekið eftir því að hún hefur alltaf passað að ég ofmetnaðist ekki af verkinu.
- sjá fyrir mér að þurfa að taka svo allt niður eftir rúma viku aftur.

Svona hefur þetta verið svo lengi sem elstu menn á þessum bæ muna.

En ekki í þetta skiptið.

Nágranna minn dreymdi það í lok nóvember, að ég hygg, að hann sá 50 hvítar álftir á Hvítá. Þar sem ég er einbeittur í trú minni á drauma, sá ég þarna fyrir mér að framundan mætti eiga von á ofankomu í 50 daga. Ég vil halda því fram að þessi draumur, ásamt tilhugsuninni um, að brölta út á Þorláksmessu í kafaldsbyl, hafi orðið til þess að ég ákvað þann 1. desember, í miklu blíðviðri, að skella seríunum bara upp.
Og það gekk eftir. Síðan hafa logað aðventu- og jólaljós í Kvistholti.

Þetta hefur ekki farið framhjá nágrönnunum, ekki síst þeim, sem ofar búa í brekkunni, en bóndinn þar hefur verið mér nokkuð samstiga í upphengingu samskonar jólaskrauts.
"Palli er búinn að setja upp seríurnar. Verður þú ekki að fara að taka þig saman í andlitinu?" Ég ímynda mér að einhvernveginn þannig hafi fK orðað það og það var einhvern veginn þannig sem þau hjón túlkuðu það fyrir mér. Bóndinn mun hafa borið fram þá skýringu á athæfi mínu, að það væri vegna þess að ég væri orðinn afi.

Ég verð reyndar að játa, að tilkoma jóla er með nokkuð öðrum blæ hjá mér þetta árið: ég á ekki eftir að hengja upp jólaseríurnar.
Auðvitað blandast þar einnig inn í umtalsverð tilhlökkun vegna heimsóknar Berínarungfrúrinnar eftir áramótin, og fæðing annars afabarnsins á sama tíma.

Þau eru fín þessi ljós mín, hvað sem öðru líður.

Myndirnar eru frá tíma grænu slöngunnar og hvítra jóla.

09 desember, 2009

MATRIARCHY - strákakreppa


Af gefnu tilefni kom þetta fyrirbæri enn upp í hugann í dag. Ég hef hugsað mér að fjalla meira um það þegar tækifæri gefst. Ég er viss um að lesendur mínir munu minna mig á það (láttu þig dreyma!)
Þessa stundina stendur yfir ákvörðun fD um undirbúning sendinga vítt og breitt um álfuna okkar og því er ekki tími til að fjalla um málið á þessari stundu.

Þangað til vísa ég áhugasömum hingað og hingað, t.d. - ekki endilega svo að ég sé sammála því sem þarna er að finna.

08 desember, 2009

Sama hvar gott gerist

Sönglausri aðventu var reddað þessu sinni, með því að við tókum okkur til og sungum tvenna tónleika í Kristskirkju í Landakoti á sunnudaginn var. Þetta gerðum við ásamt stórum hluta fyrrverandi félaga í Skálholtskórnum, í samvinnu við fyrrverandi kantor í Skálholti og nýja kórinn hans þarna í höfuðborginni. Diddú og Egill Ólafsson sáu um einsöng og Hjörleifur Valsson og hans fólk um undirleik.
Það er skemmst frá því að segja, að húsfyllir var á báðum tónleikunum (það má víst ekki segja 'báðum' um þetta orð vegna þess að tónleikar eru ekki til í eintölu - ég nenni bara ekki að pæla í hvernig þetta er best orðað) og ég verð að halda því fram, að þetta hafi allt tekist framar vonum. Auðvitað alltaf hnökrar, en þannig er nú bara lífið í þessum bransa. Tilganginum var náð og nú horfir maður til jóla, stútfullur af viðeigandi skapi.

Það var talsvert um það rætt hvaða áhrif umfjöllun um ritstjórann á Mbl gæti haft á aðsókn. Það runnu tvær grímur á ýmsa þegar sást til KG fyrrverandi framkvæmdastjóra tiltekins stjórnmálaflokks, smeygja sér að miðasölunni og leggja út fyrir miða. Tilhugsunin um veru hans og sálufélaga hans á tónleikunum vakti blendnar tilfinningar í brjósti, en þær hurfu þegar lengra var hugsað og komist var að þeirri, að ef til vill væri rétt að horfa framhjá hugsjónum og dægurþrasi og fagna þess í stað öllum krónum í kassann. Krónurnar eru allar eins.

Ég gat um viðtal við sjónvarpsstöð síðast þegar ég átti erindi hér inn. Mér varð að ósk minni í því efni. Nálgun sjónvarpsstöðvarinnar finnst mér hinsvegar hafa verið stórfurðuleg, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

Aðventutónleikar næsta árs eru þegar í bígerð í hugum þeirra sem eru áhugasamastir. Nú er stefnt á dómkirkjuna í Biskupstungum, á þeirri forsendu að þar sé um að ræða kirkju allra landsmanna.

Verður gaman að sjá hvernig það mál þróast.

05 desember, 2009

Alltaf skyldi maður hugsa framtíðina í nútíðinni

Það hef ég oft sagt nemendum mínum, að það er aldrei hægt að losna við söguna. Það sem þú gerir í dag, mun með einhverjum hætti hafa áhrif á framtíðina.
Því nefni ég þetta hér, að á einum sólarhring hef hef ég fengið staðfestingu þess á sjálfum mér.

Fyrra tilvikið átti sér stað í gærkvöld, á ágætu jólahlaðborði starfsfólks á mínum vinnustað.
Þar kvaddi sér hljóðs fyrrverandi húsbóndi á heimavist skólans þar sem ég dvaldi í 4 ár forðum. Hann fjallaði um ýmis samskipti sín við nemendur á þeim árum og gerði nokkuð úr því hve erfiðir þeir hefðu verið viðfangs. Ég veit það nú, að ég hefði ekki viljað að staða mála nú væri sú sama og var þá.
Þar kom í frásögn þessa fyrrverandi húsbónda á heimvist, að hann sagði frá því, að hann og skólameistari hefðu orðið ásáttir um það, á ákveðnum tímapunkti, að húsbóndinn skyldi skrifa hjá sér, í sérstaka, til þess ætlaða bók, allt það sem gerðist á heimavistinni og sem vék frá þolanlegri hegðun nemenda. Bókin var gerð klár og húsbóndi hélt út á vist á nemendaveiðar. Í anddyrinu mætti hann mér, einhverjum mesta sakleysingja sem þarna hefur stundað nám, með nýkeypt, óopnað glerílát, á leið inn á herbergi mitt til að koma því þar fyrir á öruggum stað. Þetta gerði húsbóndi upptækt, en sá aumur á mér og leyfði mér að njóta lítils brots af því sem ílátið geymdi. Afganginum segist hann hafa hellt í vaskinn, sem að mínu mati er ekki allskostar rétt, þar sem ég tel mig hafa nálgast téð ílát þegar skóla lauk að vori.
Þetta atvik skráði húsbóndi í bókina sína, en ekkert eftir það af athöfnum nemenda. En bókina geymdi hann með einni notaðri blaðsíðu. Af þessari blaðsíðu frétti ég síðan mörgum árum síðar, þegar sonur húsbóndans var nemandi minn, og hóf að tjá sig um innihald blaðsíðunnar.

Seinna tilvikið átti sér stað í dag, þegar ég, ásamt virðulegri frú undan Hlíðum lentum í fréttaviðtali sem reyndist, okkur báðum til mikillara undrunar, snúast um hæfileika ritstjóra Morgunblaðsins í sálmagerð.
Ég bíð nú og vona að viðtalið það verði ekki birt, þar eð það var frekar vandræðalegt.

Ef til vill tjái ég mig meira um þetta tilvik síðar.

----------

Þennan daginn eru hugir okkar Kvisthyltinga í höfuðborg Þýskalands, þar sem stúlka nokkur, okkur tengd, fagnar eins árs afmæli sínu.

02 desember, 2009

Klappað fyrir vírusum

Ég er hér með að lýsa ánægju minni með ágæta tónleika sönghópsins Veiranna sem vour í dómkirkjunni í kvöld. Öll söngskráin var flutt acappella (án undirleiks) og hljómaði hreint ágætlega.
Laugvetningarnir okkar, þau Erla og Pálmi styrkja þarna altinn og bassann, pottþéttt að vanda.

Það skemmdi nú ekki fyrir, að á milli laga fengu tónleikagestir (eða fengu ekki en gerðu samt) að klappa átölulaust. Það munar miklu að fá útrás og senda skilaboð til flytjendanna og sjá þá brosa af lítillæti. Það munar miklu þegar maður sér andlit tónleikagesta, sem brosa á milli laga, um leið og þeir slá saman lófunum sem þakklætisvotti.
Hvernig getur sá sem öllu ræður, haft eitthvað á móti því?

30 nóvember, 2009

Allt um Alt



Nei, það var aldrei ætlun mín, enda hreint hvorki ástæða né tilefni til að fara að gera sér frekari mat úr því sem áður hefur verið afrekað í þeim efnum. Altinn stendur altaf (ekki stafsetningarvilla) fyrir sínu.

Ég neita því ekki að ég varð dálítið undrandi þegar ég rakst á mynd þar sem kvenfélagskonur út Biskupstungum, þar með voru auðvitað altar, eins og áður hefur komið fram, voru að undirbúa myndatökur vegna árlegs dagatals, að undir myndina hafði aðdáandi skrifað eftirfarandi: "Túttur!!! Mega sega Tungna-túttur". Viðbrögð við þessari athugasemd voru sérlega og, að mínu mati, undarlega jákvæð. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi hvernig viðbrögðin hefðu orðið, hefði ég látið þessa athugasemd falla, svona orðaða. Ég hugsa þá hugsun ekki til enda -ég hefði frekar orðað athugasemd mína sem svo: "Hér eru á ferð afar myndarlegar konur", eða eitthvað í þá veruna.
------------------------------------
Nú hugsa ég miklu frekar um sérlega veglega aðventutónleika sem framundan eru í Landakotskirkju á komandi sunnudegi. Tungnamenn, og þá meina ég auðvitað einnig þá sem telja sig ekki Tungnamenn nema í hjarta, létu sig hafa það að berjast í talsverðu og óvenjulegu vetrarveðri yfir Heiðina (fyrir utan þá sem skelltu sér yfir eftir öðrum leiðum). Eftir það, sem kórstjórinn kallar nú 'túrbó' æfingu í safnaðarheimili kirkjunnar, fengu kórfélagar að kynna sér aðstæður í kirkjunni sjálfri. Þar varð fljótt ljóst að hljómburður er einstaklega góður og gefur að mínu mati, ekkert eftir þeim sem við eigum að venjast hér austanfjalls.
Þarna er hinsvegar um að ræða ákveðinn hönnunargalla. Orgelið er í öðrum enda kirkjunnar, en kórsöngurinn á að eiga sér stað í hinum. Eins og við mátti búast fór ekki allt eins og ætlast var til, ekki síst vegna þess að hljóðið berst hægar en ljósið. Mér skilst að því verði kippt í liðinn með því að notast við 'SKYPE' - auðvitað hlakka ég (og nokkrir fleiri sjálfsagt) ákaflega til að sjá hvernig það á eftir að ganga fyrir sig.

Þessi fína mynd er eftir Ingu Helgadóttur (IngaHel), en þetta er slóðin að myndum hennar. Ef hún skyldi rekast á mynd sína hér, biðst ég afsökunar á að hafa tekið hana ófrjálsri hendi, en hún var bara of góð til að velja hana ekki.

Komandi helgi verður væntanlega nokkuð ásetin vegna umstangs í kringum tónleikana, en ekki efa ég að hún verður eftirminnilega skemmtileg.

28 nóvember, 2009

Uppreist æru eftir margra ára niðurlægingu

Mér finnst faglegra að nota orðið uppreist frekar en uppreisn, vegna þess, að það var með því orði sem þingmaðurinn okkar Sunnlendinga losnaði við syndir sínar fyrir nokkrum árum.

Þannig er, að árum saman söng þáverandi Skálholtskórinn aðventutónleika í dómkirkjunni í Biskupstungum. Þetta voru orðnir einir vinsælustu tónleikarnir í þessum tónlistarkima. Það sem einkenndi þá, meðal annars, var frumflutningur á einu aðventu- eða jólalagi í hvert sinn. Eitt þessara laga, það fyrsta, held ég, heitir Fyrirbæn og er eftir Ragnar 'svepp' K. Kristjánsson við texta Helgu Ágústsdóttur. Hvort tveggja skilaði þarna ágætis verki.

Í gærkvöld var æft fyrir tónleika í Kristskirkju í Landakoti, en þar sem ekki er það Skálholtskórinn, sem þar er á ferð, heldur söngfólk úr Biskupstungum (þó ekki séu allir úr Biskupstungum), fékk söngfólkið inni á Torfastöðum, sem oftar á undanförnum mánuðum.

Enn er Fyrirbæn æfð, enda bæði skemmtilegt að syngja og hlusta á.
Á þessu hefur alltaf verið einn hængur. Þrátt fyrir að tenórinn í þessum sönghóp sé eins og tenórar gerast bestir í kórum, hefur það alltaf gerst á sama stað í æfingum á þessu lagi að kórstjórinn stöðvar æfinguna og segir:
'Strákar, þið þurfið bara að passa ykkur á að þessi nóta þarna er mjög djúp' - Þetta þýðir á leikmannamáli, að tenórinn hefur alltaf sungið þessa nótu vitlaust.
Það verður að viðurkennast, að tenórunum hefur alltaf fundist þessi niðurstaða kórstjórans einstaklega undarleg og þar hafa verið uppi rökstuddar tilgátur um, að með þessu væri verið að senda skilaboð til hinna raddanna um, að þó svo tenórinn sé að flestu leyti fullkominn, þá geti hann misstigið sig líka.
Með þessu móti á hinum röddunum þá að líða betur með sitt. Það er svo sem gott og blessað að reyna að 'peppa' þær upp með þessum hætti, á kostnað tenórsins, svo fremi að einhver innistæða sér fyrir.

Það háttar þannig til í þessu lagi, að það gerist á nokkrum stöðum, að tenórinn og altinn eiga að syngja sömu nótuna. Það vill svo til, að það er einmitt nótan sem tenórinn hefur setið upp með sem vitlaust sungna árum saman, með tilheyrandi áhrifum á sálarlífið.

Í gærkvöld kom það í ljós, að það hefur öll þessi ár verið altinn sem söng vitlaust!

Svipurinn sem kom á altinn við þessa uppgötvun er ógleymanlegur. Þessar ágætu konur störðu í vantrú á nótuna á blaðinu og þurftu síða ófáar endurtekningar til að leiðrétta margra ára vitlaust sungna nótu.

Í stórmennsku sinni tóku hinir ágætu tenórar þessari niðurstöðu af mikilli yfirvegum og tóku í framhaldinu, af yfirlætisleysi sínu, við afsökunarbeiðni kórstjórans.

Það sem síðan varð til þess að altarnir náðu aftur jafnvægi var frumsýning á landsfrægu dagatali kvenfélagskvenna úr Biskupstungum, en þar sitja margar hinna ágætu alta, fyrir og eru þá í léttklæddari kantinum. Þar sem þær tóku þarna við ómældu hrósi kórstjórans gleymdist fljótt nótan áðurnefnda. Öllu jafnað út eins og vera ber. Allir sáttir. Ekkert hefði getað endað þessa Torfastaðaæfingu betur, nema kannski ef tenórarnir hefðu verið að frumsýna sitt dagatal.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...