14 febrúar, 2010

Heimsókn, fæðing og hamborgari

Ég hef áður nefnt það að ýmislegt hefur orðið til þess að breyta dimmasta og lengsta tímabili ársins í tíma birtu, gleði og vonar, hér í Kvistholti.
Í upphafi janúar kom Berlínarfjölskyldan til landsins og dvaldi hjá okkur í vikutíma. Ungfrú Júlía Freydís náði þarna að kynnast lítillega því eðalfólki sem byggir Laugarás og sem tengist henni fjölskylduböndum. Lifandi og skemmtileg hnáta þar á ferðinni.

Meðan á heimsókninni stóð bárust af því fregnir frá Ósló, að þar væri fætt barnabarn númer tvö, sem við fyrstu sýn bar með sér ýmis einkenni föður síns, að sagt er, en sem ég kom ekki auga á fremur en við önnur slík tilvik. Það var ekki fyrr en ég setti saman myndir af þeim feðgum á sama aldri sem ég sannfærðist um, að um nokkur líkindi væri að ræða.
Það var eins og við manninn mælt, að þegar Berlínarfólkið hvarf á braut, skelltum við fD okkur til höfuðborgar Noregs til að berja augum kraftaverkið sem þar hafði átt sér stað. Þar hittum við fyrsta sinni krílið, sem síðar mun, að sögn fD verða hávaxinn, þar eð fótleggir teljast langir í hlutfalli við aðra líkamshluta. Þarna áttum við einstaklega skemmtilegan tíma.

Heimferðin gekk að mestu vel, en ég hef gert grein fyrir hluta hennar, lítillega hér og hér.
Einu átti ég þó eftir að segja frá, að það átti sér stað eftir ævintýrin sem tengdust FLYTOGET. Þegar við vorum sloppin, með svo ævintýralegum hætti, sem fyrr hefur verið lýst, inn í flugstöðina, var svo komið að peningar skiptu engu máli lengur. Við ákváðum að gera vel við okkur og fá okkur eitthvað að borða, og þá ekki bara pylsu sem stungið er í brauð með gati. Fljótlega rákumst við á veitingastað sem bar nafnið KON-TIKI.
Þar var ýmislegt á boðstólnum, m.a. tiltekin tegund af hamborurum, sem ég komst að, við eftirgrennslan, að voru gerðir úr raunvelulegu nautakjöti, en ekki kjötfarsi. Tveir voru pantaðir ásamt tveim litlum glösum af öli.
Hér reyndist á ferðinni hreint ágætur hamborgari og vel saðsamur. Að aflokinni máltíð kom að greiðslu. 'Fire hundrede seksti otta´hljómaði upphæðin. Það var ekki fyrr en þessi upphæð var yfirfærð í íslenska krónu (sem við elskum og dáum) að þessi upphæð komst í eitthvert samhengi. Hér reyndist um að ræða ISK 10296. Hvor hamborgari kostaði s.s. um fimmþúsund kall!

Ekki meira um það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...