14 janúar, 2010

Janúarkrísa (1)

"Af hverju rennur ekki úr vaskinum?"
Það var fD sem þarna hafði orðið og sem ábyrgum manni og 'altmuligmand', bar mér auðvitað skylda til að bregðast við með einhverjum hætti.
"Það er ekki gott að segja", sagði ég eftir að ég var kominn inn í eldhúsið og leit þar augum hálffullan vaskinn. Ekki reyndist vera tappi í vaskinum, svo ekki var það ástæðan. FD hóf þarna tilraunir til að fá vaskinn til að tæma sig, með því að nota einhverjar lofttæmingaraðferðir, sem sjálfsagt má líkja við það þegar drullusokkur er notaður, en þessar aðgerðir báru ekki árangur. Eins og mín var von og vísa, lagði ég til við við skyldum bíða og sjá til hvort vaskurinn tæmdist ekki af sjálfu sér. Með það yfirgáfum við eldhúsið (ætli það hafi ekki verðið komnar fréttir). Það leið ekki mjög langur tími þar til það heyrðist eitthvert 'glugg glugg' hljóð úr eldhusinu og við nánari athugum kom í ljós, að vaskurinn var tómur, en hljóðið heyrðist áfram þó nokkra stund. Ég neita því ekki, að mér var létt, en ég neita því ekki heldur, að einhversstaðar innra með mér gat ég greint vott af grun um að þarna væri þessu máli ekki lokið.

Það sem hér hefur verið lýst, gerðist milli jóla og nýárs. Í framhaldinu gerðist það, við og við, að það gluggaði í vaskinum, en alltaf tæmdist hann. Jóla- og gamlársdagsmatarleirtauið var þvegið í uppþvottavélinni og þvottar voru þvegnir eins og vera bar. Alltaf fór vatnið eitthvert. Ég gerði mér vonir um að hér væri aðeins um að ræða eðlilega framvindu meðan kerfið ynni sjálft að því að laga sig.
"Það kemur vatn upp úr niðurfallinu", hljómaði dag einn, rétt fyrir áramótin, neðan úr kjallara.
"Upp úr niðurfallinu? Það getur ekki verið", en þrátt fyrir svarið ákvað ég að skoða málið, með þá óþægilegu hugsun bak við eyrað, að nú færi stundin að nálgast; stundin, þegar ég þyrfti að fara að gera eitthvað í málinu.
Það sem blasti við mér, þegar niður kom, var einhverskonar salli á kjallaragólfinu í kringum niðurfallið. Það var hinsvegar enga bleytu að sjá. Mér þótti ljóst, að vatn hefði runnið að niðurfallinu, en ekki úr því. Leit á bakvið ísskápinn og frystikistuna, en fann engan mögulegan uppruna vatns þar. Þar með ákvað ég að aðhafast ekkert frekar - þetta hlyti að hafa verið eitthvað tilvilljanakennt. Með það fór ég aftur upp til að sinna einhverju sem mér hugnaðist betur, en einhver óútskýranlegur óþægindahnútur gerði aftur vart við sig, ekki þó þannig að hann truflaði mig verulega. Ég greindi það, hinsvegar, að fD var ekki rótt.

Það var síðan síðla dags á sunnudegi, þegar húsið var að fyllast af gestum, þegar þvottavélin var á fullu, þegar ég var að njóta helgarfrísins, þegar framundan var krefjandi vinnudagur, að mér heyrðist ég heyra vatnshljóð neðan úr kjallara. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að sinna þessu, það gætti átt sér eðlilegar skýringar. Það varð þó úr, að gegn vilja mínum fór ég niður stigann og inn í geymslu. Það sem við mér blasti sendi vægan kuldahroll niður hrygginn.

Framhald þessa máls er líklegt.


12 janúar, 2010

Rússíbanajanúar


Eitt það versta sem komið getur fyrir á einu heimili gerðist auðvitað þegar verst stóð á og ég síst tilbúinn til að fara að velta lausn þess fyrir mér. Ég má hinsvegar ekkert vera að gera því skil nú, en mun sannarlega gera það með tilþrifum áður en langt um líður.

Það hefur áður komið fram, að nýr Kvisthyltingur bættist í hópinn í gærkvöld, en þar fyrir utan hefur lífði snúist um að reyna að vinna sem minnst, þar sem þessa dagana njótum við samvista við annan Kvisthylting, Júlíu Freydísi, Berlínarsnót, ásamt foreldrum sínum. Hér er á ferðinni kraftmikil kona, sem er farin að gera sig gildandi - verulega skemmtileg lítil manneskja.



Það er algengara en ekki að þessi mánuður líði hægar en aðrir mánuðir, en svo er hreint ekki nú - þvert á móti.

Annar hluti þess sem lítið er og stórt

Síminn hringdi og Óslóarangi Kvisthyltinga kynnti til sögunnar glænýjan mann, sem beðið hefur verið um nokkra hríð, með tilhlökkun hjá þeim sem enga, eða takmarkaða ábyrgð bera, og tilhlökkunarblandinni áhyggjukvíðaröskun hjá þeim sem þarna voru að eignast sitt fyrsta barn. Þau vita það sannarlega að framundan eru spennandi tímar minnkandi persónufrelsis, en ætli maður verði ekki að reikna með að þau séu fyllilega búin til slíks. Þau vita það væntanlega einnig, að jafnframt því sem þau missa eitthvað við svona nokkuð, þá birtist eitthvað annað í staðinn, margfalt stærra og verðmætara.

Hér eru ítrekaðar kveðjur okkar til nýbakaðra foreldra.



... og einnig til litla pjakksins.



04 janúar, 2010

Ég kalla sko allt ömmu mína!


(þetta er ekki persóna sem tengist mér - bara einhver internet amma :))


Það kannast væntanlega flestir (þó líklega ekki allir skjólstæðingar mínir) við hvað það þýðir þegar sagt er um einhvern: "Hann kallar sko ekki allt ömmu sína, þessi!" - merkingin þá að viðkomandi láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna (sem örugglega ekki allir skilja) - merking þess er, eins og einhverjir vita, að viðkomandi er enginn aumingi (allir vita hvað það er).

Þetta ömmu tal er hér til komið þar sem það kom upp í samtali við gamla unglinginn nú síðdegis. Til umræðu var sú kuldatíð sem nú gengur yfir og fólkið sem kvartar yfir hvað það er "svakalega kalt"(Ég tek það fram hér, til að það liggi fyrir, að ég var ekki að kvarta um kulda).
"Já, þetta fólk kallar allt ömmu sína" sagði hann og fór síðan að fjalla um hvernig húsakynni voru áður fyrr, þegar eina upphitunin var í eldhúsinu við ylinn frá eldavélinni þar sem brennt var taði eða mó. Þá var oft um það að ræða að fjósið væri undir baðstofunni og fólki tókst að ylja sér við þær lífrænu, upphitandi, jórturvélar sem þar var að finna.
"Það fólk kallaði sko ekki allt ömmu sína."

Moralen er (flottara á dönsku): Því betri sem lífsskilyrði okkar eru, því meiri aumingjar verðum við. Því meira vorkennum við sjálfum okkur allt það sem við túlkum sem erfitt. Við köllum það ömmu okkar.

Hvers eiga blessaðar ömmurnar að gjalda, að vera notaðar um aumingjaskap?
Það væri gaman að fá upplysingar um hvar þessi ömmutenging varð til. Við höfðum það ekki á hraðbergi, við gamli.

03 janúar, 2010

Það kemur alltaf að því...

...að það komi að einhverjum endapunkti. Nú er komið að enn einum hér á bæ. Morgundagurinn felur í sér að ég tek til við vinnuna mína þar sem frá var horfið. Því fylgja eðlilega blendnar tilfinningar.
Það er að mörgu leyti ágætt að hafa eitthvað ákveðið fyrir stafni og alltaf sú von undirliggjandi, að maður sé að gera eitthvert gagn í starfi sínu.
Á móti kemur, að starfið fellur í sér talverð samskipti við fólk sem skilur stöðugt minna af því sem ég segi við það. Málfar sem er mér tamt er hratt að breytast í "gamalmennamál". Hvað sem tautar og raular mun ég viðhalda mínu gamalmennamáli fram í rauðan dauðann. Þetta var nú út fyrir efnið, en engu að síður verðugt umfjöllunarefni.

Nei, sennilega lít ég bara svo á, að nú sé jólahaldinu lokið og framundan sé hversdagsleikinn, nákvæmlega eins og eðlilegt er. Það væri nú lítið gaman að þessu ef alltaf væru jólin.

------------------------

Nú er blessuð þjóðin enn einu sinni að verða vitlaus í bið sinni eftir og yfirlýsingum sínum um undirskrift eða ekki undirskrift forseta. Ég held, svei mér þó, að okkur sé varla við bjargandi. Auðvitað er það svo, að það er nánast sama hvað blessaður maðurinn gerir, hann verður ausinn auri með hinum skrautlega orðaforða sem við erum orðin svo þjálfuð í að nota. Þegar afgreiðsla hans liggur fyrir, þá verða fjölmiðlarnir undirlagðir því í 2-3 daga. Þá getum við snúið okkur að því að brjálast yfir því sem þá tekur við.

HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA, AÐ ÁKVEÐINN HÓPUR MANNA (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ ÁBYRGÐIN SEM VIÐ ERUM AÐ TAKA Á OKKUR MUNI REYNAST OKKUR OFVIÐA OG KEYRA ÞJÓÐFÉLAGIÐ Í ÞROT, Á MEÐAN ANNAR HÓPUR (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ EF VIÐ ÁBYRGJUMST EKKI ÞÁ MUNI AFLEIÐINGARNAR VERÐA ÞÆR AÐ ÞJÓÐFÉLAGIÐ FARI Á HÖFUÐIÐ?

Hvernig má það vera?

Það er ljóst, að annar hópurinn hefur, að öllum líkindum, rangt fyrir sér.
Hvernig eigum við, kjósendurnir, að vera í aðstöðu til að kjósa, með upplýstum hætti, um þetta mál? Hvað eru það margir kosningabærir einstaklingar í þessu landi, sem geta fært fullnægjandi rök fyrir afleiðingunum á annan hvorn veginn? Er það ekki mikill ábyrgðarhluti að velta þessu stóra máli yfir á herðar þjóðar, sem sveiflast eins og strá í vindi milli stjórnmálastefna? Þjóðar, sem fyrir rúmu ári vildi ganga í ESB er er nú aldeilis hætt við það. Þjóðar sem fyrir nokkrum mánuðum ákvað í kosningum að refsa stjórnmálaflokki fyrir þátt í hruninu, en hefur nú tekið hann í sátt aftur.

Ef við viljum að afstaðan til ísþrælsmálsins verði tekin á tilfinningalegum grundvelli þá skulum við endilega leyfa þjóðinni að kjósa. Þá verða málsaðilar bara að skella sér í öskurkeppni síðustu dagana fyrir kosningarnar og freista þess þannig að ná sínu fram. Vitræn verður sú umræða ekki, því miður.

Jamm - það kemur alltaf að því.





01 janúar, 2010

Nú er uppi nýársdagur




Það fór aldrei svo, að gamla árið næði ekki að kveðja. Stormasamt var það vissulega, en því lauk einstaklega ljúflega. Það var með eindæmum stillt hér sem víðast annarsstaðar, stjörnubjart og fullt tungl, það sem mun vera kallað blátt tungl (blue moon), af þeim sem til þekkja. Þó frostið nálgaðist 10° varð maður ekki mikið var við neinn bítandi kulda - hverju sem því er nú að þakka eða kenna. Í venjubundinni, hófstilltri skothríð hér á bæ og í nágrenninu kom auðvitað í ljós að nágrenninu var rústað.

Ekki virðist mér nýja árið byrja amalega heldur.


BRENNUSTJÓRINN, BENEDIKT

31 desember, 2009

Annus irae

Eins og annað fólk leyfi ég mér að hugleiða lítillega þann veg sem við höfum gengið á þessu ári og einnig hvernig vegurinn framundan lítur út. Ég held að ég hafi ímyndað mér, í upphafi árs, að við lok þess yrðum við farin að ná áttum og að umræða í þjóðfélaginu hefði ná einhverju jafnvægi. Reyndin er sú, að við erum líklegast enn jafn reið og í upphafi ársins. Ég reikna með að það sé varla til sá einstaklingur sem ekki er reiður að einhverju marki. Af þessum sökmu gef ég árinu nafnið sem fyrirsögnin segir til um (þetta virkar svo flott á latínu :)): Ár reiði, skal það heita.

Við þessi áramót eru harla litlar líkur á að framundan séu bara rólegheit í þjóðlífinu. Það er fátt sem bendir til að við stígum út úr reiðinni og reynum á halda göngunni áfram sem ein þjóð. Við munum líklegast halda áfram að öskra hvert á annað og slengja ásökunum í állar áttir. Við munum líklega síður setjast niður í rólegheitum og velta fyrir okkur stöðu okkar sem þjóðar. Það er leitt.

Mér hafa nánast fallist hendur við yfirlestur á þeim óhroða sem fullorðið fólk er búið að senda frá sér á vettvangi sem þessum nú á síðasta sólarhring. Það sem mér finnst enn sorglegra er, hvernig þeir einstaklingar sem við höfum kjörið til setu á Alþingi haga orðum sínum. Ástæður þess skil ég ekki - og fyrst svo er, þá dreg ég þá ályktun, að það sé eitthvað annað sem býr þar að baki en hugsjónaeldurinn einn.

--------------------

Við lok þessa dags ætla ég að setjast að veisluborði með mínu heimafólki og hugsa til þeirra sem fjarri eru. Að því loknu er nauðsynlegt að kíkja á brennu, sem hefur verið auglýst, en ég veit ekki hvort eða hvernig verður í raun. Þá er ekki úr vegi að fylgjast með, væntanlega ekki mjög glaðlegum, annál þess sem gerst hefur á innlendum vettvangi áður en áramótaskaupið setur allt saman í skoplegt samhengi. Þá tekur við að afgreiða gamla árið endanlega með ofurbombum okkar Kvisthyltinga í samkeppni við næstu nágranna. Þetta verður eflaust allt saman einstaklega skemmtilegt, enda standa ekki vonir til neins annars.
Hvað síðan gerist verður samhengi hlutanna að leiða í ljós.

Lesendum þeirrar speki, sem ég hef borið á borð fyrir þá á árinu, þakka ég samfylgdina og óska þeim og þeirra fólki öllu, þess, að nýja árið verði þeim eins áfallalítið og uppbyggilegt og efni standa til. Þó horfur séu ekkert sérlega bjartar, ef marka má orð allra þeirra spöku og spekilausu karla og kvenna sem hafa tjáð sig þar um, þá er það nú svo, sem betur fer, að orð þeirra eru bara orð.


Nú árið er liðið og ekkert ég veit
um allt það sem næsta ár gefur.
Vér bíðum þess glaðir í Bláskógasveit
að brátt lifni jörðin, sem sefur.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...