28 nóvember, 2009

Uppreist æru eftir margra ára niðurlægingu

Mér finnst faglegra að nota orðið uppreist frekar en uppreisn, vegna þess, að það var með því orði sem þingmaðurinn okkar Sunnlendinga losnaði við syndir sínar fyrir nokkrum árum.

Þannig er, að árum saman söng þáverandi Skálholtskórinn aðventutónleika í dómkirkjunni í Biskupstungum. Þetta voru orðnir einir vinsælustu tónleikarnir í þessum tónlistarkima. Það sem einkenndi þá, meðal annars, var frumflutningur á einu aðventu- eða jólalagi í hvert sinn. Eitt þessara laga, það fyrsta, held ég, heitir Fyrirbæn og er eftir Ragnar 'svepp' K. Kristjánsson við texta Helgu Ágústsdóttur. Hvort tveggja skilaði þarna ágætis verki.

Í gærkvöld var æft fyrir tónleika í Kristskirkju í Landakoti, en þar sem ekki er það Skálholtskórinn, sem þar er á ferð, heldur söngfólk úr Biskupstungum (þó ekki séu allir úr Biskupstungum), fékk söngfólkið inni á Torfastöðum, sem oftar á undanförnum mánuðum.

Enn er Fyrirbæn æfð, enda bæði skemmtilegt að syngja og hlusta á.
Á þessu hefur alltaf verið einn hængur. Þrátt fyrir að tenórinn í þessum sönghóp sé eins og tenórar gerast bestir í kórum, hefur það alltaf gerst á sama stað í æfingum á þessu lagi að kórstjórinn stöðvar æfinguna og segir:
'Strákar, þið þurfið bara að passa ykkur á að þessi nóta þarna er mjög djúp' - Þetta þýðir á leikmannamáli, að tenórinn hefur alltaf sungið þessa nótu vitlaust.
Það verður að viðurkennast, að tenórunum hefur alltaf fundist þessi niðurstaða kórstjórans einstaklega undarleg og þar hafa verið uppi rökstuddar tilgátur um, að með þessu væri verið að senda skilaboð til hinna raddanna um, að þó svo tenórinn sé að flestu leyti fullkominn, þá geti hann misstigið sig líka.
Með þessu móti á hinum röddunum þá að líða betur með sitt. Það er svo sem gott og blessað að reyna að 'peppa' þær upp með þessum hætti, á kostnað tenórsins, svo fremi að einhver innistæða sér fyrir.

Það háttar þannig til í þessu lagi, að það gerist á nokkrum stöðum, að tenórinn og altinn eiga að syngja sömu nótuna. Það vill svo til, að það er einmitt nótan sem tenórinn hefur setið upp með sem vitlaust sungna árum saman, með tilheyrandi áhrifum á sálarlífið.

Í gærkvöld kom það í ljós, að það hefur öll þessi ár verið altinn sem söng vitlaust!

Svipurinn sem kom á altinn við þessa uppgötvun er ógleymanlegur. Þessar ágætu konur störðu í vantrú á nótuna á blaðinu og þurftu síða ófáar endurtekningar til að leiðrétta margra ára vitlaust sungna nótu.

Í stórmennsku sinni tóku hinir ágætu tenórar þessari niðurstöðu af mikilli yfirvegum og tóku í framhaldinu, af yfirlætisleysi sínu, við afsökunarbeiðni kórstjórans.

Það sem síðan varð til þess að altarnir náðu aftur jafnvægi var frumsýning á landsfrægu dagatali kvenfélagskvenna úr Biskupstungum, en þar sitja margar hinna ágætu alta, fyrir og eru þá í léttklæddari kantinum. Þar sem þær tóku þarna við ómældu hrósi kórstjórans gleymdist fljótt nótan áðurnefnda. Öllu jafnað út eins og vera ber. Allir sáttir. Ekkert hefði getað endað þessa Torfastaðaæfingu betur, nema kannski ef tenórarnir hefðu verið að frumsýna sitt dagatal.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...