Nei, það var aldrei ætlun mín, enda hreint hvorki ástæða né tilefni til að fara að gera sér frekari mat úr því sem áður hefur verið afrekað í þeim efnum. Altinn stendur altaf (ekki stafsetningarvilla) fyrir sínu.
Ég neita því ekki að ég varð dálítið undrandi þegar ég rakst á mynd þar sem kvenfélagskonur út Biskupstungum, þar með voru auðvitað altar, eins og áður hefur komið fram, voru að undirbúa myndatökur vegna árlegs dagatals, að undir myndina hafði aðdáandi skrifað eftirfarandi: "Túttur!!! Mega sega Tungna-túttur". Viðbrögð við þessari athugasemd voru sérlega og, að mínu mati, undarlega jákvæð. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi hvernig viðbrögðin hefðu orðið, hefði ég látið þessa athugasemd falla, svona orðaða. Ég hugsa þá hugsun ekki til enda -ég hefði frekar orðað athugasemd mína sem svo: "Hér eru á ferð afar myndarlegar konur", eða eitthvað í þá veruna.
------------------------------------
Nú hugsa ég miklu frekar um sérlega veglega aðventutónleika sem framundan eru í Landakotskirkju á komandi sunnudegi. Tungnamenn, og þá meina ég auðvitað einnig þá sem telja sig ekki Tungnamenn nema í hjarta, létu sig hafa það að berjast í talsverðu og óvenjulegu vetrarveðri yfir Heiðina (fyrir utan þá sem skelltu sér yfir eftir öðrum leiðum). Eftir það, sem kórstjórinn kallar nú 'túrbó' æfingu í safnaðarheimili kirkjunnar, fengu kórfélagar að kynna sér aðstæður í kirkjunni sjálfri. Þar varð fljótt ljóst að hljómburður er einstaklega góður og gefur að mínu mati, ekkert eftir þeim sem við eigum að venjast hér austanfjalls.
Þarna er hinsvegar um að ræða ákveðinn hönnunargalla. Orgelið er í öðrum enda kirkjunnar, en kórsöngurinn á að eiga sér stað í hinum. Eins og við mátti búast fór ekki allt eins og ætlast var til, ekki síst vegna þess að hljóðið berst hægar en ljósið. Mér skilst að því verði kippt í liðinn með því að notast við 'SKYPE' - auðvitað hlakka ég (og nokkrir fleiri sjálfsagt) ákaflega til að sjá hvernig það á eftir að ganga fyrir sig.
Þessi fína mynd er eftir Ingu Helgadóttur (IngaHel), en þetta er slóðin að myndum hennar. Ef hún skyldi rekast á mynd sína hér, biðst ég afsökunar á að hafa tekið hana ófrjálsri hendi, en hún var bara of góð til að velja hana ekki.
Komandi helgi verður væntanlega nokkuð ásetin vegna umstangs í kringum tónleikana, en ekki efa ég að hún verður eftirminnilega skemmtileg.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli