05 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (2)

Hér er um að ræða framhald.

Þarna starfaði ég, sem sagt, sem sumarkirkjuvörður í Skálholti. Líklega í kringum 1968-70 (var þarna 1970 þegar Bjarni Benediktsson lést ásamt konu og barnabarni í brunanum á Þingvöllum. Mér er þetta minnisstætt vegna þess að ég þurfti að draga fánann í hálfa stöng og klúðraði því með því að missa annan endann á bandinu sem fáninn var festur með, með þeim afleiðingum að það þurfti að fella stöngina).
Með nýrri dómkirkju þurfti að finna upp nýjungar í starfi kirkjunnar og eitt af því var svokallaður sjömessudagur, sem var einu sinni á sumri. Ekki veit ég hvort hér var um að ræða tilraun til að bæta sambandið við almættið, eða bara að taldist vera skemmtilegt að hafa svona maraþon messudag. Án þess að ég sé að velta því fyrir mér, þá var þetta svona: 7 messur á einum sunnudegi. Auðvitað komu ýmsir prestar að helgihaldinu og skiptu á sig. Þarna var gengið til altaris í öllum messunum - s.s. fullburða messur og ég var til aðstoðar við ýmislegt smálegt.
Það hefur komið fram, að á þessum tíma var gamli unglingurinn gjaldkeri sóknarnefndar, maður um fimmtugt, þannig að ég get vel sett mig í spor hans. Þarna var sú staða uppi að sóknin þurfti að standa straum af ýmsum kostnaði í Skálholti, þó svo ýmislegt sem þar fór fram hefði lítið með sóknarbörnin að gera. Ekki veit ég hvort þarna kom einhver greiðsla á móti þar sem tekið var tillit til þeira stöðu sem þarna var uppi. Meðal þess sem greiða þurfti var messuvín. Það getur hver maður sagt sér það sjálfur að þarna var orðin mikil breyting á, frá því engir fóru í messu í Skálholti nema sóknarbörn í Skálholtssókn. Kostnaðurinn við messuvínið hafði stóraukist og það svo, að rólyndismanninum, gjaldkeranum blöskraði, og hafði einhverntíma orð á því, þannig að ég heyrði, þar sem hann var að vinna í reikningunum.
Svo var það á sjömessudeginum nokkru eftir að gjaldkerinn hafði misst út úr sér athugasemd um óhóflegan kostnað vegna messuvíns, að ég var að aðstoða virðulegan Reykjavíkurprest (Reykjavíkurprestarnir þóttu virðulegri en aðrir prestar vegna þess að þeir komu fram í útvarpinu í sunnudagsmessum) við að undirbúa eina messuna. Hluti af undirbúningnum var að taka til messuvínið og hella í kaleikinn. Vínið (sem ég hélt löngum að væri einhver háheilagur drykkur, sem kirkjan fengi til afnota eftir einhverjum óskilgreinanlegum leiðum, í fögrum flöskum) var nú bara í venjulegum brennivínsföskum með algerlega óhönnuðum flöskumiðum og voru merktar ÁTVR.
Þar sem við vorum þarna í skrúðhúsinu og presturinn (sem ég kýs að nefna ekki) var að hella í kaleikinn, urðu mér á þau óskaplegu mistök, að hafa orð á því sem gjaldkerinn hafði nefnt og sem ég átti líklega ekki að heyra:
"Það var einn úr sóknarnefndinni að tala um að það færi mikið af messuvíni."
Presturinn snarhætti að hella og leit snöggt upp.
"Hvað sagðirðu?"
"Hann sagði að það færi mikið af messuvíni." svaraði ég, þar sem ég áttaði mig ekki á því, að prestur spurði ekki vegna þess að hann heyrði ekki. Prestur tók nú að roðna og þrútna og innan skamms upphófust óskaplegar skammir, sem beindust að mér, og fólu í sér að þegar um væri að ræða drykk af þessu tagi þá væru menn ekki að velta fyrir sér krónum og aurum. Ég hef líklega fölnað af skelfingu undir reiðilestrinum. Allavega hrökklaðist ég út og þurfti síðan að hlusta á þennan ágæta mann predika um kærleikann og fyrirgefninguna.

Á þessum sumrum í Skálholti hafði ég kynni af mörgum prestum. Flestir ágætir, sumir ansi stórir upp á sig, fáeinir virtust jafnvel telja sig til helgra manna. Sem sagt, menn af öllum toga.

Ég er ekki alveg viss um hvert ég held héðan í frásögninni, eða  hvort það sé rétt af mér að halda yfirleitt nokkuð áfram, svo viðkvæmir sem sumir eru fyrir umræðum af þessu tagi. Þetta kemur bara í ljós. Ég held allavega að ég sé búinn að afgreiða samneyti mitt í æsku við kirkju og trú.


04 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (1)

Ég held því statt og stöðugt fram, að ég sé alinn upp í því sem hefur verið kallað 'guðsótti og góðir siðir'. Að svonalöguðu uppeldi stóð, í mínum huga, að stærstum hluta tvær konur og síðan ein til viðbótar.
Sú eldri var húsfreyjan á Baugsstöðum, amma mín, Elín Jóhannsdóttir. Hún varð, í huga mínum, ímynd hinnar fullkomnu góðmennsku og kristilegs siðgæðis. Það getur sjálfsagt verið að hún hafi átt sér aðrar hliðar, en ég sá þær í það minnsta aldrei. Hjá henni fann ég aldrei neitt nema elskusemi og guðsblessanir: 'Elsku, góða fólkið mitt!'
Sú yngri var síðan móðir mín, húsfreyjan í Hveratúni, Guðný Pálsdóttir, sem ég tel að hafi tekið að sér að ala okkur systkinin þannig upp, að Kristur yrði leiðtogi lífs okkar. Fyrir utan það, að innræta okkur góða siði og vera okkur góð fyrirmynd sem sannkristin manneskja, fólst hið kristilega uppeldi í því að sækja messur í Skálholti frá frumbernsku og þar til streðið við að koma okkur þangað, varð of mikið. Ég nánast fullyrði (það verður bara einhver að leiðrétta mig, ef hér skyldi vera um misminni að ræða) að ekki hafi verið sungin messa í kjallaranum í biskupshúsinu í Skálholti frá 1953 -1963 (í kjallaranum í biskupshúsinu) án þess að Hveratúnsfjölskyldan hafi verið þar viðstödd. Eftir að dómkirkjan var vígð tel ég að það sama hafi verið uppi á teningnum, svo lengi sem nokkur möguleiki var að draga okkur til messu. Það sem gerði þetta að enn meira afreksverki hjá móður minni var, að á þessum tíma var ekki til bifreið í Hveratúni þannig að hersingin þurfti að fara fótgangandi kílómetrana tvo út í Skálholt.

Þriðja konan sem kemur við sögu í kristilegu uppeldi mínu var prestsfrúin, frú Anna Magnúsdóttir. Það var hjá henni sem kristinfræðin var lesin í barnaskóla, og ég man ekki betur en einkunnir mínar aá prófum í þessari grein, hafi gefið til kynna að ég væri talsvert vel að mér í öllu sem frelsarinn hafði tekið sér fyrir hendur, eða látið út úr sér. Fyrir utan kennsluna hélt frú Anna (hún var aldrei kölluð annað en frú Anna), utan um helgileikinn sem var settur upp í Skálholti fyrir hver jól. Öflugri stjórnandi helgileikja held ég að hljóti að vera vandfundinn.

Á heildina litið má líklega segja að kristileg uppbygging mín eftir fyrstu 14 ár ævinnar hafi verið talsvert traust. Á þessum tíma gerði ég auðvitað engan greinarmun á trú og kirkju. Prestar voru nokkurskonar hálfguðir og allsendis óskeikulir.

Þannig æxluðust málin, að síðustu árin í grunnskóla, sennilega þegar ég var 13-14 ára var ég dubbaður upp í að vera kirkjuvörður í Skálholti á sumrin, sennilega ein tvö sumur. Ég reikna með, að fyrir utan það að ég var sannkristinn ungur maður, talinn, að það hafi komið til vegna þess að Hveratúnsbóndinn, gamli unglingurinn, faðir minn, var þá gjaldkeri í sóknarnefnd.
Á þessum tíma má segja að ég hafi byrjað á sjá þetta allt saman í öðru ljósi en áður hafði verið. Ég komst að því, t.d. að prestarnir voru bara breyskir menn. Ég komst að því að oft kom það fyrir, að kirkjunnar menn gengu í orði og verki gegn þeirri kenningu sem þeir töluðu fyrir úr stólnum.

Eitt tilvik af þessum toga fer mér ekki úr minni, en frá því verður greint í næsta hluta.

29 ágúst, 2010

Berjatími og barna

Sunnudagsmorgunn og kyrrðin umvefur allt í sveitinni. Örlítill, frískandi úði ber með sér ilminn af haustinu. Það er berjatími. Geitungaskrattarnir eru horfnir úr garðinum. Hvort það er vegna eiturspúandi úðabrúsa fD, eða bara vegna þess að þeirra tími er liðinn á þessu sumri, veit ég ekki. Ennþá sveima að minnsta kost þrjár tegundir af býflugum um loftin og leita uppi síðustu blómin sem eitthvað gefa.
Koparreynir í Kvistholtsgarði

Nú er tími umbreytinga enn á ný.

Sumarleyfi lokið og framundan annir vetrarins og vonin um að þær skili viðunandi árangri.
75% þess sem einu sinni var ungviðið í Kvistholti, gistir vítt um meginland Evrópu þennan veturinn og þau 25% sem eftir eru, hafa sett stefnuna á sömu slóð. Það er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort það var eitthvað í uppeldinu sem veldur allri þessari útþrá.
Var ungunum kannski, meðvitað eða ómeðvitað, innprentuð einhverskonar alþjóðahyggja?
Var þeim ef til vill kennt, að föðurlandið hefði ekki til að bera það sem til þarf til að verða sómasamlegur Kvisthyltingur?
Var þeim á einhverjum tímapunkti sagt, að til þess að verða eitthvað þurfi maður að vera sigldur, eins og gamli unglingurinn kallar það? (Það mun hafa verið þannig á þeim tíma þegar menn sigldu til Kaupmannahafnar, og lágu þar í drykkjuvímu vetrarstund, að það var tekið ofan fyrir þeim þegar heim kom, því þeir voru sigldir).
Kannski var þessu fyrrverandi ungviði bara kennt að maður getur orðið hvað sem er, ef maður bara leggur sig fram í þeirri grein sem valin er. Hver veit?


Ég held auðvitað áfram að ala upp ungviði með mínum hætti. Vissulega eykst fjarlægð mín í aldri frá þeim sem verða fyrir uppeldisaðferðum mínum, um eitt ár á hverju ári. Á þessum tímum er orðinn ansi langur vegur milli mín og 16 ára unglinga. Mér verður það stöðugt ljósara, að málfar mitt verður þeim stöðugt torskildara og hugmyndir mínar um hvað það er að vera nýtur þjóðfélagsþegn, verða stöðugt fjarlægari hugarheimi þeirra. Þetta er væntanlega eitthvað sem er bara eðlilegt, en samt ákveðið áhyggjuefni. (hér gæti ég skrifað 2500 orða langloku um skoðanir mínar á því hversvegna staðan er þessi, og hversu slæmt er að sú staða skuli vera uppi, en læt það vera. Það væru bara skoðanir).

Ég er kannski smám saman að komast á þá skoðun, að í þessu þjóðfélagi rétthugsunar, sé best að fara inn í sjálfan sig með hugsanir sínar, en spila bara að öðru leyti með.  Það er ég smám saman að læra, að það skiptir ekki máli, hvaða skoðanir eða hugsanir eru tjáðar, þær eru jafnharðan skotnar niður af einhverjum hagsmuna- eða öfgahópum, eða þaggaðar niður af þeim sem til þess hafa vald.
Ef til vill er hér um að ræða tímabil sem þessi þjóð verður að ganga í gegnum áður en batinn hefst á ný. Vonum það.

28 ágúst, 2010

Háloftasvíinn

Nú, þegar ágústmánuði er að ljúka, tel ég við hæfi að fara að ljúka hugarmyndasýningu minni frá Evrópuferð okkar fD, sem lauk um síðustu mánaðamót. Allt fór í þessari ferð eins og lagt var upp með við áætlanagerð. Það vil ég nú þakka ýmsum, ekki síst sjálfum mér, sem las fyrirugaða ferð sérlega vel og skipulagði í framhaldi af því, auk þess sem ég ögraði sjálfum mér talsvert (og fD líka) með því að takast á við nýjar áskoranir. Aðrir þeir sem gerðu sitt til að allt færi vel og að við nytum alls sem fyrir augu og eyru bar, fá hér enn þakkir fyrir höfðingsskap og elskusemi.
-----------------------------
Það er hreint ekki svo að ég ætli mér að enda þessa mánaðarlöngu syrpu á neitt jákvæðum nótum, þvert á móti tileinka ég hana íslenskum manni um þrítugt sem hér eftir verður kallaður "Svíinn" og sem við vorum svo óheppin að vera samferða í flugvél sem flutti okkur til baka eftir Evrópuævintýrið.
Fljótlega eftir að við vorum sest í flugvélinni kom Svíinn inn ásamt, líklega 7 ára dóttur sinni, að því er ætla mátti. Þau settust í sæti sín, tveim sætaröðum fyrir framan okkur og við urðum fljótt vör við að hann talaði afskaplega mikið við dótturina, sagði henni allt sem nöfnum tjáir að nefna í sambandi við flugvélina, áhöfnina, reglur sem flugfarþegar eiga að fylgja o.s.frv. Það var ekki laust við að ég dáðist að því hve góður faðir var hér á ferð, hugulsamur og fræðandi. En hann talaði stanslaust, og var ekki beint að hvísla, en það var svo sem ekkert til ama.

Hvað um það, flugvélin tók á loft og þá þurftu allir farþegar að vera bundnir eins og reglur gera ráð fyrir, og sem Svíinn gerði dótturinni ítarlega grein fyrir. Í sætaröðinni fyrir framan okkur var kona með tvö börn á svipuðum aldri og dóttirin. Í sætaröðinni fyrir framan Svíann og dótturina var síðan enn eitt ca 7 ára barnið. Sem sagt þarna voru á svæðinu  fjögur ca 7 ára börn.
Öryggisbeltaljósið var ekki fyrr slokknað en Svíinn stóð á fætur og kom sér fyrir á ganginum. Hann reyndist vera með bjórdós í hönd og þá skýrðist nokkuð það sem á undan var gengið. Það reyndust verða þó nokkrar bjórdósir sem hann tæmdi áður en þessari ferð lauk. 
Þar sem hann stóð á ganginum og skannaði umhhverfið í átt til okkar, kom hann auga á börnin í sætaröðinni fyrir framan okkur. Það skipti engum togum, að hann fór að ræða við börnin um allt milli himins og jarðar, meðal annars um ástæður þess að hann var þarna staddur, en hann hafði farið til Svíþjóðar fyrir sex mánuðum til að vinna að einverju mikilvægu verkefni og var nú á leið heim í heimsókn. Hann tók til við að kenna börnunum fjórum sænsku, en þau stóðu smám saman einnig upp og hjálpuðu honum að teppa ganginn. Þau fóru fljótlega að taka meiri og meiri þátt í samkomunni. Ef þetta hefði staðið yfir í 20 mínútur til hálftíma, hefði ég ekki farið að eyða andans orku minni í að reyna að orða það sem þarna fór fram, en það var ekki fyrr en um klukkutími var eftir af fluginu, sem flugþjónum tókst loks að fá Svíann til að skilja að það voru ekki allir jafnhrifnir og börnin fjögur, af frægðarsögum hans. Þetta þýddi að hann hélt miðhluta flugvélarinnir í heljargreipum í tvo klukkutíma með ótrúlegu bulli sem valt út úr talfærum hans. Þeir sem gátu fluttu sig í laus sæti aftast, en þangað komust nú bara tiltölulega fáir.  Það keyrði um þverbak, þegar eitt barnanna í aðdáendahópnum fann sænskan peyja á sama aldri aftar í vélinni. Þá skipti auðvitað engum togum, að Svíinn stormaði þangað með skarann á eftir sér. Við önduðum léttar - nú væri komið að öðrum að þurfa að þola þetta. Það leið þó ekki á löngu áður en vinurinn kom til baka með allan skarann og þann sænska líka. Svíinn sveiflaði um sig með sænskunni sinni, sem var aldeilis ekkert mjög lík sænsku - blanda af íslensku, dönsku og ensku, með íblönduðum sænskri framburði inn á milli. Þarna margfaldaðist samtalið með því að Svíinn varð túlkur milli barnanna auk þess sem hann kom sjálfum sér skilmerkilega á framfæri.

Það varð fljótt ljóst, að flugþjónarnir höfðu nokkurn ama af Svíanum og hirð hans, enda tepptu þau ganginn og farþegar voru farnir að kvarta yfir kjaftæðinu. Þeir voru margbúnir að biðja manninn að setjast, en hann taldi samneytið við börnin vera það heilagt að ekki væri ástæða til að sinna slíku. Það var ekki fyrr en einn þeirra tók á sig rögg og sagði hátt og skýrt, svo foreldrar barnanna heyrðu, að hann yrði að hætta því það væri þarna fólk sem væri að reyna að hvílast, að börnin voru kölluð í sæti sín og maðurinn stóð einn eftir, ekki kominn á það stig enn að halda bara áfram og tala við sjálfan sig. Hann kom sér þar með í sæti sitt og sat þar síðasta klukkutíma ferðarinnar, þegjandi. Flugferðin eftir það var hin ánægjulegasta.
-------------------------------
Nú þegar ég er búinn að koma þessu frá, get ég með góðri samvisku hent þessari leiðinda reynslu aftur fyrir mig og haldið áfram með lífið. 

Hér með lýkur þessari, að hluta til, geðvonskulegu færslu, og þar með umfjöllun um ævintýri sumarsins.


25 ágúst, 2010

Fodboldgolf

Á ferð okkar um Middelfart og nágrenni bar það við, að ekið var framhjá því, sem heimamenn kölluðu 'FODBOLDGOLF' - sem væntanlega myndi verða þýtt sem KNATTSPYRNUGOLF (ég veit ekki hvort búið er að þýða GOLF á gott, íslenskt mál - kannski holuleikur). Þessa tegund íþrótta hef ég ekki orðið var við hér á landi, en þarna er, eins og allir geta séð, um að ræða sambland af knattspyrnu og golfi. Með öðrum orðum, þá á leikurinn sér stað á velli sem er nokkuð svipaður golfvelli: það er teigur, þaðan sem knettinum er spyrnt, síðan tekur við braut, sem oft felur í sér hindranir af einhverju tagi og loks er flötin, þar sem er að finna holu sem er sem næst 60 cm í þvermál og upp úr henni stendur fáni með númeri holunnar. Leikurinn felst síðan í að nota sem fæstar spyrnur frá teig í holu.

Heimamenn, Kvistholtstengdir, ákváðu í samráði við okkur fD, að skella sér einn hring á þessum sérstaka velli. Það var mín ákvörðun að sjá um ljósmyndun af helstu afrekum, en fD fékk það öfundsverða hlutverk að hafa ofan af fyrir ungum sveini.

Ég velti fyrir mér hvort fyrirkomulagið sem notað er við að selja inn, myndi ganga upp á föðurlandinu, en það var bara þannig að menn fylltu ú blað með fjölda þátttakenda og settu það síðan, ásamt tilgreindri upphæð, í umslag, sem síðan var sett ofan í rammgerðan kassa. Ég dáðist talsvert að þessu trausti sem Danir sýndu hver öðrum með þessu, og það var ekki fyrr en við vorum að yfirgefa völlinn að leik loknum, að ég áttaði mig á eftirlitsmyndavélinni sem fylgdist náið með öllu sem fram fór.

Hvor leikmaður fékk sér tvo knetti, og vagn, þar sem þeir voru geymdir milli spyrna. Síðan hófst leikurinn.
Mér varð það fljótt ljóst, að ef ég hefði verið þátttakandi í leiknum, hefði ég borið höfuð og herðar yfir leikmennina sem þarna léku. Mér er líklega dálítið svipað farið og gamla unglingnum; mér finnst ég enn ráða fyllilega við þær aðstæður sem ég réði eitt sinn auðveldlega við.

Leikurinn hafði sinn gang. Leikmennirnir náðu misgóðum árangri í leik sínum, en þó mátti sjá þolanleg tilþrif.  Mér fannst þó að betur hefði mátt gera.

Ég mundaði EOSinn minn nýja og smellti af í gríð og erg, enda vissi ég og veit, að myndir segja meira en þúsund orð.

Það hvarflaði að mér að það gæti verið gaman að setja svona völl upp í Laugarási, enda um að ræða íþrótt fyrir fólk á öllum aldri.


Hér var 'holan' mark með múrvegg fyrir framan
'Íþróttastilling' EOS - frysti knöttinn
2 sekúndum síðar lá knötturinn í miðri tjörn
Stefnan gæti verið betri
Neðst til hægri er árangur annars leikmannsins

Þarf vart að taka það fram, að sé smellt á myndir þá stækka þær talsvert.

22 ágúst, 2010

Leitin að Sandhóla-Pétri

Einhvernveginn svona
eiga sandhólar að líta út
Það er tvennt sem varð til þess að móta hugmyndir mínar um vesturströnd Jótlands: svarthvít mynd, sem mig minnir að hafi verið að finna í Kennslubók í dönsku, eftir Ágúst Sigurðsson (pabba Helgu), af sandhólunum á fremur hrjóstrugri og vindbarðri ströndinni og hinsvegar bók sem ég las á unglingsárum: Sandhóla-Pétur, eftir Anders Christian Westergaard.
Mér varð það á, í heimsókn okkar í fjónska bænum við Litlabelti, að minnast á Sandhóla-Pétur. Eftir það kom ekkert annað til greina en að skjótast yfir á vesturströndina í leit að sandhólum. Það var einmitt á leiðinni þangað, sem komið var við á Engilshólmi. Þaðan leiddi GPS græja okkur í átt til hraðbrautarinnar sem leiðir vegfarendur til Esbjerg, en þar töldum við líklegt að rekast á, þó ekki væri nema einn sandhól.

Þetta var það næsta sem við
komumst þvíað greina sandhóla
Þegar nær dró vesturstrandarborginni þurfti að finna einhvern stað til að láta tækið vísa okkur á og varð FANØ fyrir valinu. Við hefðum nú getað sagt okkur það sjálf, að hér var um að ræða eyju, og reyndar gerðum við það, en töldum að sá möguleiki væri fyrir hendi að þangað lægi brú, eða eiði af einhverju tagi. Það kom svo sem ekkert á óvart, að þessi eyja er ótengt landi og þangað gengur ferja. Um ferjuferð gat ekki orðið að ræða og því varð úr að finna stað þar sem hægt væri að fá sér í svanginn. Til þessa var auðvitað notað galdratækið GPS. Þarna sannfærðist ég endanlega um það að framleiðendur forrita fyrir GPS tæki geri kostunarsamninga við tiltekna ameríska skyndibitakeðju; engir aðrir veitingastaðir birtust. Því var ekki um annað að ræða en snæða enn og aftur á slíkum stað. 
Í framhaldi af því hélt leitin að sandhólunum áfram, a sjálfsögðu með aðstoð GPS. 
Sandhóla-Pétur
nútímans?
"Þeir eru örugglega þarna
fyrir norðan"
Óumræðilegur áhugi

















Leitað var að götum með nafnið: Strandvejen. Þegar tækið vísaði okkur beint í austurátt, inn í land, varð leitað áfram, aftur og aftur að ýmsum útgáfum strandlægra gatna. Fyrir tilviljun fann ég götu sem heitir Sædding Strandvej, sem tækið kvað vera í vesturátt, í átt til hafs. Þarna fundum við sannkallaða sandhólagötu, þó svo hólarnir væru mikið til horfnir undir mannvirki. Við ákváðum að láta þessa sandhóla duga - sandurinn var allavega sandhólalegur.
Við höfðum reyndar komist að því, við fyrirspurn í ferjuhöfninni til Fáneyjar, að til að kynnast sandhólunum af einhverri alvöru, þyrftum við að aka til Blávatns, en tíminn leyfði ekki frekar leit.

Ég hef verið að kynna mér lítillega upplýsingar um Sandhóla-Pétur (Klit-Per)  frá því heim kom og kemur á óvart hve fátt er um þessa ágætu bók að finna. Hún lýtur að hafa verið alveg ágæt, úr því hún er mér enn í minni. Ég hef komist að því að  að það var gerð kvikmynd eftir sögunni sem heitir Vesterhavsdrenge. Hún var síðan bútuð niður í 10 mín þætti sem voru sýndir í sjónvarpi. Þá gerði Walt Disney mynd sem byggir á því sama. 
Loks fann ég upplýsingar um að bókin er til í Sunnlenska bókakaffinu:




Höfundur A. Chr. Westergaard.Útgáfuár 1964






Notuð bók
Hilla R4 
Verð kr. 500,-






Kannski er þetta Sandhóla-Pétur í dag.









20 ágúst, 2010

Engilshólmshöll

Eftir Þýskalandsdvölina tóku Kvistholtstengdir Danir við okkur í Flensburg og báru síðan hitann og þungann af dvöl okkar í Danaveldi í vikutíma, eða svo. Margt tóku menn sér fyrir hendur, og ekki verða því öllu gerð skil hér, heldur birtar nokkrar minnismyndir.
Ef grannt er skoðað má sjá, að þumalfingur vinstri handar
bendir upp á við í stórum dráttum.
Í baksýn er Engilshólmshöll

Engilshólmshöll (Engelsholm Slot) stendur því sem næst á miðju Jótlandi og hefur tengst Kvisthyltingum um nokkurt skeið sökum þess, að þar er starfræktur skóli fyrir fólk sem leggur fyrir sig að koma frá sér, með einhverjum hætti, hugarstarfi sínu, eða hugarórum, í einhverju formi, hvort sem um er að ræða léreft, pappír, gler, járn, stein, eða ennað efnislegt eða efnislaust.
Þarna sést til þeirra bygginga (sem sjálfsagt hafa gegnt
hlutverkigripahúsa áður fyrr) sem hýsa listsmiðjur.
Í tilefni af stórafmæli fD varð það úr, að hennar næsta fólk sameinaðist um að stuðla að því að þangað færi hún til að efla sig í myndrænni tjáningu. Í kjölfar þess kom það sem allir þekkja: hrunadans íslensks þjóðfélags, sem enn er dansaður af fullum krafti. Því varð ekkert úr að fyrirhugaður afmælisglaðningur næði að fullkomnast og leiða til aukins listræns þroska og færni gjafarþegans.
Það þótti ekki vitlaus hugmynd, þrátt fyrir máttlítil mótmæli fD, að leggja lítilsháttar lykkju á leið um hinar jósku heiðar, að freista þess að renna í hlað að Engilshólmi og kanna þar með hvort þar væri um það að ræða sem hugmyndir höfðu lotið að.
Hér var málað af miklum móð.
Það varð ljóst þegar nálgaðist höllina, að hún er sérlega falleg í dáindisgæsilegu umhverfi. Ekki varð annað fundið en fyrrverandi afmælisbarni litist sérlega vel á allt sem þarna bar fyrir augu, enda fengum við að leiðsögn um höllina sjálfa og máttum síðan fara hreint um allt til að kynnast enn betur því starfi sem þarna er unnið. Í málningarhúsinu varð á vegi okkar Íslendingur, sem þarna var öðru sinni á námskeiði, sem dásamaði hóflítið staðinn og námið. Sérstakleg held ég að það hafi verið frásögnin af rauðvínslistakvöldunum, sem varð til þess að fD heillaðist endanlega.
Nú er framundan tímu umþenkingar og skipulagningar, sem væntanlega lýkur með því að Kvisthyltingurinn fer til einhverra vikna dvalar á þessum dýrðarstað.
Ég get nú sjálfur alveg hugsað mér að eyða þarna einhverjum tíma við listsköpun, svona þegar sá tími rennur upp, sem nálgast óðum, að formlegu ævistarfi ljúki. Hver veit.
Feðgarnir komust í snertingu við náttúruna á hlaðinu við höllina.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...