13 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (3)

Verslunarstjórinn lagði þetta á afgreiðsluborðið fyrir framan mig:

Hér var komin svokölluð límgildra. Límgildra er, eins og nafnið bendir til, gildra þar sem sá eða það sem stígur í hana, festist. Ég get auðvitað ímyndað mér það hverskonar tilfinning það er, að vera á gangi einhversstaðar og vera síðan bara skyndilega pikkfastur, gersamlega varnarlaus. Það væru harla ömurleg örlög.
Gildran sem hér um ræðir var þannig, þegar nánar var skoðað, að plastbakki var fylltur að límkenndu efni. Ég prófaði að koma við það og var nánast fastur. Í pakkanum sem verslunarstjórinn bar fyrir mig voru tveir svona bakkar.
Ég hugsaði í snarheitum, hvernig ég myndi taka á því, þegar ég vitjaði gildrunnar og í henni væri mús sem gat sig hvergi hreyft, en mændi á mig, biðjandi augum. Ekki leist mér allskostar á þá tilhugsun. Af þeim sökum ákvað ég að lesa mér til um það hvernig gildran virkaði. Þá kom þetta í ljós:

THEY ARE CAUGHT, HELD, AND D I E - í lauslegri þýðingu útleggst þetta sem: þær festast, sitja fastar og drepast. Það var síðasta orðið sem gerði útslagið. Ég spurði hvað græjan kostaði. Nítjánundruðogfimmtíu hljóðaði svar aðstoðarverlunarstjórans, sem nú var aftur tekinn við afgreiðslunni. Þetta þýddi, sem sagt, að hvor bakki kostaði kr 975. Örskotsstund flaug það í hug mér hvort þessi upphæð væri ekki full há fyrir það af aflífa eina mús. Niðurstaðn varð auðvitað sú, að ég sló til. Límgildran varð mín.

Þegar ég var kominn út í bíl með kassann útskýrði ég eðlilega málið í heild sinni fyrir fD, sem að vanda engdist nokkuð við tilhugsunina um þessi "viðbjóðslegu kvikindi"= saklausu litlu nagdýr. Hún vissi hinsvegar flest það sem þörf er að vita um gildru af þessu tagi og gat auðvitað ekki setið á sér að segja mér frá umræðum á sínum vinnustað um nákvæmlega eins gildrur.
Ég beini því hér til lesenda sem telja sig vera viðkvæma fyrir myndrænum lýsingum eins og þeim sem hér fylgja, að sleppa því að lesa feitletruðu og skáletruðu línurnar sem hér fylgja.

-x-x-x- VARÚÐ-x-x-x-

Samstarfskonurnar voru, sem sagt að ræða um þessar límgildrur og þar kom
auðvitað fram, að þær teldust vera í dýrari kantinum. Þótti þetta vera hin mesta sóun á fé. Því var farin sú leið, að sögn fD, að fjarlægja mýsnar úr gildrunum til að endurnýta þær fyrir fleiri mýs og ná þar með kostnaði niður í verjanlega upphæð. Í þessu skyni var tekið í músaskrokkana og togað í til að losa þá úr líminu, sem ilmar eins og hnetusmjör. Límið er hinsvegar sterkt og því var það, að oftar en ekki urðu lappir og læri eftir. Ég ákvað, þegar þessar upplýsingar streymdu inn í eyru mín, að freista þess ekki að endurnýta límgildrurnar mínar tvær. Þar fyrir utan kom það mér á óvart að samstarfskonurnar hefðu rætt svona nokkuð sín á milli.

Varúð lýkur

Heim var haldið í músalalausri Corollunni - hugsað um morðið - slátrunina - veiðarnar sem framundan voru.
Rennt í hlað.
Kassinn opnaður (stærðina má meta út frá naglaklippunum hægra megin).

Verslunarstjórinn hafði ráðlagt mér að setja annað hvort síríus rjómasúkkulaði eða seríos ofan á miðjuna á bakkanum - það væru kerlingabækur að mýs sæktu í ost.
fD var ansans ári snögg að koma sér úr Corollunni, inn og upp stigann. Það næsta sem ég vissi var, að leifar af síríus suðusúkkulaði komu fljúgandi niður stigann og strax í kjölfarið pakki af seríosi.
Ég tíndi, með yfirveguðum hætti, upp seríoshringina sem höfðu dreifst um stigann, ásamt súkkulaðibitanum. Ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig til að tryggja árangur aðgerðarinnar: setti súkkulaðimola á miðjan bakkann og dreifði síðan seríoshringjum hringinn í kring um molann. Að þessu búnu lá leiðin að xtrailnum. Ég opnaði dyrnar og setti hinn banvæna bakka hratt og hiklaust, en varlega á gólfið farþegamegin, þar sem merkin um innrás músarinnar höfðu fyrst birst. Ég lokaði, læsti og gekk síðan inn í hús. Framundan var að bíða þess sem verða vildi. Það varð spennuþrungin bið í nákvæmlega einn sólarhring.

Framhald er óhjákvæmilegt. Þeir sem enn þola þetta, ættu að kikja inn til að öðlast hlutdeild í því.

2 ummæli:

  1. Mér þykir þetta sérstaklega ómannúðlegt og ljótt að gera við dýr sem eru aðeins að leita sér skjóls frá vetrarkuldum.

    SvaraEyða
  2. sammála seinasta ræðumanni :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...