08 desember, 2009

Sama hvar gott gerist

Sönglausri aðventu var reddað þessu sinni, með því að við tókum okkur til og sungum tvenna tónleika í Kristskirkju í Landakoti á sunnudaginn var. Þetta gerðum við ásamt stórum hluta fyrrverandi félaga í Skálholtskórnum, í samvinnu við fyrrverandi kantor í Skálholti og nýja kórinn hans þarna í höfuðborginni. Diddú og Egill Ólafsson sáu um einsöng og Hjörleifur Valsson og hans fólk um undirleik.
Það er skemmst frá því að segja, að húsfyllir var á báðum tónleikunum (það má víst ekki segja 'báðum' um þetta orð vegna þess að tónleikar eru ekki til í eintölu - ég nenni bara ekki að pæla í hvernig þetta er best orðað) og ég verð að halda því fram, að þetta hafi allt tekist framar vonum. Auðvitað alltaf hnökrar, en þannig er nú bara lífið í þessum bransa. Tilganginum var náð og nú horfir maður til jóla, stútfullur af viðeigandi skapi.

Það var talsvert um það rætt hvaða áhrif umfjöllun um ritstjórann á Mbl gæti haft á aðsókn. Það runnu tvær grímur á ýmsa þegar sást til KG fyrrverandi framkvæmdastjóra tiltekins stjórnmálaflokks, smeygja sér að miðasölunni og leggja út fyrir miða. Tilhugsunin um veru hans og sálufélaga hans á tónleikunum vakti blendnar tilfinningar í brjósti, en þær hurfu þegar lengra var hugsað og komist var að þeirri, að ef til vill væri rétt að horfa framhjá hugsjónum og dægurþrasi og fagna þess í stað öllum krónum í kassann. Krónurnar eru allar eins.

Ég gat um viðtal við sjónvarpsstöð síðast þegar ég átti erindi hér inn. Mér varð að ósk minni í því efni. Nálgun sjónvarpsstöðvarinnar finnst mér hinsvegar hafa verið stórfurðuleg, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

Aðventutónleikar næsta árs eru þegar í bígerð í hugum þeirra sem eru áhugasamastir. Nú er stefnt á dómkirkjuna í Biskupstungum, á þeirri forsendu að þar sé um að ræða kirkju allra landsmanna.

Verður gaman að sjá hvernig það mál þróast.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...