30 janúar, 2010

Enn fallast mér hendur

Eins og aðrir Íslendingar átti ég þess kost að ganga í gegnum íslenska skólakerfið, fékk meira að segja að byrja í undirbúningsskóla hjá Sigurbjörgu, konunni hans Braga dýralæknis, ásamt nokkrum félögum í Laugarási, árið áður en haldið var til náms í barnaskólanum í Reykholti.

Þegar ég hafði lokið námi til fyrsta háskólaprófs varð það úr, að ég hóf störf við Reykholtsskóla haustið 1979, hvar ég síðan starfaði til 1986.

Stjórnmálaskoðanir þorra Biskupstungnamanna voru þá, eins og líklega núna og væntanlega eins og í flestum dreifbýlissveitarfélögum landsins, þannig, að fólk var annaðhvort sjálfstæðis- eða framsóknarmenn.

___________________________________

Þetta er einkennilegur formáli að umfjöllunarefninu, en helgast eingöngu af því að ég er ekki viss um hvort það sem ég vísa til gerðist þegar ég var nemandi í Reykholtsskóla (til 1966, líklega), eða á fyrstu árum mínum sem kennari þar.

Þarna var, sem sagt um að ræða tvo kennara. Annar þeirra var eitilharður sjálfstæðismaður, og þess vegna virtur þegn í samfélaginu, en hinn, einn af þessu fólki sem taldist af flestum samfélagslega varasamt, og gat því varla orðið annað en töskumanneskja í sveitinni.

Sjálfstæðismaðurinn var duglegur að halda fram þeim gildum sem sá flokkur stóð fyrir og hinn reyndi það líka, að sínu leyti. Þetta varð til þess að sá síðarnefndi þurfti að sæta því að vera sakaður um pólitískan áróður og fá sérstakt tiltal fyrir. Sá fyrrnefndi hafði "réttar" skoðanir, en sá síðarnefndi "rangar".

________________________________________

Þetta kom upp í huga minn í gærkvöld, þegar okkur, þessum RUV-eingöngu þegnum þessa lands var boðið upp á bandaríska kvíkmynd frá 1986, sem bar íslenska heitið: "Stúlkan sem kunni að stafa".
Af sjálfspíningarhvöt einni saman, lét ég mig hafa það að sitja undir þessum ósköpum.
Ég hef nú fengið að sitja undir mörkum vestanhafskvikmyndum gegnum árin, en fáar hafa jafnast á við þessa í grímulausum áróðri fyrir þeim gildum sem þar var (og er) haldið á lofti.
Þarna vantaði enga af þeim klisjum sem á okkur hafa dunið síðustu áratugina, aðallega í gegnum kvikmyndir, sem eiga að sýna risaveldið sem sæluríki.

Ég get ekki haldið öðru fram, en að þessi boðskapur hafi komist vel til skila til íslensku þjóðarinnar. Það er ekki að ástæðulausu sem við höfum verið kölluð litla Ameríka.

Ef hér hefði verið um að ræða sovéska mynd frá Stalínstímanum, um fyrirmyndarríki kommúnísmans þar eystra, ef slíkt ríki væri enn til, ér ég hræddur um að á þessum degi hefðu margir þörf fyrir að tjá sig.

_______________________________

Við erum nú í tiltekinni stöðu sem þjóð. Ég leyfi mér að halda því fram, að umtalsverður hluti af ástæðunni fyrir því, sé ótæpilegur skammtur að vestan af áróðri fyrir yfirborðsmennsku ásamt yfirgengilegri þjóðernisrembu sem er íklædd velgjuvaldandi væmni.

Erum við farin að leggja hönd á hjartastað þegar þjóðsöngurinn er sunginn?


8 ummæli:

  1. haha bíður þú þá ekki spenntur eftir þýsku sjónvarpsmyndinni sem verður sýnd annað kvöld um hana Lísu, sem er óhamingjusöm ... :D

    SvaraEyða
  2. Ég reikna með að stúlkan sú verði evrópskt óhamingjusöm - sem er auðvitað með alt öðrum hætti. Jú - hlakka til :)

    SvaraEyða
  3. haha
    Ég las titilinn og slökkti á sjónvarpinu.
    Varð það reyndar á að kveikja á imbanum áður en myndinni var lokið og guð hjálpi mér hvað hún var hræðileg.

    SvaraEyða
  4. Veistu, Palli, að ég hugsaði einmitt eitthvað álíka og það sem þú hefur hér ritað þegar ég sá byrjunina á þessari mynd. Og þessi mynd er ekkert einsdæmi um þennan áróður. Burt séð frá því hvort hann eigi yfir höfuð rétt á sér einhversstaðar er náttúrulega alveg ljóst að hann á nákvæmlega ekkert erindi við okkur Íslendinga.

    SvaraEyða
  5. Það er gott að vita að fleiri deila skoðunum mínum á þessum óhefta áróðri sem við þurfum að sitja undir, og sem stór hópur okkar virðist gleypa hráan.

    SvaraEyða
  6. Greini ég vott af þjóðernislegum og sósíalískum and-Bandarískum áhrifum :)
    Gættu nú að því að CIA setji þig ekki á bannlista svo þú fáir ekki að ferðast til fyrirheitna landsins Páll Magnús ;)

    SvaraEyða
  7. Æ, æ. Ég missti mig aðeins, en þeir eiga nú örugglega nafngreinda mynd af mér frá því í Keflavíkurgöngu. Það er erfitt að toppa það.

    SvaraEyða
  8. Mikið rétt. Það var ótrúlega stór hópur frá sendiráðinu og íslensku lögreglunni sem vann við myndatökur og nafngreiningar á þessum byltingalýð. Þú ert væntanlega búinn að vera svartlistaður frá því á unglingsárunum :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...