22 nóvember, 2009

Memento mori?

Það er ekki svo, að ég geri mér ekki grein fyrir því að árunum sem ég hef lagt að baki, fjölgar. Hvert tilvikið á fætur öðru hjálpar mér við að halda þeirri hugsun lifandi. Tilefnið þessu sinni var eftirfarandi sem birtist á fésbókarstöðu eins vinar míns fyrir nokkrum dögum:




Hér ætlum við að reyna að safna saman Landsprófs og fjórðabekkjarnemendum frá vetrinum 1969-1970 til að halda einhverskonar samkomu vegna þess að 40 ár eru liðin frá því við sluppum burt þaðan.


Svona gerist þetta. Það eru elltaf einhverjir sem muna hvernig tíminn líður. Það hvarflaði aldrei að mér að svo væri komið í ævigöngunni sem raun ber vitni.

Þegar ég las þessa tilkynningu smellti ég auðvitað á hlekkinn og þá birtist síða og stofnandinn reyndist vera fullorðinn maður á sextugsaldri. Tveir aðrir á sama reki voru þá einnig búnir að gerast félagar í hópnum. Þarna mátti lesa heitingar um að hópurinn skyldi stefna að því að hittast í Héraðsskólanum á Laugarvatni á komandi vori. Síðan þetta var, eru liðnir nokkrir dagar og nú eru komnir 11, flestir að stíga sín fyrstu skref í þessum kima veraldarvefsins, aðrir reyndari. Mér þykir ekkert sérstaklega líklegt að meirihluti þeirra 43 (?) sem luku námi úr gagnfæðadeild og landsprófsdeild, vorið 1970, muni tilkynna sig þarna inn (kannski það þurfi að grípa til sendibréfa).
Í gegnum hugann tóku að fljúga myndir frá löngu liðnu tímabili ævinnar, sem hörðustu menn hafa guggnað á að fjalla um í rituðu máli (hér á ég við æskuvin og félaga sem hóf ritun ævisögunnar í skemmtilegum sprettum á fésbókinni. Skrifunum lauk þegar kom að því að hefja skólagöngu í HL).
Eins og má ímynda sér þá er það tímabil ævinnar sem hér um ræðir - á aldrinum 14-16 ára, sérlega viðkvæmt að mörgu leyti og erfitt að fást við svo vel sé, ekki síst vegna ýmissa pælinga og atvika sem þá eiga sér stað. Þarna fara nýjar kenndir á flug sem nokkurn tíma tekur að ná tökum á. Þarna fer unga fólkið að reyna vængina, ef svo má segja - svo ekki sé talað um ýmislegt annað. Þarna á sér stað margt sem ekki er rétt að fjalla ítarlega um opinberlega, en einnig margt sem nauðsynlegt er að halda til haga, meðan heilinn starfar enn nokkurn veginn eðllilega.

Það má kannski segja að minn akkilesarhæll sé, að fortíðin er mér huldari en mörgum öðrum. Vissulega fljúga myndir um höfuðið frá liðnum tíma, en það er oftar en ekki eitthvað sem ekki skiptir neinu máli.
Ég var ekki framhleypinn unglingur og tók ekki mikinn þátt í ýmsum þeim uppreisnartilburðum sem félagarnir gerðu sig gildandi í - kannski var það þess vegna, sem ég lenti aldrei upp á kant við skólastjórann, sem flestum hlýtur að vera ofarlega í minni. Kannski var ég bara músin sem læðist.
Ég reikna með, að það sem eftir lifir vetrar, muni hugurinn hverfa við og við til þeirra 3ja vetra ævinnar sem ég eyddi Í HL.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...