14 febrúar, 2010

Þorvaldsdætur og Skímó

Það er ekki hversdagslegur viðburður þegar Þorvaldsdætur koma saman allar á einum stað. Eitt slíkt tilvik átti sér þó stað fyrir skemmstu þegar sú útlenska skellti sér á klakann til að létta nokkuð á erlendum gjaldeyri í sinni eigu.

Það var í því samhengi sem hún skellti sér austur fyrir fjall með fulltingi og aðstoð þeirra tveggja sem höfuðborgarsvæðið gista.

Hér þótti mér komið tilvalið tækifæri til að festa þessar kjarnmiklu kvenskörunga á mynd(ir). Fyrirfram ákvað ég að freista þess, að láta þær fara að tilmælum mínum um tilteknar uppstillingar, án þess þó að eiga von á því að þær færu að tilmælum mínum. Mér til ómældrar undrunar gekk allt eftir sem upp var lagt með og úr þessu varð hin skemmtilegasta myndataka.

Hluta af henni má sjá hér.






Hér var reyndar allt komið í vitleysu, og fD farin að gera athugasemdir.


Og nafnið sitt fékk hann


Eftir talsverða spennu, sem tengdist skráningu litla mannsins sem íslensks ríkisborgara og þar með að hann fengi nauðsynlega pappíra þar að lútandi, flaug Óslóarfjölskyldan (líklega án þess að fá sér hamborgara á Gardemoen) til vorlandsins í norðrinu.
Hér var (og reyndar er, þegar þetta er skrifað) stutt heimsókn, sem nýtt skyldi til þess, m.a. að festa við pjakkinn nafn, með kristnum hætti.




Meða sama hætti og var með ungrú Júlíu fyrir ári síðan, þá dugði ekkert minna en dómkirkja fyrir þessa athöfn, þessu sinni sú sem stendur í Skálholti. Það kom í hlut fD að bera hitann og þungann af öllum undirbúningi hér austan fjalls. Þetta fólst t.d. í því, að undirstinga sr. Egil, sem síðan tók að sér að undirbúa organistann. Ég sendi fjöldapóst á gamla kórfélaga, með sérlega góðum árangri, okkur til mikillar ánægju.
Allt fór þetta eins vel og á varð kosið, og við fD uppgötvuðum að ef til vill búum við ekki í of stóru húsi, þegar allt kemur til alls.

ábyrgðarfullir skírnarvottarnir

Piltur fékk staðfestingu á nafni sínu og heitir Gabríel Freyr. Auðvitað stóð hann sig með afbrigðum vel allan þennan merkisdag, sem hann væntanlega verður honum ekki sérlega eftirminnilegur, þó svo þarna væri hann stöðugt í fangi ættingja sinna og fengi engan tíma í draumalandinu.

Nú erum við aftur orðin tvö í kotinu, en horfum með tilhlökkun til sumarheimsókna til Evrópulanda.



Heimsókn, fæðing og hamborgari

Ég hef áður nefnt það að ýmislegt hefur orðið til þess að breyta dimmasta og lengsta tímabili ársins í tíma birtu, gleði og vonar, hér í Kvistholti.
Í upphafi janúar kom Berlínarfjölskyldan til landsins og dvaldi hjá okkur í vikutíma. Ungfrú Júlía Freydís náði þarna að kynnast lítillega því eðalfólki sem byggir Laugarás og sem tengist henni fjölskylduböndum. Lifandi og skemmtileg hnáta þar á ferðinni.

Meðan á heimsókninni stóð bárust af því fregnir frá Ósló, að þar væri fætt barnabarn númer tvö, sem við fyrstu sýn bar með sér ýmis einkenni föður síns, að sagt er, en sem ég kom ekki auga á fremur en við önnur slík tilvik. Það var ekki fyrr en ég setti saman myndir af þeim feðgum á sama aldri sem ég sannfærðist um, að um nokkur líkindi væri að ræða.
Það var eins og við manninn mælt, að þegar Berlínarfólkið hvarf á braut, skelltum við fD okkur til höfuðborgar Noregs til að berja augum kraftaverkið sem þar hafði átt sér stað. Þar hittum við fyrsta sinni krílið, sem síðar mun, að sögn fD verða hávaxinn, þar eð fótleggir teljast langir í hlutfalli við aðra líkamshluta. Þarna áttum við einstaklega skemmtilegan tíma.

Heimferðin gekk að mestu vel, en ég hef gert grein fyrir hluta hennar, lítillega hér og hér.
Einu átti ég þó eftir að segja frá, að það átti sér stað eftir ævintýrin sem tengdust FLYTOGET. Þegar við vorum sloppin, með svo ævintýralegum hætti, sem fyrr hefur verið lýst, inn í flugstöðina, var svo komið að peningar skiptu engu máli lengur. Við ákváðum að gera vel við okkur og fá okkur eitthvað að borða, og þá ekki bara pylsu sem stungið er í brauð með gati. Fljótlega rákumst við á veitingastað sem bar nafnið KON-TIKI.
Þar var ýmislegt á boðstólnum, m.a. tiltekin tegund af hamborurum, sem ég komst að, við eftirgrennslan, að voru gerðir úr raunvelulegu nautakjöti, en ekki kjötfarsi. Tveir voru pantaðir ásamt tveim litlum glösum af öli.
Hér reyndist á ferðinni hreint ágætur hamborgari og vel saðsamur. Að aflokinni máltíð kom að greiðslu. 'Fire hundrede seksti otta´hljómaði upphæðin. Það var ekki fyrr en þessi upphæð var yfirfærð í íslenska krónu (sem við elskum og dáum) að þessi upphæð komst í eitthvert samhengi. Hér reyndist um að ræða ISK 10296. Hvor hamborgari kostaði s.s. um fimmþúsund kall!

Ekki meira um það.

12 febrúar, 2010

'Here may you see the tyrant.'







*merking þessa orðs felur í sér alla þá sem urðu til þess, með saknæmum hætti, að hér féll allt saman.



Þetta er óhemju frjálsleg þýðing á þessum orðum Macduffs, þar sem hann er að gefa Macbeth færi á að gefast upp, fremur en verða drepinn. Skömmu síðar drap Macduff harðstjórann.

-------------------------------------

Þegar ég hef átt leið á höfuðborgarsvæðið undanfarna mánuði, hefur alltaf blasað við mér glæsileg bygging fyrir ofan veginn í áttina að Mosfellsbæ. Byggingin er rækilega merkt einhverju þýsku byggingarfyrirtæki sem ætlaði að ganga í hóp þeirra fyrirtækja annarra sem stóðu í því að selja okkur, þessum hálf vitfirrtu Íslendingum, allt mögulegt og ómögulegt. Þetta fyrirtæki var seinheppið því samfélag okkar hrundi saman í þann mund er allt var klárt til að byrja að græða.


Það hefur mjög verið í umræðunni undanfarna mánuði, hve mikill skortur er á fangelsisplássi á landinu, og ég ekki síður en aðrir, reiðir landar, hef verulegar áhyggjur af þessu, þar sem ég sé fram á það að það verði ekki hægt að dæma afglapana sem komu okkur á kné, í fangelsi þannig, að þeir afpláni einhverntíma. Þar að auki tel ég að það geti ekki náðst um það nein sátt að dómarnir hljóði upp á dvöl á Kvíabryggju, með réttindum til að fara að leggja stund á höggmyndalist.

Lausnin á þessum málum blasir við þarna á holtinu við veginn upp í Mosfellsbæ.

Fyrir utan að þetta er stór bygging, þá sé ég fyrir mér að þarna fáum við gott tækifæri til að virða fyrir okkur kvalara okkar. Í því sambandi legg ég til, að milli klukkan 12 á hádegi og 4 í eftirmiðdaginn, verði hinum dæmdu einstaklingum gert að standa eða sitja fyrir innan glervegginn sem sjá má hér fyrir ofan. Þangað getur fólk farið og barið þá augum og fengið þannig útrás fyrir angur sitt frústrasjónir. Ég sé meira að segja fyrir mér að þarna megi setja upp sölubása með egg og málningu á boðstólnum.






Ég veit auðvitað að ef til vill er það ekki við hæfi að virðulegur maður láti annað eins út úr sér, en þetta er nú afleiðing þess, að ekkert lát er á frásögnum af svívirðilegum athöfnum íslenskra viðskipta-, embættis- og stjórnmálamanna. Maður fær hreint ekkert færi á að setjast niður og reyna að jafna sig og leita skilnings og fyrirgefningar með sjálfum sér.


Þjóðin verður að upplifa það, sem hún telur vera makleg málagjöld þessum einstaklingum til handa. Fyrr verður enginn friður og sátt.


30 janúar, 2010

Enn fallast mér hendur

Eins og aðrir Íslendingar átti ég þess kost að ganga í gegnum íslenska skólakerfið, fékk meira að segja að byrja í undirbúningsskóla hjá Sigurbjörgu, konunni hans Braga dýralæknis, ásamt nokkrum félögum í Laugarási, árið áður en haldið var til náms í barnaskólanum í Reykholti.

Þegar ég hafði lokið námi til fyrsta háskólaprófs varð það úr, að ég hóf störf við Reykholtsskóla haustið 1979, hvar ég síðan starfaði til 1986.

Stjórnmálaskoðanir þorra Biskupstungnamanna voru þá, eins og líklega núna og væntanlega eins og í flestum dreifbýlissveitarfélögum landsins, þannig, að fólk var annaðhvort sjálfstæðis- eða framsóknarmenn.

___________________________________

Þetta er einkennilegur formáli að umfjöllunarefninu, en helgast eingöngu af því að ég er ekki viss um hvort það sem ég vísa til gerðist þegar ég var nemandi í Reykholtsskóla (til 1966, líklega), eða á fyrstu árum mínum sem kennari þar.

Þarna var, sem sagt um að ræða tvo kennara. Annar þeirra var eitilharður sjálfstæðismaður, og þess vegna virtur þegn í samfélaginu, en hinn, einn af þessu fólki sem taldist af flestum samfélagslega varasamt, og gat því varla orðið annað en töskumanneskja í sveitinni.

Sjálfstæðismaðurinn var duglegur að halda fram þeim gildum sem sá flokkur stóð fyrir og hinn reyndi það líka, að sínu leyti. Þetta varð til þess að sá síðarnefndi þurfti að sæta því að vera sakaður um pólitískan áróður og fá sérstakt tiltal fyrir. Sá fyrrnefndi hafði "réttar" skoðanir, en sá síðarnefndi "rangar".

________________________________________

Þetta kom upp í huga minn í gærkvöld, þegar okkur, þessum RUV-eingöngu þegnum þessa lands var boðið upp á bandaríska kvíkmynd frá 1986, sem bar íslenska heitið: "Stúlkan sem kunni að stafa".
Af sjálfspíningarhvöt einni saman, lét ég mig hafa það að sitja undir þessum ósköpum.
Ég hef nú fengið að sitja undir mörkum vestanhafskvikmyndum gegnum árin, en fáar hafa jafnast á við þessa í grímulausum áróðri fyrir þeim gildum sem þar var (og er) haldið á lofti.
Þarna vantaði enga af þeim klisjum sem á okkur hafa dunið síðustu áratugina, aðallega í gegnum kvikmyndir, sem eiga að sýna risaveldið sem sæluríki.

Ég get ekki haldið öðru fram, en að þessi boðskapur hafi komist vel til skila til íslensku þjóðarinnar. Það er ekki að ástæðulausu sem við höfum verið kölluð litla Ameríka.

Ef hér hefði verið um að ræða sovéska mynd frá Stalínstímanum, um fyrirmyndarríki kommúnísmans þar eystra, ef slíkt ríki væri enn til, ér ég hræddur um að á þessum degi hefðu margir þörf fyrir að tjá sig.

_______________________________

Við erum nú í tiltekinni stöðu sem þjóð. Ég leyfi mér að halda því fram, að umtalsverður hluti af ástæðunni fyrir því, sé ótæpilegur skammtur að vestan af áróðri fyrir yfirborðsmennsku ásamt yfirgengilegri þjóðernisrembu sem er íklædd velgjuvaldandi væmni.

Erum við farin að leggja hönd á hjartastað þegar þjóðsöngurinn er sunginn?


28 janúar, 2010

Flytoget (2)

Eins og kom fram í 1. hluta keypti ég miða með Flytoget í greiðsluvél á Oslo S - TVO miða. Þessa miða setti ég í brjóstvasann, þar sem Óslóarmaðurinn sagði mér að það þyrfti ekki að nota þá fyrr en komið væri á flugvöllinn. Þar væru hlið sem væru þannig útbúin, að til þess að komast í gegnum þau þyrfti maður að renna miðanum í gegnum þar til gerða rauf. Ekki taldi ég að þarna gæti orðið eitthvert vandamál á ferðinni.

Nú vorum við komin út úr Flytoget á Gardemoen flugvelli - vorum reyndar með seinni skipunum út úr lestinni vegna áðurnefndrar smáskilaboðasendingar. Því var það, að flestir þeirra fáu farþega sem þarna yfirgáfu lestina, voru þegar horfnir af brautarpallinum. Þarna fyrir utan beið okkar töskukerra, sem við auðvitað skelltum farangrinum á. Það kom, af einhverjum ástæðum, í hlut fD að aka kerrunni, á meðan ég tók forystuna í átt að hliðunum sem þarna blöstu við.

Ég gerði ráð fyrir að fD fylgdi mér eftir, sem síðar reyndist raunin. Þarna kom ég að einu hliðinu, tók upp miðana úr brjórstvasanum, fann raufina og renndi miðanum í gegn. Viti menn, hliðið opnaðist og ég gekk snarlega í gegn.

Það gerðist í sama mund og ég var að fara að snúa mér við, til að rétta fD hinn miðann, yfir hliðið, svo hún gæti rennt honum í raufina líka, að kerran rakst í hæla mér og fD sagði: "Svona, áfram með þig!" Í sömu mund var hliðið að lokast, en fD hélt sínu striki, hiklaust, með hliðið klemmt um fótleggina. Vegna ákveðni hennar gaf hliðið sig og við komumst í gegn á einum miða.
Þarna stóðum við nú, komin í gegn og ég velti fyrir mér hvernig ég ætti nú að fara að því að renna hinum miðanum í gegn, enda ekki um það að ræða að ná til raufarinnar.
Það var þarna, sem ég áttaði mig á því að ef til vill hefði ég átt að láta fD vita af því að miðarnir væru tveir og að ef til vill hefði ég átt að láta hana hafa sinn miða áður en eg fór í gegnum hliðið.

Þegar hér var komið tók við augnablik þar sem ég velti fyrir mér hvað þetta glappaskot gæti haft í för með sér. Við svona aðstæður verður manni oft fyrir að líta í kringum sig til að athuga hvort einhver hefði orðið vitni að ósköpunum. Auðvitað var það svo. Í um 30 metra fjarlægt greindi ég hvar ábúðarfull, einkennisklædd Noregsmær kom út úr varðskýli á brautarpallinum. Það hefur sjálfsagt blikkað viðvörunarljós í varðskýlinu.
Þarna hugsaði ég hratt, ekki síst þar sem Óslómaðurinn hafði fjallað um það í mín eyru, hve sektaglaðir Norðmenn væru fyrir minnstu yfirsjónir. Ég tók á það ráð að fara að veifa höndunum í ímynduðum samræðum við fD - svona eins og þegar maður er að fara í gegnum tollinn í Keflavík með vonda samvisku. Í beinu framhaldi af því hóf ég að leika einhverja persónu sem ekkert veit þegar lestasamgöngur eru annars vegar. Ég gekk því rösklega á móti fraukunni, sýnandi þar með, að eitthvað hefði klikkað hjá mér. Þegar ég nálgaðist hana setti ég síðan upp það sakleysislegasta sveitamannabros sem ég átti til fórum mínum, sveiflandi framan í hana tveim miðum.

Þessi ágæta kona tók við miðunum tveim og grandskoðaði þá, grunsamlega lengi, en rétti mér þá síðan aftur. "Det er OK"
Síðan leiðbeindi hún þessum vanvitum að lyftunni upp í brottfararsalinn, með vorkunnarsvip, geri ég ráð fyrir.

26 janúar, 2010

Flytoget (1)

Til að tryggja örugga og tímanlega heimför frá hinni norsku höfuðborg varð um það niðurstaða, að skella sér á ferðalag með FLYTOGET til Gardemoen flugvallar. Vissulega var hægt að taka sér far með NSB á miklu lægra verði (NOK102 á mann), en talsvert óöruggara var með, hve oft slík lest stöðvaði á leið til flugvallarins.
Leigubíll á Osló S (stendur fyrir SENTRUM, sem mun merkja að þar sé aðaljárnbrautarstöð borgarinnar. Oslómaðurinn með í för, hinu miðaldra sveitafólki til halds og tausts, ef ekki skyldi allt ganga upp.
Á Oslo S þurfti að kaupa miða í Flytoget, en það var gert í sjálfsala, þar sem ég komst að því að kortið mitt var enn nothæft. Út úr söluvélinni komu tveir miðar eins og pantaðir höfðu verið.

Fyrir utan beið Flytoget og þess beið að renna úr hlaði eftir 4 mínútur. Þá lá það einnig fyrir að lestin myndi koma við í Lilleström á leið sinni til flugvallarins.
Tímaáætlun stóðst - lagt var af stað frá Oslo S, í vellystingum: þægileg sæti og skjár þar sem hægt var að lesa heltu fréttir heimsmiðlanna. Skömmu eftir brottför heyrðist engilblíð konurödd sem greindi frá ferðaáætlun; ferðin á flugvöllinn átti að taka nákvæmlega 19 mínútur.

Allt pottþétt fyrstu 13 mínúturnar; lestin leið hljóðlaust áfram að miklum hraða.
Þá heyrðist hanagal frá tösku fD (hanagal er sms hljóðmerkið í símanum hennar). Það tók nokkra stund að nálgast símann, opna hann, ná í gleraugun og fletta upp á skilaboðunum. Þessu næst tók við tímabil skeytaskriftar og að því búnu var ýtt á SENDA. Stutt stund leið.
"Ég geti ekki svarað"
Skeytið sem móttekið hafði verið, fól í beiðni um kaup á einhverju í fríhöfninni á heimleið.
"Þú verður að svara"
Þar sem ég er snillingur, að sumu leyti í að senda svona smáskilaboð, tóka ég fram fína símann minn.
"Hvað er númerið?"
Ég fékk númerið uppgefið og skráði það inn með 00354 fyrir framan.
"Skrifaðu bara: Já geri það"
Ég hóf skriftirnar. Eins og allir sjá er broddstafur í þessu svari og það kallar á vanda í mínum huga. Það sem síðan bættist við, var að nú fór Flytoget að hægja á sér. Ég var búinn að skrifa J.
"Er þetta stöðin á flugvellinum?"
Tíminn mælti með að þetta væri hún, en sú staðreynd að Flytoget hafði ekki áð í Lilleström, mælti gegn því - og ég í miðjum klíðum að skrifa JÁ!
Flytoget var greinilega að renna inn á lestarstöð og ekki ljóst hvaða stöð það var. Það var skyndiákvörðun hjá mér að breyta fyrirskipuðum skilaboðum fD úr "JÁ GERI ÞAÐ" Í EINFALT "JAMM" - í rauninni alveg jafn tjáningarríkt. Þar með ýtti ég á SENDA í þann mund er lestin stöðvaðist og við gátum lesið á skilti fyrir utan, að hér var um að ræða flugvallarstöðina. Taskan rifin ofan úr rekkanum og við héldum út í andrúmsloft flugvallarins í Gardemoen.

Það var þarna úti á brautarpallinum sem fjör færðist í leikinn, en það bíður næstu færslu.

Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Mér var sagt það fyrir nokkrum árum, að einni konu hefði tekist það að verða bæði amma afa míns, Magnúsar Jónssonar (1887-1965) og langamma...