05 desember, 2009

Alltaf skyldi maður hugsa framtíðina í nútíðinni

Það hef ég oft sagt nemendum mínum, að það er aldrei hægt að losna við söguna. Það sem þú gerir í dag, mun með einhverjum hætti hafa áhrif á framtíðina.
Því nefni ég þetta hér, að á einum sólarhring hef hef ég fengið staðfestingu þess á sjálfum mér.

Fyrra tilvikið átti sér stað í gærkvöld, á ágætu jólahlaðborði starfsfólks á mínum vinnustað.
Þar kvaddi sér hljóðs fyrrverandi húsbóndi á heimavist skólans þar sem ég dvaldi í 4 ár forðum. Hann fjallaði um ýmis samskipti sín við nemendur á þeim árum og gerði nokkuð úr því hve erfiðir þeir hefðu verið viðfangs. Ég veit það nú, að ég hefði ekki viljað að staða mála nú væri sú sama og var þá.
Þar kom í frásögn þessa fyrrverandi húsbónda á heimvist, að hann sagði frá því, að hann og skólameistari hefðu orðið ásáttir um það, á ákveðnum tímapunkti, að húsbóndinn skyldi skrifa hjá sér, í sérstaka, til þess ætlaða bók, allt það sem gerðist á heimavistinni og sem vék frá þolanlegri hegðun nemenda. Bókin var gerð klár og húsbóndi hélt út á vist á nemendaveiðar. Í anddyrinu mætti hann mér, einhverjum mesta sakleysingja sem þarna hefur stundað nám, með nýkeypt, óopnað glerílát, á leið inn á herbergi mitt til að koma því þar fyrir á öruggum stað. Þetta gerði húsbóndi upptækt, en sá aumur á mér og leyfði mér að njóta lítils brots af því sem ílátið geymdi. Afganginum segist hann hafa hellt í vaskinn, sem að mínu mati er ekki allskostar rétt, þar sem ég tel mig hafa nálgast téð ílát þegar skóla lauk að vori.
Þetta atvik skráði húsbóndi í bókina sína, en ekkert eftir það af athöfnum nemenda. En bókina geymdi hann með einni notaðri blaðsíðu. Af þessari blaðsíðu frétti ég síðan mörgum árum síðar, þegar sonur húsbóndans var nemandi minn, og hóf að tjá sig um innihald blaðsíðunnar.

Seinna tilvikið átti sér stað í dag, þegar ég, ásamt virðulegri frú undan Hlíðum lentum í fréttaviðtali sem reyndist, okkur báðum til mikillara undrunar, snúast um hæfileika ritstjóra Morgunblaðsins í sálmagerð.
Ég bíð nú og vona að viðtalið það verði ekki birt, þar eð það var frekar vandræðalegt.

Ef til vill tjái ég mig meira um þetta tilvik síðar.

----------

Þennan daginn eru hugir okkar Kvisthyltinga í höfuðborg Þýskalands, þar sem stúlka nokkur, okkur tengd, fagnar eins árs afmæli sínu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...