28 janúar, 2010

Flytoget (2)

Eins og kom fram í 1. hluta keypti ég miða með Flytoget í greiðsluvél á Oslo S - TVO miða. Þessa miða setti ég í brjóstvasann, þar sem Óslóarmaðurinn sagði mér að það þyrfti ekki að nota þá fyrr en komið væri á flugvöllinn. Þar væru hlið sem væru þannig útbúin, að til þess að komast í gegnum þau þyrfti maður að renna miðanum í gegnum þar til gerða rauf. Ekki taldi ég að þarna gæti orðið eitthvert vandamál á ferðinni.

Nú vorum við komin út úr Flytoget á Gardemoen flugvelli - vorum reyndar með seinni skipunum út úr lestinni vegna áðurnefndrar smáskilaboðasendingar. Því var það, að flestir þeirra fáu farþega sem þarna yfirgáfu lestina, voru þegar horfnir af brautarpallinum. Þarna fyrir utan beið okkar töskukerra, sem við auðvitað skelltum farangrinum á. Það kom, af einhverjum ástæðum, í hlut fD að aka kerrunni, á meðan ég tók forystuna í átt að hliðunum sem þarna blöstu við.

Ég gerði ráð fyrir að fD fylgdi mér eftir, sem síðar reyndist raunin. Þarna kom ég að einu hliðinu, tók upp miðana úr brjórstvasanum, fann raufina og renndi miðanum í gegn. Viti menn, hliðið opnaðist og ég gekk snarlega í gegn.

Það gerðist í sama mund og ég var að fara að snúa mér við, til að rétta fD hinn miðann, yfir hliðið, svo hún gæti rennt honum í raufina líka, að kerran rakst í hæla mér og fD sagði: "Svona, áfram með þig!" Í sömu mund var hliðið að lokast, en fD hélt sínu striki, hiklaust, með hliðið klemmt um fótleggina. Vegna ákveðni hennar gaf hliðið sig og við komumst í gegn á einum miða.
Þarna stóðum við nú, komin í gegn og ég velti fyrir mér hvernig ég ætti nú að fara að því að renna hinum miðanum í gegn, enda ekki um það að ræða að ná til raufarinnar.
Það var þarna, sem ég áttaði mig á því að ef til vill hefði ég átt að láta fD vita af því að miðarnir væru tveir og að ef til vill hefði ég átt að láta hana hafa sinn miða áður en eg fór í gegnum hliðið.

Þegar hér var komið tók við augnablik þar sem ég velti fyrir mér hvað þetta glappaskot gæti haft í för með sér. Við svona aðstæður verður manni oft fyrir að líta í kringum sig til að athuga hvort einhver hefði orðið vitni að ósköpunum. Auðvitað var það svo. Í um 30 metra fjarlægt greindi ég hvar ábúðarfull, einkennisklædd Noregsmær kom út úr varðskýli á brautarpallinum. Það hefur sjálfsagt blikkað viðvörunarljós í varðskýlinu.
Þarna hugsaði ég hratt, ekki síst þar sem Óslómaðurinn hafði fjallað um það í mín eyru, hve sektaglaðir Norðmenn væru fyrir minnstu yfirsjónir. Ég tók á það ráð að fara að veifa höndunum í ímynduðum samræðum við fD - svona eins og þegar maður er að fara í gegnum tollinn í Keflavík með vonda samvisku. Í beinu framhaldi af því hóf ég að leika einhverja persónu sem ekkert veit þegar lestasamgöngur eru annars vegar. Ég gekk því rösklega á móti fraukunni, sýnandi þar með, að eitthvað hefði klikkað hjá mér. Þegar ég nálgaðist hana setti ég síðan upp það sakleysislegasta sveitamannabros sem ég átti til fórum mínum, sveiflandi framan í hana tveim miðum.

Þessi ágæta kona tók við miðunum tveim og grandskoðaði þá, grunsamlega lengi, en rétti mér þá síðan aftur. "Det er OK"
Síðan leiðbeindi hún þessum vanvitum að lyftunni upp í brottfararsalinn, með vorkunnarsvip, geri ég ráð fyrir.

2 ummæli:

  1. Hahahaha bara fyndid! Alveg get ég séd Döbbu fyrir mér ad thrýsta vagninum í hælana á thér. Thad er einhver Thorvaldsdætra-svipur yfir thessu.

    Getur thú ekki líka vid eitthvad gott tækifæri smellt einni mynd af thér (eda Döbbu) med saklaust sveitamannabros á vör. Er enn ad velta thví fyrir mér hvernig thad lítur út.

    Bkv.
    Ása

    P.S. Ég geri bara passlega rád fyrir ad thad komi Flytoget(3)

    SvaraEyða
  2. Jamm svipurinn er vissulega þarna :)
    Ef þú setur mig í sömu stöðu og þarna var, þá kemur brosið fína örugglega. Erfitt að leika það í vernduðu umhverfi.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...