15 desember, 2009

Aðventusveit


Það liggur við að mér finnist að það sé ekki alls kostar rétt, að kynni mín af kreppunni skuli ég helst hafa í gegnum fjölmiðla. Nýbúinn að sjá fjallað um úthlutun jólavöru til þeirra, sem ekki eru fyllilega sjálfbjarga. Í sveitinni virðist mér allt ganga sinn venjubundna veg; helst er það öðruvísi en venja er til, að veðurfar er fjarri því að geta tilheyrt þessum árstíma. Blankalogn og hitinn búin að vera upp undir 10°C dögum saman,
-----------------
Ég get ekki stært mig af því að hafa verið fljótur til að setja upp einhverskonar jólalýsingu utandyra. Fram til þessa hef ég haft mig í það svona undir Þorláksmessu, og þá, eins og fD hefur orðað það svo skemmtilega: "...með fýluna lekandi af sér." - en við þetta kannast ég auðvitað ekki. Ég hef litið á þessa aðgerð sem nauðsynlegan þátt í að fyllast hinum sanna jólaanda:
- klæða mig upp miðað við veður, sem oftast hefur verið heldur rysjótt,
- tína niður seríukassana út hillunum,
- reyna að leysa úr flækjunni, sem á rætur að rekja til þeirrar ákvörðunar minnar á síðasta ári, að segja sem svo, að það væri allt í lagi að taka þær ekki almennilega saman - vandinn bíði síðari tíma.
- dragnast nokkurn veginn brosandi og hér um bil fullur tilhlökkunar út, til að finna einhvern stað til að hengja seríurnar upp á (þeim hefur reyndar fækkað eftir því sem trén hafa vaxið)
Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega einnar seríunnar, sem var græn ljósaslanga, sem var fín þá (líklega fyrir 6-8 árum), enda ljósaslöngur í tísku. Þessari ljósaslöngu valdi ég veglegan stað: vafði henni utan um ösp, sem stendur á áberadi stað við hlaðið. Slangan hefur verið þarna síðan, en hún lýsti ágætlega fyrstu tvö árin. Helsta breytingin á henni er líklegast sú, að nú er hún öll toguð og teygð og þar með slitin, vegna þess að það er eðli aspa að stækka. Öspin var lifandi s.l. sumar, svo slangan getur ekki hafa kyrkt hana. Ég hef ekki athugað slönguna og ekki reynt að fá á hana ljós undanfarin ár.
- hengja seríurnar með sem minnstri fyrirhöfn, hvar sem enn er krók eða nagla að finna. (fD: "Af hverju seturðu ekki eina þarna?")
- hefja dauðaleit að fjöltengjum og framlengingarsnúrum ásamt plastpokum til að vefja utan um tengingar utandyra.
- stinga öllu í samband í þeirri von að perurnar séu enn í lagi - nú ef ekki, þá skal serían fá að hanga uppi samt.
- koma mér inn í hlýjuna og horfa upp á fD þar sem hún freistar þess að sýna engin svipbrigði. Ég hef sérstaklega tekið eftir því að hún hefur alltaf passað að ég ofmetnaðist ekki af verkinu.
- sjá fyrir mér að þurfa að taka svo allt niður eftir rúma viku aftur.

Svona hefur þetta verið svo lengi sem elstu menn á þessum bæ muna.

En ekki í þetta skiptið.

Nágranna minn dreymdi það í lok nóvember, að ég hygg, að hann sá 50 hvítar álftir á Hvítá. Þar sem ég er einbeittur í trú minni á drauma, sá ég þarna fyrir mér að framundan mætti eiga von á ofankomu í 50 daga. Ég vil halda því fram að þessi draumur, ásamt tilhugsuninni um, að brölta út á Þorláksmessu í kafaldsbyl, hafi orðið til þess að ég ákvað þann 1. desember, í miklu blíðviðri, að skella seríunum bara upp.
Og það gekk eftir. Síðan hafa logað aðventu- og jólaljós í Kvistholti.

Þetta hefur ekki farið framhjá nágrönnunum, ekki síst þeim, sem ofar búa í brekkunni, en bóndinn þar hefur verið mér nokkuð samstiga í upphengingu samskonar jólaskrauts.
"Palli er búinn að setja upp seríurnar. Verður þú ekki að fara að taka þig saman í andlitinu?" Ég ímynda mér að einhvernveginn þannig hafi fK orðað það og það var einhvern veginn þannig sem þau hjón túlkuðu það fyrir mér. Bóndinn mun hafa borið fram þá skýringu á athæfi mínu, að það væri vegna þess að ég væri orðinn afi.

Ég verð reyndar að játa, að tilkoma jóla er með nokkuð öðrum blæ hjá mér þetta árið: ég á ekki eftir að hengja upp jólaseríurnar.
Auðvitað blandast þar einnig inn í umtalsverð tilhlökkun vegna heimsóknar Berínarungfrúrinnar eftir áramótin, og fæðing annars afabarnsins á sama tíma.

Þau eru fín þessi ljós mín, hvað sem öðru líður.

Myndirnar eru frá tíma grænu slöngunnar og hvítra jóla.

1 ummæli:

  1. hahaha...það er þá alveg á hreinu hvaðan örverpið fær jóla"stuðið"..

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...