11 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (1)

Það blundar veiðieðli í manninum, hefur manni verið sagt. ég hef reyndar aldrei talið að það væri algilt, enda virðist ég vera algerlega laus við þennan eðlisþátt. Allt sem snýst um að taka líf af einhverju tagi (nema kvikinda sem að mínu mati eiga hreinlega ekki rétt til lífs), stendur mér afskaplega fjarri. Á þessu eru þó undantekningar, eins og þeir geta séð, sem lesa áfram.

Það eru orðnir einir 3 dagar síðan ég settist upp í Xtrailinn minn, eins og venjulega að áliðnum morgni á vikum degi, af ástæðum sem ég kýs að fjölyrða ekki um hér, enda skipta þær engu máli í samhenginu. Mér varð litið niður á við á gólfið farþegamegin, en þar lá flaska undan ávaxtasafa, með álímdum miða þar sem innihaldi var lýst. Það var nú svo sem ekkert einkennilegt við þessa tómu flösku; það eru oft tómar flöskur þar sem fD hefur setið yfir. Þessi var þó dulítið frábrugðin þeim sem þarna eru venjulega að því leyti að það var eins og einhver hefði verið að dunda sér við að rífa miðann utanaf henni of afrifurnar síðan í smærri snepla. Fyrsta hugsunin var auðvitað, að ég velti fyrirmér hvenær fD hefði hugsanlega haft tíma, í óþolinmæði sinni, til að fara að dunda sér við að rífa límmiða utan af flösku. Þessi hugsun var stutt því þetta hef ég aldrei vitað frúna dunda sér við. þegar hér var komið var bara ein hugsun eftir.
Það var mús í bílnum!
Síðan þetta rann upp fyrir mér þennan dag, hef ég hugsað um fátt annað en þessa bílmús og hvað best væri að taka til bragðs.
Niðurstaða mín, þarna í fyrradag, var að ákveða að halda ró minni og ímynda mér að það hlyti að vera einhver önnu og rökréttari skýring á þessu rifnu pappírssneplum. Ökuferðin í Laugarás þetta síðdegi var þó síður en svo yfirveguð af minni hálfu; m.a. sá ég fyrir mér, nokkrum sinnum á leiðinni, músina stökkva upp í skálmina á busunum mínum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég gekk meira að segja svo langt að stapp fótum í gólfið nokkrum sinnum þegar mér fannst eins og eitthvað kitlaði mig í fótlegginn.
Ég komst heim og velti þar fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að segja fD af grun mínum, en gerði það þó.
"Ég fer ekki upp í þennan bíl fyrr en þú ert búinn að setja í hann gildru og veiða þessa mús!!"
Og stuttu seinna:
"Ég er einmitt búin að heyra að mýs geti komist inn í Nissan."

(Þess má geta í þessu sambandi, að fD nánast keypti bílinn sinn vegna loforðs bílasalans um að hann væri músheldur. Hún telst því búa yfir umtalsverðri þekkingu á músheldni mismunandi bílategunda.)

Ég leitaði að músagildru á heimilinu þrátt fyrir að fD fullyrti að ekkert slíkt væri til (auðvitað hefði mér verið óhætt að trúa því.)

Það var ákveðið að taka Corolluna til kostanna morguninn eftir og freista þess að nálgast músagildru í Samkaupum (H-seli).

Það átti eftir að fara öðruvísi en til stóð........

(fylgstu með, fléttan þykknar)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...