12 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (2)

Eins og venjulega, allt frá því í haust, fjalla Laugvetningar á mínum vinnustað um lítið annað en mýs (reyndar ófríska hunda og fjallgöngur líka þegar færi gefst). Músagangur þarna mun vera með ólíkindum. Hér eru nokkur dæmi:
a. Einn samstarfsmaðurinn kveðst vera búinn að veiða 70 mýs inni í húsi hjá sér frá því í haust. Það kemur alltaf á hann sérstakur svipur þegar músaumræðan hefst og ég sé ekki betur en svipinn þann megi kalla músadrápssvip. Hann hefur reynt ótrúlegustu aðferðir við að koma í veg fyrir að músum takist að komast inn til hans, en án árangurs. Það var rætt síðast í morgun, að mýs þurfi ekki nema blýantssvera holu til að komast inn.
b. Mikið er rætt um kartöflukofa, sem duglegir samstarfsmenn hafa fengið að setja kartöflurnar sínar í. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til mótaðgerða hafa mýs ávallt náð að smeygja sér inn til að gæða sér að jarðeplunum. Þar er svo komið, að einhverjir eru búnir að fjarlægja uppskeruna sína úr kofanum.
c. Einn samstarfsmaðurinn hefur komið sér upp leiguketti (eða láns) í vetur og lætur mikið af því hve duglegur hann er að fanga mýslurnar. Það gerist yfirleitt þannig, að hann kemur með þær sprelllifandi inn á stofugólf og leikur sér þar að þeim þar til honum þykir nóg komið og hann skellir skoltunum um höfuð ræflanna þannig að heilinn liggur úti. (Ég get ekki gert að því þó sögurnar séu með þessum hætti og ég get fullvissað lesendur um, að ekki batnar það).
d. 70 músa maðurinn er búinn að komast að því, að til er lauktegund sem ilmar þannig, að mýs forðast hann. Hann er því búinn að verða sér úti um svona lauk og hefur ekki orðið var við mýs síðan, en honum er varla vært í íbúðinni sinni lengur vegna fnyksins sem lauknum fylgir.

Það sem lesa má hér að ofan, ber að túlka sem nokkurskonar ramma til að útskýra ýmsar hugrenningar mínar um músamál í tengslum við sterkan grun um að mús hefði tekið sér bólfestu í sjálfum bílnum mínum. Ég var auðvitað sannfærður um að músin hefði komið í bílinn á Laugarvatni; Laugarásmýsnar hljóta að vera yfirvegaðri en svo að þær fari að leggja undir sig bíla rólegheitafólks, sem vill ekkert frekar en vita bara hreint ekkert af þeim.

Í ljós músasagnanna þótti mér ljóst, að verslunin sem starfrækt er á Laugarvatni, hlyti að vera afar vel birg af ýmsu því sem gagnast getu við músaveiðar, bæði músavinagildrum, sem virka þannig að mýsnar lokast inni í hólfi og þeim síðan sturtað úr svo þær geti komist aftur inn og svo þeirri gildrutegund sem bindur með einhverjum, misgeðslegum, hætti, endi á líf þessara nagdýra.

Mér varð vissulega hugsað til hennar Ingibjargar í Lyngási þegar kom að því að ákveða hverskonar gildra skyldi keypt. Hún átti ketti, en var samt músavinur, sem aldrei varð sjálf mús að aldurtila svo vitað sé.
Ég varð fljótt staðráðinn í að fara ekki Ingibjargarleið í þessum málum. Þessvegna hélt ég í verslunina til að verða mér úti um líflátandi gildru, helst þá tegund sem smellur niður og vinnur þannig sitt verk.
Þegar ég kom inn í búðina var þar fyrir aðstoðarverslunarstjórinn. Ég spurðist fyrir um smelligildru. Hún reyndist ekki vera til, en hún kvað kvað verslunarstjórann líklegast búa yfir góðum búnaði, sem gerði í stórum dráttum sama gagn. Með það náði hún í verslunarstjórann. Hann kom og kvaðst vera búinn að panta gildrur af umbeðinni tegund. Ég kvaðst ekki vera tilbúinn að bíða eftir að pöntunin kæmi í hús. Hann kvaðst þá hafa annað ráð í handraðanum. Bað mig bíða augnablik og hvarf síðan á bakvið í drjúga stund, kom síðan fram með pakka í hendinni. Þegar ég áttaði mig á því hvað þarna var um að ræða, fór um mig lítilsháttar hrollur fyrir hönd músanna, en þó enn frekar fyrir mína eigin.

(nú verður fléttan hnausþykk)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...