14 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (4)

Sólarhringurinn leið eins og sólarhringar líða, einn af öðrum. Siglinginn þennan sólarhring, um haf tímans, var bara nokkuð tíðindalaus, en það er kannski rétt að geta þess, að áður en sest var upp í Corolluna morguninn eftir að ég hafði komið stick'em límgildrunni fyrir, kíkti ég í birtuleysi inn í Xtrailinn. Mér fannst eins og ég greindi að ákveðinn hluti límgildrunnar væri dekkri en aðrir. Ég gerði ekkert annað þennan morgun í þessum málum. Vinnudagurinn hafði sinn gang, með músa- og tíkaróléttusögum í bland. Að honum loknum var haldið heim á leið.

Eftir að við höfðum rennt í hlað sá ég á eftir fD á hraðferð út úr Corollunni og inn í hús. Ég var auðvitað yfirvegaðri í aðgerðum mínum, gekk rólega inn í anddyri og náð mér þar í tóman plastpoka og tók lyklana að Xtrail áður en ég fór út aftur. Ýtti á opnunartakkann á lyklinum, stefnuljósin blikkuðu til marks um að bifreiðin væri opin. Gekk öruggum skrefum að hurðinni farþegamegin. Opnaði. Leit inn.
Þegar hér var komið var klukkan að verða sex að kvöldi og því engin umtalsverð birta til að þvælast fyrir.
Ég beindi sjónum mínum niður á gólf þar sem ég hafði sett límgildruna. Þar mátti greina dökka, hreyfingarlausa þúst.
Ég tók límgildruna upp á þeim enda sem fjær var þústinni.
Þústin reyndist vera tvær mýs, þétt upp við hvor aðra, ekki með tindrandi, biðjandi augu.
Ég skoðaði þær ekki umfram það að telja fjöldann. Opnaði plastpokann, setti gildruna með því sem á henni var ofan í hann og batt hnút fyrir. Lokaði bílhurðinni og læsti, gekk síðan með pokann að ruslatunnunni; grátunnunni, það er að segja. Blátunnan er að mínu mati ekki ætluð fyrir lífrænan úrgang. Ég opnaði grátunnuna og setti pokann ofan í og lokaði.

Þar með lauk þessari aðgerð.

Morguninn eftir fór ég í vinnuna á Xtrail. Þegar nokkuð var liðið á morgun og bjart var orðið, átti ég leið í bifreiðina, með sama hætti og í upphafi þessarar sögu. Í farþegasætinu var tómur, lítill pappakassi. Í kringum hann mátti sjá pappírstæting og við nánari eftirgrennslan var búið að naga eitt hornið af honum. Ég ók umsvifalaust í verslunina á staðnum. Verslunarstjórinn var búinn að fá smelligildrurnar, sem hann hafði pantað. Ég keypti af honum tvær í pakka og síríus súkkulaði. Reif gildrurnar úr umbúðunum, beit stykki úr súkkulaðinu og setti á gula plötuna og spennti gildruna. Kom henni síðan fyrir í bílnum.

Þarna var gildran allan daginn án þess að nokkuð bæri til tíðinda. Ég ók heim á leið eftir vinnu, og klæjaði ótæpilega í fótlegginn á leiðinni.
Eftir kaupstaðarferð, sem þessu sinni var farin í margyfirfarinni Corollunni, var aftur rennt í hlað, og enn hafði ekkert gerst í músabílnum.
Nú er kominn morgunn aftur og ég hef ekki enn athugað stöðu mála. Ég reikna ekki með að ég fjalli um hvað þar er að finna, eða hvort eitthvað er.

-----------------------------------

Mýs í híbý(í)lum manna skapa ótrúlega þverstæðu í huganum. Annarsvegar sér maður fyrir sér lítil titrandi spendýr sem ékkert vinna til saka að eigin mati. Reyna bara að draga fram lífið eins og aðrar lífverur á þessari jörð. Hinsvegar sér maður fyrir sér skemmdarvarga og óargadýr sem fá hárin til að rísa þegar þeir skjótast úr einum felustaðnum í annan.
Á bersvæði eru þessi dýr í engu öðruvísi en önnur. Það verður annað uppi á teningnum þegar þau leita í hlýjuna sem við mennirnir höfum komið okkur upp innandyra.

Það er bæði hægt að taka undir þetta:

"Mér þykir þetta sérstaklega ómannúðlegt og ljótt að gera við dýr sem eru aðeins að leita sér skjóls frá vetrarkuldum". (EÁP)


og þetta:

"Djö... eru þetta ógeðsleg kvikindi!" (fD)

Lýkur þar með þessari frásögn af lífsbaráttu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...