*merking þessa orðs felur í sér alla þá sem urðu til þess, með saknæmum hætti, að hér féll allt saman.
Þetta er óhemju frjálsleg þýðing á þessum orðum Macduffs, þar sem hann er að gefa Macbeth færi á að gefast upp, fremur en verða drepinn. Skömmu síðar drap Macduff harðstjórann.
-------------------------------------
Þegar ég hef átt leið á höfuðborgarsvæðið undanfarna mánuði, hefur alltaf blasað við mér glæsileg bygging fyrir ofan veginn í áttina að Mosfellsbæ. Byggingin er rækilega merkt einhverju þýsku byggingarfyrirtæki sem ætlaði að ganga í hóp þeirra fyrirtækja annarra sem stóðu í því að selja okkur, þessum hálf vitfirrtu Íslendingum, allt mögulegt og ómögulegt. Þetta fyrirtæki var seinheppið því samfélag okkar hrundi saman í þann mund er allt var klárt til að byrja að græða.
Það hefur mjög verið í umræðunni undanfarna mánuði, hve mikill skortur er á fangelsisplássi á landinu, og ég ekki síður en aðrir, reiðir landar, hef verulegar áhyggjur af þessu, þar sem ég sé fram á það að það verði ekki hægt að dæma afglapana sem komu okkur á kné, í fangelsi þannig, að þeir afpláni einhverntíma. Þar að auki tel ég að það geti ekki náðst um það nein sátt að dómarnir hljóði upp á dvöl á Kvíabryggju, með réttindum til að fara að leggja stund á höggmyndalist.
Lausnin á þessum málum blasir við þarna á holtinu við veginn upp í Mosfellsbæ.
Fyrir utan að þetta er stór bygging, þá sé ég fyrir mér að þarna fáum við gott tækifæri til að virða fyrir okkur kvalara okkar. Í því sambandi legg ég til, að milli klukkan 12 á hádegi og 4 í eftirmiðdaginn, verði hinum dæmdu einstaklingum gert að standa eða sitja fyrir innan glervegginn sem sjá má hér fyrir ofan. Þangað getur fólk farið og barið þá augum og fengið þannig útrás fyrir angur sitt frústrasjónir. Ég sé meira að segja fyrir mér að þarna megi setja upp sölubása með egg og málningu á boðstólnum.
Ég veit auðvitað að ef til vill er það ekki við hæfi að virðulegur maður láti annað eins út úr sér, en þetta er nú afleiðing þess, að ekkert lát er á frásögnum af svívirðilegum athöfnum íslenskra viðskipta-, embættis- og stjórnmálamanna. Maður fær hreint ekkert færi á að setjast niður og reyna að jafna sig og leita skilnings og fyrirgefningar með sjálfum sér.
Þjóðin verður að upplifa það, sem hún telur vera makleg málagjöld þessum einstaklingum til handa. Fyrr verður enginn friður og sátt.
Þú ert ekkert of virðulegur Palli minn til að láta svona nokkuð út úr þér :)
SvaraEyðaReyndar var þetta góður og gegn siður hér í denn þegar minni sakamenn voru settir í gapastokk fyrir framan kirkjur á sunnudögum þegar þær voru helstu samkomustaðir forfeðra vora.
Þá gátu allir séð hvurslags svíðingar þetta voru og börn gátu atast í viðkomandi.
Í dag var þetta látið fjölmiðlum eftir þar til kom í ljós að þessir sömu menn áttu fjölmiðlana.
Mér finnst ég reyndar ekki of virðulegur, enda aldrei eldri en tvítugur :)
SvaraEyðaKvíabryggja (eða sambærilegt) er, í mínum huga, hvíldarheimili sem líkja má einna helst við heilsuhælið í Hveragerði, og fullnægir engan veginn þeim kröfum sem við hljótum að gera um refsingu. Mig grunar að fleiri deili þeirri skoðun minni.
Fyrr verður enginn friður né sátt
SvaraEyðaen fáum að berja þá augum,
sem þjóðina léku af lymsku svo grátt
að lá við hún fær' öll á taugum.
Spái að sjáum þá spilaborg hrynja
er spæld, úldin, soðin á gluggunum dynja.
Hirðkveðill veltir fyrir sér aðsókn og býst við góðri þátttöku hvurrnin sem viðrar.