06 apríl, 2010

Vegtollar? Já, auðvitað.

Ég veit nú ekki hvar allir þeir, sem tekið hafa til við að tjá sig um hugmyndir um vegtolla, telja sig búa.
Vegatollar eiga að vera regla fremur en undantekning, rétt eins og tíðkast í flestum nágrannalöndum okkar. Auðvitað er það eðlilegt að þeir sem nota vegina greiði fyrir afnotin. Það er svo merkilegt að tvöföldum þeirra vega sem nú eru helst til umræðu, kostar einhvern slatta af peningum. Hvaðan skyldi það fé eiga að koma? Ekki trúi ég að menn haldi að ríkisstjórn Íslands bara búi það til.
Því miður hefur það ekki tíðkast, nema í algerum undantekningatilvikum, að fólki hafi verið gert að greiða fyrir notkun sína á þjóðvegakerfinu, eftir notkun.

Það er segin saga í þjóðmálaumræðu hérlendis, að fólk er oftast fylgjandi öllu því sem það telur horfa til framfara, er virðist með sama hætti, ekki vera tilbúið að greiða fyrir það. Hvað er réttlátara en að þeir sem njóta endurbóta á vegum út frá höfuðborginni taki mestan þátt í að greiða fyrir það?

Já, já, tvöföldum allar leiðir út frá höfuðborgarsvæðinu.
Já, já, hækkum atvinnuleysisbætur,
Já, já, stóraukum fé til heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og félagsmálakerfisins.

Já, já, gerum helst allt fyrir þá sem til þess hafa unnið og eiga skilið. Látum svo bara ríkisstjórnina borga. Þetta er hvort sem er allt henni hennar prívat mál - að því er margir ótrúlega margir landsmenn virðast telja.

Þetta var losun dagsins.

04 apríl, 2010

Páskasól


Það er ekki laust við að maður sé skominn á það stig að óska þess að gula augað á himni taki sér hvíld um stund og víki þannig fyrir hlýjum sunnanvindum sem ná að vekja líf af vetrardvala. Mér liggur við að segja að það sé sólin sjálf sem er birtingarmynd páskahretsins hér sunnanlands. Vissulega má láta sig hafa það að fara út fyrir hússins dyr um hádaginn án þess að vera kappklæddur, en þar fyrir utan nær hitinn varla að skríða yfir úr frosti. Sem sagt, þessu má alveg fara að linna.


Ef manni tekst að líta framhjá því, að með sól á þessum árstíma fylgir oftast fremur svöl norðanátt, þá er sú gula hreint ekki alslæm. Hún hamast við að lofa því að vetrardrunginn hverfi brátt. Það er reyndar ekki hægt að segja að það hafa svo sem verið vetur yfirleitt.


Í tilefni af því að fD er nú farin til messu, sannarlega í trúarlegum tilgangi, sendi ég hér kveðju til lesenda, nær og fjær, til sjávar og sveita; kveðju sem flytur ósk þeim til handa um gleði og bjartsýni, sól í sinni og sumarsýn.


03 apríl, 2010

En fór ég þangað eftir allt saman?

Það er svona með þetta eldgos.
Það var kannski ekki vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að segja frá því, að ég sagði frá því síðast, að ekki skyldi leið mín liggja á þær slóðir sem jörðin notar nú til að losa sig við angur sitt. Ástæðan er miklu nær því að vera sú, að til þess að koma því nægilega skýrt til skila til lesenda þyrfti ég að geta borið fram óvéfengjanlegar sannanir fyrir fyrir því að ég hefði verið á staðnum. Þær liggja nú fyrir og birtast sjónum ykkar hér fyrir neðan. Ég stóðst ekki mátið, eftir gengdarlausa áeggjan fjölmiðla og nágranna, að sitja bara einn eftir, hafandi ekki farið að sjá gosið.
Ferðin var farin í fyrradag og leiðin lá upp á Mýrdalsjökul og þaðan niður að gossvæðinu. Ýmsir aðrir voru með í för, en ég ætla ekkert að greina nánar frá því hverjir það voru, né heldur hvernig farartæki flutti mig þarna upp eftir. Miklu meira máli skiptir sú óraunverulega reynsla sem ég varð fyrir.
Á myndinni, sem að stærstum hluta var tekin af Hverstúnsbóndanum, er ég að ná mér í sýni af nýgosnu gosefni, sem nú prýðir stofuhillu í Kvistholti. Þarna var nokkuð heitt eins og glöggt má sjá. Ástæða þess að ég er þarna umlukinn gráleitum reyk er sú, að gúmmíið í skónum mínum var farið að bráðna svo um munaði. En hraunmolanum náði ég.

... eða ekki

01 apríl, 2010

Að sitja kyrr á sama stað.....

...en sjá samt eldgosið.

Það er einbeitt ákvörðun mín að fara ekki að þvælast austur á bóginn til að komast í návígi við yfirstandandi eldos. Það stafar nú ekki endilega af áhugaleysi mínu þegar eldgos eru annars vegar, heldur eitthvað meira í nágrenni við það að ég nenni ekki að leggja á mig allt sem slíkri ferð myndi fylgja. Þar að auki upplifði ég Skjólkvíagosið 1970 og veit því hvernig upplifunin er af því að sjá glóandi kvikuna hendast upp í loft og fylgjast með hraunkantinum skríða óstöðvandi þá vegalengd sem honum er ætlað að fara, með tilheyrandi hljóðum.

Í kvöld var léttskýjað og 6° frost. Gosið sést vel frá þeim stað sem gamla Helgastaðabrekkan var. Þangað hélt ég með EOSinn minn og smellti af nokkrum myndum. Miklu færri þó en ég hefði getað eða viljað, en, eins og margir gosgestir, þá var ég bara ekki klæddur fyrir langa útiveru.

__________________

Rjúpan situr kyrr á sama stað og kúrir sig í afslöppun fyrir framan útidyrnar í Kvistholti, þess fullviss um að þaðan berst engin skothríð.















31 mars, 2010

Gott starf og bóluvitleysa

Ég er vanur að gera mikið úr því þegar ég á frí, meðan flestir aðrir þurfa að sinna vinnu sinni og inna þannig af hendi "nauðsynlega" þjónustu sína við samborgarana. Mér finnst það alveg stórfínt að ganga út af vinnustaðnum á föstudegi fyrir pálmasunnudag og mæta svo aftur, galvaskur að morgni miðvikudags eftir páska.

Auðvitað er ég ekki svo illa innrættur að það hlakki í mér að vera í fríi þegar aðrir þurfa að vinna, en ekki neita ég því, að það brá fyrir glotti við tilhugsunina um að fD hafi þurft að mæta til vinnu bæði í gærmorgun og í morgun.

--------------------

Það sem ég er að fara með þessari vinnutímapælinu er eftirfarandi:

Er í rauninni einhver brýn þörf á að verslanir og þjónustufyrirtæki af ýmsu tagi séu opin alla daga nema á hinum langa föstudegi og páskadegi? Eru laugardags- og sunnudagsopnun í raun eitthvað sem er nauðsynlegt?
Ég var í þessu sambandi talsvert undrandi þegar rakarinn minn sagðist hafa opið á laugardag fyrir páska. Ástæðan? Jú, það var vegna samkeppninnar í bransanum á Selfossi.

Mér finnst það vera mikilvægur þáttur í því að skapa nýtt Ísland, að vinda ofan af þeirri brjálæðislegu hugsun að við eigum að geta fengið allt nákvæmlega þegar okkur dettur það í hug. Kannski er komið fyrir okkur eins og er, einmitt vegna þess, að við lifum í núinu, höfum ekki framtíðarsýn, erum orðin ófær um að skipuleggja þarfir okkar umfram einn dag í einu.
Hver er það sem á ekki að geta ákveðið það með góðum fyrirvara, að hann þurfi nú að fara að skella sér í klippingu? Hver er það sem á ekki að geta ákveðið hvað hann þarf til heimilisins viku fram í tímann, þó ekki væri nema bara yfir eins og eina helgi?

Það ástand sem við höfum vanist með því sem víkingarnir okkar kölluðu "botnlausa samkeppni á öllum sviðum", hefur ekki gert okkur neitt gott.
Þau fyrirtæki sem ekki geta lifað af án þess að hafa opið 7 daga í viku, eiga ekki rekstrargrundvöll, að mínu mati. Það er engin ástæða til þess að hallir kapítalismans þurfi að halda áfram að veita afþreyingu fyrir hugmyndasnauða borgarbúa á sunnudögum.

"Maður er að vinna allan daginn! Hvenær á maður þá að "versla" inn."

Þá er bara að vinna minna og gera þar með minni efnislegar kröfur til lífsins. Það væri til dæmis harla jákvæð þróun að sinna þörfum barnanna betur. Þessir ræflar hafa hreint ekki gott af því að dvelja í leikskólum 8 tíma á dag, fimm daga vikunnar. Það er önnur umræða, en kallar óhjákvæmilega á svar við spurningunni til tilgang lífs okkar. Það er nú engin smá spurning.

Hægjum á okkur og skoðum þetta allt frá nýju sjónarhorni.


23 mars, 2010

Skóli í samfélagi. Útsvar

Ég var ekki það sem kallað hefur verið lyklabarn, ólst upp í sveitinni með umtalsvert stórri fjölskyldu, þar á meðal afa. Verkaskipting foreldranna var nokkuð skýr og hefðbundin miðað við það samfélag sem þá var. Smám saman fór maður að taka þátt í ýmsum störfum á heimilinu og í gróðurhúsunum (jú, víst, fÁ og fS!). Ekki þótti mér það alltaf skemmtilegt og hef sjálfsagt sinnt því sem mér var falið, með hangandi hendi. Þegar leið á var hægt að kaupa mig til verka með því að, lofa mér að á eftir fengi ég að snúa Land Rovernum á hlaðinu.

Hvað sem má segja um það allt, þá fékk ég þarna einhvern skilning á samhengi hlutanna: til þess að eitthvað gerist þá þarf einhver að gera það.

Það var mér á stundum mikil raun að þurfa að dvelja í heimavist í Reykholti, en mig minnir að á fyrri hluta skólagöngunnar hafi ég, eins og önnur börn sem ekki voru í göngufæri frá skólanum, dvalið þar uppfrá í viku á móti viku heima.
Eftir grunnskólann tók við Laugarvatn þar sem ég var líklega ein átta ár í heimavist.

Ekki ætla ég að halda því fram að allt þetta heimavistalíf hafi verið uppeldislega jákvætt, en ég tel að það hafi sam kennt mér að standa á eigin fótum og að ég hafi verið nokkuð tilbúinn að standa á eigin fótum þegar framhaldsskólanámi lauk. Ég vissi ýmislegt um ýmislegt. Ég var t.d. búinn að læra að skipta um kló, var búinn að læra grundvallaratriði í bílaviðgerðum, skildi hvað það þýddi ef ég eyddi þeim peningum sem ég aflaði. Þegar við síðan byggðum okkur hús voru lán af skornum skammti og við fluttum inn í hálfkarað húsið með notuðum húsgögnum og eldhúsinnréttingu sem ég klambraði sjálfur saman.

Með því sem ég hef sagt hér að ofan, er ég ekki að þykjast hafa verið betur búinn undir lífið en margir aðrir á sama reki, þvert á móti held ég að flestir aðrir sem nutu samsvarandi skilyrða, hafi sömu sögu að segja.

Hvað er ég svo að fara með þessu öllu?
Svarið hefur með að gera þrennt:
a. Ég tek þátt í því um þessar mundir að skipuleggja skólastarf í framhaldsskóla þar sem áleitnar spurningar koma til umræðu. Þessi er stærst í mínum huga: Hvert á hlutverk framhaldsskóla að vera í því samfélagi sem við búum í núna og til næstu framtíðar?

b. Atvik sem átti sér stað í spurningaþættinum Útsvari á RUV s.l. föstudagskvöld. Það var þegar bjölluspurningar dundu á keppendum. Það var spurt, og ungur og vel gefinn keppandi annars liðsins greip bjölluna á undan, en það vildi svo illa til, að kólfurinn datt úr henni. Pilturinn setti kólflausa bjölluna aftur á borðið og hélt í sæti sitt.
"Ætlarðu ekki að laga bjölluna?" spurði spyrillinn.
"Ég? Nei, ég kann það ekki." svaraði keppandinn og settist í sæti sitt.
Þegar hér var komið reis keppandi úr hinu liðinu, sauðfjárbóndi af Héraði, á fætur, gekk að bjöllunni, setti kólfinn í hana og kom henni fyrir á borðinu, þegjandi og orðalaust.

c. Frétt í dagblaði í morgun, sem fjallar um það að einhverjir háskólanemar hafa tekið sig til og sett upp síðu á fésbókinni þar sem þeir dunda sér við að niðurlægja konu sem ræstir húsnæðið sem þeir stunda nám sitt í.

----------------------------

Ég hef velt því talsvert fyrir mér samfélag okkar stefni í að verða samfélag sérfræðinga, sem skilja fátt út fyrir sitt þrönga sérsvið, hafa ekki skilning á, eða bera virðingu fyrir störfum, eða lífi annarra. Ef svo er, þá vaknar strax spurningin: getur slíkt samfélag verið samfélag?

Hvert er hlutverk skólakerfisins í þessu? Er það yfirleitt hlutverk þess að ala nemendur upp til sama skilnings á samfélaginu og ég var alinn upp til? Er hér kannski bara um að ræða nýja tegund samfélags, sem smám saman nær einhverju jafnvægi?

Það hefur svo sem hvarflað að mér, að hér sé um að ræða skýrt merki þess, að ég sé bara smám saman að detta úr takti við samfélagið, eða samfélagið við mig.

Þetta gæti verið inngangur að endalausri umfjöllun minni um allt það sem ég hef um þessi mál að segja. Ég hlífi traustum lesendum við því.


21 mars, 2010

"Ertu vakandi?"

Þessi spurning barst mér inn í draumaheima og fylgdi mér síðan inn heim hinna vakandi. Dagur var enn langt undan, ef miðað er við að það er sunnudagur. Ekki gat ég sagt að ég væri sofandi - það getur maður ekki ef maður er sofandi og heyrir ekki hvað sagt er. Þessvegna umlaði (væntanlega) í mér:
"Uuuu já"
"Það er byrjað eldgos í Eyjafjallajökli."
Þegar maður er nývaknaður af værum blundi, hugsar maður nú ekki alltaf rökrétt, þannig að í byrjun var ég ekkert sérstaklega að pæla í því hvernig á því stóð, að fD var búin að komast að því, klukkan 5.30 að morgni að hafið væri eldgos einhversstaðar. Það leið þó ekki langur tími áður en þessi óhjákvæmilega spurning kæmi upp í hugann.
"Hvernig veistu það?"
"Ég fékk sms frá Auju/Auu." (voðalega lítur þetta einkennilega út á prenti)
Ég hefði líklega bara tekið það gott og gilt, ef téð fA byggi undir Eyjafjöllum og væri nú á flótta undan jökulflóði, en hún býr reyndar í Furulundi í kóngsins Kaupmannahöfn.

"Hversvegna ertu að fara á fætur ef þú heyrir sms píp (reyndar er það hanagal) um miðja nótt?"
"Það getur alltaf eitthvað hafa komið fyrir."

Þar með var það afgreitt.

Síðar kom í ljós, að smáskilaboðin, voru til komin vegna þess, að í dönsku textavarpi var greint frá eldgosi á Íslandi, án þess að tilgreint væri hvar, með þeim afleiðingum að fA fylltist áhyggjum af afdrifum okkur - hélt kannski að við værum einhversstaðar á flótta. Það var því, þegar allt kemur til alls, einskær áhyggjublandin elskusemi sem varð til þess, að ég vaknaði kl. hálf sex í morgun, án möguleika á að ná að festa svefn aftur.

Nú skulum við bara vona að þetta ágæta gos, sem er varla umtalsvert, sé ekki undanfari einhvers meira og verra: deyi bara út í dag.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...